Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-19/2011 - Endurgreiðsla námslána - beiðni um lækkun á tekjustofni til útreiknings tekjutengdrar afborgunar

Úrskurður

Ár 2011, miðvikudaginn 14. september kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-19/2011.

Kæruefni

Með kæru sem barst málskotsnefnd þann 23. júní 2011 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 23. maí 2011 þar sem hafnað var beiðni kæranda um að tekjustofn hans árið 2010 til útreiknings fjárhæðar tekjutengdrar afborgunar árið 2011 yrði lækkaður. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 23. júní 2011 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 4. júlí 2011 og var afrit þess sent kæranda og honum jafnframt gefinn frestur til að koma að athugasemdum sínum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi ódagsettu, en mótteknu 10. ágúst 2011.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi óskar eftir því að tekjustofn hans árið 2010 til útreiknings fjárhæðar tekjutengdrar afborgunar árið 2011 verði lækkaður þar sem hann taki mið af tekjum hans í Danmörku árið 2010. Kærandi hafi flutt til Íslands í desember 2010 og hafi þar af leiðandi haft tekjur í dönskum krónum í ellefu af tólf mánuðum árið 2010 og hafi þær legið á bilinu 9-10 milljónir íslenskra króna. Við flutninginn til Íslands hafi tekjur hans lækkað og í dag séu grunnlaun hans 340.000 krónur fyrir skatta. Að mati kæranda sé óeðlilegt að afborgunin sé tengd við tekjur hans í Danmörku frá árinu áður, sem séu í engum takti við tekjur hans hér á landi. Bendir kærandi m.a. á að Fæðingarorlofssjóður miði ekki við tekjur hans erlendis við útreikning fæðingarorlofsgreiðslna. Þá bendir kærandi á að búferlaflutningur hans og fjölskyldunnar hafi verið kostnaðarsamur og ef afborgunin eigi að miðast við tekjur ársins 2010 muni það leiða til fjárhagslegra þrenginga fyrir hann. Í athugasemdum stjórnar LÍN kemur fram að í 3. mgr. 10. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN sé skýrt kveðið á um að tekjutengd afborgun skuli reiknast út frá tekjum á fyrra ári eftir að lánþegi hafi sent inn upplýsingar um tekjur sínar erlendis. Greiðendur greiði fast hlutfall af tekjum sínum óháð því hvort krónan sé veik eða sterk. Þannig hafi kærandi og margir aðrir greiðendur sem búsettir voru erlendis á árunum 2006 og 2007 notið góðs af sterku gengi krónunnar á þeim tíma. Sjóðurinn geti ekki farið eftir sjónarmiðum um rétt kæranda hjá öðrum aðilum heldur einungis eftir þeim reglum sem gilda um sjóðinn.

Niðurstaða

Í 8. gr. laga um LÍN kemur fram að árleg endurgreiðsla námslána LÍN ákvarðist í tvennu lagi, annars vegar föst greiðsla sem innheimt er á fyrri hluta ársins, óháð tekjum, hins vegar viðbótargreiðsla sem innheimt er á síðari hluta ársins og ákvarðast ákveðinn hundraðshluti af tekjustofni ársins á undan. Ekki er ágreiningur um það í þessu máli hver tekjustofn kæranda var á árinu 2010. Eingöngu er til úrlausnar hvort efni séu til þess að lækka tekjustofninn og miða við þær tekjur sem kærandi hefur haft eftir að hann flutti til Íslands. Samkvæmt 6. mgr. 8. gr. laga um LÍN er stjórn sjóðsins heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu námslána að hluta eða öllu leyti ef skyndilegar og verulegar breytingar verða á högum skuldara. Í fyrri úrskurðum málskotsnefndar m.a. í málinu nr. L-1/2011 hefur komið fram að túlka ber framangreint undanþáguákvæði þröngt og þurfa fjárhagserfiðleikar lántaka að vera verulegir og fyrir þeim ríkar ástæður, s.s. alvarleg veikindi eða slys. Í ákvæði 7.5.1 í úthlutunarreglum LÍN er einnig að finna heimild til undanþágu frá afborgun námslána vegna verulegra fjárhagsörðugleika sem hafi varað a.m.k. fjóra mánuði fyrir gjalddaga afborgunar og í ákvæði 7.5.2 er heimild til undanþágu vegna skyndilegra og verulegra breytinga á högum lánþega. Í síðarnefnda tilvikinu miðast undanþáguheimildin við að skyndileg og alvarleg veikindi eða sambærilegar ástæður valdi verulegri skerðingu á ráðstöfunarfé eða möguleikanum til að afla tekna. Þessar ástæður sem úthlutreglurnar tilgreina eru ekki fyrir hendi í þessu máli og geta því ekki leitt til lækkunar á tekjustofni kæranda. Þar sem í lögum nr. 21/1992 um LÍN er lögbundið að ákveða skuli tekjutengda afborgun sem hlutfall af tekjuskattsstofni ársins á undan og þar sem ljóst er að kærandi uppfyllir ekki skilyrði til undanþágu frá tekjutengdri afborgun 2011 vegna tekjuskerðingar verður að fallast á það með stjórn LÍN að afgreiðsla sjóðsins á erindi kæranda hafi verið í samræmi við lög og reglur sem um sjóðinn gilda. Niðurstaða hins kærða úrskurðar stjórnar LÍN er því staðfest.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 23. maí 2011 er staðfestur. 

Til baka