Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-02/2011 - Lánshæfi - loknar einingar ekki í sama ferli

Úrskurður

Ár 2011, fimmtudaginn 5. maí, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-2/2011:

Kæruefni

Með kæru dagsettri 6. janúar 2011 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna frá 21. október 2010, þar sem hafnað var beiðni hans um að stjórn LÍN samþykkti umsókn hans um námslán vegna náms hans við verkfræðideild Háskóla Íslands. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 20. janúar 2011 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN komu fram í bréfi dagsettu 3. febrúar 2011 og var afrit þess sent kæranda með bréfi dagsettu 8. febrúar s.á. en þar var kæranda jafnframt veittur frestur til 15. febrúar til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi stundar BS-nám í umhverfis – og byggingarverkfræði við Verkfræði og - náttúruvísindasvið HÍ. Hann átti ólokið 6 ETCS einingum á haustmisseri og 12 einingum á vormisseri 2011 til að ljúka BS-gráðu. Á haustmisseri 2010 tók hann jafnframt 13,5 ECTS einingar á meistarastigi og ætlaði því að taka samtals 19, 5 einingar á því misseri. Kærandi sótti um námslán vegna námsins við HÍ fyrir námsárið 2010-2011 en fékk ekki lán á haustmisseri 2010 þar sem ETCS einingar sem hann hugðist taka voru ekki á námsferlum er stefndu að sameiginlegri námsgráðu. Kærandi bar mál sitt undir stjórn LÍN en var synjað með úrskurði dagsettum 22. október 2010 á þeim forsendum að hann uppfyllti ekki skilyrði greinar 2.2 í úthlutunarreglum LÍN um að þeir tveir námsferlar sem hann stundaði nám í skyldu leiða til sameiginlegrar námsgráðu. Með kæru þann 6. janúar 2011 kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN til málskotsnefndar. Í kærunni kemur fram að kærandi stundar BS-nám í umhverfis- og byggingarverkfræði við Háskóla Íslands. Kærandi kveðst blanda saman BS - og meistaragráðum til að flýta fyrir útskrift. LÍN hafi hins vegar synjað honum um námslán út á allar einingarnar þar sem þær stefndu ekki að sameiginlegri námsgráðu. Vísar kærandi til 1. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1992 um lánasjóð íslenskra námsmanna um að hlutverks sjóðsins sé að tryggja öllum þeim er undir lögin falli jafnrétti til náms. Í bréfi Verkfræði - og náttúruvísindasviðs sem fylgir með kærunni kemur fram að einingar sem kærandi taki á meistarastigi meðfram því sem hann ljúki BS- námi sínu lendi tímabundið í BS-ferlinum er hafi ekki verið taldar með hjá LÍN. Segir ennfremur að kærandi hafi lagt inn umsókn um meistaranám við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild HÍ og að hann hyggist halda rakleitt áfram eftir BS-próf. Umframeiningar sem kærandi fái meðan á BS námi standi muni nýtast að fullu og verði fluttar á meistaraferilinn þegar hann hafi verið opnaður. Tekið er fram að í skráningarkerfi HÍ sé ekki hægt að hafa nema einn feril opinn