Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-11/2011 - Ábyrgðarmenn Beiðni um niðurfellingu á ábyrgð á námsláni

Úrskurður

 

Ár 2011, miðvikudaginn 5. október kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-11/2011.

 

Kæruefni

 

Með kæru sem barst málskotsnefnd þann 9. mars 2011 kærði kærandi tvo úrskurði stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 20. janúar og 29. mars 2011. Með fyrri úrskurðinum hafnaði stjórn LÍN beiðni kæranda um að fella niður ábyrgðir ábyrgðarmanna á námsláni hennar, og í síðari úrskurði hafnaði stjórnin beiðni kæranda að fella niður vanskil kæranda frá árinu 2008 þannig að hún gæti sótt um frystingu á síðari afborgunum. Í kærunni fer kærandi þess á leit við málskotsnefnd að felld verði niður sjálfskuldarábyrgð tveggja ábyrgðarmanna á námsláni kæranda hjá LÍN og að eftirstöðvar vanskila kæranda frá 2008 verði lagðar við höfuðstól námsláns kæranda og að heimiluð verði frysting á þessum eftirstöðvum. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 21. mars 2011 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 5. apríl 2011 og var afrit þess sent kæranda og henni jafnframt gefinn frestur til að koma að athugasemdum sínum. Engar athugasemdir bárust frá kæranda. Með bréfi dagsettu 11. ágúst 2011 fór málskotsnefndin þess síðan á leit við stjórn LÍN að hún upplýsti hvort kærandi hefði á árinu 2008 óskað eftir undanþágu vegna þeirra afborgunar námsláns sem féll í gjalddaga haustið 2008. Umbeðnar upplýsingar bárust frá LÍN með bréfi dagsettu 1. september 2011. Með bréfi dagsettu 6. september var kæranda gefinn kostur á að tjá sig um bréf stjórnar LÍN. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Þegar kærandi sendi erindi sín til LÍN þann 13. janúar 2011 var hún í vanskilum með fimm afborganir R-láns síns hjá LÍN, þ.e. afborgun haust 2008 og afborganir vor og haust 2009 og 2010. Hafði kærandi farið þess á leit við LÍN að stöðvaðar yrðu aðgerðir gegn ábyrgðarmönnum og að frysting námsláns yrði heimiluð á grundvelli nýrrar reglu sem stjórn LÍN hafði samþykkt í mars 2010. Kærandi bar mál sitt undir stjórn LÍN sem með úrskurði þann 20. janúar 2011 synjaði beiðni um niðurfellingu sjálfskuldarábyrgðar. Stjórn LÍN benti kæranda jafnframt á að hafa samband við Umboðsmann skuldara með það fyrir augum að kanna möguleika á greiðsluaðlögun en þá bæri LÍN eins og öðrum kröfuhöfum að hætta innheimtuaðgerðum. Með síðari úrskurði sínum þann 29. mars 2011 synjaði stjórn LÍN beiðni kæranda um niðurfellingu vanskila ársins 2008 sem kærandi hafði óskað eftir til að eiga möguleika á því að sækja um frystingu síðari afborgana vegna áranna 2009 og 2010. Í kæru sinni bendir kærandi á að ábyrgðarmenn á námsláni hennar séu eignalausir og ófærir um að ábyrgjast fjármál kæranda eða annarra. Annar ábyrgðarmannanna standi í nauðasamningum á meðan hinn sé eignalaus og að auki að koma undir sig fótunum eftir að hafa verið í dýru námi. Fer kærandi þess á leit að málskotsnefndin kveði á um að þeir losni undan ábyrgð sinni. Kærandi fer þess einnig á leit við málskotsnefnd að heimilað verði að eftirstöðvum vegna afborgunar haustsins 2008 verði bætt við höfuðstól svo kærandi geti fengið frystingu á síðari afborgunum. Greinir kærandi frá því að hún hafi lent í miklum greiðsluerfiðleikum vegna fjármálahrunsins og afleiðinga þess, s.s. atvinnuleysi og eignatjóni. Hafi hún vegna þess reynt að fá að njóta úrræða fyrir lántakendur í greiðsluerfiðleikum sem LÍN hafi boðið uppá en verið synjað þar sem hún hafi verið í vanskilum með fyrri greiðslur, þ.e. vegna ársins 2008. Kærandi telur verklagsreglur stjórnar LÍN vanhugsaðar þar sem greiðendur í alvarlegum vanskilum eigi enga sjóði til að greiða upp elstu vanskilin. Í athugasemdum stjórnar LÍN kemur fram að stjórnin hafi synjað beiðni kæranda um niðurfellingu ábyrgða sökum skorts á lagaheimild. Hefði kæranda verið bent á að bera mál sín undir Umboðsmann skuldara. Hafi kærandi gert það og hafi staðfesting um greiðsluaðlögun verið send sjóðnum þann 21. mars 2011. Í framhaldinu hafi innheimtuaðgerðum verið frestað þar til niðurstaða lægi fyrir í máli kæranda hjá Umboðsmanni skuldara. Varðandi beiðni kæranda um frystingu eftirstöðva námslána benti stjórn LÍN á að stjórnin hafi litið svo á að hin nýju úrræði væru aðgerðir vegna afleiðinga bankahrunsins og hafi því verið miðað við að frysting námslána næði aðeins aftur til 1. janúar 2009 en ekki til eldri vanskila. Þá væri það einnig forsenda umsóknar um hið nýja úrræði LÍN að viðkomandi væri að nýta sér frystingu lána eða sértæka skuldaaðlögun hjá fjármálafyrirtækjum eða hefði leitað til Umboðsmanns skuldara og fengið þar tillögu um frystingu námslána. Liti stjórnin svo á að LÍN væri síðasti vagninn í lestinni þegar verið væri að leysa greiðsluvanda einstaklinga til skemmri eða lengri tíma. Þá greindi stjórn LÍN frá því að kærandi hefði ekki sérstaklega farið þess á leit haustið 2008 að sér yrði veitt undanþága frá afborgun. Hefði kærandi haft samband við LÍN og verið ósátt við milliinnheimtufyrirtæki og beðið um endurútreikning tekjutengdu afborgunarinnar þar sem leiðrétting á skatti væri væntanleg. Leiðrétting frá skattyfirvöldum hefði hins vegar ekki skilað sér til LÍN eða formlegt erindi kæranda með beiðni um endurútreikning vegna afborgunar haustsins 2008.

