Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-45/2010 - Endurgreiðsla námslána - beiðni um úrrræði vegna þróunar gengis ísl. krónunnar

Kæruefni

 

Með kæru dagsettri 22. nóvember 2010 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna frá 21. október 2010, þar sem hafnað var beiðni um að stjórn LÍN grípi til úrræða vegna aukinnar greiðslubyrði kæranda af námsláni vegna þróunar gengis íslensku krónunnar gegn danskri krónu. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 7. desember 2010 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN komu fram í bréfi dagsettu 20. desember 2010 og var afrit þess sent kæranda með bréfi dagsettu 31. desember s.á. en þar var kæranda jafnframt veittur frestur til 18. janúar 2011 til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærandi býr í Danmörku og aflar sér þar tekna. Kærandi telur að greiðslubyrði hans hafi hækkað um 98,3% á síðustu 5 árum og vísar um það til eigin útreiknings. Kærandi fór þess á leit við stjórn LÍN að fundin yrði lausn á þessu máli. Stjórn LÍN hafnaði beiðni kæranda með úrskurði sínum dagsettum 21. október 2010 með þeim rökstuðningi að endurgreiðslubyrði námslána miðaðist alltaf við fast hlutfall að útsvarsstofni lánþega sama í hvaða gjaldmiðli hann væri myndaður. Með bréfi dagsettu þann 22. nóvember 2010 kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN til málskotsnefndar. Í kærunni kemur fram að kærandi greiðir af námslánum sínum í íslenskum krónum og bendir hann á að greiðslubyrði námslána hans sé hærri en hjá þeim sem búsettir eru á Íslandi og ekki eru háðir gengisskráningu við útreikning launa. Hafi greiðslubyrði hans aukist um 98,5% á síðustu 5 árum og telur kærandi slíkt fela í sér mismunun á greiðendum eftir því hvar þeir séu búsettir. Í umsögn sinni um kæruna dagsettri 20. desember 2010 tekur stjórn LÍN fram að tekjur hvers árs séu umreiknaðar í íslenskar krónur miðað við meðalgengi viðkomandi árs samkvæmt Seðlabanka Íslands. Sú upphæð sé síðan uppreiknuð í samræmi við neysluvísitölu milli júlí 2009 og júlí 2010. Af þeirri tölu sé síðan föst endurgreiðsla reiknuð. Bendir stjórn LÍN á að framlögð gögn í málinu bendi til þess að kærandi hafi í raun endurgreitt sjóðinum DKK 3.044 minna en ef sjóðurinn hefði reiknað beint 3,75% af launum kæranda í DKK í stað þess að umreikna yfir í íslenskar krónur. Það sem hafi áhrif á þessar sveiflur séu gengisbreytingar sem sjóðurinn fái engu ráðið um. Geti gengisbreytingar haft áhrif á hvor veginn sem er til hækkunar eða lækkunar.

Niðurstaða

 

Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 2/1992 um lánasjóð íslenskra námsmanna skal árleg endurgreiðsla ákvarðast í tvennu lagi. Annars vegar er föst greiðsla, sem innheimt er á fyrri hluta ársins, óháð tekjum og hins vegar viðbótargreiðsla sem innheimt er á síðari hluta ársins og er háð tekjum fyrra árs. Samkvæmt 3. mgr. 8. gr. miðast viðbótargreiðslan við ákveðinn hundraðshluta af tekjustofni ársins á undan endurgreiðsluári, sbr. 10. gr. laganna. Hundraðshluti þessi er 3,75% við afborganir af skuldabréfinu. Frá viðbótargreiðslunni dregst fastagreiðslan. Nánari útfærsla er á endurgreiðsluákvæði laganna í grein 3.7 í úthlutunarreglum lánasjóðsins en þar segir eftirfarandi:

"Árleg endurgreiðsla er í tvennu lagi. Annars vegar er föst greiðsla sem innheimtist 1. mars, en þó getur fyrsti gjalddagi verið annar. Hins vegar viðbótargreiðsla sem innheimtist 1. sept. og er háð tekjum fyrra árs. Föst ársgreiðsla á árinu 2010 er 105.574 kr. og miðast við vísitölu neysluverðs 356,2. Þessi upphæð breytist á hverju ári til samræmis við vísitölu neysluverðs 1. janúar hvers árs. Viðbótargreiðslan miðast við 3,75% af tekjustofni ársins á undan endurgreiðsluári, en með tekjustofni er átt við útsvarsstofn lánþega að viðbættum fjármagnstekjum, sbr. c–lið 7. gr. laga nr. 90/2003. Ef lánþegi er í sambúð er miðað við 50% fjármagnstekna hans og sambúðaraðilans og skiptir ekki máli hvort tekjurnar eru af séreign skv. kaupmála eða hjúskapareign. Sú fjárhæð sem þannig fæst skal margfölduð skv. hlutfallslegri breytingu á vísitölu neysluverðs frá 1. júlí á tekjuöflunarári til 1. júlí á endurgreiðsluári. Samkvæmt framansögðu dregst áðurnefnd föst ársgreiðsla frá viðbótargreiðslunni."

Samkvæmt framansögðu er föst endurgreiðsla lögum samkvæmt 3,75% af tekjustofni. Hjá greiðendum búsettum erlendis er greiðslan síðan umreiknuð á meðalgengi Seðlabanka Íslands og síðan framreiknuð m.v. vísitölu eins og hjá greiðendum búsettum hérlendis. Ekki verður séð að það stríði gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga að kveða á um umreikning m.v. meðalgengi Seðlabanka Íslands, enda er endurgreiðsla reiknuð á sama hátt hjá öllum greiðendum, þ.e. er miðuð við 3,75% af tekjustofni ársins á undan. Það er vandséð hvernig hægt er að umreikna tekjur greiðenda yfir í íslenskar krónur á annan hátt. Eins og lýst er í umsögn stjórnar LÍN getur lántakandi einnig notið góðs af slíkri reglu. Verður því ekki talið að úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda feli í sér brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda er því staðfestur.

Úrskurðarorð

 

Hinn kærði úrskurður frá 21. október 2010 í máli kæranda er staðfestur. 

Til baka