Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-22/2011 - Umsóknarfrestur og útborgun - synjun á framlengdum fresti til að leggja fram gögn

Úrskurður

 

Ár 2011, miðvikudaginn 23. nóvember kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-22/2011.

 

Kæruefni

 

Með kæru sem barst málskotsnefnd þann 27. júní 2011 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 23. mars 2011 þar sem hafnað var beiðni kæranda um framlengdan frest til að leggja fram gögn um tekjur sínar erlendis vegna lánveitingar á námsárinu 2009-2010. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 6. júlí 2011 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 19. júlí 2011 og var afrit þess sent kæranda og honum jafnframt gefinn frestur til að koma að athugasemdum sínum. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærandi stundar nám í Danmörku og sótti hann um námslán vegna námsársins 2009-2010. Í september 2010 skilaði kærandi gögnum um fullnægjandi námsárangur sinn á skólaárinu 2009-2010. Þann 22. mars 2010 sendi LÍN umboðsmanni kæranda bréf þess efnis að upplýsingar frá skattyfirvöldum í Danmörku vantaði til þess að hægt væri að taka til afgreiðslu umsókn hans um námslán vegna 2009-2010. Með tölvupósti til kæranda þann 13. september 2010 ítrekaði LÍN beiðni sína um upplýsingar frá dönskum skattyfirvöldum. Þann 14. febrúar 2011 sendi kærandi tölvupóst til LÍN þar sem hann útskýrði að sökum misskilnings hefði hann ekki sent umbeðin gögn frá skattyfirvöldum. Fór kærandi þess á leit að umsókn hans um námslán vegna 2009-2010 yrði tekin til meðferðar og honum yrði heimilað að leggja fram umbeðin gögn frá skattyfirvöldum. LÍN synjaði erindi kæranda með vísan til þess að umbeðin gögn hefðu ekki borist innan tilskilins frests. Kærandi bar mál sitt undir stjórn LÍN með bréfi þess efnis 3. mars 2011. Kom fram í erindi hans að misskilningur hjá honum og konu hans hefði valdið því að umbeðin gögn hefðu ekki verið send til LÍN. Stjórn LÍN hafnaði beiðni kæranda með úrskurði sínum þann 23. mars 2011. Byggði stjórnin á því að samkvæmt grein 5.2.1 í úthlutunarreglunum skyldi lánveitingum vegna námsársins 2009-2010 vera lokið fyrir 1. desember 2010. Hefði stjórnin ákveðið að framlengja frestinn til 15. janúar 2011 en eftir þann tíma væru ekki afgreidd lán vegna námsársins. Umbeðin gögn kæranda hefðu ekki borist fyrr en 15. febrúar 2011 eða eftir að framangreindur frestur hefði runnið út. Væri erindi kæranda því synjað. 

Sjónarmið kæranda 

Kærandi fer þess á leit að beiðni hans um undanþágu frá fresti til að skila gögnum verði endurmetin. Mannleg mistök hafi verið gerð er hefðu haft í för með sér miklar fjárhagslegar þrengingar fyrir kæranda og fjölskyldu hans. Kærandi og kona hans hefðu sex börn á framfæri. Þau hefðu þegar misst hús sitt sökum fjárhagsvandræða er af þessu hefði hlotist og þurft að fá lánsfé hjá fjölskyldum sínum en það dygði þó ekki til. 

Sjónarmið stjórnar LÍN 

Í athugasemdum stjórnar LÍN kemur fram að samkvæmt grein 5.2.1 í úthlutunarreglum LÍN skuli lánveitingum vegna námsársins 2009-2010 lokið 1. desember 2010. Stjórn LÍN hafi hins vegar ákveðið á fundi sínum 18. nóvember 2010 að að framlengja þann frest til 15. janúar 2011, en eftir það yrðu engin lán afgreidd vegna námsársins 2009-2010. Kærandi hefði ekki skilað tilskildum gögnum til sjóðsins fyrr en rúmum mánuði eftir að frestur til þess rann út. LÍN hafi þá verið bbúið að senda kæranda og umboðsmanni hans bréf þar sem óskað var eftir því umbeðin gögn yrðu send sjóðnum. Af þessum ástæðum hafi beiðni kæranda verið hafnað með úrskurði stjórnarinnar 23. mars 2011.

 

Niðurstaða

 

Í grein 5.1.3 í úthlutunarreglum LÍN kemur fram að LÍN skuli tilkynna námsmanni tímanlega um þau gögn sem honum beri að skila. Fylgiskjöl vegna umsókna þurfi að berast sjóðnum eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að þeirra var óskað. Geri hann það ekki sé LÍN heimilt að líta svo á að námsmaður hafi fallið frá umsókn sinni. Samkvæmt grein 5.2.1 í úthlutunarreglum LÍN skyldi lánveitingum vegna námsársins 2009-2010 vera lokið 1. desember 2010, en stjórn LÍN ákvað að framlengja frestinn til 15. janúar 2011, eins og fyrr greinir. Í lögum um LÍN og úthlutunarreglum sjóðsins er ekki að finna heimild til þess að afgreiða námslán eftir að frestur til að leggja fram afrit skattframtals og aðrar þær upplýsingar sem LÍN hefur óskað er liðinn. Það er sérstaklega tekið fram í 2. mgr. greinar 5.2.1 í úthlutunarreglunum að eftir lokun námsársins séu ekki afgreidd lán vegna þess. Þegar kærandi sendi upplýsingar frá dönskum skattyfirvöldum var liðinn meira en mánuður frá því að stjórn LÍN lokaði á afgreiðslu allra námslána vegna námsársins 2009-2010. Það er álit málskotsnefndar það sé mikilvægt að festa ríki um þá fresti sem námsmönnum eru settir og að almennt beri að vísa frá erindum sem berast að liðnum fresti nema í undantekningartilvikum, s.s. þegar tekst að sanna að um sé að ræða óviðráðanleg atvik eða mistök hjá LÍN. Slíkt er ekki í tilviki kæranda. Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða málskotsnefndar að lögmæt sjónarmið hafi legið til grundvallar synjun stjórnar LÍN á beiðni kæranda. Að þessu virtu er hinn kærði úrskurður stjórnar LÍN staðfestur.

 

Úrskurðarorð

 

Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 23. mars 2011 er staðfestur.

Til baka