Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-34/2010 - Umsóknarfrestur og útborgun - beiðni um undanþágu frá umsóknarfresti á vorönn 2010

Úrskurður

 

Ár 2011, miðvikudaginn 16. febrúar, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-34/2010:

 

Kæruefni

 

Með kæru dagsettri 28. október 2010 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 17. september 2010 þar sem beiðni kæranda um undanþágu frá grein 5.1.2 í úthlutunarreglum LÍN um að lánsumsókn vegna náms vorið 2010 þurfi að berast fyrir 31. maí 2010 var hafnað. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 28. október 2010 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 11. nóvember 2010 og var afrit þess sent kæranda og honum jafnframt gefinn frestur til að koma að athugasemdum sínum. Engar frekari athugasemdir hafa borist frá kæranda. Með bréfi dagsettu 19. janúar 2011 óskaði málskotsnefndin eftir nánari útskýringum og upplýsingum frá stjórn LÍN um málið. Bárust upplýsingar frá stjórn LÍN í bréfi dagsettu 27. janúar 2011. Kærandi bendir á að umsóknarfresturinn hafi verið til 31. maí 2010 þó að hægt hafi verið að sækja um mun fyrr. Kærandi taldi á þessum tíma að hann gæti ekki sótt um lán fyrr en hann hefði fengið niðurstöðu úr prófunum og var þess vegna ekki búinn að sækja um fyrir 18. maí 2010 þegar slysið átti sér stað. Einkunnarskil hjá skólanum hans voru þann 20. maí 2010. Kærandi telur að þrátt fyrir að hann hafi sótt um of seint eigi LÍN að taka tillit til ófyrirséðra aðstæðna hans sem komu í veg fyrir að hann sækti um innan umsóknarfrestsins og veita honum undanþágu frá frestinum. Stjórn LÍN hafnaði undanþágu með vísan til greinar 5.1.2 í úthlutunarreglum LÍN. Þar sé kveðið á um að umsókn um námslán vegna náms vorið 2010 skuli berast LÍN fyrir 31. maí 2010. LÍN bendir á að umsóknarfresturinn sé mjög vel kynntur bæði á heimasíðu sjóðsins og af námsmannahreyfingunum. Þá sé umsóknarfresturinn mjög rúmur en hægt hafi verið að sækja um námslán vorannar 2010 frá og með 26. júní 2009 og hafi kærandi því haft nægan tíma til að sækja um áður en slysið varð. Stjórn LÍN hefur upplýst að aðeins í einu tilfelli á síðastliðnum fimm skólaárum hafi umsókn verið samþykkt eftir að umsóknarfrestur rann út. Í því tilfelli hafi viðkomandi námsmaður sótt um styrk hjá SU í Danmörku en verið synjað um þann styrk eftir að umsóknarfrestur rann út hjá LÍN. Byggðist undanþáguheimildin á því að námsmaðurinn hafi talið sig eiga rétt á styrk hjá SU vegna starfs síns í Danmörku og hafi því ekki sótt um námslán hjá LÍN enda sé ekki heimilt að sækja bæði um SU-styrk og námslán hjá LÍN á sömu önn. Öllum öðrum beiðnum um undanþágu hafi verið synjað. Stjórn LÍN bendir á að lagt sé mat á það hverju sinni hvort málefnaleg rök séu fyrir því að veita undanþágu frá umsóknarfresti. Í þessu máli hafi niðurstaðan verið sú að ekki væru nægilega sterk rök fyrir því að víkja frá umsóknarfresti og hafi erindi kæranda því verið synjað.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Þann 18. maí 2010 varð bróðir kæranda sem býr í Svíþjóð fyrir alvarlegu slysi. Kærandi flaug ásamt móður sinni út sömu nótt og þau fengu fregnir af slysinu. Bróðir kæranda var þungt haldinn á sjúkrahúsi næstu þrjár vikur og voru kærandi og móðir hans við hlið hans allan tímann. Kærandi áttaði sig á því um miðjan júní þegar bróðir hans var úr lífshættu að hann hefði gleymt að sækja um námslán til LÍN innan tilskilins frests. Hann hafði samband við LÍN með tölvupósti þann 14. júní 2010 og lét vita um aðstæður sínar og spurðist fyrir um og óskaði eftir að mega sækja um þegar hann kæmi til landsins þann 20. júní 2010. Svarpóstur barst frá LÍN dagsettur 15. júní s.á. þar sem fram kom að ekki væri hægt að fallast á að veita honum undanþágu og að erindi hans væri hafnað. Þann 17. ágúst 2010 sótti kærandi um undanþágu frá umsóknarfrestinum til LÍN. Beiðninni var hafnað af hálfu LÍN í tölvupósti þann 22. ágúst s.á. sem síðan var staðfest í úrskurði stjórnar LÍN dagsettum 17. september 2010. Kærandi bendir á að umsóknarfresturinn hafi verið til 31. maí 2010 þó að hægt hafi verið að sækja um mun fyrr. Kærandi taldi á þessum tíma að hann gæti ekki sótt um lán fyrr en hann hefði fengið niðurstöðu úr prófunum og var þess vegna ekki búinn að sækja um fyrir 18. maí 2010 þegar slysið átti sér stað. Einkunnarskil hjá skólanum hans voru þann 20. maí 2010. Kærandi telur að þrátt fyrir að hann hafi sótt um of seint eigi LÍN að taka tillit til ófyrirséðra aðstæðna hans sem komu í veg fyrir að hann sækti um innan umsóknarfrestsins og veita honum undanþágu frá frestinum. Stjórn LÍN hafnaði undanþágu með vísan til greinar 5.1.2 í úthlutunarreglum LÍN. Þar sé kveðið á um að umsókn um námslán vegna náms vorið 2010 skuli berast LÍN fyrir 31. maí 2010. LÍN bendir á að umsóknarfresturinn sé mjög vel kynntur bæði á heimasíðu sjóðsins og af námsmannahreyfingunum. Þá sé umsóknarfresturinn mjög rúmur en hægt hafi verið að sækja um námslán vorannar 2010 frá og með 26. júní 2009 og hafi kærandi því haft nægan tíma til að sækja um áður en slysið varð. Stjórn LÍN hefur upplýst að aðeins í einu tilfelli á síðastliðnum fimm skólaárum hafi umsókn verið samþykkt eftir að umsóknarfrestur rann út. Í því tilfelli hafi viðkomandi námsmaður sótt um styrk hjá SU í Danmörku en verið synjað um þann styrk eftir að umsóknarfrestur rann út hjá LÍN. Byggðist undanþáguheimildin á því að námsmaðurinn hafi talið sig eiga rétt á styrk hjá SU vegna starfs síns í Danmörku og hafi því ekki sótt um námslán hjá LÍN enda sé ekki heimilt að sækja bæði um SU-styrk og námslán hjá LÍN á sömu önn. Öllum öðrum beiðnum um undanþágu hafi verið synjað. Stjórn LÍN bendir á að lagt sé mat á það hverju sinni hvort málefnaleg rök séu fyrir því að veita undanþágu frá umsóknarfresti. Í þessu máli hafi niðurstaðan verið sú að ekki væru nægilega sterk rök fyrir því að víkja frá umsóknarfresti og hafi erindi kæranda því verið synjað.

