Úrskurður
Ár 2011, miðvikudaginn 26. janúar, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-32/2010:
Kæruefni
Með kæru dagsettri 15. október 2010 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna frá 16. ágúst 2010, þar sem hafnað var beiðni kæranda um makalán. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 25. október 2010 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN komu fram í bréfi dagsettu 3. nóvember 2010 og var afrit þess sent kæranda með bréfi dagsettu 11. nóvember 2010 en þar var kæranda jafnframt gefinn 14 daga frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi dagsettu þann 19. nóvember 2010.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi og eiginkona hans stunduðu bæði meistaranám í x-landi
skólaárið 2009-2010. Eiginkona kæranda hefur lokið námi en kærandi stefnir á að
ljúka námi sumarið 2011. Kærandi sótti um makalán fyrir skólaárið 2010-2011 á
grundvelli þess að eiginkona hans sinnti nýfæddu barni þeirra. Þar sem
lánasjóðurinn synjaði umsókn kæranda bar hann mál sitt undir stjórn sjóðsins.
Stjórn LÍN synjaði beiðni kæranda þann 12. ágúst 2010 með vísan til þess að
kærandi uppfyllti ekki skilyrði greinar 4.6. um makalán í úthlutunarreglum
sjóðsins. Kærandi bar mál sitt að nýju undir stjórn LÍN með tölvupósti dagettum
20. ágúst 2010. Vísaði kærandi til þess að í grein 4.6. í nýjum úthlutunarreglum
LÍN væri heimilað að veita makalán þegar maki sinnti langveiku eða fötluðu
barni. Taldi kærandi vandséð að reglan í grein 4.6 stæðist jafnræðisreglu 11.
gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1992 sem og 1. og 3. gr. laga nr. 21/1992 um lánasjóð
íslenskra námsmanna. Erindi kæranda var tekið fyrir að nýju í stjórn sjóðsins
þann 16. september 2010. Synjaði stjórn LÍN erindi kæranda með vísan til þess
rökstuðnings er fram hafi komið í fyrri úrskurði stjórnarinnar.
Með
bréfi dagsettu þann 15. október 2010 kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN frá 16.
ágúst 2010. Vísar kærandi til þess að grein 4.6. í úthutunarreglum LÍN standist
hvorki jafnræðisreglu stjórnsýslulaga, sbr. 11. gr. þeirra laga, né heldur 1. og
3. gr. laga nr. 21/1992 þar sem fram komi að hlutverk sjóðsins sé að tryggja
þeim sem falli undir lögin tækifæri til náms án tillits til efnahags og að miðað
skuli við að námslán nægi námsmanni til að standa straum af náms- og
framfærslukostnaði að teknu tilliti til fjölskyldustærðar. Tekur kærandi fram að
einu tekjur maka á árinu 2010 hafi verið fæðingarstyrkur námsmanna frá
Fæðingarorlofssjóði. Stjórn LÍN fer fram á að úrskurður hennar í máli kæranda
verði staðfestur. Vísar hún því til stuðnings til greinar 4.6. í
úthlutunarreglum LÍN en þar séu upp talin skilyrði þess að framfærsla námsmanns
hækki um 50% af grunnframfærslu vegna maka. Þar sem aðstæður kæranda og maka
hans hafi ekki verið í samræmi við umrædd skilyrði hafi stjórn LÍN synjað erindi
hans. Stjórnin vísar á bug þeim röksemdum kæranda að grein 4.6. feli í sér
mismunun gagnvart námsmönnum er eigi nýbura þar sem börn þeirra þurfi á
sólarhringsumönnun að halda eins og langveik eða fötluð börn. Vísar stjórnin til
þess að ákvæði úthlutunarreglnanna séu skýr og eigi sér stoð í lögum nr.
21/1992. Séu reglurnar samþykktar af ráðherra og birtar í Stjórnartíðindum, sbr.
