Úrskurður
Ár 2010, miðvikudaginn 22. desember, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-25/2010:
Kæruefni
Með kæru, dagsettri 1. júlí 2010, kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 16. apríl 2010 þar sem beiðni kæranda um undanþágu frá kröfu um námsframvindu vegna veikinda var hafnað. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 21. september 2010 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 5. október 2010 og var afrit þess sent kæranda og honum jafnframt gefinn frestur til að koma að athugasemdum sínum. Engar frekari athugasemdir hafa borist frá kæranda.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi stundaði nám við X veturinn 2008 til 2009. Í mars 2009
varð hún fyrir líkamsárás af hálfu samstúdents. Á þessum tíma var hún nýfarin
frá sambýlismanni sínum og var ein með tvö börn þeirra og gekk með það þriðja.
Kærandi stundaði að eigin sögn nám sitt í X fram í miðjan apríl 2009 en þá gerði
hún hlé á náminu vegna veikinda sem rekja mátti m.a. til líkamsárásarinnnar og
flutti til XX. Hún hóf svo nám á ný við XX haustið 2009. Í málinu liggur fyrir
læknisvottorð þar sem fram kemur að hún hafi verið frá námi vegna veikinda frá
því í byrjun mars 2009. Kærandi óskaði eftir undanþágu frá námsframvindu vegna
veikinda. Mál kæranda var tekið fyrir hjá vafamálanefnd LÍN þann 7. desember
2009 þar sem erindinu var hafnað með vísan til greinar 2.4.3 í úthlutunarreglum
LÍN. Fallist var á að veita kæranda aukalán sem samsvaraði 7 ECTS-einingum sbr.
heimild í grein 4.9 í úthlutunarreglum LÍN. Kærandi óskaði í framhaldi eftir
úrskurði stjórnar LÍN og hefur nú skotið úrskurði stjórnarinnar til
málskotsnefndar LÍN. Stjórn LÍN fer fram á að úrskurður hennar frá 16. apríl
2010 verði staðfestur. Fram kemur í rökstuðningi stjórnar LÍN að niðurstaðan
byggir á grein 2.4.3 í úthlutunarreglum LÍN.
Kærandi hafi ekki skilað
neinum námsárangri á vorönn 2009 og því sé ljóst að 5 ECTS-eininga viðbót dugði
ekki til að ná lágmarksárangri sem sé 20 ECTS-einingar. Þá hafi heldur ekki
verið hægt að fallast á að bæta við 20 ECTS-einingum þannig að lánsréttur
kæranda yrði 20 ECTS-eininga á grundvelli innsends læknisvottorðs þar sem í
læknisvottorðinu komi ekki fram að hún hafi verið óvinnufær með öllu á
tímabilinu. Stjórn LÍN bendir að við túlkun á framangreindri grein í
úthlutunarreglum LÍN sé litið svo á að ef námsmaður veikist á fyrri hluta annar
og hverfi frá námi þá sé það sambærilegt við það að námsmaður hafi ekki stundað
nám á önninni og því veiti það ekki rétt til veikindasvigrúms. Almennt séð gefi
veikindi á fyrri hluta annar námsmönnum svigrúm til að vinna upp tafir í námi og
sé því heimilt í þeim tilfellum að bæta allt að 5 ECTS-einingum við námsárangur
nemanda til að gera þeim kleift að ná þeim lágmarksárangri sem þurfi til að
teljast lánshæfur. Veikist námsmaður á seinni hluta annar, geti þeim reynst
erfiðara að ljúka önninni og í þeim tilfellum sé heimilt að veita svigrúm í allt
að 20 ECTS-einingar.
Niðurstaða
Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna skal aldrei veita námslán fyrr en námsmaður hefur skilað vottorði um tilskilda skólasókn og námsárangur. Þá skal, samkvæmt 4. mgr. 6. gr. sömu laga, námslán ekki veitt nema námsframvinda sé með eðlilegum hætti. Um heimild frá undanþágu á námsframvindu er mælt í úthlutunarreglum LÍN og er þar meðal annars fjallað um undanþáguheimild vegna veikinda. Í máli þessu gilda úthlutunarreglur LÍN fyrir skólaárið 2008-2009 og í grein 2.4.3 sem fjallar um veikindi segir m.a. í 2. mgr.: "Heimilt er við mat á námsframvindu að taka tillit til þess ef námsmaður, veikist verulega á námstíma. Er þá heimilt að bæta allt að 5 ECTS-einingum við loknar einingar þannig að lánsréttur verði 20 ECTS-einingar. Veikist námsmaður á seinni hluta annar eða í prófum er heimilt að bæta allt að 20 ECTS-einingum við loknar einingar þannig að lánsréttur verði 20 ECTS-einingar. Skilyrði fyrir veitingu undanþágu vegna veikinda námsmanns er að námsmaður framvísi læknisvottorði þar sem greinilega komi fram á hvaða tíma vitjað var lækni og á hvaða tímabili námsmaður var óvinnufær vegna veikinda að mati læknis." Í málinu liggur fyrir að kærandi skilaði ekki námsárangri á vorönn 2009 og því ljóst að 5 ECTS-eininga viðbótin kom ekki til skoðunar í tilviki kæranda. Þá segir í fyrirliggjandi læknisvottorði að kærandi hafi verið veik með öllu frá því í byrjun mars 2009 sem felur í sér að skilyrði þess að veikindi eigi sér upphaf á seinni hluta annar eða í prófum er ekki fyrir hendi. Kærandi segist hafa stundað námið fram til þess að hún flutti til Óðinsvéa um miðjan apríl 2009 en hún hefur engin gögn lagt fram um það. Verður því að fallast á það með stjórn LÍN að skilyrði þess að bæta við 20 ECTS-einingum við loknar einingar þannig að lánsréttur kæranda yrði 20 ECTS-einingar sé ekki fyrir hendi. Samkvæmt ofangreindu falla aðstæður kæranda ekki að skilyrðum greinar 2.4.3 í úthlutunarreglum LÍN þannig að heimilt sé að veita undanþágu frá námsframvindu vegna veikinda. Þá er ekki að finna heimildir fyrir því í lögum, reglugerð eða úthlutunarreglum LÍN að hægt sé að komast hjá nefndri grein í úthlutunarreglunum. Með vísan til framanritaðs er niðurstaða stjórnar LÍN frá 16. apríl 2010 í máli kæranda staðfest.
Úrskurðarorð
Hinn kærði úrskurður frá 16. apríl 2010 í máli kæranda er staðfestur.