Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-08/2011 - Ábyrgðarmenn - beiðni um niðurfellingu á ábyrgð

Úrskurður

Ár 2011, miðvikudaginn 6. júlí, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-8/2011:

Kæruefni

Með kæru dagsettri 28. febrúar 2011 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna frá 26. janúar 2011, þar sem hafnað var beiðni kæranda um niðurfellingu á ábyrgð á námsláni. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 3. mars 2011 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN komu fram í bréfi dagsettu 21. mars 2011 og var afrit þess sent kæranda með bréfi 31. sama mánaðar, en þar var kæranda jafnframt gefinn frestur til 15. apríl s.á. til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda. Málsskotsnefnd aflaði sjálf frekari gagna frá stjórn LÍN um lánið sem kærandi er ábyrgðarmaður að. Kærandi er ábyrgðarmaður á námsláni hjá LÍN sem fyrrum sambýlismaður dóttur hans er skuldari að. Samkvæmt upplýsingum frá LÍN samanstendur lánið af nokkrum svokölluðum T-lánum, sem voru veitt á árunum 1985 og 1986. Ógreidd sé afborgun á gjalddaga 1. mars 2011 að fjárhæð 65.177 krónur og nema eftirstöðvar lánsins að teknu tilliti til hinnar ógreiddu afborgunar 1.003.383 krónum. Skuldari lánsins mun vera búsettur erlendis og hafa aldrei greitt af láninu. Kærandi fer fram á að ábyrgð hans sem ábyrgðarmanns á fyrrgreindu láni verði felld niður. Til stuðnings kröfu sinni vísar kærandi til þess að hann sé orðinn aldraður, búi við slæma heilsu og að hann hafi ekki fjárhagslegu getu til þess að greiða af láninu. Þá kveðst kærandi hafa orðið þess áskynja að skuldari lánsins þiggi greiðslur úr lífeyrissjóði hér á landi og spyr um möguleika þess að afborganir lánsins séu greiddar af lífeyrissjóðnum. Stjórn LÍN fer fram á að úrskurður hennar frá 26. janúar 2011 verði staðfestur. Vísar hún því til stuðnings til greinar 5.3.2. í úthlutunarreglum LÍN en samkvæmt greininni sé ekki heimilt að fella niður ábyrgð ábyrgðarmanns af námsláni nema nýr ábyrgðarmaður komi í staðinn sem uppfylli skilyrði sjóðsins um ábyrgðarmenn. Nýr ábyrgðarmaður hafi ekki verið boðinn fram. Stjórn sjóðsins hafi því ekki lagaheimild til þess að fella ábyrgðina niður og engar heimildir til að hlutast til um að greiðslur úr lífeyrissjóði renni til greiðsla af námsláninu.

Málsatvik og ágreiningsefni

Málsskotsnefnd gerir ekki athugasemd við þá afstöðu stjórnar LÍN að ekki sé unnt að verða við beiðni kæranda um niðurfellingu á ábyrgð hans án þess að annar ábyrgðamaður eða annars konar ábyrgð, sem stjórn sjóðsins samþykkir, komi í staðinn, sbr. ákvæði 5.3.2 í úthlutunarreglum LÍN og 7. mgr. 6. gr. laga um LÍN nr. 21/1992. Þá fellst málskotsnefnd á að LÍN hafi engar heimildir að lögum til að hlutast til um að lífeyrissjóðsgreiðslur skuldara lánsins renni til greiðslna á afborgunum láns hans. LÍN er opinber stjórnsýslustofnun og ber í starfi sínu jafnt að fylgja þeim lögum og reglum sem gilda um starfsemi sjóðsins og lagareglum, jafnt skráðum sem óskráðum, sem gilda um stjórnsýslu hins opinbera. Þótt fallist sé á að stjórn LÍN sé ekki unnt að verða við beiðni um niðurfellingu ábyrgðar er stjórn sjóðsins heimilt samkvæmt 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN og á grundvelli ákvæðis 7.4 í úthlutunarreglum sjóðsins að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu námsláns eða ákvarða fjárhæð hennar lægri. Hefur Umboðsmaður Alþingis vakið athygli á þessu í nýlegu áliti sínu í máli nr. 5924/2010. Einnig bendir málskotsnefnd á að ekki er ljóst af gögnum málsins hvort stjórn LÍN hafi gengið eftir greiðslu af hálfu aðalskuldara eins og bent er á í fyrrgreindu áliti UA að beri að gera

Þótt kærandi hafi í erindi sínu til LÍN ekki formlega sótt um undanþágu frá árlegri endurgreiðslu bar stjórn LÍN að fylgja leiðbeiningarskyldu sinni samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um möguleg úrræði kæranda til að sækja um undanþágu frá greiðslu afborgunar vegna félagslegra aðstæðna og veikinda. Þar sem stjórn LÍN hefur að þessu leyti ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni er óhjákvæmilegt að fella úrskurð hennar úr gildi og leggja fyrir hana að taka afstöðu til þess hvort unnt sé að veita kæranda undanþágu frá tekjutengdri afborgun 2011 eða ákvarða fjárhæð hennar lægri.

Niðurstaða

Hinn kærði úrskurður frá 26. janúar 2011 í máli kæranda er felldur úr gildi.

Úrskurðarorð

Til baka