Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-14/2011 - Umsóknarfrestur og útborgun - beiðni um undanþágu frá umsóknarfresti

Úrskurður

 

Ár 2011, miðvikudaginn 24. ágúst, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-14/2011.

 

Kæruefni

 

Með kæru dagsettri 28. mars 2011 sem barst málskotsnefnd þann 30. sama mánaðar kærði kærandi synjun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) dagsettri 16. febrúar 2011 á beiðni um undanþágu frá grein 5.1.2 í úthlutunarreglum LÍN um að lánsumsókn vegna náms haustið 2010 þurfi að berast fyrir 1. desember 2010. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 31. mars 2011 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 13. apríl 2011 og var afrit þess sent kæranda og honum jafnframt gefinn frestur til að koma að athugasemdum sínum. Engar frekari athugasemdir hafa borist frá kæranda. Með bréfi dagsettu 6. júlí 2011 fór málskotsnefnd þess á leit við stjórn LÍN að gerð væri frekari grein fyrir því hvernig staðið hefði verið að rannsókn málsins. Í svarbréfi LÍN dagsettu 11. júlí 2011 var gerð grein fyrir rannsókn málsins. Með bréfi dagsettu 11. ágúst var kæranda gefinn kostur á að tjá sig um svör LÍN og m.a. leggja fram gögn úr eigin tölvu varðandi tilraunir til að sækja um á heimasíðu LÍN. Engin frekari svör bárust frá kæranda.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Með bréfi dagsettu 4. febrúar 2011 fór kærandi þess á leit við stjórn LÍN að umsókn hans um námslán vegna haustannar 2010 yrði tekin til greina þrátt fyrir að umsóknarfrestur væri liðinn. Kærandi hafi í lok janúar 2011 orðið þess áskynja að á "mínu svæði" á heimasíðu LÍN voru engin merki þess að hann hefði sótt um námslán en kærandi var þess fullviss að hafa sótt um innan tilskilins frests. Hafði kærandi samband við skrifstofu sjóðsins í framhaldinu og var þá tjáð að engin umsókn hefði borist frá honum og einnig að sjóðurinn hefði hafnað öllum umsóknum sem bárust eftir að fresturinn rann út. Með úrskurði dagsettum 17. febrúar 2011 synjaði stjórn LÍN beiðni kæranda um undanþágu frá umsóknarfresti með vísan til greinar 5.1.2 í úthlutunarreglum sjóðsins en þar komi fram að lánsumsókn vegna náms haustið 2010 yrði að berast fyrir 1. desember 2010. Tók stjórnin ekki afstöðu til þeirra málsástæðu kæranda að tæknileg vandkvæði í tölvukerfi LÍN hlytu að hafa legið að baki því að umsókn hans hefði ekki skilað sér til sjóðsins. Í kæru sinni til málskotsnefndar þann 28. mars 2011 fór kærandi þess á leit að málskotsnefnd tæki til endurskoðunar úrskurð stjórnar LÍN um að synja kæranda um námslán vegna haustannar 2010 sökum þess að ekki hafi verið sótt um innan