Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-50/2010 - Undanþágur frá afborgun - beiðni um undanþágu frá fastri afborgun

Úrskurður

Ár 2011, miðvikudaginn 15. júní, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-50/2010:

Kæruefni

Með kæru dagsettri 29. desember 2010 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 17. ágúst 2010, þar sem kæranda var synjað um undanþágu frá fastri afborgun námsláns á árinu 2010. Með bréfi dagsettu 31. ágúst 2010 fór kærandi þess á leit við LÍN að veittur yrði frekari rökstuðningur vegna málsins. Hann barst kæranda með bréfi LÍN dagsettu 30. september 2010. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 31. desember 2010 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Í athugasemdum stjórnar LÍN sem voru settar fram í bréfi dagsettu 7. janúar 2011 var því borið við að kærufrestur væri útrunninn þar sem kæran hafi átt að berast fyrir 17. nóvember 2010. Með bréfi LÍN til málskotsnefndar dagsettu 3. mars 2011 var fallið frá því að kæran hafi borist of seint og samþykkt að hún yrði tekin til efnismeðferðar. Athugasemdir kæranda bárust málskotsnefnd með bréfi dagsettu 28. mars 2011.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi sótti um undanþágu frá fastri endurgreiðslu námslána fyrir árið 2010 með tölvupósti þann 30. apríl 2010. Ástæða umsóknar kæranda voru fjárhagsörðugleikar og fylgdi beiðninni staðgreiðsluyfirlit vegna launa hans frá apríl til og með desember 2009. Með bréfi LÍN til kæranda dagsettu 11. maí 2010 var athygli hans vakin á því að gögn vegna umsóknar hafi ekki borist sjóðnum. Með bréfi LÍN dagsettu 2. júní 2010 var umsókn kæranda hafnað en athygli hans vakin á því að hann gæti óskað úrskurðar stjórnar LÍN um synjunina. Með bréfi kæranda til LÍN dagsettu 19. júlí 2010 var því andmælt að umbeðnum gögn vegna umsóknarinnar hafi ekki verið skilað til LÍN og þess óskað að umsóknin yrði tekin fyrir að nýju og kæranda veitt undanþága vegna lágra tekna. Því var eins og áður segir hafnað með úrskurði LÍN þann 17. ágúst 2010. Kröfu sína um að málskotsnefnd felli úr gildi úrskurð LÍN byggir kærandi á því að með umsókn hans um undanþágu hafi fylgt yfirlit um staðgreiðslu skatta í samræmi við leiðbeiningar á heimasíður LÍN. Af viðbrögðum LÍN í svarpósti 30. apríl 2010 hafi mátt skilja að fullnægjandi gögn hafi fylgt beiðninni. LÍN hafi því borið að sinna betur leiðbeiningarskyldu sinni gagnvart kæranda og afleiðing þess sé sú að brotin hafi verið á honum rannsóknarregla stjórnsýsluréttar og einnig hafi verið brotin á honum jafnræðisregla. Af hálfu stjórnar LÍN kemur fram að þegar umsókn kæranda barst þann 30. apríl 2010 hafi honum samdægurs borist sjálfvirkur tölvupóstur LÍN þar sem fram komi hvaða gögnum hafi átt að skila inn til sjóðsins. Með þessum tölvupósti og leiðbeiningum á heimasíðu sjóðsins telur stjórn LÍN sig að fullu hafa sinnt leiðbeiningarskyldu sinni gagnvart kæranda. Engar aðrar upplýsingar hafi borist frá kæranda en staðgreiðsluyfirlit fyrir árið 2009 þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir um frekari gögn. Ekki sé lagaheimild til þess að veita undanþágu eingöngu vegna lágra tekna sbr. 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN og ákvæði 7.4.1 í úthlutunarreglum LÍN.

Niðurstaða

Samkvæmt 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 og grein 7.4.1 í úthlutunarreglum LÍN er sjóðsstjórn heimilt að veita undanþágu frá afborgun námslána ef lánshæft nám, atvinnuleysi, óvinnufærni vegna veikinda, þungunar eða umönnunar barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega. Umsókn kæranda byggir á því að aðstæður hans flokkist undir „sambærilegar ástæður“ þar sem hann eigi í verulegum fjárhagserfiðleikum vegna lágra tekna. Eins og fyrr segir ber stjórn LÍN því við að ófullnægjandi gögn hafi borist umsókn kæranda og það sé kæranda að leggja fram gögn máli sínu til stuðnings. Í rökstuðningi vegna synjunar um beiðni um undanþágu sem LÍN sendi kæranda með bréfi dagsettu 30. september 2010 eru kæranda gefnar greinargóðar leiðbeiningar um hvaða nauðsynlegu gögn eigi að fylgja umsókn um undanþágu. Þessar leiðbeiningar voru ekki sendar kæranda fyrr en eftir að stjórn LÍN hafnaði umsókn hans. Málsktosnefnd fellst ekki á það með stjórn LÍN að sjálfvirkur tölvupóstur sem kæranda barst eftir móttöku umsóknar hans og upplýsingar á heimasíðu sjóðsins hafi veitt kæranda fullnægjandi leiðbeiningar. Af bréfi kæranda til LÍN dagsettu 19. júlí 2010 er ljóst að kærandi taldi sig hafa skilað nauðsynlegum gögnum vegna umsóknarinnar. Bar stjórn LÍN í kjölfar þess að veita kæranda viðeigandi leiðbeiningar, eins og þær sem fram koma í áðurnefndu bréfi LÍN frá 30. september 2010. Var afgreiðsla LÍN að þessu leyti ekki í samræmi við 10. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem fjallar um rannsóknarskyldu stjórnvalda. Með vísan til framangreinds telur málskotsnefndin rétt að beiðni kæranda um undanþágu verði tekin til meðferðar á ný hjá stjórn LÍN. Er hin kærða niðurstaða í úrskurði stjórnar LÍN frá 17. ágúst 2010 í máli kæranda felld úr gildi.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 17. ágúst 2010 er felldur úr gildi.

Til baka