Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-40/2010 - Niðurfelling ábyrgðar - beiðni um niðurfellingu ábyrgðar

Úrskurður

Ár 2011, mánudaginn 9. maí, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-40/2010.

Kæruefni

Með kæru, dagsettri 16. nóvember 2010, kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 17. ágúst 2010 þar sem synjað var kröfu kæranda um að viðurkennt yrði að ábyrgð hans, samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingu, dagsettri 22. ágúst 1985, á V-láni lánþega dagsettu 16. september 1985, væri niður fallin. Gerir kærandi þær kröfur fyrir nefndinni að hinn kærði úrskurður verði úr gildi felldur og jafnframt að viðurkennt verði að ábyrgð hans samkvæmt yfirlýsingu 22. ágúst 1985 á láni lánþega dagsettu 16. september 1985, sé niður fallin. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dags. 25. nóvember 2010 og var jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 10. desember 2010 og var afrit þess sent kæranda og honum gefinn frestur til að koma að athugasemdum sínum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi dagsettu 14. janúar 2011. Með bréfi, dagsettu 26. janúar s.á. óskaði málskotsnefndin eftir frekari gögnum í málinu frá LÍN. Bárust þau gögn með bréfi dagsettu 26. janúar. 2011. Bárust nefndinni úthlutnarreglur LÍN frá árunum 1985 til 1986. Jafnframt bréf til lánþega dagsett 29. október 2004 og 19. desember 2005 þar sem vísað er til umfjöllunar stjórnar LÍN um málefni lánþega á fundum hennar þann 28. október 2004 og 17. október 2005. Upplýst var af hálfu LÍN að á árunum 1992 til 1995 hafi verið veittar undanþágur frá afborgun á þeim forsendum að lánþegi hafi stundað lánshæft nám, doktorsnám. Á þeim tíma hafi námsmenn sjálfkrafa fengið undanþágu ef þeir voru á námslánum hjá sjóðnum. Upplýst var að núverandi upplýsingakerfi LÍN nái ekki svo langt aftur í tímann og því væri ekki hægt að staðfesta þá afgreiðslu með útprentun úr kerfum sjóðsins. Afrit gagnanna voru send kæranda með bréfi dagsettu 20. apríl 2011. Með bréfi dagsettu 5. maí 2011 sendi kærandi athugasemdir vegna bréfs LÍN frá 26. janúar 2011 ásamt fylgiskjölum þess. Vegna tengsla sinna við kæranda málsins sagði Helgi Birgisson hrl. sig frá málinu og tók Ingimar Ingimarsson hrl., varamaður hans sæti í nefndinni í máli þessu.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi undirritaði ásamt öðrum ábyrgðarmanni þann 22. ágúst 1985 ábyrgðaryfirlýsingu vegna endurnýjunar námslána lánþega. Lánþeginn hafði tekið námslánin í gildistíð laga um námslán og námsstyrki nr. 57/1976. Í ábyrgðaryfirlýsingunni kemur fram að lánið sé veitt til endurnýjunar lána til greiðslu á kostnaði á námstíma skv. 3. mgr. 7. gr. laga nr. 57/1976. Í texta ábyrgðaryfirlýsingarinnar segir orðrétt: "Lán er að fullu greitt þegar höfuðstóll er að fullu greiddur, eða greiddar hafa verið afborganir í 20 ár. Sé lán þá eigi að fullu greitt falla eftirstöðvar þess ásamt verðbótum niður." Í texta ábyrgðaryfirlýsingarinnar er einnig að finna svofelldan texta: "Séu árlegar afborganir ekki inntar af hendi á réttum tíma telst öll skuldin ásamt verðbótum gjaldfallin og er innheimt á kostnað lántaka, nema sérstakar ástæður valdi að mati sjóðstjórnar, sem getur þá samið um