Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-12/2011 - Skilyrði lánveitingar - synjun vegna ónógs námsárangurs

Úrskurður

Ár 2011, miðvikudaginn 23. nóvember, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-12/2011.

Kæruefni

Með kæru sem barst málskotsnefnd þann 17. mars 2011 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 16. desember 2010 þar sem beiðni kæranda um lán vegna skólagjalda á sumarönn 2010 var hafnað sökum þess að hún hafði ekki lokið tilskildum einingafjölda á umræddu námsári. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 31. mars 2011 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 12. apríl 2011 og var afrit þess sent kæranda og henni jafnframt veittur frestur til að koma að athugasemdum sínum. Kærandi sendi athugasemdir með tölvupósti þann 3. maí 2011. Jafnframt framsendi kærandi til málskotsnefndar tölvupóst á milli sín og háskólans þar sem fram kemur sú útskýring kæranda að áfanga hafi væntanlega verið bætt við sumarönn 2009 til að gera nemendum kleift að stunda lánshæft nám á önninni auk þess sem að kennarar hafi átt torvelt með að kenna einhverja áfanga á tilskildum tíma. Með bréfi dagsettu 20. október 2011 fór málskotsnefnd þess á leit við Háskólann á Bifröst að sendar yrðu upplýsingar um skipulag náms kæranda. Umbeðnar upplýsingar bárust með bréfi dagsettu 31. október 2011. Þar kom fram að skipulagi náms kæranda hafði verið breytt þannig að 6 ECTS eininga aukavalfagi hefði verið bætt við sumarönn 2009 og hafi því verið hægt að taka fleiri en eitt valfag á þeirri önn. Samkvæmt skipulagi tækju nemendur þó aðeins eitt valfag á sumarönnum. Jafnframt hefði valfögum verið fækkað á haustönn 2009 þar sem ekki hafi verið farið af stað með LL.M. nám haustið 2009. Hafi valfög haustannar verið bundin við skattarétt. Voru upplýsingarnar sendar kæranda og stjórn LÍN með bréfi dagsettu 8. nóvember 2011 og þeim veittur frestur til að koma að frekari athugasemdum. Svar frá stjórn LÍN barst með bréfi dagsettu 10. nóvember 2011. Svar kæranda barst með bréfi dagsettu 14. nóvember 2011.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi hóf meistaranám við Háskólann á Bifröst vorið 2009. Námið er 1,5 ár og 120 ECTS einingar. Kærandi lauk náminu sumarið 2010 og sótti um lán vegna skólagjalda sumarannar 2010. Hafði kærandi lokið 24 einingum á haustönn 2009, 30 einingum á vorönn 2010 og 18 einingum á sumarönn það ár, eða samtals 72 einingum. Lánasjóðurinn hafnaði umsókn kæranda þar sem hún uppfyllti ekki kröfur greinar 4.8 í úthlutunarreglum LÍN um 75 ECTS eininga lágmark vegna sumarláns. Kærandi bar mál sitt undir stjórn LÍN og kvaðst hafa þurft að haga námi sínu á þann hátt sem hún gerði vegna skipulags skóla. Stjórn LÍN synjaði erindi kæranda með úrskurði þann 21. október 2010 með vísan til þess að hún uppfyllti ekki skilyrði um 75 ECTS eininga lágmark er fram kæmi í grein 2.1.1 í úthlutnarreglum vegna skólaársins 2009-2010. Kom fram í úrskurðinum að samkvæmt útgefinni námskrá skólans er hefði legið fyrir við upphaf náms kæranda væri gert ráð fyrir að kærandi lyki 12 einingum á sumarmisseri 2009 og 30 einingum á haustmisseri. Kærandi lauk 20 einingum á sumarmisseri og því færri einingum á haustönn 2009 eða 24 í stað 30 eins og útgefin námskrá gaf til kynna. Kærandi fór fram á endurupptöku máls síns við stjórn LÍN. Stjórn LÍN synjaði beiðni kæranda með úrskurði sínum þann 17. desember 2010 þar sem kæranda hefði ekki tekist að sanna með innsendum gögnum að henni hefði ekki verið kleift að ljúka 75 ECTS einingafjölda á námsárinu 2009-2010 vegna skipulags skóla og byggja þannig á undanþáguákvæði 2. mgr. 12. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna.

