Úrskurður
Ár 2010, miðvikudaginn 22. desember, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-13/2010:
Kæruefni
Með kæru dags. 17. mars 2010 kærði kærandi úrskurð stjórnar
Lánasjóðs íslenskra námsmanna frá 12. mars 2010 þar sem hafnað var beiðni hennar
um niðurfellingu á ábyrgð á námsláni. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með
bréfi, dagsettu 24. mars 2010 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana.
Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN komu fram í
bréfi, dagsettu 29. mars sl. og var afrit þess sent kæranda með bréfi dagsettu
8. apríl 2010. Þar var kæranda jafnframt gefinn 14 daga frestur til að koma að
frekari sjónarmiðum sínum. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.
Þann 10. maí 2010 var af hálfu málskotsnefndar LÍN kveðinn upp úrskurður
í málinu þar sem úrskurður stjórnar LÍN frá 12. mars 2010 var staðfestur.
Þann 15. mars 2010 skipaði mennta- og menningarmálaráðherra nýja
nefndarmenn í málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna og fyrri nefnd var
leyst frá störfum. Af ástæðum sem núverandi málskotsnefnd er ekki kunnugt um var
eldri nefndinni ekki tilkynnt um hina nýju skipan. Þann 10. maí 2010 kvað
fráfarandi nefnd upp fyrrgreindan úrskurð í málinu eftir að umboð hennar rann
út. Til að eyða óvissu um gildi úrskurðarins verður ekki hjá því komist að
málskotsnefnd takið málið til úrskurðar að nýju.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi er ábyrgðarmaður á láni hjá LÍN fyrir fyrrverandi
sambýliskonu sonar kæranda. Kærandi bendir á að lántakandi hafi vegna áfengis-
og vímuefnasýki engu námi lokið og reynst ófær að stunda vinnu. Þá hafi hún ekki
haft getu til að sækja reglulega um undanþágu frá greiðslu afborgana.
Aðstæður kæranda séu þær að hún hafi greinst með parkinsonveiki fyrir
einum og hálfum áratug og sé í dag 100% öryrki vegna þess sjúkdóms. Hún hafi
orðið að hætta allri vinnu fyrir 5 árum. Kærandi bendir auk þess á að samskipti
hennar og lántakanda séu engin í dag þannig að hún geti ekki fylgst með
samskiptum lántakanda og LÍN. Með vísan til þessara aðstæðna kæranda megi vera
ljóst að kærandi hefur enga getu til að greiða af umræddu námsláni. Kærandi
bendir einnig á að stjórn LÍN hafi heimild til að fella niður ábyrgð þegar
aðstæður breytist eins og um sé að ræða í hennar tilfelli.
Stjórn LÍN
vísar til greinar 5.3.2. í úthlutunarreglum LÍN en samkvæmt greininni er ekki
heimilt að fella niður ábyrgð ábyrgðarmanns af námsláni nema nýr ábyrgðamaður
komi í staðinn sem uppfyllir skilyrði sjóðsins um ábyrgðarmenn.
Niðurstaða
Í niðurlagi gr. 5.3.2 í úthlutunarreglum LÍN segir: "Eldri
ábyrgð fellur ekki úr gildi nema að henni sé sagt upp og ný sett í staðinn með
samþykki sjóðsins". Málskotsnefnd þykir rétt að geta þess að breyting hefur
verið gerð á lögum nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna með
breytingalögum nr. 79/2009, þar sem felld er niður krafa um ábyrgðir s.s.
uppáskrift ábyrgðarmanna ef lánataki er lánshæfur samkvæmt reglum sjóðsins.
Þessi lagabreyting breytir hins vegar ekki stöðu kæranda í máli þessu þar sem
breytingalögin eru ekki afturvirk. Þá eru enn í gildi ákvæði 7. mgr. 6. gr. laga
nr. 21/1992 þar sem segir: "Ábyrgð ábyrgðarmanns, eins eða fleiri, getur
fallið niður enda setji námsmaður aðra tryggingu sem stjórn sjóðsins metur
fullnægjandi".
Enga heimild er því að finna í lögum og reglum LÍN
til þess að fella niður ábyrgð kæranda án þess að annar ábyrgðamaður eða annars
konar ábyrgð, sem stjórn sjóðsins samþykkir, komi í staðinn. Með vísan til
framanritaðs er úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda staðfestur.
Úrskurðarorð
Hinn kærði úrskurður frá 12. mars 2010 í máli kæranda er staðfestur.