greiðslufrest." Lánþeginn afhenti LÍN ábyrgðaryfirlýsinguna sem í framhaldinu, eða þann 4. september 1985, gaf út skuldabréf vegna endurnýjunar námslána. Í texta skuldabréfsins er að finna sama texta og í ábyrgðaryfirlýsingunni varðandi tímalengd endurgreiðslna, gjaldfellingu og greiðslufrest. Fyrsti gjalddaginn samkvæmt skuldabréfinu var 1. júlí 1986. Í lok árs 2009 hófst innheimta gagnvart kæranda vegna vangoldinna afborgana af láninu á árunum 2008 og 2009. Með bréfi kæranda dagsettu 18. janúar 2010 til LÍN óskaði hann eftir skriflegum skýringum á því hvers vegna kröfum væri beint að honum og hinum ábyrgðarmanninum en hann teldi að ábyrgð þeirra væri niður fallin. Í bréfi LÍN til kæranda dagsettu 27. janúar 2010 kemur fram að lánþegi hafi fengið undanþágu frá afborgunum á árunum 1991 til 1995 og greitt af R-láni á árunum 1996 til 2002. Samkvæmt gildandi úthlutunarreglum þá hafi undanþága ekki áhrif á fjölda endurgreiðsluára, þ.e. endurgreiðslutíminn lengist sem nemi undanþágutímanum. Þá segi í úthlutunarreglum að ef lánþegi skuldi R-lán jafnhliða V-láni þá skuli fyrst greiða upp R-lán. Samkvæmt þessu væri búið að greiða af V-láninu í 12 ár og því eigi eftir að greiða af láninu í 8 ár til viðbótar. Með bréfi kæranda til LÍN dagsettu 6. apríl 2010 áréttaði hann þá afstöðu sína að hann teldi að skyldur hans sem og hins ábyrgðarmannsins á láninu væru niður fallnar. Þeir hafi undirgengist ábyrgð á láni, sem greiðast skyldi á 20 árum með tveimur árlegum afborgunum. Greiðslu afborgana hafi átt að ljúka á árinu 2005 en þá hafi verið liðin 20 ár frá því að greiðslur hófust. Óskaði kærandi eftir því að innheimta gagnvart honum yrði felld niður og honum ásamt hinum ábyrgðarmanninum yrði tilkynnt um það. Var þessu hafnað af hálfu LÍN í bréfi dagsettu 28. apríl 2010. Kærandi skaut málinu til stjórnar LÍN þann 14. júlí 2010. Með úrskurði stjórnar LÍN dagsettum 17. ágúst 2010 var erindi kæranda synjað. Kærandi byggir kröfu sína um ógildingu úrskurðar stjórnar LÍN og viðurkenningu á því að ábyrgð hans sé fallin niður í fyrsta lagi á því, að í úrskurðinum hafi ekki verið tekin afstaða til þeirrar röksemdar að 2. mgr. 6. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn banni lánveitanda að breyta skilmálum láns ábyrgðarmanni í óhag. Þetta ákvæði laganna gildi afturvirkt. Þar sem ekkert hafi verið um þetta fjallað í úrskurði stjórnar LÍN leiði það til þess að fella beri úr gildi úrskurð stjórnar. Kærandi byggir efnislega á því, að samkvæmt texta skuldabréfsins og ábyrgðaryfirlýsingarinnar hafi síðasta afborgun af láni því sem hann ábyrgðist átt að vera 1. nóvember 2005. Kærandi byggir á því að þegar hann hafi undirritað ábyrgðina hafi hann haft fyrir framan sig yfirlýsingu þar sem sagði að hann væri að undirgangast ábyrgð á láni, sem félli niður þegar höfuðstóll yrði að fullu greiddur eða greiddar hefðu verið afborganir í 20 ár. Þetta hafi verið þeir skilmálar sem ábyrgðaryfirlýsing hans hafi grundvallast á. Samkvæmt skýrum orðum skuldabréfsins og ábyrgðaryfirlýsingarinnar hafi það, sem þá kynni að vera ógreitt af láninu og verðbótum, að falla niður. Kærandi hafi af og til fengið innheimtubréf frá LÍN vegna lánsins og stundum frá lögfræðingi. Hann hafi ekki skeytt því miklu og kröfunum