Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-01/2011 - Undanþágur frá afborgun - beiðni um undanþágu frá tekjutengdri afborgun

Úrskurður

Ár 2011, fimmtudaginn 5. maí, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-1/2011.

Kæruefni

Með kæru sem barst málskotsnefnd þann 4. janúar 2011 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 18. nóvember 2010 þar sem beiðni kæranda um undanþágu frá tekjutengdri afborgun 2010 var hafnað. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 20. janúar 2011 og jafnframt gefin kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 1. febrúar 2011 og var afrit þess sent kæranda og henni jafnframt gefinn frestur til að koma að athugasemdum sínum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi dagsettu 15. febrúar 2011.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi óskar aðallega eftir undanþágu frá tekjutengdri afborgun 2010, sem nemur um 850.000 krónum, en til vara biður hún um endurútreikning afborgunar vegna þess að útsvarsstofn hans 2009 gefi ekki rétta mynd af fjárhag hans á endurgreiðsluárinu. Kærandi kveðst hafa orðið fyrir mikilli tekjuskerðingu eftir að hún missti vinnu hjá X í júlí 2009. Kærandi hafi þó ekki verið atvinnulaus, en verið í fæðingarorlofi hluta ársins. Tekjuskerðing hans á milli áranna 2009 og 2010 hafi verið um 50%. Kærandi vísar til þess að í 9. gr. reglugerðar um LÍN nr. 602/1997, sem og í ákvæðum 7.4.1 og 7.4.2 í úthlutunarreglum LÍN sé heimild til þess að veita honum i undanþágu frá greiðslu afborgunar þar sem skyndilegar og verulegar breytingar hafi orðið á högum hans, sambærilegar þeim sem greinir í ákvæðunum, og valdið hafa fjárhagserfiðleikum hjá honum óslitið í meira en 12 mánuði fyrir gjalddaga afborgunarinnar. Þá vísar kærandi til þess að í úthlutunarreglum LÍN 2008-2009 hafi verið veitt tímabundin heimild til undanþágu frá tekjutengdri afborgun ef tekjur lánþega höfðu skerst um 20% á milli ára. Telur kærandi að stjórn LÍN hafi borið að túlka gildandi ákvæði um heimild til undanþágu með sama hætti, að öðru kosti sé brotin jafnræðisregla á honum þar sem erindi hans fengi þá ekki sömu afgreiðslu og þeirra sem sóttu um undanþágu á árinu 2009. Kærandi óskar eftir því til vara að fái hann ekki undanþágu frá greiðslu tekjutengdrar afborgunar verði hún endurreiknuð þar sem útsvarsstofn hans 2009 gefi ekki rétta mynd af fjárhag hans á endurgreiðsluári. Útsvarsstofn hans hafi verið 18.493.891 krónur, en þar af hafi raunverulegar tekjur hans numið 11.493.831 krónum. Mismunurinn felist í því að honum séu færðar til tekna 7.447.296 krónur, sem sé vegna láns sem hann fékk á árinu 2006 hjá fyrrum vinnuveitanda, fyrirtækinuY, en var afskrifað á árinu 2009 og hafi félagið greitt staðgreiðslu hennar vegna afskriftarinnar. Í athugasemdum stjórnar LÍN kemur fram að kærandi hafi upphaflega sótt um undanþágu frá frá tekjutengdri afborgun hinn 1. september 2010 á grundvelli undanþáguheimildar ákvæðis 7.4.1 í úthlutunarreglum LÍN vegna umönnunar barns í fæðingarorlofi. Umsókn hans hafi verið hafnað þar sem hann hafi ekki uppfyllt skilyrði ákvæðisins þar sem ekki var um að ræða fæðingarorlof fjóra mánuði fyrir gjalddaga afborgunar heldur launaða vinnu. Á hinn bóginn hafi kærandi fengið undanþágu frá fastri afborgun hinn 1. mars 2010 vegna umönnunar barns í fæðingarorlofi. Í úrskurði stjórnar LÍN vegna beiðni kæranda um undanþágu vegna tekjuskerðingar og greiðsluerfiðleika er vísað til þess að undanþáguheimildin í 9. gr. reglugerðar um LÍN, sem eigi sér stoð í 6. mgr. 8. gr. laga um LÍN, byggi á því að mjög ríkar ástæður þurfi að vera fyrir hendi, svo sem alvarleg veikindi eða slys, til þess að veita megi undaþágu frá afborgun. Hafi stjórn LÍN talið að af lögskýringargögnum megi ráða að skýra beri heimildina til undanþágu þröngt. Hvað beiðni kæranda varðar um endurreikning afborgunar þar sem útsvarstofn hennar gefi ekki rétta mynda af fjárhag hans telur stjórn LÍN að skýrt sé kveðið á um það í 10. gr. laga um LÍN að tekjutengd afborgun taki mið af útsvarsstofni og ekki sé í lögunum heimild að miða við annan tekjustofn. Þá telur stjórn LÍN það fyllilega standast jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar að veita ekki svokallaða tekjufallsundanþágu vegna bankahrunsins frá tekjutengdri afborgun 2010 líkt og gert hafi verið árið 2009. Um hafi verið að ræða sértæka aðgerð fyrir þá sem á skyndilegan og ófyrirséðan hátt urðu fyrir verulegu tekjufalli á milli áranna 2008 og 2009 vegna bankahrunsins. Á grundvelli upplýsinga Seðlabanka Íslands um tekjuaukningu landsmanna á milli áranna 2009 og 2010 hafi stjórn LÍN ekki talið réttmætt að grípa til almennra aðgerða eins og gripið var til á milli áranna 2008 og 2009.

