Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-03/2011 - Skilyrði lánveitingar - beiðni um aukið svigrúm vegna veikinda

Úrskurður

Ár 2011, mánudaginn 16. maí, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-3/2011:

Kæruefni

Með kæru, sem móttekin var hjá málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna þann 13. janúar 2011, kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 17. desember 2010, þar sem beiðni kæranda um aukið svigrúm í námi vegna alvarlegra veikinda á vormisseri 2010 var hafnað. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 20. janúar 2010 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 3. febrúar 2011 og var afrit þess sent kæranda og honum jafnframt gefinn frestur til að koma að athugasemdum sínum. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi hóf nám í x-skóla í Danmörku haustið 2009. Hann fékk fyrirframgreidd skólagjöld frá LÍN vegna vormisseris 2010 afgreidd þann 3. mars 2010. Kærandi varð ófrísk að tvíburum í byrjun desember 2009 og í lok janúar 2010 byrjaði að blæða á meðgöngunni. Kærandi hélt áfram skólagöngunni en þurfti að hverfa frá námi þann 10. mars 2010 en frá þeim tíma og fram að fyrirburafæðingu barnanna í lok júlí 2010 var kærandi rúmliggjandi. Í framhaldi fór kærandi í barnsburðarfrí og hefur ekki hafið nám að nýju. Skólinn samþykkti að leyfa kæranda að hefja námið aftur að loknu barnsburðarleyfi. Umsókn kæranda um aukið svigrúm vegna veikinda/barnsburðar var hafnað með úrskurði stjórnar LÍN þann 17. desember 2010 á þeirri forsendu að skilyrði greinar 2.4.3 í úthlutunarreglum LÍN fyrir skólaárið 2009-2010 væri ekki uppfyllt. Því hafi hvorki verið heimilt að fella niður ofgreitt skólagjaldalán né að veita kæranda framfærslulán fyrir vormisseri 2010. Kærandi byggir mál sitt á því að ekki eigi að dæma alla eftir sömu reglunni. Þá telur hann að það gangi ekki upp að honum sé neitað um undanþágu á grundvelli þess að hann hafi dottið úr námi vegna veikinda í byrjun vorannar 2010. Þá bendir kærandi einnig á að það sé heldur ekki rétt að hann hafi dottið úr námi í byrjun annar þar sem skipulag skólans sem hann sæki sé ekki eftir hefðbundnu haust/vor anna skipulagi. Í skólanum sé ekki um slíkar annir að ræða heldur lotuskipt nám. Skólinn hafi byrjað í október 2009 og þegar kærandi varð frá námi að hverfa hafi hann verið búinn með 5 mánuði í skólanum og því í miðju námi en ekki í byrjun annar. Varðandi boð LÍN um að fallast á að fresta innheimtu skólagjaldalánsins ef kærandi myndi skrá sig í nám á vormisseri 2011 og lyki lágmarksnámsframvindu, þ.e. ígildi 18 ECTS-eininga á misserinu, bendir kærandi á að bæði aðstæður hans vegna barnanna og skipulag skólans kom í veg fyrir að hann gæti tekið slíku tilboði. Stjórn LÍN fer fram á að úrskurður hans frá 17. desember 2010 verði staðfestur. LÍN bendir á að kærandi hafi sótt um aukið svigrúm í námi vegna alvarlegra veikinda á meðgöngu á vormisseri 2010. Kærandi hafi ekki náð að ljúka vormisserinu þar sem hann hafi verið settur í veikindaleyfi vegna erfiðleika á meðgöngu frá 11. mars 2010 og út meðgönguna. LÍN bendir á að kærandi hafi ekki fengið skólagjöldin fyrir vorönn 2010 endurgreidd frá skólanum en í staðinn geti hann nýtt þau þegar hann snúi aftur til náms. LÍN byggir á því að samkvæmt reglum sjóðsins beri kæranda að endurgreiða skólagjaldalánið vegna vormisseris 2010 til sjóðsins. LÍN bendir á að það komi skýrt fram í grein 2.4.3 í úthlutunarreglum sjóðsins fyrir árið 2009-2010 að heimilt sé að bæta 20 ECTS-einingum við loknar einingar námsmanns þannig að lánsréttur miðist við 20 ECTS-einingar, en eingöngu í þeim tilfellum þegar veikindi námsmanns koma upp á seinni hluta annar eða í prófum. Þar sem kærandi hafi orðið að hverfa frá námi í byrjun marsmánaðar eða í byrjun vorannar hafi LÍN því synjað erindi hans um aukið svigrúm vegna alvarlegra veikinda. LÍN bendir á að sjóðurinn hafi verið tilbúinn að fallast á að fresta innheimtu skólagjaldalánsins ef kærandi myndi skrá sig í nám á vormisseri 2011 og lyki lágmarksnámsframvindu, þ.e. ígildi 18 ECTS-eininga á misserinu.