tilskilins frests. Í kærunni kemur fram að kærandi taldi sig hafa sótt um námslán innan tilskilins frests en hafi ekki skýringu á því hvers vegna sú umsókn hafi ekki komist í hendur LÍN. Umsóknarferlið byggi á tölvukerfi og því ekki hægt að útiloka villur. Lýsir kærandi því að hann treysti á námslán sér og sinni fjölskyldu til framfærslu. Muni auk þess verða hætta á að kærandi verði lengur að klára nám sitt ef hann verði að vinna með námi. Bendir kærandi á að mál hans virðist ekki hafa verið rannsakað sérstaklega hjá LÍN heldur einungis hafnað með vísan til greinar 5.1.2 í úthlutunarreglum sjóðsins. Í umsögn stjórnar LÍN, dagsettri 13. apríl 2011, kemur fram að kæranda hafi verið sendur tölvupóstur 12. nóvember 2010 þar sem honum hafi verið tilkynnt að umsóknarfrestur vegna haustannar 2010 rynni út 1. desember 2010. Ennfremur hafi námsmannahreyfingar sent tölvupóst á sína félagsmenn. Á heimasíðu LÍN hafi einnig komið skýrt fram hver umsóknarfrestur vegna haustannar 2010 hefði verið. Meðfylgjandi umsögn sinni sendi sjóðurinn einnig til staðfestingar útprentun úr tölvukerfi LÍN þar sem fram koma síðustu merki um umsókn frá kæranda frá nóvember 2009 vegna skólaársins 2009 - 2010. Vísaði stjórnin til þess að engin sýnileg merki hefðu verið í tölvukerfi LÍN um að kærandi hefði sótt um námslán og af þeim sökum hefði stjórn LÍN synjað erindi hans. Þá vísar stjórnin til þess að þessi niðurstaða sé í samræmi við lög og reglur og sambærilega úrskurði málskotnsnefndar. Fer stjórn LÍN þess á leit að málskotsnefnd staðfesti úrskurð stjórnarinnar. Að beiðni málskotsnefndar gerði stjórn LÍN með bréfi dagsettu 11. júlí 2011 grein fyrir því hvernig staðið var að rannsókn á þeirri fullyrðingu kæranda að umsókn hans hlyti að hafa misfarist sökum tæknilegra erfiðleika í tölvukerfi LÍN og hvort sambærileg mál hafi komið til kasta sjóðsins. Í svari LÍN kemur fram að sjóðurinn skrái hjá sér allar tilraunir námsmanna til að sækja um og hvaða skref eru tekin hverju sinni. Ef námsmaður hafi byrjað að sækja um komi slíkt fram í "loggun" kerfisins. Sömu aðferðum hafi verið beitt í máli kæranda og sambærilegum málum. Hafi engar vísbendingar komið fram að kærandi hafi reynt að sækja um. Vísaði sjóðurinn því á bug að um tæknileg vandamál hafi verið að ræða hjá kæranda þar sem allar færslur í umsókn séu skráðar hvort sem samband rofni í miðri aðgerð eða ekki. Vísaði sjóðurinn einnig til þess að heimasíðan lægi niðri einstöku sinnum á ári en engar kvartanir hefðu borist frá námsmönnum vegna þess. Kærandi gæti ekki nefnt þann dag sem hann taldi sig hafa sótt um og því væri ekki hægt að kanna hvort heimasíða hefði legið niðri á þeim tíma.

