Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-44/2010 - Undanþágur frá afborgun - beiðni um undanþágu frá tekjutengdri afborgun

Úrskurður

Ár 2011, miðvikudaginn 16. febrúar, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-44/2010:

Kæruefni

Með kæru dagsettri 29. nóvember 2010 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna frá 22. sama mánaðar þar sem hafnað var beiðni kæranda um undanþágu frá greiðslu tekjutengdrar afborgunar af námsláni 2010. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 7. desember 2010 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN komu fram í bréfi dagsettu 16. desember 2010 og var afrit þess sent kæranda með bréfi dagsettu 30. desember 2010 en þar var kæranda jafnframt veittur frestur til 15. janúar 2011 til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Tölvupóstur barst frá kæranda 5. janúar 2011 þar sem hann afmarkar kæruefnið þannig: „...kæra mín til málskotsnefndar snýr eingöngu að því atriði sem um getur í kærunni og snýr að því hvort ég eigi ekki inni greiðslulaus ár þegar skipt var um lánaflokka úr S lánum með 3 greiðslulaus ár yfir í R lán með 2 greiðslulausum árum“. Þetta áréttar kærandi með tölvupósti 12. janúar 2011, þar sem hann segist ekki kæra synjun stjórnar LÍN um niðurfellingu tekjutengdrar afborgunar út frá almennum sanngirnisástæðum, heldur aðeins höfnun þess sjónarmiðs hans að hann eigi inni greiðslulaust ár. Frekari athugasemdir hafa ekki borist frá kæranda.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi er skuldari að námsláni hjá LÍN. Kærandi fer fram á að fá undanþágu frá greiðslu tekjutengdrar afborgunar af námsláni 2010 þar sem hann telur sig eiga inni eitt greiðslulaust ár hjá sjóðnum frá því að skipt var um lánaflokka með nýjum lögum um LÍN árið 1992. Stjórn LÍN hafnar því að kærandi eigi inni greiðslulaust ár hjá sjóðnum vegna breytinga á lánaflokkum sem urðu með lagasetningunni 1992. Fyrir slíku sé ekki fótur í lögunum og að fullyrðing kæranda sé ekki studd neinum gögnum.

Niðurstaða

Í 2. mgr. 18. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna segir að ef lánþegi skuldi svokölluð R-námslán, sem úthlutað var á árunum 1992-2004, og jafnframt námslán samkvæmt lögum nr. 72/1982 eða eldri lögum skuli hann fyrst endurgreiða R-lánið að fullu og frestast greiðslur af eldri námsskuldum þar til R-lánið er að fullu greitt. Kærandi hefur lokið greiðslum af R-láni og er að hefja endurgreiðslu námsláns samkvæmt eldri lögum, svokallaðs S-láns (1982-1992). Óumdeilt er að endurgreiðsla kæranda á R-láninu hófst ekki fyrr en tveimur árum eftir að hann hætti að þiggja námslán, sbr. grein 7.2.1. í úthlutunarreglum LÍN. Kærandi telur sig, eins og fyrr segir, eiga inni afborgunarlaust ár af S-láninu þar sem endurgreiðsla þess hafi verið afborgunarlaus í 3 ár, en endurgreiðsla R-lána í aðeins 2 ár. Telur kærandi að sú túlkun hans sé í samræmi við vilja löggjafans. Í lögum nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna og lögskýringargögnum er ekki að finna neitt sem styður þann skilning kæranda, að hann eigi inni afborgunarlaust ár af eldra námsláni sínu. Á meðan kærandi greiddi af yngra láninu (R-lán) frestuðust greiðslur eldra lánsins (S-lán), en þær hófust þegar yngra lánið var uppgreitt, sem er í samræmi við ákvæði 18. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda er því staðfestur.

Úrskurðarorð

Hinn kærði úrskurður frá frá 22. nóvember 2010 í máli kæranda er staðfestur. 

Til baka