Niðurstaða

Í 8. gr. laga um LÍN kemur fram að árleg endurgreiðsla námslána LÍN ákvarðist í tvennu lagi, annars vegar föst greiðsla sem innheimt er á fyrri hluta ársins, óháð tekjum, hins vegar viðbótargreiðsla sem innheimt er á síðari hluta ársins og ákvarðast ákveðinn hundraðshluti af tekjustofni ársins á undan. Í 10. gr. laganna segir að með tekjustofni sé átt við útsvarsstofn lánþega að viðbættum fjármagnstekjum samkvæmt C-lið 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekju og eignaskatt. Samkvæmt 6. mgr. 8. gr. laga um LÍN er stjórn sjóðsins heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu námslána að hluta eða öllu leyti ef skyndilegar og verulegar breytingar verða á högum skuldara. Ákvæðið er svohljóðandi: Stjórn sjóðsins er heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu skv. 1. mgr., að hluta eða öllu leyti, ef skyndilegar og verulegar breytingar verða á högum skuldara, t.d. ef hann veikist alvarlega eða verður fyrir slysi er skerðir til muna ráðstöfunarfé hans og möguleika til að afla tekna. Stjórn sjóðsins er enn fremur heimilt að veita undanþágu frá ársgreiðslu skv. 1. mgr. ef nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega eða fjölskyldu hans. Ákvæði 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 var óbreytt frá lögum nr. 72/1982. Í greinargerð með lögunum frá 1982 segir um þetta ákvæði: Stjórn Lánasjóðs er veitt heimild til þess að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu. Mjög ríkar ástæður verða að vera fyrir hendi, svo sem alvarleg veikindi eða slys, til þess að veita megi undanþágu frá hlutfallsgreiðslunni. Hins vegar er heimild til undanþágu frá föstu greiðslunni mun rýmri, þótt ófrávíkjanlegt skilyrði sé að tilteknar ástæður valdi "verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega eða fjölskyldu hans". Undanþágu má veita að hluta eða öllu leyti, allt eftir atvikum hverju sinni. Sé undanþága veitt frestar það einungis hlutaðeigandi greiðslu en kemur ekki í veg fyrir að lán greiðist að fullu til baka. .........." Af framansögðu er ljóst að samkvæmt lögskýringargögnum ber að túlka framangreint undanþáguákvæði þröngt og þurfa fjárhagserfiðleikar lántaka að vera verulegir og fyrir þeim ríkar ástæður, s.s. alvarleg veikindi eða slys. Ákvæði sambærilegt við 6. mgr. 8 gr. laga um LÍN er að finna í úthlutunarreglum sjóðsins, en þar tekið fram að ástæður sem valda örðugleikunum hafi að jafnaði þurft að vara í a.m.k. fjóra mánuði fyrir gjalddaga afborgunar.