 

Niðurstaða

 

Samkvæmt 1. gr. reglugerðar nr. 602/1997 um Lánasjóð íslenskra námsmanna skal auglýsa með tryggilegum hætti eftir umsóknum um námslán og skal í auglýsingunni m.a. koma fram hvenær umsóknarfrestur rennur út. Í grein 5.1.2 í úthlutunarreglum LÍN fyrir árið 2009-2010 segir að sækja skuli sérstaklega um námslán fyrir hvert aðstoðarár og að umsókn vegna náms vorið 2010 skuli hafa borist sjóðnum fyrir 31. maí 2010. Fyrir liggur að kærandi hafði fyrst samband við LÍN vegna umsóknar um lán fyrir vorönn 2010 þann 14. júní 2010. Þá hefur kærandi gert grein fyrir ástæðum þess að umsókn hans barst ekki tímanlega til sjóðsins. Stjórn LÍN hefur upplýst að hvert mál sé skoðað sérstaklega og mat lagt á það hverju sinni hvort rök séu fyrir hendi til að fallast á að veita undanþágu frá umsóknarfrestinum. Þá hefur einnig verið upplýst af hálfu stjórnar LÍN að á undanförnum fimm skólaárum hafi ein undanþágubeiðni frá umsóknarfresti verið veitt og jafnframt hefur verið upplýst hvað hafi legið til grundvallar þeirri niðurstöðu. Með vísan til reglugerðar LÍN, úthlutunarreglna sjóðsins svo og upplýsinga stjórnar LÍN um með meðferð samskonar mála hjá LÍN svo og meðferð þessa máls verður að fallast á það með stjórn LÍN að lögmæt sjónarmið hafi legið til grundvallar synjunar á beiðni kæranda um undanþágu frá umsóknarfresti og að jafnræðis hafi verið gætt af hálfu LÍN við afgreiðslu málsins. 

Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda er því staðfestur.

 

Úrskurðarorð

 

Hinn kærði úrskurður frá 17. september 2010 í máli kæranda er staðfestur.

Til baka