hafi ekki verið haldið til streitu gagnvart honum. Hann telji sig því hafa haft réttmæta ástæðu til að ætla að lánþegi hafi um síðir greitt afborganir og verðbætur, auk dráttarvaxta og kostnaðar. Kærandi byggir á því að samkvæmt lögum um ábyrgðarmenn nr. 32/2009 sé mælt fyrir um það í 2. mgr. 6. gr. að lánveitandi geti ekki einhliða breytt skilmálum ábyrgðarsamnings, þ.m.t. lánasamnings, ábyrgðarmanni í óhag. LÍN hafi veitt lánþega greiðslufresti, fellt niður eða frestað afborgunum án þess að veita kæranda eða hinum ábyrgðarmanninum kost á því að neyta andmælaréttar um þá ákvörðun. Með þessu hafi LÍN breytt skilmálum skuldabréfsins og þar með ábyrgðaryfirlýsingarinnar þannig að ábyrgð kæranda sé í fullu gildi þótt liðin séu fimm ár frá því að skuldin hafi átt að falla niður samkvæmt skýrum texta skilmálanna. Kærandi telur þetta vera óheimila breytingu á skilmálum lánsins. Kærandi bendir á að í úrskurði stjórnar LÍN sé á því byggt að þetta sé heimilt og það rökstutt með vísan til texta skuldabréfsins og ábyrgðaryfirlýsingarinnar þar sem tilgreint sé að sjóðsstjórn geti samið um greiðslufrest. Kærandi telur ákvæðið ekki veita stjórn LÍN heimild til þess að fresta afborgunum sem ekki séu komnar á gjalddaga, jafnvel um fleiri ár. Þetta hafi stjórn sjóðsins gert, án þess að láta ábyrgðarmenn vita um það. Þá byggi úrskurður stjórnar LÍN á úthlutunarreglum sem hafi komið til löngu eftir að kærandi hafi undirritað ábyrgðaryfirlýsinguna. Það sama eigi við um tilvísun til lagaheimilda. Kærandi bendir á að ef skilningur stjórnar LÍN yrði viðurkenndur, þá fæli það í sér að stjórn LÍN hefði það í hendi sér að lengja greiðslutíma láns um t.d. 20 ár, 40 ár eða lengri eða skemmri tíma. Verði afstaða stjórnar viðurkennd, þá séu engar takmarkanir á því hversu mikið hún geti lengt greiðslutíma láns, án þess að gefa ábyrgðarmönnum kost á því að tjá sig um þá ákvörðun. Það geti ekki verið réttur skilningur þar sem það hafi í för með sér verulega breytingu á skilmálum ábyrgðarinnar, sem engin lagastoð sé fyrir. Þá byggir kærandi á því að í skuldabréfinu og ábyrgðaryfirlýsingunni sé gert ráð fyrir að unnt sé að greiða lánið upp á skemmri tíma en 20 árum ef lántaki óskar. Þar segi hins vegar ekki að unnt sé að greiða það á 60 árum eins og felist í skilningi LÍN. Sjóðurinn verði að bera hallann af því að textinn sé ekki eins og hann haldi fram. Stjórn LÍN fer fram á að úrskurður hennar frá 17. ágúst 2010 verði staðfestur og kröfum kæranda hafnað. Fram kemur í rökstuðningi stjórnarinnar að afborganir af láninu hafi hafist 1. júlí 1986. Þeim sé hins vegar ekki lokið og séu ástæður þess tvíþættar. Aðalskuldarinn hafi í fyrsta lagi fengið undanþágur frá endurgreiðslum frá árinu 1992 til og með 1995. Í öðru lagi hafi milli áranna 1996 og 2003 verið greitt af svokölluðu R-láni til sjóðsins þangað til það var uppgreitt og hafi þá hafist greiðslur af eldri lánum að nýju, skv. ákvæði 2. mgr. 18. gr. laga nr. 21/1992. Greitt hafi verið af téðu V-láni í samtals 12 ár og því 8 ár eftir af ábyrgðinni nema lánið verði áður að fullu uppgreitt. Í rökstuðningi úrskurðar komi fram, að ákvæði það sem heimili örari endurgreiðslur á láninu sé sett til hagsbóta fyrir skuldara og ábyrgðarmenn þar með. Óeðlilegt sé að