Sjónarmið kæranda

Kærandi fer fram á það í kæru að viðurkennt verði að skilyrði 2. mgr. 12. gr. laga nr. 21/1992 teljist uppfyllt og að heimild sé til staðar til þess að veita henni undanþágu frá úthlutunarreglum lánasjóðsins 2009-2010. Kærandi kveður skipulag náms hafa ítrekað breyst á meðan á námi hennar hafi staðið. Það skipulag sem LÍN hafi miðað við sé ekki rétt. Kveður kærandi að námsferill hennar sýni að henni hafi einungis staðið til boða að taka 72 einingar á námsárinu 2009-2010 þar sem einungis hafi verið hægt að taka 24 einingar á haustönn 2009 en ekki 30 eins og LÍN hafi miðað við. Kærandi telur það ósanngjarnt að krefjast þess af henni að hún tæki 6 eininga valfag úr meistaranáminu í skattarétti haustið 2009 til að uppfylla tilskilinn einingafjölda en henni hafi verið bent á það af skólanum. Telur kærandi að það sé ekki við hana að sakast að Háskólinn á Bifröst hafi hagað námsskrá þannig að henni hafi einungis staðið til boða 72 eininga nám skólaárið 2009-2010 í stað 75 eininga eins og LÍN krefjist. Vísar kærandi í þessu sambandi til úrskurðar málskotsnefndar í máli L-31/2009. Beri lánasjóðnum því að veita kæranda lán vegna skólagjalda sumarannar 2010. Í svörum kæranda vegna upplýsinga skólans um námsfyrirkomulag bendir kærandi á að upplýsingar frá skólanum séu ekki réttar þar sem 2 eininga áfangi í réttarsögu hefði ekki verið kenndur á vorönn 2009 heldur á sumarönn. Einnig hefði 6 eininga áfanginn í alþjóðlegum skattarétti ekki verið kenndur á sumarönn 2009. Benti kærandi á að ástæðan hefði verið sú að talið hefði verið að nemendur hefði þegar haft nóg af skattaáföngum og því talið eðlilegra að bæta við áfanga í barna- og erfðarétti. Hefði skattarétturinn því ekki verið valfag á sumarönn 2009. Kærandi tók einnig fram að skaða- og vátryggingarétti hefði verið kenndur á sumarönn 2009. Taldi kærandi sig ekki hafa átt neitt val þegar hún valdi þann áfanga þar sem um væri að ræða grundvallarfag. Hefði námskipulag verið þannig úr garði gert að þau fög sem skilgreind hefðu verið sem valfög hefðu ekki verið það í raun. Rangt val leiddi til þess að lánshæft nám hefði orðið ólánshæft.

Sjónarmið LÍN

Í athugasemdum stjórnar LÍN vegna kærunnar kemur fram að heildarfjöldi lokinna eininga kæranda á námsárinu 2009-2010 hafi verið 72 einingar. Kærandi hafi lokið 24 einingum á haustönn en í útgefinni námskrá hafi verið gert ráð fyrir að lokið væri við 30 einingar. Engar heimildir væru til þess að veita kæranda undanþágu frá grein 4.8 í úthlutunarreglunum sem heimiluðu veitingu sumarláns "að loknum 75 einingum". Hafii stjórn LÍN þar af leiðandi synjað erindi kæranda. Þá bendir LÍN á að samkvæmt upplýsingum frá háskólanum hafi 30 ECTS einingar verið í boði á haustönn 2009. Því hafi það ekki verið skipulag skóla sem hafi valdið því að kærandi hagaði námi sínu á þann hátt sem hún gerði.