ákvæði 2. mgr. 16. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna og 3.
mgr. 3. gr. sömu laga. Í athugasemdum kæranda við svör lánasjóðsins er því
alfarið mótmælt að hin nýja regla greinar 4.6. í úthlutunarreglunum standist
kröfur 1. mgr. 3. gr. laga nr. 21/1992. Ljóst sé að ákvæði greinar 4.6. heimili
ekki að tekið sé fullt tillit til fjölskyldustærðar námsmanns við veitingu
námsláns þar sem reglan komi alfarið í veg fyrir að lánað sé til framfærslu maka
sem vegna umönnunar ungabarns geti ekki starfað utan heimilis og aflað tekna.
Reglan sé afdráttarlaus og komi í veg fyrir að mats sé gætt varðandi það hvort
námsmaður hafi maka í raun og veru á sínu framfæri og hvort tryggja þurfi
framfærslu hans. Rökum lánasjóðsins um að það sé Fæðingarorlofssjóðs að tryggja
maka framfærslu vísar kærandi á bug þar sem námsmaður eigi aðeins rétt á 113.902
krónum á mánuði sem dugi illa til framfærslu, ekki síst í x-landi vegna stöðu
krónunnar. Þá vísar kærandi á bug þeim rökum lánasjóðins að grein 4.6. í
úthlutunarreglum LÍN standist jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Af hálfu sjóðsins
hafi ekki verið rökstutt hvers vegna umönnun ungabarna veiti ekki sama rétt til
makaláns og umönnun veikra eða fatlaðra barna. Megi í þessu sambandi benda á að
foreldrar langveikra barna eigi margir hverjir rétt á greiðslum vegna umönnunar
barna sinna, svo sem umönnunargreiðslum.
Niðurstaða
Samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1992 skal miða við að námslán
samkvæmt lögunum nægi hverjum námsmanni til að standa straum af náms- og
framfærslukostnaði meðan á námi stendur að teknu tilliti til fjölskyldustærðar
hans. Er stjórn sjóðsins heimilt að taka tillit til búsetu og annarra atriða er
áhrif kunna að hafa á fjárhagsstöðu námsmanns. Þá setur stjórn sjóðsins nánari
ákvæði um úthlutun námslána. Í grein 4.6. í úthlutunarreglum sjóðsins fyrir
námsárið 2010-2011 segir eftirfarandi um lán vegna maka: Eftirfarandi aðstæður
geta leitt til þess að framfærsla námsmanns í hjónabandi/staðfestri
samvist/skráðri sambúð hækkar um 50% af grunnframfærslu vegna maka: a) Veikindi
eða örorka maka skv. læknisvottorði. b) Námsmaður og maki hafa langveikt eða
fatlað barn á framfæri sínu og maki starfar ekki utan heimilis vegna umönnunar
barnsins. Skilyrði er að barnið hafi lögheimili hjá námsmanni og maka og að
læknisvottorði sé framvísað. c) Námsmaður og maki eru búsett erlendis og hafa
barn á framfæri sínu og maki á ekki rétt á atvinnuleyfi í námslandinu. Þeir
námsmenn sem fengu makalán skólaárið 2009-2010 og halda áfram í sama námsferli
skólaárið 2010-2011 eiga áfram rétt á að sækja um makalán. Ef veitt er lán vegna
maka koma tekjur maka til frádráttar á láninu, sbr. gr. 3.1.1. Ekki er veitt
makalán ef maki er sjálfur lánþegi á námsárinu.