gagnálykta út frá þessu ákvæði þannig að ábyrgðin þrengist, lánveitanda í óhag. Stjórn sjóðsins bendir á að sá skilningur að endurgreiðslutími skuli miðaður við 20 ár á dagatalinu, óháð því hvort frestur á afborgunum hafi verið gefinn á því tímabili, gæti tæknilega leitt til þess að skuldin félli niður að 20 árum liðnum án þess að nokkurn tímann hefði verið greitt af láninu. LÍN byggir niðurstöðu sína um að frestur á afborgunum leiði til þess að greitt skuli af láninu lengur en í 20 ár á dagatali á því að skuldabréfið feli það í sér samkvæmt orðanna hljóðan en skilmálar tilgreini að lán sé að fullu greitt þegar höfuðstóll sé að fullu greiddur eða greiddar hafa verið afborganir í 20 ár. Einnig er á því byggt að heimild sjóðsstjórnar til að veita frest á árlegum greiðslum samkvæmt skuldabréfinu sé að finna í ábyrgðaryfirlýsingunni frá 22. ágúst 1985 en þar segi að: "Séu árlegar afborganir ekki inntar af hendi á réttum tíma telst öll skuldin ásamt verðbótum gjaldfallin og er innheimt á kostnað lántaka nema sérstakar ástæður valdi að mati sjóðsstjórnar, sem getur þá samið um greiðslufrest." Ekki komi fram í þessu ákvæði ábygðaryfirlýsingarinnar að samþykki ábyrgðarmanns þurfi til að hægt sé að semja um slíkan greiðslufrest. Stjórn LÍN álykti því að slíkt samþykki hafi ekki þurft til að koma þegar ákveðið var að veita aðalskuldara greiðslufresti í stað þess að gjaldfella alla skuldina þegar aðstæður hans leyfðu ekki að greitt væri af lánunum. Þetta sjónarmið njóti ennfremur stuðnings í lögum þeim sem giltu um Lánasjóð íslenskra námsmanna á þeim tíma sem ábyrgðaryfirlýsingin var undirrituð. Þannig segi í skýringum með 8. gr. laga nr. 72/1982 um námslán og námsstyrki sem fjalli um undanþágur: "Sé undanþága veitt frestar það einungis hlutaðeigandi greiðslu en kemur ekki í veg fyrir að lán greiðist að fullu til baka." Sé því ljóst að þegar veittir voru greiðslufrestir á V-láni lánþega hafi ekki verið um skilmálabreytingu að ræða líkt og haldið sé fram þar sem ákvarðanir um þá hafi verið teknar samkvæmt skilmálum sjálfrar ábyrgðarinnar. Í athugasemdum stjórnar LÍN dagsettum 10. desember 2010 vegna fram kominnar kæru er vísað til þess að málið lúti að túlkun skilmála skuldabréfsins og ábyrgðarinnar varðandi endurgreiðslur sem jafnframt fái stoð í ákvæðum laga nr. 57/1976 sem giltu þegar lánið var upphaflega tekið, sem og í reglugerð nr. 402/1976. Vísað er til orðalags 4. mgr. 8. gr. þágildandi laga um námslán og námsstyrki nr. 57/1976 og til orðalags skilmála skuldabréfsins og ábyrgðaryfirlýsingarinnar. Stjórn LÍN hafi túlkað ákvæðið svo að þegar greiddar hafa verið afborganir í 20 ár þá falli eftirstöðvar lánanna niður. Þannig feli þetta ákvæði í sér að sjóðurinn fái alltaf a.m.k. greitt inn á lánið sem svarar þeim endurgreiðslum sem greiddar hafa verið í samtals 20 ár, m.v. endurgreiðslureglur sjóðsins. Þessi túlkun fái stoð í tilvitnuðu ákvæði laganna, þ.e. að endurgreiðslur skuli standa yfir í 20 ár hið lengsta. Að mati stjórnar LÍN sé ekki hægt að túlka þetta ákvæði öðru vísi en svo að endurgreiðslur, sem skv. ákvæðum laganna voru tvær á ári, skyldi greiða í samtals 20 ár. Ekki sé hægt að fallast á að þetta beri að túlka sem svo að lánið, og þar með ábyrgðin, félli niður að