Kæruefni
Með kæru sem barst málskotsnefnd þann 19. janúar 2011 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 22. október 2010 þar sem beiðni kæranda um niðurfellingu á öllum innheimtu- og dráttarvaxtakostnaði vegna gjaldfallinna afborgana á láni lántaka sem kærandi er ábyrgðarmaður fyrir var hafnað. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 28. febrúar 2011 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 14. febrúar 2011 og var afrit þess sent kæranda og honum jafnframt veittur frestur til að koma að athugasemdum sínum. Athugasemdir hans bárust með bréfi dagsettu 9. apríl 2011.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi er ábyrgðarmaður að láni hjá LÍN en greiðslufall varð
af hálfu greiðanda á árinu 2006. LÍN sendi út ítrekanir þann 20. mars, 11. apríl
og 3. maí 2006 til greiðanda vegna greiðslufallsins. Seinni tvær ítrekanirnar
voru einnig stílaðar á kæranda sem ábyrgðarmanns en bárust honum ekki þar sem
upplýsingar um heimilisfang hans lágu ekki fyrir hjá LÍN. Í kjölfar
innheimtuviðvörunar sem dagsett var 12. mars 2008 tók lögmannsstofa að sér
löginnheimtu kröfunnar. LÍN fékk upplýsingar frá kæranda um heimilisfang hans í
Noregi í apríl 2008. Kærandi hafði samband við LÍN eftir að hafa móttekið
áminningu frá innheimtuaðila sem dagsett var 18. ágúst 2010. Náðu vanskilin þá
aftur til 1. mars 2006. Kærandi greiddi höfuðstól kröfunnar samkvæmt
áminningunni þann 21. ágúst 2010. Í framhaldi fór hann fram á niðurfellingu á
öllum innheimtu- og dráttarvaxtakostnaði vegna gjaldfallinna afborgana á láninu.
Beiðninni var hafnað af LÍN. Kærandi fór fram á það í kæru að LÍN legði fram í
málinu þær verklagsreglur sem fari eigi eftir þegar tilkynningu um vanskil er
komið á framfæri við ábyrgðarmann. Einnig fór kærandi fram á það að LÍN legði
fram upplýsingar og staðfest afrit af þeim gögnum sem sýndu með hvaða hætti
honum hafi á árunum 2006 fram til ágúst 2010 verið sendar tilkynningar um
vanskil skuldabréfsins. Kærandi krefst þess að viðurkennt verði að hann hafi
staðið við og uppfyllt skyldur sínar sem ábyrgðarmaður með greiðslu höfuðstóls
skuldarinnar kr. 285.777 þann 21.ágúst 2010. LÍN fer fram að úrskurður
stjórnarinnar frá 22. október 2010 verði staðfestur.
Sjónarmið
kæranda
Kærandi telur að skuldin sé að fullu greidd þar sem hann
hafi greitt höfuðstól kröfunnar innan viku frá því að honum varð fyrst kunnugt
um vanskil lánsins. Kærandi telur að áfallinn kostnaður og allir vextir séu á
ábyrgð LÍN sem ekki hafi sinnt skyldu sinni að tilkynna honum á sannanlegan hátt
um vanskil lánsins. LÍN hafi með þessari vanrækslu skert réttarstöðu og
réttaröryggi hans sem ábyrgðarmanns. Kærandi byggir á því að áfallinn kostnaður
sé eingöngu tilkominn vegna þeirrar handvammar LÍN að senda ekki til hans
tilkynningu um vanskil lánsins og það sé alfarið á ábyrgð LÍN. Hann mótmælir því
að honum hafi borist tilkynningar eða bréf varðandi málið hvorki frá LÍN eða
innheimtuaðila fyrr 21. ágúst 2010. Hann bendir á að LÍN hafi a.m.k frá árinu
2008 haft vitneskju um heimilisfang hans í Noregi. Því beri honum ekki skylda
til að greiða annað en höfuðstól kröfunnar sem hann hafi gert innan viku frá því
að honum hafi borist bréf um vanskilin. Kærandi telur ljóst að áminningarbréf
þau sem LÍN haldi fram að hafi verið send honum hafi ekki verið send með
fullnægjandi áritun um heimilisfang þar sem á haus standi nafn kæranda og svo
"Mosfellsbær, Noregur" og að tilkynning um vanskil hafi ekki verið send með
sannanlegum hætti. Þá bendir kærandi á að hann hafi frá árinu 1997 haft sama
heimilisfang og síma í Noregi. Það hafi einnig verið heimilisfang hans þegar
hann gekkst í ábyrgð að láni greiðanda. Hann bendir á að aðrar ríkisstofnanir á
Íslandi hafi ekki átt í neinum vandkvæðum með að senda honum bréf til Noregs
t.d. skattayfirvöld. Kærandi telur að það sé óeðlilegt að krefjast þess að hann
sem ábyrgðarmaður sé að afla sér upplýsinga um stöðu lána sem hann sé í ábyrgð
fyrir svo lengi sem þau séu í skilum að því að hann best viti. Það sé skylda
kröfuhafa að upplýsa kæranda sem ábyrgðarmann um vanskil lánsins.
