Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-36/2010 - Lánshæfi - lánshæfi frumgreinadeildarnáms

Úrskurður

Ár 2011, miðvikudaginn 2. mars, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-36/2010:

Kæruefni

Með kæru dagsettri 1. nóvember 2010 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna frá 16. september 2010, þar sem hafnað var beiðni hennar um að stjórn LÍN samþykkti umsókn hennar um námslán vegna náms hennar við frumgreinadeild Háskólans í Reykjavík. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 9. nóvember 2010 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN komu fram í bréfi dagsettu 22. nóvember 2010 og var afrit þess sent kæranda með bréfi dagsettu 24. nóvember s.á. en þar var kæranda jafnframt veittur 14 daga frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Engar athugasemdir bárust frá kæranda. Málskotsnefnd fjallaði um málið á fundi sínum þann 19. janúar og ákvað að óska frekari skýringa frá stjórn LÍN á því hvaða málefnalegu sjónarmið lægju því til grundvallar að gera greinarmun varðandi rétt til námsláns hjá námsmönnum sem stunda sama nám á frumgreinastigi eftir því hvaða námi viðkomandi hafi lokið, þ.e. annars vegar þeim er hafi lokið burtfararprófi/sveinsprófi eða tilskilinni atvinnuþátttöku og þ.a.l. eigi rétt á láni og hins vegar þeim er hafi lokið stúdentsprófi og hafi þ.a.l. ekki rétt til láns. Svar stjórnar LÍN barst með bréfi dagsettu 26. janúar 2011.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi stundar nám við frumgreinadeild Háskólans í Reykjavík. Kærandi er með stúdentspróf frá Kvennaskólanum en þar sem hann lagði þar stund á félagsfræðigreinar telst hann ekki hafa nægjanlegan undirbúning vegna náms sem hann hyggst stunda í heilbrigðisverkfræði. Hóf því kærandi nám á frumgreinasviði til að afla sér nægjanlegs undirbúnings. Kærandi sótti um námslán vegna námsins við frumgreinadeildina fyrir námsárið 2010-2011 en var synjað um lán þar sem hann lagði ekki fram gögn um að hafa lokið lánshæfu starfsnámi, þ.e. burtfararprófi/sveinsprófi úr skóla eða staðfestingu á jafngildri reynslu úr atvinnulífinu er samsvaraði fullri atvinnuþátttöku í a.m.k. 5 ár. Kærandi bar mál sitt undir stjórn LÍN en var synjað með úrskurði dagsettum 16. september 2011 á þeim forsendum að hann hefði hvorki lokið tilgreindu starfsnámi né hefði tilskilda reynslu úr atvinnulífinu. Með kæru þann 1. nóvember 2010 kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN til málskotsnefndar. Í kærunni kemur fram að kærandi stundar nám við frumgreinadeild Háskólans í Reykjavík. Hann hafi eins og áður greinir lokið stúdentsprófi sem væri metið til jafns við sveinspróf en skorti undirbúning í raungreinum og stundaði því nám á frumgreinastigi til undirbúnings námi í heilbrigðisverkfræði. Kemur fram hjá kæranda að hann stundi nám sem talið sé lánshæft. Verið sé að koma til móts við fólk sem ekki hafi fullnægjandi menntun til að hefja eiginlegt nám í háskólanum án þessa undirbúningsnáms. Háskólinn meti hverjir þurfi slíkan undirbúning og hverjir ekki. LÍN telji sig geta mismunað innan þessa hóps með því að veita sumum lán en örðrum ekki. Telur kærandi að þetta standist ekki landslög. Í greinargerð LÍN dagsettri 19. september 2010 er tekið fram að í úthlutunarreglum grein 1.2.2 komi fram hvaða skilyrði eru sett um lánshæfi náms á frumgreinasviði á Íslandi, en það sé að umsækjandi hafi lokið lánshæfu starfsnámi, þ.e. burtfaraprófi/sveinsprófi úr skóla eða hafi jafngilda reynslu úr atvinnulífinu, þ.e. starfsreynslu sem samsvari fullri atvinnuþátttöku í a.m.k. fimm ár. Bendir LÍN á að kærandi hafi ekki sýnt fram á fulla atvinnuþátttöku í a.m.k. fimm ár að mati stjórnar og hafi umsókn kæranda um námslán því verið synjað. Í bréfi dagsettu 26. janúar 2011 veitir LÍN nánari skýringar á þeim málefnalegu sjónarmiðum sem að mati sjóðsins eru undirliggjandi þeim mismunandi kröfum sem gerðar eru til undirbúningsnáms umsækjenda um námslán. Þar kemur fram að nám í frumgreinum hafi verið hugsað fyrir þá nemendur sem hafi lokið viðurkenndu starfsnámi í framhaldsskólum en vilji mennta sig til frekara náms á háskólastigi, t.d. í tæknifræði. Þar með hafi sjóðurinn brugðist við kröfum (menntastefnu stjórnvalda) um að öllum yrði tryggður möguleiki á áframhaldandi námi, hvort sem menn hefðu valið bóknám í framhaldsskóla eða verknám, enda slíku námi ætlað að veita verkmenntuðu fólki nauðsynlegan undirbúning fyrir nám á háskólastigi. Síðan hafi komið sú krafa frá þeim skólum er buðu uppá slíkt nám að sjóðurinn samþykkti líka þá nemendur sem orðnir væru 24 ára gamlir og með samsvarandi reynslu úr atvinnulífinu og hafi sjóðurinn einnig fallist á það. Skólunum hafi verið falið að sjá um að einungis þeir er uppfylltu framangreind skilyrði yrðu innritaðir í námið. Stjórn LÍN hafi svo ákveðið í úthlutunarreglum skólaárið 2006-2007 að árétta þær reglur sem lánshæfi þessa náms byggði á með því að setja sérstakt ákvæði um lánshæfi námsins í grein 1.2.2 og hafi sjóðurinn fylgt þeim reglum síðan. Stjórn LÍN vísar síðan til inntökuskilyrða frumgreinadeilda H.R., Keilis, Bifrastar og Háskólaseturs Vestfjarða en þar sé eftir atvikum krafist starfsnáms, tiltekins aldurs og starfsreynslu eða að viðkomandi nemandi hafi lokið stúdentsprófi en hafi ekki nægjanlegan fjölda eininga í stærðfræði og raungreinum. Vísar stjórn LÍN til þess að ef litið sé til inntökuskilyrða umræddra skóla komi í ljós að kröfur LÍN til nemenda til að þeir teljist lánshæfir í slíku námi séu þær sömu í öllum tilvikum og þar með uppfylli sjóðurinn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga hvað þetta varðar.