liðnum 20 árum frá fyrsta gjalddaga þess, án alls tillits til þess hversu margar greiðslur hafi þá verið greiddar af láninu. Fái það að mati stjórnar LÍN ekki staðist. Fyrsti gjalddagi skv. skuldabréfinu var ákveðinn 1. júlí 1986. Hins vegar hafi ekki verið tekið fram hver væri síðasti gjalddagi bréfsins. Það sé því rangt sem haldið sé fram í kæru að slíkt komi skýrt fram í skilmálum bréfsins. Það samræmist því hvorki skilmálum ábyrgðarinnar né ákvæði laganna að telja að ábyrgð kæranda samkvæmt umræddri ábyrgðaryfirlýsingu hafi verið tímabundin þannig að hún gilti einungis í 20 ár frá fyrsta gjalddaga þess og sé því nú fallin niður. Hefði það verið ætlunin að ábyrgðin gilti einungis í 20 ár talið frá fyrsta gjalddaga hefði slíkt átt að koma skýrt fram í skilmálum ábyrgðarinnar. Í bréfinu er vísað til eftirfarandi ákvæðis í skuldabréfinu og ábyrgðaryfirlýsingunni: "…Sjóðsstjórn getur veitt undanþágu frá endurgreiðslureglum ef lánþegi býr við stórlega skertar fjárhagsástæður til langframa, t.d. vegna örorku.". Ákvæðið hafi verið í samræmi við ákvæði 21. gr. reglugerðar nr. 402/1976, sbr. 5. mgr. 8. gr. laga nr. 57/1976. Í þeim úthlutunarreglum sem giltu þegar ábyrgðin var undirrituð voru svo nánar útfærð skilyrði til undanþága. Þá séu í núgildandi lögum, reglugerð og úthlutunarreglum sjóðsins ákvæði um undanþágur frá árlegum endurgreiðslum. Lánþegi hafi sótt um og fengið undanþágu frá endurgreiðslum á árunum 1992 til 1995, eftir að greiðslur hafi gjaldfallið. Þá hafi lánþegi greitt af svokölluðu R-láni á árunum 1996 til 2003 og hafi því ekki verið innheimtar afborganir af V-láninu á þeim tíma í samræmi við lög og reglur sjóðsins. Endurgreiðslur af V-láninu hafi hafist að nýju á árinu 2004. Samkvæmt skilmálum bréfsins og túlkun stjórnar LÍN eigi því enn eftir að greiða afborganir af láninu í samtals 8 ár til viðbótar, nema skemmri tíma taki að greiða upp eftirstöðvar þess. Verði hins vegar á því tímabili veittar undanþágur frá einstökum endurgreiðslum lengist endurgreiðslutíminn í samræmi við það, en samanlagður árafjöldi endurgreiðslna fari aldrei fram yfir 20 ár. Að mati stjórnar LÍN felist ekki í framangreindum undanþágum skilmálabreytingar á umræddu V-láni þar sem framkvæmdin sé í fullu samræmi við bæði skilmála skuldabréfsins sjálfs og ábyrgðaryfirlýsingarinnar, sem og í samræmi við þau lög sem um lánið og ábyrgðina gilda. Komi 6. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn þegar af þeirri ástæðu ekki til skoðunar, þar sem ekki sé um að ræða breytingar á skilmálum láns, ábyrgðarmanni í óhag, en það komi beinlínis fram í skilmálum ábyrgðarinnar að stjórn LÍN geti veitt undanþágur frá endurgreiðslum. Með því að samþykkja slíkar undanþágur skv. beiðni lántakanda sé LÍN því á engan hátt að breyta skilmálum skuldabréfsins eða ábyrgðarinnar. Þá er því mótmælt af hálfu stjórnar LÍN að úrskurðurinn verði felldur úr gildi þar sem ekki hafi verið tekin afstaða til þeirrar röksemdar að ábyrgðin bryti gegn 2. mgr. 6. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn enda hafi verið tekin afstaða til þess í úrskurðinum að ekki væri um skilmálabreytingu að ræða og þegar af þeirri ástæðu talið að 6. gr. laganna ætti ekki við. Kæranda var gefinn kostur á því að svara bréfi LÍN dagsettu 10. desember 2010. Í bréfi kæranda dagsettu 14. janúar 2011 er á því byggt að námslán og námsstyrkir sem veittir séu á grundvelli laga sem gilda um lánasjóðinn geti ekki að öllu leyti lotið reglum fjármunaréttar en um sé að ræða hluta af opinberri fjárhagsaðstoð til framhaldsnáms. Kærandi telur að um réttarsamband sé að ræða á milli LÍN, lántaka og ábyrgðarmanna sem að mestu lúti reglum stjórnsýsluréttar og hafi það áhrif á skýringu laga nr. 57/1976 um námslán og námsstyrki og byggir kærandi á því að reglur stjórnsýsluréttar gildi um ákvarðanir LÍN. Þá bendir kærandi á að stjórn LÍN geti ekki tekið ákvarðanir um réttindi og skyldur þeirra sem eiga beinna og verulegra hagsmuna að gæta, einkum ákvarðanir sem séu íþyngjandi, nema fyrir þeim ákvörðunum sé heimild í lögum. Það leiði af almennum reglum stjórnsýsluréttar að heimildin verði að vera skýr og ótvíræð, og þeim mun meira ótvíræðari sem ákvarðanir séu meira íþyngjandi. Kærandi telur að LÍN hafi með ráðstöfunum sínum framlengt ábyrgðartíma hans um 13 ár, úr 20 árum í 33 ár. Andmælir kærandi því að í því felist ekki íþyngjandi ákvörðun og feli ekki í sér breytingar á skilmálum ábyrgðarinnar. Kærandi telur að ákvæði 4. mgr. 8. gr. laga nr. 57/1976 veiti LÍN ekki heimild til að lengja endurgreiðslutímann og þar með tímalengd ábyrgðarskuldbindingarinnar. Vísar kærandi í lögmætisreglu stjórnsýsluréttar og telur framkvæmdina brjóta gegn henni. Kærandi telur að hann hafi mátt ganga út frá því að greiðslutíminn væri 20 ár og breyting á greiðslutíma þyrfti að bera undir hann. Í athugasemdum kæranda dagsettum 5. maí 2011 vegna viðbótarupplýsinga sem bárust frá LÍN þann 26. janúar 2011 bendir kærandi á að yfirlit um greiðslur sýni að ekkert hafi verið greitt af umræddu láni um tíu ára skeið á tímabilinu 1992-2002. Óumdeilt sé að kærandi hafi aldrei verið látinn vita af frestum sem LÍN veitti lánataka og hefði kærandi því verið í góðri trú um að allar afborganir væru greiddar og að lánið væri í skilum. Hefði kærandi mátt hafa réttmætar væntingar um að ábyrgð hans lyki á árinu 2005. Einnig bendir kærandi sérstaklega á að LÍN hafi veitt lánataka frest á afborgunum vegna áranna 2009 og 2010 án þess að veita kæranda kost á að gera athugasemdir. Að mati kæranda stangast þessi framkvæmd á við 2. mgr. 6. gr. laga um ábyrgðarmenn nr. 32/2009 er hafi tekið gildi 4. apríl 2009, svo ekki væri minnst á afturvirkni umræddra frestana er kærandi hefði einnig gert athugasemdir við. Kærandi bendir á að samtals hafi LÍN veitt lántaka greiðslufresti í 13 ár og framlengt þannig ábyrgð hans úr 20 árum í 33 ár. að lokum bendir kærandi á að ekki verði séð að stjórn LÍN hafi tekið umræddar ákvarðanir um að veita undanþágu og ekki verði séð hvaða viðmið stjórnin hafi lagt til grundvallar umræddu valdframsali til starfsmanna LÍN. Hafi stjórn LÍN ekki lagt fram nein gögn er sýni fram á að lagaheimild hafi verið til frestunar greiðslna en ekki sé heimilt að veita slíkan frest nema „sérstakar aðstæður valdi að mati sjóðsstjórnar..“ Kærandi tekur fram að ekki hafi verið gætt andmælaréttar við umræddar ákvarðanir. LÍN geti samið við lántaka um frestun, en slíkt bindi hins vegar ekki ábyrgðarmann, nema skilyrðum sé fullnægt að því er hann varðar.