Niðurstaða

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 21/1992 um lánasjóð íslenskra námsmanna er hlutverk sjóðsins að tryggja þeim er falla undir lögin jöfn tækifæri til náms. Í 1. mgr. 3. gr. laganna kemur fram að miða skuli við að námslán samkvæmt lögunum nægi hverjum námsmanni til að standa straum af náms- og framfærslukostnaði meðan á námi stendur að teknu tilliti til fjölskyldustærðar námsmannsins. Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laganna setur stjórn sjóðsins nánari ákvæði um úthlutun námslána. Hefur stjórn LÍN sett úthlutunarreglur sem miða að því að skilgreina hvaða skilyrði námsmaður þurfi að uppfylla til að hafa rétt til námsláns samkvæmt lögunum meðan á námi hans stendur. Í grein 2.1 í úthlutunarreglum LÍN vegna skólaársins 2009-2010 segir að viðbótarlán vegna skólagjalda á sumarönn séu veitt að loknum 75 ECTS einingum. Í 2. mgr. 12. gr. laga nr. 21/1992 er komið til móts við námsmenn þegar skipulagi náms hefur verið breytt. Þar segir: "Þá er stjórn sjóðsins heimilt að veita lán með sömu kjörum og almenn námslán vegna annarra áfalla en greinir í 1. mgr., svo sem ef námsmanni stendur ekki tímabundið til boða fullt nám samkvæmt skipulagi skóla eða veikindi valda því að námsmanni tekst ekki að standast prófkröfur". Óumdeilt er að kærandi uppfyllti kröfur um lágmarksframvindu náms. Fyrir liggur að skipulagi náms kæranda var breytt eftir að kærandi hóf nám sitt en þó ekki á þann hátt að kæranda væri ómögulegt að uppfylla kröfur LÍN um tilskildar 75 ECTS einingar. Fram kemur í upplýsingum frá skólanum að eftir að kærandi hóf nám sitt hafi verið bætt við 6 eininga valáfanga á sumarönn þannig að mögulegur heildarfjöldi eininga sem kærandi átti kost á að ljúka á sumarönn var 30 ECTS einingar. Kærandi hefur bent á að í reynd hafi aðeins verið hægt að ljúka 28 einingum þá önn. Málskotsnefnd tekur fram að þetta misræmi hefur ekki áhrif á niðurstöðu í máli þessu. Kom einnig fram í svarbréfi háskólans að samkvæmt skipulagi skólans væri þó aðeins gert ráð fyrir að nemendur tækju eitt valfag og þar með 24 ECTS einingar á sumarönn 2009. Þá liggur fyrir að valfögum á haustönn hafi verið fækkað "umtalsvert" og þau bundin við skattarétt eingöngu. Var kæranda því í reynd mögulegt að taka áfanga í skattarétti á haustönn og þannig uppfylla kröfur úthlutunarreglnanna um 75 einingar á skólaárinu 2009-2010. Kærandi fylgdi upphaflegri námskrá að því undanskildu að hún tók 6 eininga valfag á sumarönn 2009 í stað haustannar 2010 eftir að skipulagi námsins hafði verið breytt. Kærandi kaus þannig að ljúka valgrein sinni á sumarönn 2009 í stað haustannar 2009. Að mati málskotsnefndar er ljóst að kærandi gat lokið valgrein á haustönn 2009 en hún kaus að taka bæði valfög sín á sömu önn, þ.e. sumarönn 2009. Þá er ljóst að kröfur LÍN um námsárangur eru bundnar við tiltekin námsár og réttur samkvæmt úthlutunarreglunum til að færa einingar á milli skólaára er afar takmarkaður og stóð þar af leiðandi ekki til boða í tilviki kæranda. Úthlutunarreglurnar eru skýrar og afleiðingar þeirra eru fyrirsjáanlegar í tilviki kæranda, þ.e. þær gera kröfu um 75 ECTS einingar á skólaárinu 2009-2010 til að kærandi eigi rétt á sumarláni 2010. Þrátt fyrir að skipulagi náms hafi verið breytt var kæranda ekki ómögulegt að bæta við sig í námi til að geta náð tilskildum einingum á námsárinu 2009-2010. Að mati málskotsnefndar gefur orðalag 2. mgr. 12. gr. laga nr. 21/1992 til kynna að ákvæðinu verði beitt þegar áföll í reynd hamla framvindu náms, s.s. þegar námsmanni stendur alls ekki til boða að bæta við sig einingum eða þegar námsmaður getur ekki sinnt námi sökum veikinda. Verður ákvæðinu því ekki beitt í tilviki kæranda þar sem henni var ekki ómögulegt að uppfylla kröfur úthlutunarreglna LÍN um 75 ECTS einingar vegna sumarláns 2010. Með vísan til framangreindra röksemda er hin kærða niðurstaða í úrskurðum stjórnar LÍN frá 21. október 2010 og 17. desember 2010 í máli kæranda staðfest.

Úrskurðarorð

Úrskurðir stjórnar LÍN í máli kæranda frá 21. október 2010 og 17. desember 2010 eru staðfestir.

Til baka