Í 9. gr. reglugerðar um LÍN nr. 602/1997, sem kærandi vísar til, er svohljóðandi ákvæði: Nú gefur útsvarsstofn vegna tekna á fyrra ári ekki rétta mynd af fjárhag lánþega á endurgreiðsluári, vegna skyndilegra og verulegra breytinga sem hafa orðið á högum hans milli ára, t.d. ef hann veikist alvarlega eða verður fyrir slysi er skerðir til muna ráðstöfunarfé hans og möguleika til að afla tekna. Ef lánþegi gerir skriflega grein fyrir þessum breyttu högum sínum og styður hana tilskildum gögnum, er sjóðsstjórn heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu, ýmist til lækkunar eða niðurfellingar á greiðslum, eftir atvikum. Þetta reglugerðarákvæði, sem er sett samkvæmt 16. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN, setur þröng skilyrði fyrir undanþágu og tilgreinir sérstaklega ástæður er varða veikindi og slys og skerða möguleika lántaka til tekjuöflunar. Samskonar undanþáguákvæði er að finna í úthlutunarreglum LÍN grein 7.4.1. Tekjustofn kæranda á árinu 2009 var 18.941.127 krónur, en þar af voru henni færðar 7.447.296 krónur til tekna vegna lánsafskriftar, eins og áður greinir. Launatekjur kæranda á árinu 2009 námu því 11.493.831 krónum. Samkvæmt staðgreiðsluyfirliti 2010 námu tekjur kæranda fyrstu níu mánuði ársins samtals 3.716.167 krónum, eða að meðaltali 412.904 krónum á mánuði. Þótt þannig hafi sannarlega orðið veruleg tekjuskerðing hjá kæranda á milli áranna 2009 og 2010 er hann ekki af þeim ástæðum sem framangreind undanþáguákvæði fjalla um og gera að skilyrði fyrir undanþágu, að alvarleg veikindi, slys eða sambærilegar ástæður skerði ráðstöfunarfé lántaka eða möguleika hans til tekjuöflunar. Þá verður ekki framhjá því litið að tekjur kæranda 2009 voru mjög háar og þrátt fyrir tekjuskerðingu 2010 voru laun hans umtalsverð á því ári. Verður því ekki fallist á að fyrir hendi séu skilyrði undanþágu vegna tekjuskerðingar eða verulegra fjárhagsörðugleika hjá lánþega. Kærandi fer fram á það til vara að hin tekjutengda afborgun hans verði endurreiknuð þar sem útsvarsstofn hans 2009 gefi ekki rétta mynd af fjárhag hennar á endurgreiðsluári. Í 8. gr. laga um LÍN segir að tekjutengda afborgunin (viðbótargreiðslan) ákvarðist ákveðinn hundraðshluti af tekjustofni ársins á undan. Í 10. gr. laga um LÍN segir að með tekjustofni sé átt við útsvarsstofn lánþega að viðbættum fjármagnstekjum samkvæmt C-lið 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekju og eignaskatt. Í 21. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 kemur fram að útsvarsstofn skuli vera hinn sami og tekjuskattsstofn, sbr. 61. gr. laga nr. 90/2003 um tekju og eignaskatt, en tekjuskattstofn er sú fjárhæð sem skattur er reiknaður af. Ekki er annað komið fram en að tekjuskattstofn kæranda á árinu 2009 hafi verið réttilega ákvarðaður og verður við það að miða. Þar sem í lögum nr. 21/1992 um LÍN er lögbundið að ákveða skuli tekjutengda afborgun sem hlutfall af tekjuskattsstofni ársins á undan og þar sem það er niðurstaða málskotsnefndar að kærandi uppfylli ekki skilyrði til undanþágu frá tekjutengdri afborgun 2010 vegna tekjuskerðingar verður ekki fallist á að kærandi eigi rétt á endurreikningi afborgunar miðað við annan og lægri tekjuskattstofn. Ekki er fallist á þá röksemd kæranda að brotin sé á honum jafnræðisregla stjórnsýsluréttar með því að gefa honum ekki kost á lækkun eða niðurfellingu afborgunar á grundvelli úrræða sem gripið var til 2009 og áður hefur verið gerð grein fyrir. Um var að ræða tímabundið úrræði fyrir þá sem urðu fyrir verulegu tekjufalli á milli áranna 2008 og 2009 vegna bankahrunsins. Hvorki kærandi né aðrir lánþegar gátu vænst þess að þessa að njóta þessa sértæka úrræðis eftirleiðis. Situr kærandi við sama borð og aðrir lánþegar hvað það varðar. Að þessu virtu er fallist á það með stjórn LÍN að afgreiðsla sjóðsins á erindi kæranda hafi verið í samræmi við lög og reglur sem um sjóðinn gilda. Niðurstaða hins kærða úrskurðar stjórnar LÍN er því staðfest.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 18. nóvember 2010 er staðfestur.

Til baka