Úrskurður
Ár 2011, miðvikudaginn 24. ágúst, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-17/2011.
Kæruefni
Með kæru sem barst málskotsnefnd þann 16. maí 2011 kærði
kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 16. febrúar
2011 þar sem beiðni kæranda um námslán var hafnað. Stjórn LÍN var tilkynnt um
kæruna með bréfi dagsettu sama dag og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um
hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru
settar fram í bréfi dagsettu 31. maí 2011 og var afrit þess sent kæranda og
honum jafnframt veittur frestur til að koma að athugasemdum sínum. Athugasemdir
bárust frá kæranda með bréfi dagsettu 30. júní 2011.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi stundaði B.Sc. nám í hugbúnaðarverkfræði við Háskólann
í Reykjavík frá haustinu 2007 og lauk því námi haustið 2010. Námið er 180 ECTS
einingar. Kærandi lauk 24 einingum á vorönn 2010 og 6 einingum um sumarið. Sótti
hann um námslán fyrir vorönnina og fékk útborgað lán vegna 24 eininga. Kærandi
sótti ekki um lán vegna 6 eininga um sumarið en fékk þó greitt viðbótarlán vegna
þeirra um sumarið. Þar með hafði kærandi lokið 180 einingum en einhver
námskeiðin sem hann hafði lokið voru meistaranáms námskeið. Kærandi hafði þó
ekki lokið B.Sc. náminu þar sem hann átti eftir einn 6 ECTS skylduáfanga sem
hann lauk síðan um haustið 2010. Skráði kærandi sig í 28 eininga nám á haustönn
2010, tvo 8 eininga áfanga á meistarastigi og tvo 6 eininga áfanga í grunnnámi,
þar af var annar umræddur skylduáfangi. Sótti kærandi um haustlán 2010. Kærandi
fékk ekki svar frá LÍN við umsókn sinni fyrr en hann gekk eftir svari og fékk þá
þær upplýsingar að hann ætti ekki rétt á námsláni haustið 2010 en að misfarist
hefði að senda honum synjunarbréf. Kærandi kærði meðferð málsins til stjórnar
LÍN þann 19. janúar 2011. Stjórn LÍN synjaði beiðni kæranda um lán með úrskurði
sínum þann 16. febrúar 2011 með þeim rökum að hann hefði nýtt sér að fullu
lánsheimildir sjóðsins vegna B.Sc. námsins.
Sjónarmið kæranda
Kærandi fer fram á að málskotsnefnd hnekki úrskurði stjórnar LÍN um að
synja honum um námslán fyrir haustönn 2010. Bendir kærandi á að hann hafi ekki
verið búinn að ljúka B.Sc. námi sínu haustið 2010 þar sem hann hafi átt eftir
einn 6 eininga skylduáfanga. Hafi hann sótt um lán þann 2. nóvember 2010 og í
framhaldinu hafi hann fengið beiðni frá LÍN um að skila tekjuáætlun. Hann hafi
nokkrum sinnum skoðað "Mitt svæði" hjá LÍN og alltaf hafi staðið að engin mál
tefðu afgreiðslu og að umsóknin hafi alltaf verið inni. Kærandi kveðst í
framhaldinu hafa haft samband við sjóðinn og verið tjáð af starfsmanni að
umsókninni hafi verið "hent út" úr kerfinu um leið og hún barst sökum reglunnar
um 180 eininga hámarkið. Engin tilkynning þessa efnis mun þó hafa verið send
kæranda. Kærandi vísar til þess að 5 ára hámarksregla komi fram í
úthlutunarreglum LÍN og að í lögum nr. 21/1992 um lánasjóð íslenskra námsmanna
komi fram í 3. mgr. 6. gr. að námsmaður skuli að jafnaði hafa heimild til að
taka lán á hverju misseri á meðan hann sé við nám, þó ekki lengur en hæfilegur
námstími sé í þeirri grein og í þeim skóla sem nám sé stundað við. Fram kemur
hjá kæranda að hin tilvitnaða 180 eininga regla komi hvergi fram í
úthlutunarreglum LÍN. Hann bendir á að þessar 180 einingar séu ekki allar
skyldunámsgreinar til að ljúka B.Sc. gráðunni heldur hafi námsbrautinni verið
breytt nokkrum sinnum meðan á náminu stóð og hann því tekið valáfanga sem hann
taldi að myndu nýtast sér vel síðar. Kærandi vísar einnig til þess að LÍN hafi
ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni þar sem mögulegt hefði verið að skrá
einingarnar á annan hátt, t.d. sem byrjun á nýrri gráðu, og þá hefði hann átt
rétt á láni. Ennfremur telur kærandi að lánasjóðurinn hafi átt að láta hann vita
um synjun umsóknar í tæka tíð í nóvember svo að hann hefði getað brugðist við
sjálfur. Hefði hann þannig getað sótt um að fá þessar einingar sem valfög uppí
aðra gráðu og sótt um lán vegna þeirra.