Í gögnum málsins kemur
fram að kærandi og maki hans höfðu ekki langveikt eða fatlað barn á sínu
framfæri. Ljóst er að maki kæranda á rétt á atvinnuleyfi í x-landi. Ennfremur
kemur fram að kærandi fékk ekki makalán á skólaárinu 2009-2010. Er samkvæmt
þessu ljóst að aðstæður kæranda eru ekki þannig að hann uppfylli skilyrði
greinar 4.6. í úthlutunarreglunum fyrir skólaárið 2010-2011. Kemur þá til álita
hvort úrskurður stjórnar LÍN standist ákvæði 11. gr. stjórnsýslulaga, og 3. gr.
laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Eins og fram kemur í 3. gr.
laga nr. 21/1992 skal miða við að námslán samkvæmt lögunum nægi hverjum
námsmanni til að standa straum af náms- og framfærslukostnaði meðan á námi
stendur að teknu tilliti til fjölskyldustærðar hans. Er stjórn sjóðsins heimilt
að taka tillit til búsetu og annarra atriða er áhrif kunna að hafa á
fjárhagsstöðu námsmanns. Hefur stjórns sjóðsins sett viðmið um framangreind
atriði í grein 4.6. í úthlutunarreglum sjóðsins. Reglur sjóðsins gera þannig ráð
fyrir að þegar maki námsmanns þiggur greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði verði að
líta svo á að með því sé stuðlað að því að námsmaður og maki hans hafi þegar
tiltekna framfærslu úr opinberum sjóðum er skerði rétt námsmanns til láns. Með
þessu tekur stjórn sjóðsins tillit til búsetu og annarra atriða er áhrif kunna
að hafa á fjárhagsstöðu námsmanns. Verður ekki annað séð en að setningu slíkra
viðmiða í grein 4.6. í úthlutunarreglum LÍN byggi á málefnlegum sjónarmiðum og
séu þar af leiðandi í samræmi við ákvæði 3. gr. laga nr. 21/1992. Í
úthlutunarreglum LÍN eru makalán vegna umönnunar barna við bundin við þau tilvik
þegar maki hefur ekki atvinnuleyfi og þegar námsmaður og maki hafa langveikt eða
fatlað barn á framfæri sínu og maki starfar ekki utan heimilis vegna umönnunar
barnsins. Með þessu hefur stjórn sjóðsins gert greinarmun á makaláni annars
vegar vegna umönnunar vegna veikinda barns og hins vegar vegna umönnunar
ungabarns. Jafnræðisregla stjórnsýslulaga leiðir til þess að leysa ber úr
sambærilegum málum á grundvelli sambærilegra sjónarmiða. Jafnfræðisreglan leiðir
einnig til þess að leysa beri úr ósambærilegum málum á mismunandi hátt. Ljóst er
að löggjafinn hefur talið ástæðu til að gera greinarmun á milli einstaklinga sem
eru í þeim aðstæðum er að framan greinir, þ.e. annars vegar foreldra langveikra
og fatlarða barna og hins vegar foreldra ungabarna, varðandi greiðslur úr
opinberum sjóðum. Eins og kærandi bendir á á hann rétt á 113.902 krónum í
fæðingarstyrk á mánuði. Foreldrar langveikra og fatlaðra barna eiga ekki rétt á
sambærilegum greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði, sbr. lög nr. 95/2000 um fæðingar-
og foreldraorlof á grundvelli veikinda barns heldur eiga þeir rétt á greiðslum á
grundvelli laga nr. 22/2006 um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra
fatlaðra barna. Þegar af þessari ástæðu er ljóst að fjárhagsleg aðstaða þeirra
foreldra er hér er lýst að framan er mismunandi. Verður því að telja að stjórn
LÍN sé heimilt að gera greinarmun á rétti foreldra ungabarna annars vegar og
foreldrar langveikra og fatlaðra barna hins vegar á grundvelli þess að umræddir
aðilar séu ekki í sambærilegri fjárhagslegri stöðu og eigi þar af leiðandi ekki
rétt til sambærilegrar meðferðar hvað varðar rétt til makaláns. Verður því ekki
talið að úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda feli í sér brot á jafnræðisreglu
stjórnsýslulaga. Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda er því staðfestur.
Úrskurðarorð
Hinn kærði úrskurður frá 16. ágúst 2010 í máli kæranda er staðfestur