Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-07/2011 - Umsóknarfrestur og útborgun Beiðni um að fá að nýta einingar frá fyrra námsári

Úrskurður

 

Ár 2011, miðvikudaginn 24. ágúst, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-7/2011.

 

Kæruefni

 

Með kæru sem barst málskotsnefnd þann 11. febrúar 2011 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 18. nóvember 2010 þar sem beiðni kæranda um að fá að nýta sér ECTS-einingar frá skólaárinu 2008-2009 haustið 2010 var hafnað. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 28. febrúar 2011 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 15. mars 2011 og var afrit þess sent kæranda og honum jafnframt veittur frestur til að koma að athugasemdum sínum. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærandi stundað B.Sc. nám í byggingartæknifræði við Háskólann í Reykjavík frá haustinu 2007. Námið er 3,5 ár og 120 ECTS einingar. Kærandi flýtti fyrir sér í námi með því að taka lokaverkefni sitt sumarið 2009. Gerði hann ráð fyrir að útskrifast í lok haustannar 2009 en hann átti þá 6 ECTS einingar eftir. Þar sem honum reyndist ekki unnt að ljúka náminu fékk hann undanþágu til að hefja nám í M.Sc. í byggingarverkfræði við HR það haust. Var sú undanþága háð því að hann lyki B.Sc. náminu á haustönn 2009. Átti hann eins og áður greinir eftir einn áfanga í stærðfræðigreiningu (6 ECTS) sem eingöngu var kenndur á haustönn. Kæranda tókst ekki að ljúka B.Sc. náminu haustið 2009. Kærandi lauk námi sínu að lokinni haustönn 2010. Þar sem kærandi hafði stundað sumarnám 2009 lauk hann fleiri en 80 einingum á námsárinu 2008-2009, þ.e. hámarksfjölda eininga sem LÍN greiðir fyrir á hverju námsári, en nám á sumarönn tilheyrir undangengnu námsári 2008-2009. Hámarkslán er 30 einingar á önn og 20 einingar vegna sumarannar. Kveðst kærandi hafa haft samband við LÍN og fengið þær upplýsingar að honum væri heimilt að færa einingar á milli námsára. Kærandi fór þess á leit við LÍN að fá lán haustið 2010 vegna 14 eininga sem hann taldi sig eiga inni vegna sumarnámsins 2008. Bar hann mál sitt undir stjórn LÍN sem synjaði erindi hans með vísan til þess að hann uppfyllti ekki skilyrði um 18 ECTS eininga lágmarksframvindu er fram kæmi í grein 2.4.1 í úthlutnarreglunum. Ætti hann þar af leiðandi ekki rétt á að nýta sér rétt til að flytja umframeiningar á milli skólaára. 

Sjónarmið kæranda 

Kærandi kveður nám sitt hafa raskast mikið bæði vegna veikinda eiginkonu og vegna bankahrunsins 2008. Fer kærandi fram á það í kæru að að fá að nýta sér umframeiningarnar á haustönn 2010. Vísar kærandi til greinar 2.4.1 í úthlutnarreglum LÍN og kveðst hafa staðið í þeirri trú að hann gæti fært þau stig sem hann ætti vegna sumarannarinnar yfir á útskriftarönn haustsins 2010 en á þeirri önn hefði hann tekið aðeins einn 6 ECTS áfanga sem hann vantaði til útskriftar. 

Sjónarmið LÍN 

Í athugasemdum stjórnar LÍN vegna kærunnar er vísað til þess að kærandi hafi einungis verið skráður í 6 ECTS einingar á haustönn 2010. Uppfylli kærandi þar af leiðandi ekki skilyrði greinar 2.2 í úthlutunarreglunum er kveði á um að námsmaður þurfi að ljúka að lágmarki 18 einingum til að eiga rétt á námsláni. Varðandi heimild kæranda til að flytja umframeiningar á milli námsára vísaði stjórn LÍN til greinar 2.4.1 í úthlutunarreglum LÍN. Samkvæmt þeim hefði kærandi getað nýtt sér umframeiningar ef hann hefði lokið 18 einingum en í því tilviki hefði hann einungis getað flutt 12 af umræddum einingum þar sem aldrei væri hægt að fá lánað fyrir meira en 30 einingum á önn. Kærandi hefði hins vegar einungis lokið 6 einingum og hefði því ekki átt rétt á að flytja einingar á milli skólaára. Hefði stjórn LÍN þar af leiðandi synjað erindi kæranda. 

