Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-15/2011 - Umsóknarfrestur og útborgun - beiðni um undanþágu frá umsóknarfresti

Úrskurður

 

Ár 2011, miðvikudaginn 7. september, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-15/2011.

 

Kæruefni

 

Með bréfi sem barst málskotsnefnd 18. apríl 2011 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 21. janúar 2011 þar sem beiðni kæranda um undanþágu frá grein 5.1.2 í úthlutunarreglum LÍN um að lánsumsókn vegna náms haustið 2010 þurfi að berast fyrir 1. desember 2010 var hafnað. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 13. maí 2011 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 23. maí 2011 og var afrit þess sent kæranda og honum jafnframt gefinn frestur til að koma að athugasemdum sínum. Athugasemdir kæranda bárust 15. júní 2011. Með bréfi dagsettu 11. ágúst 2011 fór málskotsnefnd þess á leit við Landsbankann að hann veitti nánar greindar upplýsingar vegna málsins. Svarbréf Landsbankans barst með bréfi dagsettu 19. ágúst 2011. Kæranda og LÍN var með bréfi dagsettu 24. ágúst gefinn frestur til 6. september til að tjá sig um svarbréf Landsbankans. Engar athugasemdir bárust frá þessum aðilum.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Þann 20. desember 2011 sendi kærandi tölvupóst til LÍN vegna upplýsinga er hann hafði fengið á vef Landsbankans um umsóknarfrest vegna umsókna um námslán vegna haustannar 2010. Kemur fram í tölvupóstinum að kærandi hafði ætlað að skrá sig vegna námsláns en verið tjáð að frestur til að sækja um væri runninn út. Hafði frestur vegna haustláns 2009 verið 15. janúar en verið breytt í 1. desember vegna haustláns 2010. Kvaðst kærandi tala litla íslensku og hafi hann ekki fengið neinn póst eða tölvupóst um breytingar á dagsetningum umsóknarfrestsins. Benti kærandi á að hann hefði farið í gegnum heimabanka sinn hjá bankanum og inná MITT SVÆÐI Lánasjóðsins. Á heimasíðu bankans hefði komið fram að umsóknarfrestur væri til 15. janúar og hefðu upplýsingar ekki verið uppfærðar vegna haustláns 2010. Þegar umsókn kæranda um námslán var hafnað sökum þess að hann hefði sótt um lán eftir að tilskilinn umsóknarfrestur hafði runnið út bar kærandi mál sitt undir stjórn LÍN. Stjórn LÍN synjaði beiðni kæranda um undanþágu frá umsóknarfresti með úrskurði sínum þann 21. janúar 2011. Kærandi kærði úrskurð stjórnar LÍN til málskotsnefndar þann 19. apríl 2011. Í kærunni koma fram sömu athugasemdir og í samskiptum kæranda við LÍN um að kærandi hefði treyst á upplýsingar á heimasíðu Landsbankans. Vísaði kærandi ennfremur til 3. mgr. 5. gr. laga nr. 21/1992 um lánasjóð íslenskra námsmanna þar sem segir: 

"Stjórn sjóðsins er heimilt að fela bankastofnunum útborgun lána, innheimtu og aðra daglega afgreiðslu.

Í kærunni kemur fram sú afstaða kæranda að greinilega sé um samstarf að ræða milli LÍN og bankans. Því sé ekki rétt að Landsbankinn sé óháður aðili og lánasjóðurinn beri enga ábyrgð á því sem komi þar fram. Á meðfylgjandi gögnum sem kærandi sendi, m.a. útprentun af heimasíðu Landsbankans kemur fram að upplýsingar um umsóknarfrest voru vegna haustláns 2009 og sagði eftirfarandi á heimasíðu bankans: 

"Sækja þarf um námslán fyrir eftirfarandi dagsetningar: 15. janúar 2010 vegna náms haustið 2009

