Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-41/2010 - Undanþágur frá afborgun - beiðni um undanþágu frá fastri afborgun

Úrskurður

Ár 2011, miðvikudaginn 16. mars, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-41/2010.

Kæruefni

Með kæru dagsettri 19. nóvember 2010 kærði kærandi búsettur í Bandaríkjunum, úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 17. ágúst 2010, þar sem kæranda var synjað um undanþágu frá fastri afborgun námsláns á árinu 2010. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 26. nóvember 2010 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 8. desember 2010 og var afrit þess sent kæranda og honum jafnframt gefinn frestur til að koma að athugasemdum sínum. Athugasemdir kæranda bárust í bréfi dagsettu 30. desember 2010.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi sótti um undanþágu frá fastri endurgreiðslu námslána fyrir árið 2010 með beiðni dagsettri 16. maí 2010. Með beiðninni voru send læknisvottorð og vottorð um fjárhagslega innkomu kæranda ásamt bréfi móður kæranda. Stjórn LÍN synjað beiðninni í úrskurði þann 17. ágúst 2010. Kærandi byggir kröfur sínar á því að hann sé sjúklingur og vegna veikinda sinna og lágra tekna hafi ekki átt að gera honum að greiða fasta afborgun námslána. Í bréfi móður kæranda dagsett 16. maí 2010 kemur fram að kærandi hafi verið greindur með [geðsjúkdóm] og hafi aldrei getað stundað vinnu. Einnig kemur fram að foreldrar kæranda hafa greitt afborganir af námslánum hans eins lengi og þau gátu en þau geti ekki lengur staðið undir greiðslunum vegna aldurs og lágra tekna. Þá kemur fram í bréfinu að LÍN hafi áður fellt niður afborganir vegna lána kæranda. Í kæru kemur fram af hálfu umboðsmanns kæranda að kærandi hafi ekki séð um sín mál sjálf vegna veikinda í mörg ár. Hann opni m.a. ekki bréf og tilkynningar frá opinberum stofnunum heldur leggi þau til hliðar þar sem hann ráði ekki við að sinna þessum málum. Móðir kæranda, sem einnig sé búsett í Bandaríkjunum, hafi aðstoðað hann á undanförnum árum en treysti sér ekki lengur til þess. Kærandi sé með varanlega greiningu geðsjúkdóms og hann sé á framfæri bandaríska ríkisins og hafi verið í nokkur ár. Af hálfu stjórnar LÍN er byggt á því að umsóknarfrestur um undanþágu frá endurgreiðslu hafi verið liðinn þegar erindi kæranda barst sjóðnum 16. maí 2010. Umsóknarfrestur samkvæmt grein 7.4.3 í úthlutunarreglum LÍN hafi runnið út tveimur vikum áður en erindi kæranda barst sjóðnum. LÍN vísar til greinar 7.4.3 en samkvæmt henni sé óheimilt að veita undanþágu ef ósk um hana berst ekki innan 60 daga frá gjalddaga sem tilgreindir séu í ákvæðinu og af þeim sökum hafi erindi kæranda verið synjað. Málskotsnefnd leitaði eftir upplýsingum frá stjórn LÍN um hvernig framkvæmd sambærilegra mála hafi verið háttað hjá sjóðnum. Í svarbréfi sjóðsins kemur fram að stjórn sjóðsins hafi aðeins veitt svigrúm hvað þetta varðar þegar sýnt hafi verið fram á að umsækjandi hafi alls ekki getað sótt um fyrir tilskilinn frest vegna alvarlegra veikinda sem staðfest séu með læknisvottorði. Sem dæmi um slíkt nefnir LÍN ef að umsækjandi eigi við alvarlegan geðrænan sjúkdóm að stríða sem hamli því að viðkomandi geti sinnt sínum persónulegum málum.

Niðurstaða

Samkvæmt ákvæðum 7. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 og grein 7.4.3 í úthlutunarreglum sjóðsins ber að sækja um fresti á endurgreiðslum námslána innan 60 daga frá gjalddaga afborgunar. Í málinu liggur fyrir að kærandi sótti um frest að liðnum 60 daga frestinum. Hvorki í lögum um LÍN eða í úthlutunarreglum sjóðsins er að finna heimild til að veita undanþágu frá þeim tímamörkum, sem umsóknarfrestur er miðaður við. Stjórn LÍN hefur upplýst að þrátt fyrir það sé hvert mál skoðað sérstaklega og mat lagt á það hverju sinni hvort rök séu fyrir því að veita undanþágu frá umsóknarfresti. Þá hefur einnig verið upplýst af hálfu stjórnar LÍN að sjóðurinn hefur því aðeins veitt svigrúm þegar sýnt er fram á að umsækjandi hefur alls ekki getað sótt um fyrir tilskilinn frest vegna alvarlegra veikinda sem staðfest er með læknisvottorði. Gögn málsins bera með sér að kærandi eigi við alvarlegan geðrænan sjúkdóm að stríða sem setur mark sitt á allt hans líf. Gögnin benda einnig til þess að fjölskylda kæranda hafi þurft að hafa mikil afskipti og eftirlit með málum kæranda á undanförnum árum þar sem kærandi hafi vegna veikinda sinna verið ófær um að sinna þeim. Málskotsnefnd telur að í ljósi þeirra upplýsinga sem liggi fyrir í málinu hafi verið full ástæða fyrir LÍN að afla frekari upplýsinga um raunverulega getu hans til að sjá um sín mál í ljósi sjúkdómsgreiningar hans. Nefndin telur að það hafi ekki verið gert áður en úrskurður stjórnarinnar var kveðinn upp í málinu í ágúst 2010 og að úrskurðurinn sé að þessu leyti ekki í samræmi við 10. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem fjallar um rannsóknarskyldu stjórnvalda. Með vísan til framangreinds telur málskotsnefndin rétt að beiðni kæranda um undanþágu verði tekin til meðferðar á ný hjá stjórn LÍN. Er hin kærða niðurstaða í úrskurði stjórnar LÍN frá 17. ágúst 2010 í máli kæranda felld úr gildi.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 17. ágúst 2010 er felldur úr gildi.

Til baka