Úrskurður
Ár 2010, miðvikudaginn 22. desember, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-27/2009.
Kæruefni
Með kæru sem barst málskotsnefnd 7. desember 2009. kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN frá 13. nóvember 2009 þar sem hafnað var beiðni kæranda um niðurfellingu á fastri afborgun á árinu 2009. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagettu 7. desember sl. og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN komu fram í bréfi dagsettu 21. desember 2009 og var afrit þess sent kæranda með bréfi dagsettu 18. janúar 2010 en þar var kæranda jafnframt gefinn 14 daga frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi sem barst málskotsnefnd 1. febrúar 2010. Með bréfi málskotsnefndar til kæranda dagsettu 23. febrúar 2010 var óskað eftir upplýsingum um hvort kærandi hafi verið virkur í atvinnuleit á tímabilinu janúar til júní 2009. Svar kæranda barst í bréfi dags. 2. mars sl. Þann 16. mars 2010 kvað málskotsnefnd LÍN upp úrskurð í málinu þar sem úrskurður stjórnar LÍN frá 15. október 2009 var staðfestur. Þann 15. mars 2010 skipaði mennta- og menningarmálaráðherra nýja nefndarmenn í málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna og hinir fyrri leystir frá störfum. Af ástæðum sem núverandi málskotsnefnd er ekki kunnugt um var eldri nefndinni ekki tilkynnt um hina nýju skipan þannig að hún kvað upp úrskurð í máli þessu daginn eftir að umboð hennar rann út. Í ljósi þessarar stöðu og til að eyða óvissu ákvað málskotsnefndin að taka málið til úrskurðar að nýju.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi stundaði nám í iðnhönnun og frumkvöðlafræði og lauk MA
gráðu í báðum þessum námsgreinum frá Lundi í Svíþjóð á árinu 2007. Kærandi
bendir á að hann hafi ætlað að vinna við þessi fög hér á landi eftir að hann
lauk námi en þar sem bæði fögin eru ný á íslenskum vinnumarkaði hafi honum
reynst erfitt að fá vinnu við sitt hæfi. Hann bendir á að frá því hann lauk námi
hafi engin störf verið auglýst hérlendis á hans sviði. Þar af leiðandi hafi hann
verið með mjög lág laum frá því hann lauk námi og að laun hans séu langt undir
því lágmarki sem LÍN setji til grunnframfærslu. Einnig vísar kærandi til þess að
hann eigi tvö börn 5 og 8 ára frá fyrra hjónabandi sem hann beri ábyrgð á
framfærslu á til helminga við móður.
Þegar kærandi kom heim frá námi
hugðist hann starfa sjálfstætt sem hönnuður og frumkvöðull og sótti um vsk
númer. Kærandi heldur því fram að þá hafi gilt reglur sem gerðu honum ókleyft að
skrá sig atvinnulausan og vera á sama tíma með skráð vsk númer. Kærandi telur
þetta óviðunandi þ.e. að vera með tekjur langt undir viðmiðunarmörkum LÍN og að
geta ekki skráð sig atvinnulausan. Samkvæmt uppl Vinnumálastofnunar þá voru
þessar reglur í gildi allt til ársloka 2008. Þær voru hins vegar felldar úr
gildi árið 2009 en teknar aftur upp í ársbyrjun 2010.
Stjórn LÍN vísar
til gr. 7.4.1. í úthlutunarreglum LÍN þar sem fram kemur að forsendur þess að
unnt sé að veita undanþágu frá greiðslu afborgunar af námslánum sé að möguleikar
lántakanda til öflunar tekna séu skertir á einhvern hátt td. vegna
atvinnuleysis, veikinda, lánshæfs náms eða sambærilegra ástæðna. Skal lánþegi
leggja fram viðeigandi vottorð sem staðfestir að eitthvað af áðurgreindum
ástæðum hafi varað a.m.k. 4 mánuði fyrir gjalddaga. Enn fremur mega
heildartekjur árið á undan ekki fara yfir 4 milljónir króna. Ekki dugar að
tekjuviðmiðinu sé mætt. Þá bendir stjórn LÍN á að vegna atvinnuleysis hafi
stjórnin alltaf gert þá kröfu að lánþegi leggi fram staðfestingu frá
Vinnumálastofnun um að viðkomandi sé atvinnulaus og sé virkur í atvinnuleit.
Niðurstaða
Í gr. 7.4.1. í úthlutunarreglum LÍN segir: "Hafi lánþegi haft svo lágar tekjur á fyrra ári að honum reiknast ekki viðbótargreiðsla og fjárhagur hans hefur ekki batnað á endurgreiðsluárinu er sjóðsstjórn heimilt að veita undanþágu frá fastri ársgreiðslu ef lánshæft nám, atvinnuleysi, óvinnufærni vegna veikinda, þungunar, umönnunar barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega. Að jafnaði er miðað við að ástæður þær sem valda örðugleikunum hafi varað í a.m.k. fjóra mánuði fyrir gjaldaga afborgunar". Samkvæmt gögnum málsins liggur fyrir að tekjur kæranda voru undir viðmiðunarmörkum sjóðsins á árinu 2009. Kærandi var ekki skráður atvinnulaus hjá Vinnumálastofnun þar sem hann var með virðisaukaskattsnúmer og gat ekki á sama tíma verið skráður atvinnulaus. Málskotsnefnd hefur í fyrri úrskurðum sínum bent á að ekki sé að finna í grein 7.4.1. í úthlutunarreglum LÍN heimild fyrir því að gera það að skilyrði fyrir undanþágu skv. greininni að viðkomandi lánþegi leggi fram vottorð Vinnumálastofnunar til sönnunar um atvinnuleysi, þó ljóst sé að viðkomandi þurfi með einhverju móti að sanna að hann hafi í raun verið atvinnulaus s.s. með skráningu hjá viðurkenndum atvinnumiðlunum. Í svari kæranda við fyrirspurn málskotsnefndar um hversu virkur hann var í atvinnuleit kemur hins vegar fram að hann hafi ekki skráð sig í atvinnuleit hjá vinnumiðlunum svo sem eðlilegt hlýtur að teljast í slíkum tilvikum. Þá hefur kærandi ekki lagt fram neinar upplýsingar um að hann hafi sótt um störf og verið hafnað á tímabilinu. Með vísan til framanritaðs er fallist á sjónarmið stjórnar LÍN um að hafna beiðni kæranda um niðurfellingu á fastri afborgun af láni hjá LÍN og er því úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda staðfestur.
Úrskurðarorð
Úrskurður stjórnar LÍN frá 13. nóvember 2009 í máli kæranda er staðfestur.