Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-21/2011 - Skilyrði lánveitingar - frestur til að skila inn staðfestingu námsárangurs

Úrskurður

Ár 2011, miðvikudaginn 19. október kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-21/2011.

Kæruefni

Með kæru sem barst málskotsnefnd þann 27. júní 2011 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 23. mars 2011 þar sem staðfestur var fyrri úrskurður stjórnar LÍN frá 16. desember 2010 um að hafna beiðni kæranda um frest til að leggja fram gögn um námsárangur vegna lánveitingar á námsárinu 2009-2010. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 4. júlí 2011 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 18. júlí 2011 og var afrit þess sent kæranda og honum jafnframt gefinn frestur til að koma að athugasemdum sínum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi dagsettu 18. ágúst 2011.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi stundar nám við Ingeniørhøjskolen í Árósum í Danmörku. Vorið 2010 stóðst kærandi ekki próf í áfanga við skólann sem er 24 ECTS-einingar. Með tölvubréfi til LÍN 12. nóvember 2010 óskaði kærandi eftir fresti til þess að skila inn upplýsingum um námsárangur í áfanganum þar sem hann myndi ekki þreyta endurupptökupróf fyrr en 3. og 21. janúar 2011. Í svari LÍN frá 22. nóvember 2010 segir að lokun skólaársins 2009-2010 hafi verið rædd á stjórnarfundi LÍN þann 18. sama mánaðar og þar verið samþykkt að LÍN væri heimilt að taka við námsárangri og fylgiskjölum námsársins 2009-2010 fram til 15. janúar 2011. Kærandi brást við með því að óska eftir að að hann fengi frestinn framlengdan til 30. janúar 2011 eða a.m.k. til 25. þess mánaðar því fyrr myndu ekki liggja fyrir upplýsingar um námsárangur hans í upptökuprófinu. Þeirri beiðni hafnaði stjórn LÍN með úrskurði sínum 16. desember 2009 þar sem ekki væri heimild til að skila gögnum um námsárangur eftir 15. janúar 2011 og eftir það væru ekki afgreidd lán vegna námsársins. Hinn 20. janúar 2011 sendi kærandi stjórn LÍN staðfestingu á því að hann hefði lokið upptökuprófinu með tilskyldum árangri 5 dögum eftir að fresturinn til að skila inn gögnum um námsárangur rann út. Óskaði kærandi eftir því að stjórnin endurupptæki málið og breytti úrskurði sínum. Með úrskurði 23. mars 2011, sem hér sætir endurskoðun, ítrekaði stjórn LÍN fyrri niðurstöðu sína frá 16. desember 2010 um að synja beiðni kæranda þar sem niðurstöður upptökuprófsins lágu ekki fyrir fyrr en eftir 15. janúar 2011. Kærandi rökstyður kröfu sína með því að það sé honum og fjölskyldu hans mikið hagsmunamál að hann fái námslán vegna þeirra 24 ECTS-eininga sem hann lauk með endurupptökuprófinu í janúar 2011. LÍN hafi enga hagsmuni af því að neita um tilhliðrun vegna frestsins 15. janúar 2011, en með neitun sinni sé nám kæranda sett í uppnám. Það ætti að standa LÍN nær að gefa honum færi á að ljúka námi sínu og með því gera honum kleift að endurgreiða lánið fyrr í formi hærri tekna. Þá bendir kærandi á að í gegnum tíðina hafi dagsetning á lokun lánaársins verið breytileg frá 1. desember til 1. febrúar. Ómögulegt sé að skilja á hvaða forsendum eða með hvaða rökum miðað sé við 15. janúar, sérstaklega þegar litið er til þess að sú dagsetning myndi ekki gagnast honum. Þá vísar kærandi til greinar 2.5.1 í úthlutunarreglum LÍN um að skuldabréfi sé ekki lokað fyrr en námsmaður hætti að þiggja lán og þar sem hann sé aðeins hálfnaðar í námi geti 15. janúar ekki verið ástæða fyrir lokun skuldabréfs. Þá vísar kærandi til 12. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN sem hann telur að geti átt við þar sem skipulag skólans hafi valdið því að honum tókst ekki að standast námskröfur í tíma. Í athugasemdum stjórnar LÍN kemur fram að samkvæmt grein 5.2.1 í úthlutunarreglum LÍN skuli lánveitingum vegna námsársins 2009-2010 lokið 1. desember 2010. Stjórn LÍN hafi hins vegar ákveðið á fundi sínum 18. nóvember 2010 að að framlengja þann frest til 15. janúar 2011, en eftir það yrðu engin lán afgreidd vegna námsársins 2009-2010. Af þessum ástæðum hafi beiðni kæranda verið hafnað bæði í úrskurðinum 16. desember 2010 og 23. mars 2011. Þá bendir stjórn LÍN á að með skírskotun sinni til greinar 2.5.1 í úthlutunarreglum sé kærandi að rugla saman lokun skuldabréfs við lokun námsárs, sem fjallað sé um í grein 5.2.1. Þá telur stjórn LÍN að 12. gr. laga um LÍN eigi ekki við þar sem til úrlaunar sé upptökupróf kæranda og hvenær námsárangri var skilað vegna þess, en ekki hvort honum hafi staðið til boða fullt nám samkvæmt skipulagi skóla.

Niðurstaða

 

Það er óumdeilt að kærandi lauk ekki fullnægjandi árangri í fyrrgreindum námsáfanga til 24 ECTS-eininga fyrr en með upptökuprófi, en niðurstaða þess lá fyrir 20. janúar 2011. Samkvæmt grein 5.2.1 í úthlutunarreglum LÍN skyldi lánveitingum vegna námsársins 2009-2010 vera lokið 1. desember 2010, en stjórn LÍN ákvað að framlengja frestinn til 15. janúar 2011, eins og fyrr greinir. Þegar niðurstaða upptökuprófs kæranda lá fyrir voru því liðnir 5 dagar frá því að stjórn LÍN lokaði á afgreiðslu allra námslána vegna námsársins 2009-2010. Það er álit málskotsnefndar það sé mikilvægt að festa ríki um þá fresti sem námsmönnum eru settir og að almennt beri að vísa frá erindum sem berast að liðnum fresti. Í lögum um LÍN og úthlutunarreglum sjóðsins er ekki að finna heimild til þess að afgreiða námslán eftir að frestur til að leggja fram gögn um námsárangur og aðrar nauðsynlegar upplýsingar er liðinn og sérstaklega er tekið fram að eftir lokun námsársins séu ekki afgreidd lán vegna þess. Það er því álit málskotsnefndar að lögmæt sjónarmið hafi legið til grundvallar synjun stjórnar LÍN á beiðni kæranda. Ákvæði úthlutunarreglna um lokun skuldabréfs sem kærandi vísar til varðar námslok námsmanns og á því ekki við í málinu. Þá varðar ákvæði 12. gr. laga um LÍN, sem kærandi vísar til öðrum þræði, þá aðstöðu er námsmanni stendur ekki til boða fullt nám samkvæmt skipulagi skóla og tekst af þeim ástæðu ekki að standast prófkröfur. Það á heldur ekki við í máli kæranda. Námsárangur kæranda sem hann skilaði 19. janúar 2011 tilheyrir því skólaárinu 2010-2011. Að þessu virtu er hinn kærði úrskurður stjórnar LÍN staðfestur.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 23. mars 2011 er staðfestur.

Til baka