Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-39/2010 - Ábyrgðarmenn - Beiðni um að þurfa ekki að tilgreina ábyrgðarmann

Úrskurður

 

Ár 2011, miðvikudaginn 16. mars, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-39/2010.

Kæruefni

 

Með kæru dagsettri 16. nóvember 2010 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 16. ágúst 2010, þar sem kæranda var synjað um að þurfa ekki að tilgreina ábyrgðarmann á skuldabréf sín hjá LÍN. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 25. nóvember 2010 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 8. desember 2010 og var afrit þess sent kæranda og honum jafnframt gefinn frestur til að koma að athugasemdum sínum. Athugasemdir kæranda bárust í bréfi dagsettu 29. desember 2010.

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærandi óskaði eftir því við LÍN að útborgun á láni vegna vormisseris 2010 yrði greidd út samkvæmt skuldabréfi án ábyrgðarmanns en áður hafið hann fengið greitt út námslán á skuldabréf með ábyrgðarmanni þar sem hann var á vanskilaskrá. Þegar kom að útgreiðslu láns vegna vormisseris 2010 lá fyrir staðfesting á nauðasamningi kæranda til greiðsluaðlögunar og var kærandi í framhaldi tekinn af vanskilaskrá. Stjórn LÍN hafnaði erindi kæranda með vísun til greinar 5.1.8 í úthlutunarreglum sjóðsins. Kærandi byggir á því að nauðasamningur til greiðsluaðlögunar almennt heyri ekki undir grein 5.8.1 í úthlutunarreglum LÍN. Kærandi telur að greinin eigi ekki við hann og að óheimilt sé að beita henni til synjunar á kröfu um að fá námslán án ábyrgðarmanns í samræmi við meginreglu sjóðsins um ábyrgðarmenn sbr. 1. gr. laga nr. 78/2009. Þá byggir kærandi á því að ef talið sé að beita megi grein 5.1.8 almennt um þá sem fengið hafa nauðasamning til greiðsluaðlögunar þá eigi það ekki við í þessu máli vegna sérstöðu málsins. Bendir kærandi á að í samningi hans sé ekki um neina niðurfellingu námslána að ræða, hvorki eldri lán né framtíðarlán. Einnig byggir kærandi á því að svigrúm sé til undanþágu í greininni en þar komi fram að teljist námsmaður ótryggur lántakandi geti hann sótt um undanþágu frá þessari grein enda sýni hann fram á annað. Kærandi telur ljóst að hann muni “sýna fram á annað” og eigi þar með rétt á undanþágu komi fyrrnefndar málsástæður ekki til greina. Kærandi bendir á að hann hafi ekki beðið um neina undanþágu frá reglum sjóðsins og að nauðasamningur hans um greiðsluaðlögun sé ekki vegna námslána. Kærandi telur að vísun til fyrri framkvæmdar LÍN á synjunum vegna nauðasamninga og þess að sambærileg mál skuli hljóta sambærilega afgreiðslu eigi ekki við ef fyrri afgreiðsla hafi byggst á ólögmætum ákvörðunum. Kærandi telur að miklar kröfur séu gerðar í reglum sjóðsins til beitingar synjunar um lán án ábyrgðarmanna. Umsækjandi þurfi að vera undir gjaldþrotaskiptum eða í stöðu sem sé sambærileg því. Kærandi telur ljóst að þessari reglu verði ekki beitt gagnvart einstaklingum sem hafi fengið endurskipulagningu fjármála sinna, sbr. markmið laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun. Þá telur kærandi að ljóst sé að stjórn LÍN hafi synjað beiðni hans án þess að lagt hafi verið sérstakt mat á aðstæður hans sem sé óheimilt. Stjórn LÍN hafnaði beiðni kæranda með vísan til greinar 5.1.8 í úthlutunarreglum sjóðsins. LÍN bendir á að í júlí 2009 hafi verið gerð breyting á lögum um LÍN nr. 21/1992 varðandi kröfu um ábyrgðarmann. Þar hafi verið gerði sú breyting að námsmönnum sem uppfylltu skilyrði stjórnar LÍN um lánshæfismat yrði ekki gert að leggja fram ábyrgðaryfirlýsingu 3ja aðila. Þeim námsmönnum sem ekki uppfylla lánshæfisskilyrði LÍN yrði gert mögulegt að leggja fram ábyrgðir sem sjóðurinn teldi viðunandi. Stjórn LÍN ákvað á grundvelli þessarar lagabreytingar að gera þá kröfu þegar námsmenn hafi sótt um greiðsluaðlögun eða fengið staðfestan nauðasamning um greiðsluaðlögun eða frjálsa greiðsluaðlögun að þeir leggi fram viðbótarábyrgð. Einnig hafi verið ákveðið að þetta ætti við um þá námsmenn sem fengu samþykkta frystingu námslána til 3 ára samkvæmt sérstakri heimild stjórnarinnar. LÍN vísar til þess að rökin á bak við þessa ákvörðun sé að í báðum tilvikum séu um sérstök greiðsluerfiðleikaúrræði að ræða þar sem forsenda þess að fá slíkt úrræði samþykkt sé að viðkomandi eigi í verulegum fjárhagsörðugleikum. Einnig vísar LÍN til almennra sjónarmiða kröfuréttar um að eðlilegt megi teljast að kalla eftir viðbótarábyrgð þegar um sé að ræða lánveitingar til aðila sem telja megi ótrygga lántakendur og að það sé eðlileg krafa sjóðsins til að tryggja sínar lánveitingar. Þá bendir stjórn LÍN á að krafa um viðbótarábyrgð sé gerð hvort sem um það sé að ræða að námsmaður hafi fengið frystingu námslána hjá sjóðnum eða greiðsluaðlögun. Einnig bendir LÍN á að sú undanþága sem vísað sé til í grein 5.1.8 felist í því ef námsmaður geti sýnt fram á að hann sé ekki ótryggur lántakandi eða að hann leggi fram viðbótarábyrgð. Það sé ekki heimild til að veita undanþágu frá þessu ákvæði. Að mati LÍN hefur kærandi ekki sýnt fram á að hann sé tryggur lántakandi og því sé hann krafinn um viðbótarábyrgð.

