Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-46/2010 - Ábyrgðarmenn - beiðni um niðurfellingu á ábyrgðum

Úrskurður

Ár 2011, miðvikudaginn 16. febrúar, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-46/2010:

Kæruefni

Með kæru dagsettri 12. nóvember 2010 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna frá 21. október 2010, þar sem hafnað var beiðni kæranda um niðurfellingu á ábyrgðum tveggja látinna ábyrgðarmanna á námslánum hans. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 7. desember 2010 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN komu fram í bréfi dagsettu 20. desember 2010 og var afrit þess sent kæranda með tölvupósti 3. janúar 2011 en þar var kæranda jafnframt gefinn frestur til 15. janúar s.á. til að koma að frekari sjónarmiðum sínum, sem hann gerði með bréfi, dagsettu 15. janúar 2011. Málskotsnefnd óskaði eftir frekari upplýsingum frá kæranda um dánarbú hinna látnu ábyrgðarmanna. Upplýsingar kæranda bárust þann 2. og 6. febrúar 2011.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi tók námslán hjá LÍN á árnum 1981-1985 og 1990-1991. Fram kemur hjá kæranda að búið sé að greiða af lánunum sem tekin voru á fyrra tímabilinu, en lán sem tekið var 1990-1991 sé að mestu ógreitt. Ábyrgðarmenn að láninu, sem voru tengdaforeldrar kæranda, séu bæði látin. Kærandi fer fram á að ábyrgð hinna látnu ábyrgðarmanna verði felld niður. Til stuðnings kröfu sinni vísar kærandi til þess að það sé óréttmætt að viðhalda ábyrgðinni eftir andlát ábyrgðarmanna, enda hafi það verið ætlun löggjafans við setningu laga nr. 72/1982 um námslán og námsstyrki, sem í gildi voru við töku námslánsins 1990-1991, að ábyrgðin væri tímabundin. Þá telur kærandi með vísan til ákvæða laga um ábyrgðarmenn nr. 32/2009 að sjálfskuldarábyrgðin sé niður fallin, þar sem ekkert greiðslumat hafi farið fram þegar lánið 1990-1991 var tekið. Ennfremur fari það gegn jafnræðisreglu að viðhalda ábyrgðinni, þar sem ekki sé í núgildandi lögum um LÍN krafa um sérstaka sjálfskuldarábyrgð ábyrgðarmanna. Kærandi tekur fram að hann hafi ekki verið búsettur á Íslandi í nokkur ár og eigi ekki eignir hér á landi, því geti hann ekki sett aðra tryggingu fyrir láninu. Stjórn LÍN fer fram á að úrskurður hennar frá 21. október 2010 verði staðfestur. Ábyrgð falli ekki niður við andlát ábyrgðarmanns heldur færist yfir á dánarbú hins látna. Telur stjórn LÍN sér ekki heimilt að fella niður sjálfskuldarábyrgðina vegna 6. mgr. í grein 5.3.2. í úthlutunarreglum LÍN en samkvæmt henni sé ekki heimilt að fella niður ábyrgð ábyrgðarmanns af námsláni nema ný ábyrgð komi í staðinn sem sjóðurinn samþykkir. Í þessu máli hafi ekki verið boðin fram ný ábyrgð, en framkvæmd sjóðsins hafi verið sú eftir gildistöku laga nr. 72/1982 að ábyrgð megi fella niður með nýjum ábyrgðarmönnum eða fasteignarveði.

Niðurstaða

Beiðni kæranda er um niðurfellingu á ábyrgðum látinna tengdaforeldra á námslánum hans. Við andlát þeirra varð til sjálfstæður lögaðili, dánarbú, sem tók við réttindum og skyldum hinna látnu. Fram kemur hjá kæranda að erfingjar hinna látnu hafi fengið leyfi til einkaskipta á dánarbúinu og að skiptum þess sé lokið. Málskotsnefnd telur að skilja verði beiðni kæranda þannig, að hann óski niðurfellingar á ábyrgðum erfingja hinna látnu. Þótt erindi kæranda varði hann sjálfan ekki beint telur málskotsnefnd hann hafa nægilegan hagsmuni af úrlausn málsins til þess að eiga aðild að því, en aðild hans hefur ekki sætt athugasemdum af hálfu stjórnar LÍN. Í 12. gr. laga um um ábyrgðarmenn nr. 32/2009 segir að lögin taki til ábyrgða sem stofnað var til fyrir gildistöku þeirra. Frá því eru gerðar undantekningar í lagagreininni m.a. hvað varðar 4. gr. laganna, sem mælir fyrir um mat á greiðslugetu lántaka. Það að ekki fór fram greiðslumat þegar lán kæranda var tekið 1990-1991 leiðir því ekki til niðurfellingar sjálfskuldarábyrgðar ábyrgðarmanns. Við veitingu námsláns kæranda 1990-1991 voru í gildi lögum nr. 72/1982 um námslán og námsstyrki. Í 3. mgr. 6. gr. laganna var gerð krafa um að námsmaður, sem fengi lán úr lánasjóði, legði fram yfirlýsingu eins ábyrgðarmanns um að hann tæki að sér sjálfsskuldarábyrgð á endurgreiðslu lánsins. Í 4. mgr. 7. gr. laganna sagði að ábyrgð ábyrgðarmanns gæti fallið niður þegar fyrsta greiðsla hefur að fullu verið innt af hendi, enda myndi lánþegi setja aðra tryggingu fyrir láninu, sem stjórn sjóðsins mæti fullnægjandi. Í núgildandi lögum um LÍN nr. 21/1992 er gert ráð fyrir því að lánþegi leggi fram yfirlýsingu að minnsta kosti eins ábyrgðarmanns sem taki að sér sjálfsskuldarábyrgð á endurgreiðslu lánsins og í 7. mgr. 6. gr. laga kemur fram að stjórn sjóðsins ákveði hvaða skilyrðum lántakendur og ábyrgðarmenn skuli fullnægja og að ábyrgð ábyrgðarmanns geti fallið niður enda setji námsmaður aðra tryggingu sem stjórn sjóðsins meti fullnægjandi. Í gr. 5.3.2 í úthlutunarreglum LÍN segir: "Eldri ábyrgð fellur ekki úr gildi nema að henni sé sagt upp og ný sett í staðinn með samþykki sjóðsins". Af framansögðu er ljóst að í lögum og reglum LÍN er ekki að finna heimild til þess að fella niður sjálfskuldarábyrgð ábyrgðarmanna, án þess að annar ábyrgðamaður eða annars konar ábyrgð, sem stjórn sjóðsins samþykkir, komi í staðinn. Fyrir liggur að kærandi kveðst ekki geta sett aðra tryggingu fyrir láninu. Breyting sem gerð var á lögum nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna með lögum nr. 79/2009, þar sem felld er niður krafa um ábyrgðir ábyrgðarmanna, ef lántaki er lánshæfur samkvæmt reglum sjóðsins, breytir ekki stöðu eldri lántaka og ábyrgðarmanna þeirra þar sem breytingalögin eru ekki afturvirk. Situr því kærandi og ábyrgðarmenn hans við sama borð og aðrir lántakendur sem fengu lán fyrir gildistöku breytingarlaganna nr. 79/2009. Verður úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda því ekki talinn fela í sér brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Þá er hann hvorki í andstöðu við lög nr. 21/1992 um LÍN, né ákvæði laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda er því staðfestur.

Úrskurðarorð

Hinn kærði úrskurður frá 21. október 2010 í máli kæranda er staðfestur. 

Til baka