Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-22/2010 - Undanþágur frá afborgun - beiðni um undanþágu frá afborgun

Úrskurður

Ár 2011, miðvikudaginn 16. mars, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-22/2010.

Kæruefni

Með kæru sem barst málskotsnefnd 15. júlí 2010 kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN frá 16. apríl 2010 þar sem beiðni hans um undanþágu frá endurgreiðslu afborgana námslána árin 2007-2009 var hafnað á þeim forsendum að frestur til að sækja um undanþágu til lækkunar eða niðurfellingar námslána umrædd ár væri löngu liðinn. Með bréfi málskotsnefndar til umboðsmanns kæranda dagsettu 22. júlí 2010 var óskað eftir gögnum vegna kærunnar. Sú beiðni var ítrekuð við kæranda með bréfi dagsettu 7. október 2010, þar sem jafnframt var bent á að enginn rökstuðningur hafi fylgt kærunni, annar en að hinn kærði úrskurður væri ekki í anda laga um lánasjóðinn. Með tölvubréfi dagsettu 24. október 2010 kvaðst kærandi ekki ætla að leggja fram frekari gögn með kærunni. Með bréfi dagsettu 25. október 2010 var stjórn LÍN tilkynnt um kæruna og gefinn kostur á að tjá sig um hana. Athugasemdir stjórnar LÍN bárust nefndinni í bréfi dagsettu 1. nóvember 2010 og var kæranda sent afrit bréfsins með bréfi dagsettu 3. nóvember 2010. Kærandi svaraði athugasemdum stjórnar LÍN með tölvubréfi dagsettu 21. nóvember 2010.

Málsatvik og ágreiningsefni

Með bréfi dagsettu 9. apríl 2010 sótti kærandi um undanþágu frá endurgreiðslu námslána árin 2007-2010. Kærandi hafði í desember 2007 sótt um undanþágu frá fastri afborgun 2007, en LÍN synjað umsókninni þar sem umsóknarfrestur samkvæmt gr. 7.4.3. í úthlutunarreglum LÍN hafi verið runninn út. Síðan þá hefur kærandi ekki sótt um undanþágu frá endurgreiðslu fyrr en með erindinu 9. apríl 2010. Því erindi var synjað vegna áranna 2008 og 2009 þar sem áðurnefndur umsóknarfrestur hafi verið runnin út, en kæranda bent á að sækja um undanþágu vegna endurgreiðslu þann 1. mars 2010. Umsókn kæranda þar að lútandi barst lánasjóðnum 27. apríl 2010 og var hún veitt 6. maí 2010. Kærandi byggir kröfur sínar á því að hann sé sjúklingur og vegna lágra tekna hafi ekki átt að gera honum að greiða fastar afborganir námslána. Hann hafi vegna veikinda sinna ekki getað kynnt sér lög og reglur LÍN og ekki haft vitneskju um að 60 daga umsóknarfrestur væri vegna beiðni um undanþágu frá endurgreiðslu. Í framlögðu læknisvottorði dagsettu 9. mars 2010 kemur fram að kærandi hafi átt við erfið veikindi að stríða síðan 2006 og vegna þeirra hafi hann ekki getað rekið erindi sín sem skyldi á árunum 2006-2009. Af hálfu stjórnar LÍN er byggt á því að umsóknarfrestur um undanþágu frá endurgreiðslu 2008-2009 hafi verið löngu liðinn þegar erindi kæranda barst sjóðnum 9. apríl 2010. Umsókn um undanþágu vegna 2007 hafi á sínum tíma verið hafnað af sömu ástæðu. Þá bendir stjórn LÍN á að fram til 12. febrúar 2010 hafi kærandi rekið öll sín erindi sjálf við sjóðinn. Að beiðni málskotsnefndar afhenti stjórn LÍN gögn um samskipti kæranda og sjóðsins frá desember 2006 til apríl 2010. Loks bendir stjórn LÍN á að kærandi hafi gert upp vanskil sín við sjóðinn og þar með komið námlánum sínum í skil. Málskotsnefnd leitaði eftir upplýsingum frá stjórn LÍN um hvernig framkvæmd sambærilegra mála hafi verið háttað hjá sjóðnum. Í svarbréfi sjóðsins kemur fram að stjórn sjóðsins hafi aðeins veitt svigrúm hvað þetta varðar þegar sýnt hafi verið fram á að umsækjandi hafi alls ekki getað sótt um fyrir tilskilinn frest vegna alvarlegra veikinda sem staðfest séu með læknisvottorði. Sem dæmi um slíkt nefnir LÍN ef að umsækjandi eigi við alvarlegan geðrænan sjúkdóm að stríða sem hamli því að viðkomandi geti sinnt sínum persónulegum málum.

Niðurstaða

Samkvæmt ákvæðum 7. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN og grein 7.4.3 í úthlutunarreglum sjóðsins ber að sækja um fresti á endurgreiðslum námslána innan 60 daga frá gjalddaga afborgunar. Með vísan til þess sem að framan er rakið um samskipti kæranda og sjóðsins er ljóst að kærandi hefur ekki gætt þessa lögmælta frests. Hvorki í lögum um LÍN eða í úthlutunarreglum sjóðsins er að finna heimild til að veita undanþágu frá þeim tímamörkum, sem umsóknarfrestur er miðaður við. Stjórn LÍN hefur upplýst að þrátt fyrir það sé hvert mál skoðað sérstaklega og mat lagt á það hverju sinni hvort rök séu fyrir því að veita undanþágu frá umsóknarfresti. Þá hefur einnig verið upplýst af hálfu stjórnar LÍN að á undanförnum fimm skólaárum hafi aðeins einu sinni verið veitt undanþága frá umsóknarfresti og jafnframt hefur verið upplýst hvað hafi legið til grundvallar þeirri niðurstöðu. Gögn málsins bera með sér að þrátt fyrir veikindi hafi kærandi sjálfur rekið umtalsverð erindi við lánasjóðinn frá desember 2006 til apríl 2010. Kærandi getur ekki borið fyrir sig vanþekkingu á reglum LÍN um umsóknarfresti til að fá undanþágu frá þeim. Með vísan til laga 21/1992 um LÍN, úthlutunarreglna sjóðsins svo og upplýsinga stjórnar LÍN um meðferð samskonar mála hjá LÍN svo og meðferð þessa máls verður að fallast á það með stjórn LÍN að lögmæt sjónarmið hafi legið til grundvallar synjunar á beiðni kæranda um undanþágu frá endurgreiðslu námslána árin 2007-2009 og að jafnræðis hafi verið gætt af hálfu LÍN við afgreiðslu málsins. Að þessu virtu er fallist á það með stjórn LÍN að afgreiðsla sjóðsins á erindi kæranda hafi verið í samræmi við lög og reglur sem um sjóðinn gilda. Niðurstaða hins kærða úrskurðar stjórnar LÍN er því staðfest.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 16. apríl 2010 er staðfestur.

Til baka