Niðurstaða

Lánþegi tók námslánin í gildistíð laga um námslán og námsstyrki nr. 57/1976. Í ábyrgðaryfirlýsingu dagsettri 22. ágúst 1985 kemur fram að lánið sé veitt til endurnýjunar lána til greiðslu á kostnaði á námstíma skv. 3. mgr. 7. gr. laga nr. 57/1976. Skuldabréfið vísar til sömu laga. Með vísan til þessa verður að líta svo á að það séu þau lög sem gilda um réttarsamband aðila þótt bæði ábyrgðarskuldbindingin og skuldabréfið hafi verið undirrituð í gildistíð laga nr. 72/1982 um námslán og námsstyrki. Hafa bæði kærandi og stjórn LÍN lagt það til grundvallar að lög nr. 57/1976 eigi við um ágreiningsefnið. Ákvæði 4. mgr. 8. gr. laga nr. 57/1976 er svohljóðandi: Endurgreiðslur skulu standa yfir í 20 ár hið lengsta. Eftirstöðvar lánsins eru þá óafturkræfar, sbr. þó ákvæði 11. gr. Í 11. gr. laganna er að finna gjaldfellingarheimild vegna verulegra vanskila eða vegna þess að lánþegi hefur vantalið vergar tekjur til skatts á framtali sínu. Í texta ábyrgðaryfirlýsingar kæranda frá 22. ágúst 1985 segir: Lán er að fullu greitt þegar höfuðstóll er að fullu greiddur, eða greiddar hafa verið afborganir í 20 ár. Sé lán þá eigi að fullu greitt falla eftirstöðvar þess ásamt verðbótum niður. Í texta ábyrgðaryfirlýsingarinnar segir einnig: Sjóðsstjórn getur veitt undanþágu frá endurgreiðslureglum ef lánþegi býr við stórlega skertar fjárhagsástæður til langframa. Einnig er tilgreint að: Séu árlegar afborganir ekki inntar af hendi á réttum tíma telst öll skuldin ásamt verðbótum gjaldfallin og er innheimt á kostnað lántaka, nema sérstakar ástæður valdi að mati sjóðstjórnar, sem getur þá samið um greiðslufrest. Samsvarandi ákvæði og í ábyrgðaryfirlýsingu eru í skuldabréfi útgefnu þann 4. september 1985. Þá kemur fram í skuldabréfinu að endurgreiðslur lánsins hefjist þann 1. júlí 1986. Það er niðurstaða málskotsnefndar að ekki sé til staðar sá formgalli á úrskurði stjórnar LÍN að leiða eigi til ógildingar. Úrskurður stjórnar LÍN byggir á því að ekki hafi verið um að ræða skilmálabreytingu og felst í því sú afstaða stjórnar LÍN að 2. mgr. 6. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn eigi ekki við í málinu en ákvæðið tilgreinir að lánveitandi geti ekki einhliða breytt skilmálum ábyrgðarsamnings, þ.m.t. lánssamnings, ábyrgðarmanni í óhag. Reglur fjármunaréttar og stjórnsýsluréttar eiga við um ágreiningsefnið. Samkvæmt skilmálum skuldabréfsins og ábyrgðaryfirlýsingarinnar er unnt að veita undanþágu frá endurgreiðslum ef lánþegi býr við stórlega skertar fjárhagsástæður til langframa. Með hliðsjón af gögnum málsins verður ekki séð að þessi aðstaða eigi við í málinu. Samkvæmt skilmálum skuldabréfsins er stjórn LÍN ennfremur heimilað að veita greiðslufrest séu árlegar afborganir ekki inntar af hendi á réttum tíma. Þurfa þá sérstakar aðstæður að valda því, að mati sjóðsstjórnar. Af gögnum málsins er ljóst að undanþágur voru veittar á endurgreiðslum frá árinu 1992 til og með 1995 meðan lánþegi stundaði doktorsnám og einnig lágu endurgreiðslur af láninu niðri milli áranna 1996 og 2003 þegar lánþegi greiddi af svokölluðu R-láni til sjóðsins þangað til það var uppgreitt, í samræmi við ákvæði 2. mgr. 18. gr. laga nr. 21/1992. Að mati málskotsnefndar getur það að veita greiðslufrest á afborgun eða undanþágu á greiðslu afborganna ekki eitt og sér falið í sér lengingu á gildistíma ábyrgðarskuldbindingar. Slík niðurstaða getur aðeins byggst á skýrum skilmálum í skuldabréfi og ábyrgðaryfirlýsingu sem heimila það. Skiptir ekki máli í þessu sambandi að í skuldabréfi hafi ekki verið tiltekinn síðasti gjalddagi afborgana enda ekki venja að tilgreina slíkt í stöðluðum skilmálum skuldabréfa fjármálastofnana á Íslandi. Reglur fjármunaréttar leiða til þeirrar niðurstöðu að ef ekki er sérstaklega kveðið á um í skilmálum skuldabréfs um heimild til að lengja endurgreiðslutíma bréfsins þá felur lenging endurgreiðslutíma í