Kærandi mótmælir þeirri fullyrðingu LÍN að bréf um vanskil hafi verið
send á heimilisfang hans áður en hann móttók bréfið þann 18. ágúst 2010. Einnig
mótmælir hann því að það skipti hér máli til hvaða innheimtuaðgerða var gripið
gagnvart skuldara. Þá séu það ekki málefnaleg rök af hálfu LÍN að blanda inn
fjölskyldutengslum á milli greiðanda og ábyrgðarmanns eins og það gerir. Kærandi
byggir á því að LÍN hafi verið kunnugt um rétt heimilisfang hans í Noregi eigi
síðar en 21. apríl 2008. Það sé því óumdeilanlegt að frá og með þeim tíma hafi
LÍN getað sent kæranda bréf um vanskilin með fullnægjandi hætti. Kærandi byggir
einnig á því að LÍN sé ríkisstofnun og um hana gilda stjórnsýslulög nr. 37/1993
og hafi LÍN við meðferð þessa máls brotið gegn fjölmörgum ákvæðum laganna.
Kærandi vísar í þessu sambandi sérstaklega til 7. gr. laganna um
leiðbeiningarskyldu stjórnvalds, 10. gr. um rannsóknarregluna og 15. gr. um
upplýsingarétt.
Sjónarmið LÍN
LÍN byggir á því að þau
bréf sem stíluð hafi verið á heimilisfangið "Noregi, 270 Mosfellsbær", hafi ekki
verið með slíka áritun utan á umslögunum heldur hafi fullt póstfang kæranda
verið sérskráð á þau. Þannig hafi t.d. háttað til með bréfið sem viðurkennt sé
af kæranda að hann hafi móttekið þann 21. ágúst 2010. LÍN bendir á að það hafi
ekki verið fyrr en í apríl 2008 sem kærandi hafi upplýst LÍN um heimilisfang
sitt. Um haustið hafi innheimtuaðili LÍN sent kæranda áminningu, dagsetta 6.
