Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-29/2010 - Undanþágur frá afborgun - beiðni um undanþágu frá fastri afborgun vegna veikinda maka

Úrskurður

Ár 2011, miðvikudaginn 5. janúar, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-29/2010.

Kæruefni

Með kæru, dagsettri 23. ágúst 2010, kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 16. ágúst 2010 þar sem beiðni kæranda um undanþágu frá fastri afborgun 2009 á grundvelli veikinda maka var hafnað. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 3. september 2010 og var jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 17. september 2010 og var afrit þess sent kæranda og honum gefinn frestur til að koma að athugasemdum sínum. Athugasemdir kæranda bárust þann 1. október 2010. Með bréfi, dagsettu 25. október s.á., óskaði málskotsnefndin eftir frekari gögnum í málinu frá LÍN. Bárust þau gögn frá LÍN þann 28. október 2010.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi tók námslán hjá LÍN þegar hann var við nám á árunum 1981 til 1985 og hefur hann greitt af þeim í þó nokkuð mörg ár. Eiginkona kæranda veiktist fyrir nokkrum árum og hafa veikindi hennar haft veruleg áhrif á aflahæfi kæranda sem hefur þurft að draga úr vinnu vegna umönnunnar hennar. Í málinu liggur fyrir læknisvottorð, dagsett 2. júní 2010, þar sem fram kemur að eiginkona kæranda sé varanlega veik eftir heilaæxli og að hún þurfi á reglulegu eftirliti að halda og að það sé að miklu leyti í höndum kæranda. Kærandi óskaði eftir undanþágu frá greiðslu á fastri afborgun á árinu 2010 með vísan til varanlegra og alvarlegra veikinda eiginkonu sinnar. Kærandi bendir á að um veigamikið fjárhagslegt mál sé að ræða fyrir hann. Málið varði skilning á reglum LÍN en kærandi telji að hægt sé að sækja um undanþágu vegna veikinda maka með hliðstæðum hætti og hægt sé að sækja um undanþágu með vísan til aðstæðna og veikinda barna og þungunar. Kærandi bendir á að hann hafi skilað inn læknisvottorði vegna veikinda eiginkonu sinnar og upplýsingum um tekjur sínar. Þá hafi hann skilað inn upplýsingum frá Örorkunefnd en læknisfræðileg örorka eiginkonu hans sé metin 100% vegna heilaskaða. Í framlögðum vottorðum komi fram að hún þurfi mikla aðstoð og geti ekki sinnt vinnu, heimili eða börnum. Í dag sé því staðan sú að kærandi geti ekki unnið nema hlutastarf og af þeim tekjum þurfi hann að framfleyta heimilinu. Kærandi vísar einnig til félagslegs eðlis námslána LÍN og hlutverks sjóðsins þ.e. að jafna aðstöðu til náms. Kærandi telur það bæði lagalega og siðferðislega rangt ef LÍN krefst endurgreiðslu byggt á tekjum hjóna en veiti ekki undanþágu þegar það liggi fyrir að maki sé með 100% varanlega örorku og að lánþegi geti ekki unnið nema hlutastarf vegna aðstæðna fjölskyldunnar. Hann bendir á að samkvæmt lánareglum LÍN sé veitt undanþága vegna veikinda annara fjölskyldumeðlima, lánþega sjálfs og barna, og því sé eðlilegt að liðurinn, sambærilegar aðstæður, nái einnig yfir maka. Stjórn LÍN fer fram á að úrskurður hennar frá 16. ágúst 2010 verði staðfestur. Fram kemur í rökstuðningi stjórnarinnar að niðurstaðan byggi á grein 7.4.1 í úthlutunarreglum LÍN. Samkvæmt greininni sé sjóðstjórn heimilt að veita undanþágu frá afborgun námsláns ef lánshæft nám, atvinnuleysi, óvinnufærni vegna veikinda, þungunar eða umönnunar barna eða aðrar sambærilegar ástæður valdi verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega. Stjórn LÍN byggir höfnun sína á því að ekki sé heimilt að veita undanþágu á grundvelli fyrrnefndrar greinar ef aðstæður eigi við um maka. Þá sé heimilt samkvæmt 8. gr. laga nr. 21/1992 að veita undanþágu frá ársgreiðslu ef nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega eða fjölskyldu hans en hvorki í lögunum eða í greinagerð með lögunum komi fram að heimilt sé að taka tillit til aðstæðna maka. Einnig bendir stjórn LÍN á að kærandi hafi verið yfir þeim viðmiðunartekjumörkum sem að jafnaði sé litið til við afgreiðslu undanþágubeiðna.

Niðurstaða

Samkvæmt 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN er stjórn sjóðsins heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu námslána að hluta eða öllu leyti ef skyndilegar og verulegar breytingar verða á högum skuldara. Ákvæðið er svohljóðandi:

"Stjórn sjóðsins er heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu skv. 1. mgr., að hluta eða öllu leyti, ef skyndilegar og verulegar breytingar verða á högum skuldara, t.d. ef hann veikist alvarlega eða verður fyrir slysi er skerðir til muna ráðstöfunarfé hans og möguleika til að afla tekna. Stjórn sjóðsins er enn fremur heimilt að veita undanþágu frá ársgreiðslu skv. 1. mgr. ef nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega eða fjölskyldu hans".

Ákvæði 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 var óbreytt frá lögum nr. 72/1982. Í greinargerð með lögunum frá 1982 segir um þetta ákvæði:

"Stjórn Lánasjóðs er veitt heimild til þess að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu. Mjög ríkar ástæður verða að vera fyrir hendi, svo sem alvarleg veikindi eða slys, til þess að veita megi undanþágu frá hlutfallsgreiðslunni. Hins vegar er heimild til undanþágu frá föstu greiðslunni mun rýmri, þótt ófrávíkjanlegt skilyrði sé að tilteknar ástæður valdi "verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega eða fjölskyldu hans". Undanþágu má veita að hluta eða öllu leyti, allt eftir atvikum hverju sinni. Sé undanþága veitt frestar það einungis hlutaðeigandi greiðslu en kemur ekki í veg fyrir að lán greiðist að fullu til baka. .........."

Sama regla og kemur fram í 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 kemur fram í grein 7.4.1 í úthlutunarreglum sjóðsins. Málskotsnefndin telur með vísan til ofangreinds að túlka beri grein 7.4.1 í úthlutunarreglum LÍN með þeim hætti að aðstæður geti átt við maka. Að mati málskotsnefndar gefa orðalag greinarinnar og lögskýringargögn með lagaákvæðinu tilefni til rúmrar túlkunar og þó að maki sé ekki tiltekinn berum orðum verður að telja að veikindi maka geti fallið undir greinina. Gögn málsins bera með sér að veikindi eiginkonu kæranda hafa haft miklar breytingar í för með sér á högum hans og skert möguleika hans til að afla tekna og þannig haft bein fjárhagsleg áhrif á hann og fjölskyldu hans. Málskotsnefndin telur rétt að málið verði tekið fyrir að nýju hjá stjórn LÍN og sjálfstætt mat lagt á það hvort aðstæður kæranda gefi tilefni til að veita honum undanþágu frá fastri greiðslu á grundvelli greinar 7.4.1 í úthlutunarreglum LÍN. Með vísan til framanritaðs er hin kærða niðurstaða í úrskurði stjórnar LÍN frá 16. ágúst 2010 í máli kæranda felld úr gildi.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 16. ágúst 2010 er felldur úr gildi.

Til baka