Niðurstaða

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 2/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna er hlutverk hans að tryggja þeim er falla undir lögin tækifæri til náms án tillits til efnahags. Veitir sjóðurinn lán til framhaldsnáms við skóla er gera sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og gerðar eru til háskólanáms hérlendis. Samkvæmt 2. gr. laganna er sjóðnum heimilt að veita öðrum námsmönnum lán, en þeim er falla undir skilgreiningu 2. mgr. 1. gr. enda stundi þeir sérnám. Samkvæmt 2. gr. setur stjórn sjóðsins nánari reglur um til hvaða sérnáms skuli lánað. Er hér að mati málskotsnefndar lögð áhersla á að viðmið um lánshæfi náms beri að miða við tegund sérnáms en ekki undirbúning námsmanna. Eins og áður greinir setti stjórn LÍN sérstakar reglur um hverjir hefðu rétt til námsláns á frumgreinadeildum og hefur bent á að það fari saman skilyrði umræddra skóla fyrir inngöngu í slíkt nám og úthlutunarreglur sjóðsins, sbr. grein 1.2.2. en þar segir í 4. mgr.:

"Skilyrði láns vegna náms í frumgreinadeild Háskólans á Bifröst og á frumgreinasviði Háskólans í Reykjavík, frumgreinasviði Háskólaseturs Vestfjarða og háskólabrú Keilis er að námsmaður hafi áður lokið lánshæfu starfsnámi, þ.e. burtfararprófi/sveinsprófi úr skóla, eða hafi jafngilda reynslu úr atvinnulífinu, þ.e. starfsreynslu sem samsvarar fullri atvinnuþátttöku í a.m.k. fimm ár."

Eins og fram kemur í kærunni stundar kærandi nám við frumgreinadeild Háskólans í Reykjavík. Kærandi hefur lokið stúdentsprófi sem er metið til jafns við sveinspróf en skortir undirbúning í raungreinum og stundar því nám á frumgreinastigi til undirbúnings námi í heilbrigðisverkfræði. Verður því ekki séð að þar fari saman skilyrði fyrir inngöngu í sérnám og skilyrði úthlutunarreglna LÍN. Þar sem kærandi stundar nám á frumgreinastigi samkvæmt framansögðu er hann að mati málskotsnefndar að því er varðar rétt til námsláns í sömu stöðu og aðrir þeir námsmenn er stunda nám við frumgreinadeildina. Verður ekki séð að sá greinarmunur sem gerður er á undirbúningsnámi styðjist við málefnleg sjónarmið samkvæmt framansögðu heldur sé í andstöðu við þá menntastefnu stjórnvalda sem LÍN hefur vísað til um að öllum yrði tryggður möguleiki á áframhaldandi námi, hvort sem menn hefðu valið bóknám í framhaldsskóla eða verknám. Sá greinarmunur sem stjórn LÍN hefur gert á kæranda og öðrum þeim námsmönnum er stunda sama nám eftir því hvaða undirbúning viðkomandi námsmenn hafa er þar af leiðandi brot á jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem mælir fyrir um að stjórnvöld skuli gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti við úrlausn mála. Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda er því felldur úr gildi.

Úrskurðarorð

Hinn kærði úrskurður frá 16. september 2010 í máli kæranda er felldur úr gildi.

Til baka