 

Niðurstaða

 

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 21/1992 um lánasjóð íslenskra námsmanna er hlutverk sjóðsins að tryggja þeim er falla undir lögin jöfn tækifæri til náms. Í 1. mgr. 3. gr. laganna kemur fram að miða skuli við að námslán samkvæmt lögunum nægi hverjum námsmanni til að standa straum af náms og framfærslukostnaði meðan á námi stendur að teknu tilliti til fjölskyldustærðar námsmannsins. Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. setur stjórn sjóðsins nánari ákvæði um úthlutun námslána. Hefur stjórn LÍN sett úthlutunarreglur sem miða að því að skilgreina hvaða skilyrði námsmaður þurfi að uppfylla til að hafa rétt til námsláns samkvæmt lögunum meðan á námi hans stendur. Í þessu skyni hefur stjórnin kveðið á um að námsmaður þurfi að öðru jöfnu að vera í fullu lánshæfu námi, til þess yfirleitt að eiga rétt m.a. á framfærsluláni. Nánari útfærsla á þessu skilyrði kemur fram í grein 1.1 í úthlutunarreglunum en samkvæmt þeim telst nám lánshæft þegar það er 60 ETCS einingar á skólaári eða a.m.k. 30 ECTS einingar á hverju misseri í þeim tilvikum sem námsskipulagið nær ekki yfir heilt skólaár. Sérregla gildir um sumarnám og er lánað að hámarki vegna 20 ECTS eininga, sbr. grein 2.1.1 í úthlutunarreglunum. Námsmaður þarf þó ekki að ljúka fullum 30 einingum á önn heldur er gerð krafa um lágmarksnámsframvindu í grein 2.2 en þar segir að námsmaður þurfi að ljúka að lágmarki 18 ECTS einingum eða ígildi þeirra á hverju misseri í einum eða fleiri námsferlum til að eiga rétt á námsláni, leiði þeir til sameiginlegrar gráðu, t.d. bachelor-gráðu. Fjárhæð láns miðast síðan við hve mörgum einingum námsmaður lýkur að því tilskildu að hann nái lágmarkinu um 18 einingar. Þegar svo háttar til að námsmaður lýkur fleiri en tilskildum 30 einingum á önn heimilar grein 2.4.1 í úthlutunarreglum LÍN námsmanni að flytja einingarnar yfir á aðra önn eða annað námsár. Að mati málskotsnefndar verður að skýra þetta ákvæði úthlutunarreglnanna í ljósi þess markmiðs er fram kemur í 1. mgr. 3. gr. laga nr. 21/1992 um að námslán skuli veita meðan á námi stendur. Kröfur greinar 2.2 í úthlutunarreglunum um 18 ECTS eininga námsframvindu að lágmarki verður að líta á sem viðmið sem stjórn LÍN hafi sett vegna fyrrgreinds markmiðs 1. mgr. 3. gr. lagana. Verður grein 2.4.1 því ekki skýrð þannig að námsmaður hafi öðlast sjálfstæðan rétt til að fá námslán vegna eininga sem hann hefur lokið á fyrri önnum óháð því hvort hann sýni fram á lágmarks framvindu á því námsári sem hann óskar tilflutning eininga yfir á. Málskotsnefnd bendir einnig á að þegar skipulag skóla er þannig að einingar á lokaönn eru undir framangreindu framvindulágmarki er komið til móts við námsmenn með því að gera þeim kleift að ná 18 eininga lágmarkinu með því að bæta við sig í námi þannig að þeir geti náð kröfum úthlutunarreglnanna um lágmarksframvindu þrátt fyrir að viðkomandi hafi í reynd lokið tilskildum einingafjölda skv. skipulagi náms. Kemur þetta fram í a lið 3. mgr. greinar 2.4.1 í úthlutunarreglunum. Með vísan til framanritaðs verður að skýra hið umdeilda ákvæði úthlutunarreglnanna þannig að námsmaður þurfi að stunda í reynd a.m.k. 18 eininga nám á viðkomandi önn til þess að mega flytja einingar milli anna eða námsára. Málskotsnefnd telur að þessi skýring úthlutnunarreglnanna sem fram kemur í úrskurði stjórnar LÍN styðjist við málefnaleg sjónarmið enda leiddi gagnstæð niðurstaða til þess að námsmenn sem t.d. aðeins stunduðu 3 eininga nám á tiltekinni önn gætu flutt yfir frá fyrri námsárum allt að 27 einingar og aflað sér þannig rétt til fulls námsláns. Málskotsnefnd telur með vísan til framanritaðs að skýra bera heimildina í grein 2.4.1 í úthlutunarreglunum í ljósi skilyrða greinar 2.2., sbr. og 1. mgr. 3. gr. laga nr. 21/1992, þannig að ef námsmaður lýkur ekki 18 ECTS einingum á viðkomandi önn sé honum ekki heimilt að nýta sér heimildina í grein 2.4.1 til að flytja umframeiningar frá fyrri námsönnum. Með vísan til framangreindra röksemda er hin kærða niðurstaða í úrskurði stjórnar LÍN frá 18. nóvember 2010 í máli kæranda staðfest.

 

Úrskurðarorð

 

Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 18. nóvember 2010 er staðfestur.

Til baka