 

Niðurstaða

 

Samkvæmt 1. gr. reglugerðar nr. 602/1997 um Lánasjóð íslenskra námsmanna skal auglýsa með tryggilegum hætti eftir umsóknum um námslán og skal í auglýsingunni m.a. koma fram hvenær umsóknarfrestur rennur út. Í grein 5.1.2 í úthlutunarreglum LÍN fyrir árið 2010-2011 segir að sækja skuli sérstaklega um námslán fyrir hvert aðstoðarár og að umsókn vegna náms haustið 2010 skuli hafa borist sjóðnum fyrir 1. desember 2010. Eigi er að finna neinar undanþágur frá auglýstum fresti í framangreindum reglum, hvorki með vísan til tæknilegra né annarra ástæðna. Vegna fyrirspurnar málskotsnefndar um meðferð stjórnar LÍN á málum varðandi umsóknarfresti, sbr. t.d. úrskurð málskotsnefndar í málinu L-34/2010, hefur stjórn LÍN upplýst að hvert mál sé skoðað sérstaklega og mat lagt á það hverju sinni hvort rök séu fyrir hendi til að fallast á að veita undanþágu frá umsóknarfrestinum. Við það tilefni var einnig upplýst af hálfu stjórnar LÍN að á undanförnum fimm skólaárum hafi ein undanþágubeiðni frá umsóknarfresti verið veitt og jafnframt hefur verið upplýst að til grundvallar þeirri niðurstöðu hafi verið að námsmanni hefði upphaflega verið óheimilt að sækja um lán hjá LÍN sökum þess að hann hafði sótt um námsstyrk í Danmörku. Ekki eru upplýsingar frá LÍN um hvort sambærileg mál hafi komið fram varðandi tæknilega hlið umsókna er fara gegnum tölvukerfi LÍN. Málskotsnefnd telur þó að ef það liggja fyrir fullnægjandi upplýsingar um slík tæknileg vandkvæði geti slíkt eftir atvikum leitt til þess að LÍN beri að samþykkja umsókn um námslán sem berst eftir að tilskilinn frestur er liðinn. Samkvæmt upplýsingum frá LÍN var umsóknarfrestur tryggilega auglýstur á heimasíðu LÍN. Ekki liggja fyrir nein gögn frá LÍN er benda til þess að kærandi hafi sótt um lán hjá LÍN fyrir haustönn 2010 fyrr en þann 4. febrúar 2011 þegar hann útskýrði fyrir stjórn sjóðsins að svo virtist sem umsókn hans vegna haustannar 2010 hefði ekki komist til skila í gegnum tölvukerfi LÍN. Í umsögn sinni þann 13. apríl 2011 tekur stjórn LÍN í fyrsta sinn afstöðu til þeirra röksemda kæranda um að umsóknin hafi ekki borist gegnum tölvukerfi sjóðsins. Bendir stjórnin á að umsóknarferlið í tölvukerfinu sé í sjö skrefum og sendir meðfylgjandi til skýringar útprentun á ferli vegna fyrra námsárs. Tekur stjórn LÍN fram að engin sýnileg merki séu þess að kærandi hafi reynt að sækja um vegna yfirstandandi námsárs og því hafi erindi hans verið synjað. Samkvæmt upplýsingum frá LÍN sem komu fram í bréfi dagsettu 11. júlí 2011 koma fram í tölvukerfi sjóðsins upplýsingar um tilraunir námsmanna til að sækja um lán. Skráir sjóðurinn hjá sér allar slíkar tilraunir. Engar slíkar upplýsingar liggja fyrir hjá sjóðnum í máli kæranda. Kærandi hefur sjálfur ekki lagt fram nein gögn er styðja fullyrðingar hans um að umsókn hans hafi misfarist í tölvukerfi sjóðsins. Eins og að framan greinir eru engin gögn fyrirliggjandi í málinu um að kærandi hafi sótt um á heimasíðu LÍN fyrir lögbundinn frest eða að tæknilegir erfiðleikar hafi valdið því að umsókn hans hafi misfarist í tölvukerfi sjóðsins. Með vísan til reglugerðar LÍN, úthlutunarreglna sjóðsins er eigi heimila neinar undanþágur frá auglýstum umsóknarfresti, svo og fyrri úrlausna stjórnar LÍN við meðferð samskonar mála, verður að telja að lögmæt sjónarmið hafi legið til grundvallar synjunar á beiðni kæranda um undanþágu frá umsóknarfresti. Þrátt fyrir að stjórn sjóðsins hafi ekki í úrskurði sínum þann 16. febrúar 2011 fjallað um þá málsástæðu kæranda að tæknilegir erfiðleikar hafi valdið því að umsókn hans hafi misfarist hefur það ekki áhrif á niðurstöðu málsins þar sem engin gögn um slíka tæknilega erfiðleika komu fram við rannsókn málsins hjá málskotsnefnd. Að þessu virtu er fallist á það með stjórn LÍN að niðurstaða sjóðsins í máli kæranda hafi verið í samræmi við lög og reglur sem um sjóðinn gilda. Niðurstaða hins kærða úrskurðar stjórnar LÍN er því staðfest.

 

Úrskurðarorð

 

Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 16. febrúar 2011 er staðfestur.

Til baka