Niðurstaða

Málskotsnefndin hefur nýlega fengið til meðferðar sambærilegt mál og fjallað er um hér. Í úrskurði málskotsnefndarinnar nr. L-48/2010 sem kveðinn var upp þann 13. apríl 2011 segir m.a. svo: "Stjórn LÍN er heimilt að setja sér reglur við útfærslu á lögum og reglum um lánasjóðinn og stuðla með því að samræmi og jafnrétti við framkvæmd laganna. Hér eru þó alltaf um viðmiðunarreglur að ræða sem undanskilur ekki stjórn LÍN frá því að þurfa að meta hvert tilvik fyrir sig og gæta jafnræðis varðandi ákvarðanir sínar. Heimildarákvæði 12. gr. laga nr. 21/1992 felur það í sér að stjórn LÍN ber skylda til að skoða hvert tilvik sem byggir á ákvæðinu sérstaklega og getur ekki sett fram viðmiðunarreglu sem felur í sér afnám eða verulega takmörkun á því skyldubundna mati. Að mati málskotsnefndar takmarkar 2. mgr. greinar 2.4.3 í úthlutunarreglum LÍN um of heimild stjórnar LÍN til að bregðast við einstökum tilvikum. Það að binda mögulega undanþágu vegna veikinda námsmanns við það hvenær upphaf veikindi eiga sér stað fellur að mati nefndarinnar ekki undir málefnalegt viðmið og gefur ekki svigrúm til að taka tillit til aðstæðna hverju sinni. Verður að fallast á það með kæranda að stjórn LÍN hafi við setningu greinarinnar á grundvelli 12. gr. laga nr. 21/1992 þrengt verulega þær heimildir sem ákvæðið felur í sér en ákvæðinu er ætlað að auka sveigjanleika sjóðsstjórnar til að koma til móts við námsmenn sem verða fyrir skakkaföllum í námi." Mál það sem hér er til meðferðar er sambærilegt framangreindu máli og varðar túlkun á grein 2.4.3 í úthlutunarreglum LÍN fyrir skólaárið 2009-2010 og verður við niðurstöðu í þessu máli tekið mið af því. Í málinu liggur fyrir að kærandi skilaði ekki námsárangri á vorönn 2010. Kærandi varð að hætta námi þann 11. mars 2010 sökum alvarlegra meðgönguerfiðleika. Kærandi varð þannig fyrir ófyrirséðri hindrun við að stunda nám sitt eins og hann hafði stefnt að. Beiðni kæranda um undanþágu vegna veikinda var synjað á þeim grundvelli að hann uppfyllti ekki skilyrði greinar 2.4.3 í úthlutunarreglum sjóðsins um að veikindin komi upp á seinni hluta annar eða í prófum. Af hálfu LÍN virðist ekki hafa verið lagt sérstakt mat á aðstæður hans en málið afgreitt samkvæmt orðanna hljóðan á grundvelli greinarinnar. Með vísan til niðurstöðu málskotsnefndar í máli nr. L-48/2010 um að grein 2.4.3 í úthlutunarreglum sjóðsins fyrir árið 2009-2010 þrengi um of heimildina sem stjórn LÍN er gefin í 2. mgr. 12. gr. laga nr. 21/1992 verður að telja að stjórn LÍN hafi eftir atvikum átt að óska eftir frekari gögnum frá kæranda, staðreyna aðstæður hennar og leggja svo sjálfstætt mat á það hvort rétt væri að veita undanþágu á grundvelli 2. mgr. 12. gr. laga nr. 21/1992. Með vísan til framangreinds telur málskotsnefndin rétt að beiðni kæranda verði tekin til meðferðar á ný hjá stjórn LÍN. Er hin kærða niðurstaða í úrskurði stjórnar LÍN frá 17. desember 2010 í máli kæranda felld úr gildi.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 17. desember 2010 er felldur úr gildi.

Til baka