nóvember 2008, á heimilisfang hans í Noregi. Þá er vísað til þess að lög um
ábyrgðarmenn nr. 32/2009 hafi tekið gildi þann 4. apríl 2009 en þau gildi ekki
afturvirkt og nái því ekki til aðgerða sem áttu sér stað fyrir þann tíma. LÍN
bendir á að jafnframt því sem áminning hafi verið send ábyrgðarmanni hafi
innheimtuaðgerðum gagnvart greiðanda verið haldið áfram sem endað hafi með
uppboði á fasteign hans en krafa LÍN hafi ekki fengist greidd af
uppboðsandvirðinu. LÍN telur að þessi þróun hafi ekki átt að fara fram hjá
kæranda sem sé faðir greiðanda og hafi honum því mátt vera ljóst hver ábyrgð
hans væri sem ábyrgðarmanns. LÍN bendir á að á heimasíðu sjóðsins megi finna
upplýsingar um verklag varðandi innheimtu námslána. Hvað varði sannanir á því að
bréf hafi verið send og móttekin sé ekki annað því til sönnunar en frásögn
starfsmanns innheimtuaðila LÍN sem sendi umrædd bréf. LÍN hafi ekki borið að
senda slík bréf í ábyrgð. Ábyrgðarmenn hafi greiðan aðgang að upplýsingum um
stöðu þeirra lána sem þeir séu ábyrgðarmenn að og hafi kærandi því getað haft
samband við sjóðinn að eigin frumkvæði. LÍN byggir á því að ekki séu forsendur
til staðar til að fella niður innheimtukostnaðinn í heild sinni enda nái
vanskilin aftur til ársins 2006 og umtalsverður kostnaður sem fylgt hafi
innheimtunni. Kæranda hafi verið boðin niðurfelling á hluta af kostnaðinum en
því hafi verið synjað af hans hálfu.
Niðurstaða
Á árinu 2001 var undirritað samkomulag um notkun ábyrgða á
skuldum einstaklinga. Að samkomulaginu, sem byggði á samkomulagi frá 1999, stóðu
Samtök banka og verðbréfafyrirtækja f.h. aðildarfélaga sinna, Samband íslenskra
sparisjóða f.h. sparisjóða, Neytendasamtökin og viðskiptaráðherra af hálfu
stjórnvalda. Í samkomulaginu voru settar fram meginreglur til verndar
ábyrgðarmönnum. Áherslan var á góðan undirbúning og upplýsingar um greiðslugetu
greiðanda áður en ábyrgð var gefin svo og á upplýsingagjöf og tilkynningar til
ábyrgðarmanna eftir að aðili hafði gengist í ábyrgð. Segir þannig í 5. gr.
samkomulagins um upplýsingagjöf til ábyrgðarmanns eftir að til skuldaábyrgðar
eða veðsetningar er stofnað: "Fjármálafyrirtæki ber að tilkynna ábyrgðarmanni um
vanskil sem verða á fjárhagslegri skuldbindingu sem hann er í ábyrgð fyrir.
Stefnt skal að því að slík tilkynning sé send innan 30 daga frá greiðslufalli
skuldara". Lög um ábyrgðarmenn nr. 32/2009 tóku gildi vorið 2009. Í 7. gr.
laganna segir: Lánveitandi skal senda ábyrgðarmanni tilkynningu skriflega svo
fljótt sem kostur er: a. um vanefndir lántaka, b. ef veð eða aðrar tryggingar
eru ekki lengur tiltækar, c. um andlát lántaka eða að bú hans hafi verið tekið
til gjaldþrotaskipta, d. eftir hver áramót með upplýsingum um stöðu láns sem
ábyrgð stendur fyrir og yfirliti yfir ábyrgðir. Ábyrgðarmaður skal vera skaðlaus
af vanrækslu lánveitanda á tilkynningarskyldu skv. 1. mgr. og ef vanræksla er
veruleg skal ábyrgð falla niður. Ábyrgðarmaður verður ekki krafinn um greiðslur
á dráttarvöxtum eða öðrum innheimtukostnaði lántaka sem fellur til eftir
gjalddaga nema liðnar séu tvær vikur frá því að ábyrgðarmanni var sannanlega
gefinn kostur á að greiða gjaldfallna afborgun. Lánveitandi getur ekki þannig að
gildi hafi gagnvart ábyrgðarmanni gjaldfellt lán í heild sinni nema
ábyrgðarmanni hafi áður verið gefinn kostur á að greiða gjaldfallnar afborganir
lánsins . Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 32/2009
segir um þetta ákvæði að hér sé fjallað um tilkynningaskyldu lánveitanda og
afleiðingar þess að henni sé ekki sinnt. Að meginsjónarmiðið sé að lánveitandi
tilkynni ábyrgðarmanni um öll þau atvik sem áhrif geti haft á forsendur ábyrgðar
ábyrgðarmanni í óhag. Þá segir í greinargerðinni: Forsenda þess að
lánveitandi geti innheimt dráttarvexti og annan vanskilakostnað er að hann hafi
tilkynnt ábyrgðarmanni með hæfilegum fyrirvara um vanefndir lántaka. Hugsunin er
sú að ábyrgðarmaður eigi þess ávallt kost að grípa inn í og greiða gjaldfallna
afborgun eins og hún stendur á gjalddaga. Sams konar hugsun kemur fram í
lokamálsgrein greinarinnar en þar er mælt fyrir um réttarstöðu ábyrgðarmanns við
gjaldfellingu láns. Lánveitandi ber sönnunarbyrðina um að tilkynningarskyldu
hafi verið gætt enda stendur honum það nær en ábyrgðarmanni.