 

Niðurstaða

 

Með lögum nr. 78/2009 um breyting á lögum nr. 21/1992 um lánasjóð íslenskra námsmanna varð sú breyting að LÍN var heimilað að veita lán án þess að gerð væri fortakslaus krafa um ábyrgðarmenn enda legði námsmaður fram ábyrgðir sem stjórn sjóðsins teldi viðunandi, t.d. ábyrgð fjármálastofnunar. Engin heimild er í lögum nr. 22/1992 til að fella niður ábyrgðir á eldri lánum. Brestur því lagaheimild til að verða við kröfu kæranda um niðurfellingu ábyrgða. Samkvæmt 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 er stjórn LÍN heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu að hluta eða öllu leyti, ef skyndilegar eða verulegar breytingar verða á högum skuldara, t.d. ef hann veikist alvarlega eða verður fyrir slysi er skerðir til muna ráðstöfunarfé hans og möguleika til að afla tekna. Einnig er stjórn LÍN á grundvelli sama ákvæðis heimilt að veita slíka undanþágu ef nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnum barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega eða fjölskyldu hans. Hefur stjórnin í þessu skyni sett fram viðmiðunarreglur bæði almennar vegna verulegra fjárhagsörðugleika sem og skyndilegra og verulegra breytinga á högum lánþega sem og um sérstakt úrræði sem heimilar frystingu námslána. Síðast nefnda úrræðið sem kærandi hefur óskað eftir að fá að nýta sér var samþykkt af stjórninni í mars 2010 og kemur fram í grein 7.6 í úthlutunarreglum LÍN vegna 2011-2012. Er það svohljóðandi: 

Lánþegi getur sótt um frystingu námslána ef hann er þegar með frystingu á öðrum lánum sínum, svo sem fasteignalánum, hefur hafið sértæka skuldaaðlögun hjá viðskiptabanka sínum eða hefur fengið tillögu frá Umboðsmanni skuldara um að þörf sé á frystingu námslána hans. Ekki er hægt að frysta námslán ef greiðandi er í vanskilum við sjóðinn frá því fyrir árið 2009. Frysting námslána miðar við tímalengd þess úrræðis sem er forsenda frystingarinnar, þó að hámarki í þrjú ár

Ekki er ágreiningur um að þegar kærandi sendi kæru sína til málskotsnefndarinnar þann 9. mars sl. hafði kærandi ekki nýtt sér nein af þeim úrræðum sem vísað er til í ofangreindri reglu sem skilyrði fyrir heimild til frystingar námslána. Eins og fram kemur í athugasemdum stjórnar LÍN óskaði kærandi síðar eftir greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara og í framhaldinu var öllum innheimtuaðgerðum frestað þar til niðurstaða lægi fyrir. Kærandi hefur sjálf ekki sent neinar upplýsingar til málskotsnefndarinnar um breytingar á stöðu mála. Það úrræði sem stjórn LÍN samþykkti í mars 2010 er sérstaks eðlis og beinist að vanskilum sem til eru komin vegna þeirra sérstöku atburða er urðu í íslensku fjármálalífi í október 2008 og afleiðinga þeirra. Ekki verður annað séð en að málefnaleg rök búi að baki þeim viðmiðum er stjórnin hefur sett til framkvæmdar á þessu úrræði, þ.e. að það sé skilyrði að viðkomandi sé að leita tiltekinna almennra úrræða til lausnar á greiðsluvanda sínum og að úrræðið taki ekki til vanskila sem til voru komin fyrir árið 2009. Ljóst er að kærandi var komin í vanskil við sjóðinn áður en þeir atburðir gerðust er síðar urðu tilefni til þess að stjórn LÍN setti reglur um frystingu námslána í mars 2010. Verður að fallast á það með stjórn LÍN að að þetta sértæka úrræði eigi ekki við um umrædda afborgun árins 2008 af námsláni kæranda. Málskotsnefnd tekur fram að ekki liggja fyrir í gögnum málsins neinar upplýsingar um hvort kærandi hefði mögulega getað neytt almennra úrræða í úthlutunarreglum LÍN vegna skyndilegra eða verulegra breytinga á högum sínum haustið 2008 þegar greiðslufall varð á tekjutengdri afborgun kæranda. Verður enda ekki séð að á þessum tíma hafi kærandi gert reka að því að koma málum sínum gagnvart LÍN í rétt horf eða kanna möguleika á undanþágu frá tekjutengdri afborgun haustsins 2008. Með vísan til framanritaðs og forsendna hinna kærðu úrskurða að öðru leyti er fallist á það með stjórn LÍN að afgreiðsla sjóðsins á erindum kæranda hafi verið í samræmi við lög og reglur sem um sjóðinn gilda. Niðurstaða hinna kærðu úrskurða stjórnar LÍN er því staðfest. 

 

Úrskurðarorð

 

Úrskurðir stjórnar LÍN í máli kæranda frá 20. janúar 2011 og 29. mars 2011 eru staðfestir.

Til baka