Niðurstaða

 

Samkvæmt 5. mgr. 6. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN, sbr. breytingalög nr. 78/2009, skulu námsmenn sem fá lán úr sjóðnum undirrita skuldabréf við lántöku teljist þeir lánshæfir samkvæmt reglum stjórnar sjóðsins. Teljist námsmaður ekki lánshæfur getur hann lagt fram ábyrgðir sem sjóðurinn telur viðunandi. Í 7. mgr. 6. gr. laganna segir að stjórn ákveði hvaða skilyrðum lántakendur og ábyrgðarmenn skuli fullnægja. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 78/2009 kemur eftirfarandi fram:

"... er lögð til sú breyting að samkvæmt meginreglu þurfi námsmaður sem uppfyllir skilyrði stjórnar Lánasjóðsins um lánshæfismat ekki að leggja fram yfirlýsingu annars manns um sjálfskuldarábyrgð. Í þágu námsmanna sem ekki uppfylla lánshæfisskilyrði er hins vegar lagt til að viðhaldið verði þeim möguleika að láta ábyrgðarmann ábyrgjast endurgreiðslur námsláns, leggja fram bankatryggingu eða veðtryggingu í fasteign."

Var þarna gerð breyting á lögunum þannig að meginreglan er nú sú að hver námsmaður skuli vera ábyrgur fyrir endurgreiðslu eigin námsláns að uppfylltum skilyrðum stjórnar Lánasjóðsins um lánshæfi. Í greinargerðinni kemur einnig fram að gengið er út frá því að námsmenn fái almennt námslán nema fyrir liggi upplýsingar sem benda til þess að námsmaður teljist ótraustur lántaki. Er stjórn sjóðsins þá heimilt að synja námsmanni um námslán en námsmaður sem fær slíka synjun kann að eiga möguleika á námsláni gegn tryggingu í formi sjálfskuldarábyrgðar, veðréttar í fasteign eða bankaábyrgð. Í grein 5.1.8 í úthlutunarreglum LÍN er fjallað um skilyrði sem lánþegar þurfa að uppfylla til þess að teljast lánshæfir og er greinin svohljóðandi:

"Skilyrði, sem lánþegar þurfa m.a. að uppfylla, eru að þeir séu ekki í vanskilum við sjóðinn þegar sótt er um nýtt lán og bú þeirra sé ekki til gjaldþrotameðferðar eða að þeir teljist af öðrum ástæðum bersýnilega ótryggir lántakendur. Teljist námsmaður ótryggur lántakandi skv. ofangreindu getur hann sótt um undanþágu frá þessari grein enda sýni hann fram á annað, eða að hann leggi fram aðrar ábyrgðir sem sjóðurinn telur viðunandi, svo sem veð eða sjálfskuldaábyrgð þriðja aðila."

Námsmenn eiga almennt rétt á að fá námslán án ábyrgðar frá þriðja aðila en til þess að það gangi eftir þarf lánþegi m.a. að uppfylla ofangreind skilyrði greinarinnar, þ.e. að vera ekki í vanskilum við sjóðinn þegar sótt er um nýtt lán og að bú hans sé ekki í gjaldþrotameðferð eða að lánþegi teljist af öðrum ástæðum bersýnilega ótryggur lántakandi. Málskotsnefnd telur að í ljósi opins orðalags greinar 5.8.1 og þess að hér er um íþyngjandi ákvörðun að ræða fyrir hvern þann sem ekki fellur undir almennu regluna um að geta fengið námslán sem byggist á eigin lánshæfi þá beri LÍN við mat sitt á því hvort lánþegi uppfylli skilyrði greinar 5.8.1 að kanna mál hvers umsækjanda sérstaklega og byggja ákvörðun sína á þeirri könnun. Nefndin telur að af gögnum málsins sé ljóst að stjórn LÍN hefur ekki kannað aðstæður kæranda sérstaklega áður en stjórn sjóðsins ákvað að unnt væri að beita ákvæðinu í máli kæranda. Vísast í þessu sambandi til þess sem fram kemur í úrskurði stjórnar LÍN frá 16. ágúst 2010 en þar segir m.a.: "Það er mat stjórnar sjóðsins að allir lánþegar sem hafa farið í gegnum greiðsluaðlögun vegna eldri námslánaskulda uppfylli ekki framangreind skilyrði í gr. 5.1.8 og verði að leggja fram ábyrgð sem sjóðurinn telur viðunandi." Er það niðurstaða nefndarinnar að úrskurður stjórnar LÍN sé að þessu leyti ekki í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um rannsóknarskyldu stjórnvalda. Með vísan til framangreinds telur málskotsnefndin rétt að beiðni kæranda verði tekin til meðferðar á ný hjá stjórn LÍN. Er hin kærða niðurstaða í úrskurði stjórnar LÍN frá 16. ágúst 2010 í máli kæranda felld úr gildi.

Úrskurðarorð

 

Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 16. ágúst 2010 er felldur úr gildi.

Til baka