Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-38/2010 - Undanþágur frá afborgun - beiðni um undanþágu frá fastri afborgun

Úrskurður

Ár 2011, föstudaginn 1. apríl, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-38/2010.

Kæruefni

Með kæru sem barst málskotsnefnd 16. nóvember 2010 kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN frá 12. ágúst 2010 þar sem beiðni hans um undanþágu frá endurgreiðslu fastrar afborgunar námsláns með gjalddaga 1. mars 2010 var hafnað. Með bréfi dagsettu 25. nóvember 2010 var stjórn LÍN tilkynnt um kæruna og gefinn kostur á að tjá sig um hana. Athugasemdir stjórnar LÍN bárust nefndinni í bréfi dagsettu 6. desember 2010 og var kæranda sent afrit bréfsins með bréfi. Kærandi svaraði athugasemdum stjórnar LÍN með tölvubréfi dagsettu 21. nóvember 2010.

Málsatvik og ágreiningsefni

Með bréfi dagsettu 7. júlí 2010 sótti kærandi um undanþágu frá fastri afborgun námsláns með gjalddaga 1. mars 2010. Ástæða umsóknarinnar var tilgreind vegna: „Þungunar/ fæðingarorlofs/umönnunar veiks barns“. LÍN synjað umsókninni þar sem hún barst ekki fyrr en 8. júlí 2010, en umsóknarfrestur samkvæmt gr. 7.4.3 í úthlutunarreglum LÍN hafi þá verið runninn út rúmum mánuði áður. Kærandi byggir umsókn sína um frestun á afborgun lánsins á því að aðstæður hennar allt frá fyrrihluta árs 2009 hafi verið honum mjög mótlægar m.a. vegna erfiðrar meðgöngu og langveiks barns. Þá hafi hann sjálf átt við erfið veikindi að stríða vegna endurtekinna slysa og þunglyndis. Þessar aðstæður hafi valdið honum verulegum fjárhagserfiðleikum. Hefur kærandi lagt fram vottorð lækna og sálfræðings framangreindu til staðfestu. Af hálfu stjórnar LÍN er byggt á því að þar sem umsóknarfrestur um undanþágu frá endurgreiðslu 1. mars 2010 hafi verið liðinn þegar umsókn kæranda barst sjóðnum 8. júlí 2010 hafi verið óheimilt að veita undanþágu og af þeim ástæðum hafi umsókninni verðið synjað. Málskotsnefnd leitaði eftir upplýsingum frá stjórn LÍN um hvernig framkvæmd sambærilegra mála hafi verið háttað hjá sjóðnum. Í svarbréfi sjóðsins kemur fram að stjórn sjóðsins hafi aðeins veitt svigrúm hvað undanþágu frá umsóknarfresti varðar þegar sýnt hafi verið fram á að umsækjandi hafi alls ekki getað sótt um fyrir tilskilinn frest vegna alvarlegra veikinda sem staðfest séu með læknisvottorði.

Niðurstaða

Samkvæmt 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN og grein 7.4 í úthlutunarreglum sjóðsins er heimilt að veita undaþágu frá árlegri endurgreiðslu námsláns við tilteknar aðstæður er valda fjárhagsörðugleikum hjá námsmanni, svo sem veikindi hans, þungun, umönnum barna o.fl. Kærandi hefur lagt fram gögn sem eindregið benda til þess að skilyrði hafi verið til þess að veita honum undanþágu frá árlegri endurgreiðslu. Á það er hins vegar að líta að samkvæmt ákvæðum 7. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN og grein 7.4.3 í úthlutunarreglum sjóðsins bar kæranda að sækja um frest á endurgreiðslu námsláns innan 60 daga frá gjalddaga afborgunar, sem var 1. mars 2010. Eins og fyrr greinir barst umsókn kæranda ekki fyrr en 8. júlí 2010, rúmum mánuði eftir að frestur til að sækja um undanþágu rann út. Hvorki í lögum um LÍN né í úthlutunarreglum sjóðsins er að finna heimild til að veita undanþágu frá þeim tímamörkum, sem umsóknarfrestur er miðaður við. Stjórn LÍN hefur upplýst að hún hafi aðeins veitt svigrúm hvað þetta varðar þegar sýnt er fram á að umsækjandi hafi alls ekki getað sótt um fyrir tilskilinn frest vegna alvarlegra veikinda, sem staðfest eru með læknisvottorði. Sem dæmi er nefnt ef umsækjandi á við alvarlegan geðsjúkdóm að stríða eða hefur lent í alvarlegu slysi sem hamli því að hann geti sinnt persónulegum erindum. Kærandi hefur ekki sýnt fram á og raunar ekki haldið því fram að aðstæður hennar hafi verið með þeim hætti að hún hafi ekki getað sótt um undanþágu þá 60 daga sem hún hafði til þess. Verður því með vísan til laga 21/1992 um LÍN, úthlutunarreglna sjóðsins svo og upplýsinga stjórnar LÍN um meðferð samskonar mála, að fallast á það með stjórn LÍN að lögmæt sjónarmið hafi legið til grundvallar synjunar á beiðni kæranda um undanþágu frá endurgreiðslu á fastri afborgun. Að þessu virtu er fallist á það með stjórn LÍN að afgreiðsla sjóðsins á erindi kæranda hafi verið í samræmi við lög og reglur sem um sjóðinn gilda og að jafnræðis hafi verið gætt af hálfu LÍN við afgreiðslu málsins. Niðurstaða hins kærða úrskurðar stjórnar LÍN er því staðfest.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 12. ágúst 2010 er staðfestur.

Til baka