sér breytingu á skilmálum lánsins. Við undirritun ábyrgðaryfirlýsingar undirgekkst kærandi skuldbindingu sem ábyrgðarmaður á láni er var samkvæmt orðalagi ábyrgðaryfirlýsingarinnar einungis til tiltekins tíma. Slíkar breytingar á samningi sem undanþágur frá afborgunum og greiðslufrestir af hálfu LÍN fólu í sér hefði kærandi þurft að samþykkja til þess að hann yrði bundinn umfram það sem fram kemur í ábyrgðaryfirlýsingunni. Það er niðurstaða málskotsnefndar að sú einhliða breyting LÍN gagnvart ábyrgðarmanni á skilmálum þess samnings, sem sjálfskuldarábyrgðaryfirlýsingin felur í sér, hafi ekki lagastoð. Ákvæði 4. mgr. 8. gr. laga nr. 57/1976 um námslán og námsstyrki, sem eru þau lög sem eiga við um ágreiningsefnið, veitir ekki slíka heimild. Til viðbótar kemur fram í skýru orðalagi laganna að endurgreiðslur skuli standa yfir í 20 ár hið lengsta. Skilmálar skuldabréfsins og ábyrgðaryfirlýsingar kveða á um að lán sé að fullu greitt þegar höfuðstóll er að fullu greiddur eða greiddar hafa verið afborganir í 20 ár. Sú niðurstaða LÍN að skýra fyrrgreint orðalag skilmálanna og ábyrgðaryfirlýsingarinnar þannig að tími endurgreiðslu skuli vara í tiltekinn fjölda ára en ekki tiltekið tímabil frá fyrsta gjalddaga að telja stenst því ekki. Til þess hefði þurft lagabreytingu. Fær þessi niðurstaða einnig stoð í orðalagi eldri og yngri laga um lánasjóð íslenskra námsmanna. Samkvæmt 3. mgr. 2. gr. laga nr. 5/1952 um lánasjóð stúdenta kemur fram að lán skuli greiða upp með jöfnum afborgunum og 3 1/2 % vöxtum á tíu árum. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 52/1961 um lánasjóð íslenzkra námsmanna kemur fram að lán skuli endurgreiða með jöfnum afborgunum og 3 1/2 % ársvöxtum á allt að 15 árum. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 7/1967 um námslán og námsstyrki skal lántakandi endurgreiða lán með jöfnum ársgreiðslum á allt að fimmtán árum með 5% ársvöxtum. Lög nr. 57/1976 um námslán og námsstyrki tilgreina að endurgreiðslur skuli standa yfir í 20 ár hið lengsta. Lög nr. 72/1982 tilgreina að endurgreiðslum skuli ljúka ekki síðar en 40 árum eftir að þær hefjast. Í athugasemdum í frumvarpi um 8. gr. laga nr. 72/1982 segir orðrétt: Sé undanþága veitt frestar það einungis hlutaðeigandi greiðslu en kemur ekki í veg fyrir að lán greiðist að fullu til baka. Rétt er þó að taka fram, til þess að taka af allan vafa, að reglan um 30 ára hámarksendurgreiðslutíma skal standa óhögguð þótt undanþága sé veitt, einu sinni eða oftar. (Ath. að árafjöldinn breyttist úr 30 í 40 ár í meðförum Alþingis). Þá er einnig til þess að líta að þegar heimilaðar voru þann 30. júlí 2009 og 1. september 2010 frestanir á afborgunum áranna 2009 og 2010 höfðu lög nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn tekið gildi. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laganna getur lánveitandi ekki einhliða breytt skilmálum ábyrgðarsamnings ábyrgðarmanni í óhag. Gildir ákvæðið um ábyrgðir sem til var stofnað fyrir gildistöku laganna. Samkvæmt framansögðu skorti LÍN lagaheimild til að taka án samþykkis kæranda ákvarðanir um að veita lántaka undanþágur frá endurgreiðslum og fresta afborgunum eins og lýst er hér að framan er hefðu þau áhrif að framlengja ábyrgðarskuldbindingu kæranda umfram 20 ár frá fyrsta gjaldaga skuldabréfsins, þ.e. 1. júlí 1986, að telja. Þar af leiðir að það verður að telja að sjálfskuldarábyrgð kæranda hafi fallið niður á árinu 2006 eins og kveðið er á um í skilmálum ábyrgðaryfirlýsingar þeirrar er hann undirritaði þann 22. ágúst 1985. Með vísan til framanritaðs er hin kærða niðurstaða í úrskurði stjórnar LÍN frá 16. ágúst 2010 í máli kæranda felld úr gildi og fallist á kröfu kæranda eins og í úrskurðarorði greinir.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 17. ágúst 2010 er felldur úr gildi. Staðfest er að ábyrgð kæranda á V- láni lánþega hjá LÍN er fallin niður.

Til baka