í einu. Einnig kom fram í bréfi HÍ eftirfarandi varðandi námið: "Verkfræðideildir hafa litið á verkfræði sem fimm ára nám enda fáist ekki starfsréttindi fyrr en með meistaraprófinu. Deildirnar setja ekki skörp skil á milli BS- og meistarastigs þótt námsstigin séu skýrt aðgreind í skráningarkerfi Háskólans. Svo framarlega sem forkröfum er fullnægt hafa nemendur á þriðja ári í verkfræði fengið að taka námskeið sem formlega tilheyra fjórða námsári, það er meistarastigi, með sama hætti og nemendur á öðru námsári fá að taka námskeið sem tilheyra þriðja ári. Markmið allra, sem byrja í verkfræðinámi, er að fá starfsheitið verkfræðingur og til þess þurfa þeir að ljúka 300 eininga námi. Allar einingarnar, sem [kærandi] hefur lokið, ganga upp í þennan 300 eininga námsferil." Í greinargerð LÍN dagsettri 3. febrúar 2011 er tekið fram að kærandi hafi óskað þess að fá námslán á námsárinu 2010-2011 vegna eininga er hann tæki í BS-og meistaranámi í verkfræði. Ætti hann eftir að ljúka 6 ETSC einingum á haustmisseri og 12 ETCS einingum á vormisseri til þess að geta útskrifast í BS náminu. HÍ hafi samþykkt að hann fengi að hefja meistaranám haustið 2010 og ætlaði hann sér að taka 19,5 einingar á haustönn 2010 og 18 einingar á vorönn 2011. Vísaði LÍN til greinar 2.2 í úthlutunarreglunum fyrir námsárið 2010-2011 þar sem komi fram að námsmaður þurfi „að ljúka að lágmarki 18 ECTS-einingum eða ígildi þeirra á hverju misseri í einum eða fleiri námsferlum til að eiga rétt á námsláni, leiði þeir til sameiginlegrar gráðu, t.d. bachelor- gráðu.“ Þetta þýði að mati LÍN að námsmaður geti tekið tvær BS-gráður á sama tíma en að ekki sé litið svo á að BS- og meistaragráða sé ein og sama gráðan, enda sé inntökuskilyrði í meistaranám að viðkomandi hafi tekið BS-gráðu. Einnig er tekið fram í svarbréfi LÍN að kærandi hafi þegar fengið lán fyrir 170 einingum vegna BS námsins og eigi því aðeins eftir möguleika á að fá lánað vegna 10 eininga til viðbótar enda sé námið 180 einingar. Vísar LÍN til þess að í bréfi HÍ er fylgdi með kærunni sé tekið fram að ekki sé hægt að hafa nema einn feril opinn í einu. Muni HÍ þar af leiðandi ekki getað skráð einingar er kærandi taki í meistaranáminu inn í skráningarkerfi HÍ fyrr en hann hafi lokið BS-náminu. Svo virðist sem að HÍ sé að veita kæranda heimild umfram það sem eðlilegt sé talið enda komi fram á heimasíðu HÍ að inntökuskilyrði í MS nám í umhverfis – og byggingarverkfræði sé m.a. "viðurkennt BS próf eða sambærilegt í verkfræði, tölvunarfræði eða raunvísindum." Vísar LÍN einnig til þess að fyrir nokkrum árum hafi verið unnið að því hjá nemendaskrá að koma í veg fyrir að nemendur í BS-námi gætu tekið kúrsa í meistaranámi áður en þeir lykju við BS-nám. Miðað við þetta og að skráningarkerfi HÍ leyfi ekki nemendum sínum að blanda þessum gráðum saman telji stjórn LÍN að sýnt sé fram á að ekki sé um sameiginlegar gráður að ræða.