Í umsögn stjórnar LÍN, dagsettri 23. maí 2011, kemur fram umsóknarfrestur hafi verið tilgreindur á heimasíðu LÍN, bæði á íslensku og ensku. Þá hafi sjóðurinn sent tölvupóst til kæranda þann 11. nóvember 2010 þar sem fram hefði komið að umsóknarfrestur vegna haustláns 2010 rynni út þann 1. desember 2010. Var afrit tölvupóstsins meðfylgjandi athugasemdum LÍN. LÍN benti einnig á að námsmannahreyfingar hefðu sent slíkar upplýsingar á félagsmenn. Benti LÍN einnig á að í útprentun frá heimasíðu Landsbankans er fylgdi kæru hefði komið fram að um væri að ræða umsóknarfrest vegna skólaársins 2009-2010. Málskotsnefnd fór þess á leit við Landsbankann að hann veitti upplýsingar um fyrirkomulag vegna umsókna námslána. Í svarbréfi bankans kom fram að bankinn bjóði námsmönnum að sækja um gegnum netbankann, líkt og öll fjármálafyrirtæki í landinu geri. Fyrirkomulagið sé með þeim hætti að námsmaður geti valið tengilinn "umsókn" undir liðnum "LÍN" og opnist þá nýr gluggi þar sem námsmaður fari inná læst vefsvæði hjá LÍN. Geti námsmenn því ekki sótt um lán á netsvæði bankans. Tók bankinn fram að hann hefði ekki gert samkomulag við LÍN um framangreint fyrirkomulag og væri því um að ræða þjónustu bankans við viðskiptavini sína að eigin frumkvæði bankans án aðkomu sjóðsins.

 

Niðurstaða

 

Samkvæmt 1. gr. reglugerðar nr. 602/1997 um Lánasjóð íslenskra námsmanna skal auglýsa með tryggilegum hætti eftir umsóknum um námslán og skal í auglýsingunni m.a. koma fram hvenær umsóknarfrestur rennur út. Í grein 5.1.2 í úthlutunarreglum LÍN fyrir árið 2010-2011 segir að sækja skuli sérstaklega um námslán fyrir hvert aðstoðarár og að umsókn vegna náms haustið 2010 skuli hafa borist sjóðnum fyrir 1. desember 2010. Samkvæmt upplýsingum frá LÍN var umsóknarfrestur einnig tryggilega auglýstur á heimasíðu LÍN. Fyrir liggur að kærandi sótti ekki um lán hjá LÍN fyrir haustönn 2010 fyrr en 20. desember 2010. Fram kemur í gögnum málsins að upplýsingar þær á heimasíðu Landsbankans sem kærandi reiddi sig á voru vegna umsóknarfrests vegna haustlána 2009 en kærandi hugðist sækja um haustlán vegna ársins 2010. Var því ljóst að upplýsingar á heimasíðu bankans höfðu ekki verið uppfærðar vegna umsóknarfrests haustlána 2010. Vegna fyrirspurnar málskotsnefndar um meðferð stjórnar LÍN á sambærilegum málum, sbr. t.d. úrskurð málskotsnefndar í málinu L-34/2010, hefur stjórn LÍN upplýst að hvert mál sé skoðað sérstaklega og mat lagt á það hverju sinni hvort rök séu fyrir hendi til að fallast á að veita undanþágu frá umsóknarfrestinum. Við það tilefni var einnig upplýst af hálfu stjórnar LÍN að á undanförnum fimm skólaárum hafi ein undanþágubeiðni frá umsóknarfresti verið veitt og jafnframt hefur verið upplýst hvað hafi legið til grundvallar þeirri niðurstöðu. Með vísan til reglugerðar LÍN, úthlutunarreglna sjóðsins svo og fyrri úrlausna stjórnar LÍN við meðferð samskonar mála verður að telja að lögmæt sjónarmið hafi legið til grundvallar synjunar á beiðni kæranda um undanþágu frá umsóknarfresti og að jafnræðis hafi verið gætt af hálfu LÍN við afgreiðslu málsins. Ekki verður fallist á það sjónarmið kæranda að LÍN geti tekið ábyrgð á upplýsingum er stafa frá aðilum ótengdum LÍN, sbr. og úrskurð málskotsnefndar í málinu L-49/2010. Það að um óuppfærðar upplýsingar vegna fyrra árs var að ræða hefði einnig mátt vera kæranda tilefni til að kanna hjá LÍN hver umsóknarfrestur var vegna yfirstandandi árs. Það kom skýrlega fram í úthlutunarreglum og á heimasíðu LÍN hver umsóknarfrestur vegna haustannar 2010 var. Að þessu virtu er fallist á það með stjórn LÍN að afgreiðsla sjóðsins á erindi kæranda hafi verið í samræmi við lög og reglur sem um sjóðinn gilda. Niðurstaða hins kærða úrskurðar stjórnar LÍN er því staðfest.

 

Úrskurðarorð

 

Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 21. janúar 2011 er staðfestur.

Til baka