Sjónarmið LÍN
Í
athugasemdum stjórnar LÍN vegna kærunnar kemur fram að kærandi hafi sótt um lán
fyrir 60 einingum námsárið 2009-1010. Hafi kærandi lokið 54 einingum samanlagt á
haust- og vorönn sem hann hafi fengið lán vegna. Um sumarið hafi kærandi síðan
lokið 6 einingum og fengið út á þær viðbótarlán, þótt hann hefði ekki sótt um
sumarlán eins og tíðkaðist á þeim tíma. Þar með hafi kærandi verið búinn að fá
lán samtals vegna 180 eininga í grunnnámi sínu. Í athugasemdum LÍN er vísað til
þess að kærandi eigi ekki rétt á láni umfram 180 einingar sem hann hafi þegar
fengið hjá sjóðnum, sbr. grein 2.1 í úthlutunarreglum LÍN. Hafi stjórn LÍN þar
af leiðandi synjað erindi kæranda. Fram kemur í rökstuðningi LÍN að kærandi hafi
sótt um lán hjá sjóðnum en sökum mistaka hafi hann ekki fengið synjunarbréf eins
og venja væri. Hins vegar hafi hann ekki heldur fengið neina lánsáætlun eða
staðfestingu á lánum til þess náms er hann stundaði og því hafi engin lánsloforð
legið fyrir. Í gögnum meðfylgjandi athugasemdum LÍN kemur fram að sjóðurinn
aflaði upplýsinga frá HR um námskeið þau er kærandi stundaði. Í svari skólans
kom fram að tvö af þeim námskeiðum er kærandi stundaði á haustönn 2010 voru á
meistarastigi og tvö á grunnháskólastigi. Bendir LÍN á að í gögnunum komi einnig
fram að kærandi sé kominn fram yfir þær 180 einingar sem hann þurfi til að
útskrifast og staðfesti það afgreiðslu sjóðsins. Að lokum bendir LÍN á að
kærandi sé skráður í meistaranám við erlendan háskóla frá og með vorönn 2011 og
því sé ekki hægt að færa rök fyrir því að námskeið er hann hafi tekið á haustönn
2010 stefni sameiginlega að tilteknum starfsréttindum, sbr. úrskurð
málskotsnefndar í máli L-2/2011.
Niðurstaða
Samkvæmt 1. gr. laga nr. 21/1992 um lánasjóð íslenskra námsmanna er hlutverk sjóðsins að tryggja þeim er falla undir lögin jöfn tækifæri til náms. Í 1. mgr. 3. gr. laganna kemur fram að miða skuli við að námslán samkvæmt lögunum nægi hverjum námsmanni til að standa straum af náms- og framfærslukostnaði meðan á námi stendur að teknu tilliti til fjölskyldustærðar námsmannsins. Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. setur stjórn sjóðsins nánari ákvæði um úthlutun námslána. Hefur stjórn LÍN sett úthlutunarreglur sem miða að því að skilgreina hvaða skilyrði námsmaður þurfi að uppfylla til að hafa rétt til námsláns samkvæmt lögunum meðan á námi hans stendur. Í 2. mgr. greinar 2.1 í úthlutunarreglum LÍN fyrir námsárið 2010 - 2011 kemur eftirfarandi fram: "Námsframvinda er metin á þeim námsárum sem námsmaður nýtur aðstoðar. Hámarksfjöldi eininga sem lánað er fyrir á einstökum námsbrautum tekur mið af skipulagi skóla samþykktu af stjórn sjóðsins. Einungis er tekið tillit til námskeiða sem nýtast til lokaprófs en metnar einingar úr fyrra námi teljast ekki til námsframvindu." Þá kemur einnig fram í 7. mgr. greinar 1.1 í úthlutunarreglunum að "[H]afi námsmaður fullnýtt svigrúm sitt til lána á ákveðinni námsbraut eða ákveðnu skólastigi, sbr. 2.1. telst frekara nám á viðkomandi námsbraut/skólastigi ekki lánshæft." Óumdeilt er að námsbraut sú er kærandi var á í Háskólanum í Reykjavík er 180 einingar. Samkvæmt tilvitnaðri 2. mgr. greinar 2.1 í úthlutunarreglum LÍN vegna námsársins 2010-2011 átti hann því rétt á láni vegna 180 eininga. Þar sem hann hafði þegar notið námslána vegna 180 eininga þegar hann sótti um námslán haustið 2010 var ljóst að hann hafði fullnýtt svigrúm sitt til lána á þeirri námsbraut er hann var á í B.Sc. námi sínu. Var því frekara nám á viðkomandi námsbraut ekki lánshæft, sbr. 7. mgr. greinar 1.1 í úthlutunarreglum LÍN. Átti kærandi þar af leiðandi ekki frekari lánsrétt vegna námsins er hann sótti um haustlán 2010. Var LÍN því rétt að synja umsókn kæranda um námslán í samræmi við skýr ákvæði úthlutunarreglnanna. Að mati málskotsnefndar geta þau mistök LÍN að senda kæranda ekki synjun þegar í stað ekki orðið til þess að skapa honum lánsrétt. Kærandi hafði ekki í höndum loforð um lán. Í ljósi þess og hve úthlutunarreglurnar eru skýrar verður ekki talið að kærandi hafi getað haft réttmætar væntingar til láns á grundvelli athafnaleysis LÍN. Þá telur málskotsnefndin að möguleikar kæranda til námsláns hafi ekki getað skerst sökum skorts á leiðbeiningum frá LÍN þar sem kærandi var í reynd ekki skráður í neitt annað nám á grunnháskólastigi og engar upplýsingar voru um að kærandi hygðist hefja slíkt nám seint á haustönn 2010. Með vísan til framangreindra röksemda er hin kærða niðurstaða í úrskurði stjórnar LÍN frá 16. febrúar 2011 í máli kæranda staðfest.
Úrskurðarorð
Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 16. febrúar 2011 er staðfestur.