Niðurstaða

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 2/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna er hlutverk hans að tryggja þeim er falla undir lögin tækifæri til náms án tillits til efnahags. Nánar er kveðið á um skilyrði fyrir veitingu námslána í 6. gr. laganna er þar segir í 1. málsgrein að námslán skuli "aldrei veitt fyrr en námsmaður hefur skilað vottorði um tilskilda skólasókn og námsárangur." Ennfremur segir í 3. mgr. 3. gr. að námslán skuli “ekki veitt nema námsframvinda sé með eðlilegum hætti”, sbr. úthlutunarreglur sjóðsins, grein 2.2 en þar segir : "Námsmaður þarf að ljúka að lágmarki 18 ECTS-einingum eða ígildi þeirra á hverju misseri í einum eða fleiri námsferlum til að eiga rétt á námsláni, leiði þeir til sameiginlegrar gráðu, t.d. bachelor-gráðu." Eins og fram kemur í kærunni er kærandi á þriðja ári í BS-námi í umhverfis- og byggingarverkfræði við Háskóla Íslands. Kærandi á nokkrar einingar eftir til þess að ljúka 180 ECTS eininga BS-gráðu og hefur því fengið heimild hjá háskólanum til að flýta fyrir sér í námi með því að taka samhliða einingar á meistarastigi í sama fagi við háskólann. Tekur kærandi samtals 19,5 einingar á haustönn 2010 og 18 einingar á vorönn 2011. Er hann hefur lokið samtals 300 einingum öðlast hann rétt til að fá starfsheitið verkfræðingur sem er lögverndað starfsheiti. Málskotsnefnd tekur fram að ekki verður betur séð en að þau almennu skilyrði fyrir námsláni sem koma fram í grein 2.2 í úthlutunarreglum LÍN um að einingar þurfi að stefna að sameiginlegri námsgráðu styðjist við lögmæt sjónarmið, þ.e. að tryggja sem best að þeir fjármunir sem veitt er til námsmanna sé í reynd varið til þess að þeir öðlist menntun er tryggi þeim tiltekna prófgráðu að námi loknu. Hefur LÍN í þessu skyni bundið rétt til námsláns við að uppfyllt eru við skilyrði sem gerð eru í skráningarkerfi viðkomandi háskóla um einingar er stefni að prófgráðu. Í tilviki kæranda telur málskotsnefnd þó rétt að huga að þeim sérstöku aðstæðum sem eru fyrir hendi, þ.e. um er að ræða meistaranám og BS-nám er sameiginlega stefna að tilteknum starfsréttindum að loknum meistaranáminu. Þannig kemur fram í bréfi HÍ að litið er svo á að verkfræði sé fimm ára nám enda fáist ekki starfsréttindi fyrr en með meistaraprófinu og að í HÍ sé ekki litið svo á að skörp skil séu á milli BS- og meistarastigs þótt námsstigin séu skýrt aðgreind í skráningarkerfi skólans. Einnig hefur HÍ veitt undanþágur frá aðgreiningu BS- og meistaranáms með því að leyfa nemendum að taka einingar á næsta námsári á undan. Samkvæmt gögnum málsins er námsframvinda kæranda á skólaárinu 2010-2011 með eðlilegum hætti eins og áskilið er í 6. grein laga nr. 2/1992. Sú BS-gráða og meistaragráða er kærandi leggur stund á stefna að sama marki, þ.e. að kærandi fái starfsheitið „verkfræðingur“ sem er lögverndað starfsheiti, sbr. lög nr. 8/1996 um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni og hönnunargreinum og auglýsingu nr. 845/1999 um mat á umsóknum um leyfi til að kalla sig verkfræðing. Í auglýsingunni kemur fram að á Íslandi sé nægjanlegt að hafa MS próf í verkfræði frá háskóla eða tækniháskóla til þess að mega kalla sig verkfræðing. Fram kemur í gögnum málsins að þrátt fyrir að formlega séð séu námsferlarnir tveir aðskildir í skráningarkerfi háskólans hafi kærandi eigi að síður fengið heimild skólans til þess að blanda saman þessum tveimur námsferlum þar sem námsferlarnir stefna að sömu starfsréttindum. Þegar svo háttar til að háskóli hefur heimilað kæranda að stunda nám sitt með þessum hætti verður ekki betur séð en að sambærileg sjónarmið eigi við í máli kæranda og þau er liggja til grundvallar skilyrðum í grein 2.2. í úthlutunarreglum LÍN. Slík sjónarmið eru til þess fallin að auka hagkvæmni hjá nemendum, viðkomandi háskóla og þjóðfélaginu í heild með því að auðvelda nemendum að flýta fyrir sér í námi. Samkvæmt framansögðu hefur háskólinn í máli kæranda ekki gert fortakslausa kröfu um aðskilnað námsbrauta heldur einmitt heimilað honum að stunda nám á meistarastigi sem saman með BS-náminu veitir kæranda rétt til að kalla sig verkfræðing sem er lögverndað starfsheiti. Allar einingar er kærandi lýkur ganga upp í 300 eininga námsferil verkfræðings. Þegar svo háttar telur málskotsnefnd að ákvörðun LÍN, er þrátt fyrir framangreint byggir á að um formlega aðskildar námsbrautir sé að ræða er leiði ekki til sameiginlegrar gráðu, gangi þvert á markmið greinar 2.2 í úthlutunarreglunum sem og 1. gr. laga nr. 2/1992 og þrengi um of réttindi kæranda til námsláns miðað við aðra námsmenn sem eru í sambærilegri stöðu og feli þannig í sér brot á reglum stjórnsýslulaga um meðalhóf og jafnræði. Er úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda því felldur úr gildi.

Úrskurðarorð

Hinn kærði úrskurður frá 21. október 2010 í máli kæranda er felldur úr gildi.

Til baka