Ljóst
er að LÍN hefur fulla heimild til að krefja greiðanda eða ábyrgðarmann um
greiðslu dráttarvaxta sem hljótast af vanskilum og um greiðslu kostnaðar af
réttmætum og nauðsynlegum ráðstöfunum til að innheimta lán sem fara í vanskil
þannig að LÍN verði skaðlaust af innheimtunni. Í lögum, reglugerð og reglum sem
um LÍN gilda er ekki mælt fyrir með hvaða hætti standa skuli að innheimtu
gagnvart ábyrgðarmanni þegar vanskil verða af hálfu greiðanda. Þrátt fyrir hina
aukna áherslu á vernd ábyrgðarmanna á síðustu árum sem endurspeglast í
fyrrgreindu samkomulagi frá 2001, dómum um ábyrgðir og ábyrgðarmenn og svo með
setningu laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn virðist LÍN ekki hafa sett sér
sérstakan verkferil til að styðjast við þegar um innheimtu gagnvart
ábyrgðarmönnum er að ræða og greina þannig sérstöðu ábyrgðamanna þegar að
innheimtu kemur. Á heimasíðu LÍN í dag er vísað um innheimtuferli gagnvart
ábyrgðarmanni til þess innheimtuferlis sem gildir gagnvart greiðanda. Kærandi er
búsettur í Noregi og hefur verið það í fjöldamörg ár og var hann búsettur þar
þegar að hann gekkst í ábyrgð fyrir umræddu láni. Kærandi kveðst ekki hafa
fengið tilkynningu um vanskil lánsins fyrr en með bréfi innheimtuaðila LÍN sem
dagsett var 18. ágúst 2010. Í framhaldi greiddi kærandi höfuðstól kröfunnar en
neitar að greiða dráttarvexti og þann innheimtu kostnað sem fallið hefur til
áður en honum var tilkynnt um vanskilin.
Með vísan til þeirrar
meginreglu sem fram kemur í 7. gr. laga nr. 32/2009, lögskýringagagna með
lögunum, samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga og til fullyrðinga
kæranda um hvenær honum hafi borist áminning frá innheimtuaðila þar sem honum
hafi fyrst verið gefinn kostur á að greiða gjaldfallnar afborganir, og til
aðgerða hans í framhaldi af því, verður að telja að það snúi að LÍN að sýna fram
á að kæranda hafi verið tilkynnt um vanskilin með fullnægjandi hætti og honum
þannig gefið tækifæri á að koma láninu í skil áður en innheimtuaðgerðir voru
hafnar. Að mati málskotsnefndar hefur LÍN ekki sýnt fram á að það með
trúverðugum hætti að kæranda sem ábyrgðarmanni hafi verið veittar upplýsingar um
vanskil lánsins og gefinn kostur á að greiða gjaldfallnar afborganir lánsins
fyrr en í ágúst 2010. Verður kærandi því ekki krafinn um greiðslur á
dráttarvöxtum eða öðrum innheimtukostnaði sem fallið hefur til frá gjaldföllnum
gjalddögum. Með vísan til framangreinds er hin kærða niðurstaða í úrskurði
stjórnar LÍN frá 22. október 2010 í máli kæranda felld úr gildi.
Úrskurðarorð
Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 22. október 2010 er felldur úr gildi.