Úrskurður
Ár 2011, miðvikudaginn 23. desember, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-27/2011.
Kæruefni
Með kæru sem barst málskotsnefnd þann 19. ágúst 2011 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 23. júní 2011 þar sem beiðni kæranda um undanþágu vegna námsframvindu var hafnað. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 24. ágúst 2011 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 12. september 2011 og var afrit þess sent kæranda og honum jafnframt veittur frestur til að koma að athugasemdum sínum. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi lauk BA námi í lögfræði frá Háskóla Íslands sumarið
2011. Fram kemur í kæru hans að til þess að ljúka náminu hafi hann orðið að taka
þau skyldunámskeið sem hann átti eftir, þ.e. 6 eininga BA ritgerð á haustönn
2010 og 15 eininga áfanga í eignarétti á vorönn 2011. Þar sem kærandi uppfyllti
ekki kröfur um 18 ECTS eininga lágmarksnámsframvindu á misseri samkvæmt grein
2.2 í úthlutunarreglum LÍN 2010-2011 fór hann þess á leit við stjórn LÍN að sér
yrði veitt lán á grundvelli undanþáguheimildar a-liðar greinar 2.4.1 í
úthlutunarreglunum. Vísaði kærandi til þess að samkvæmt orðalagi heimildarinnar
mætti leggja saman loknar einingar frá fleiri en einu misseri (haust- eða
vormisseri). Taldi kærandi sig þannig ná lágmarksnámsframvindu þar sem hann
hefði lokið 21 ECTS einingum samanlagt á haust og vorönn. Stjórn LÍN synjaði
erindi kæranda með úrskurði sínum þann 18. maí 2011 með vísan til greinar 2.2 í
úthlutunarreglum LÍN 2010-2011.
Sjónarmið kæranda.
Í kæru
sinni til málskotsnefndarinnar kveðst kærandi ósammála túlkun stjórnar LÍN á
undanþáguheimild greinar 2.4.1 í úthlutunarreglunum. Vísar kærandi til þess að
undanþáguheimildin þjóni mjög takmörkuðum ef einhverjum tilgangi eins og stjórn
LÍN hafi skýrt hana, enda uppfylli námsmaður kröfu greinar 2.2 um 18 eininga
lágmarks námsframvindu ef stjórnin heimili lán til hans á þeim forsendum að hann
hafi bætt við sig einingum á viðkomandi önn. Þá vísar kærandi einnig til þess að
skort hafi á rökstuðning í úrskurði stjórnar LÍN auk þess sem ekki sé tekið fram
í umræddum úrskurði að kærandi eigi rétt á rökstuðningi, sbr. 1. tl. 2. mgr. 20.
gr. laga nr. 37/1993. Fer kærandi þess á leit að málskotsnefndin fjalli
efnislega um beiðni hans og skoði þá sér í lagi efnislegt inntak
undanþáguheimildar í a-lið greinar 2.4.1.
Sjónarmið stjórnar LÍN.
Í athugasemdum stjórnar LÍN kemur fram að kærandi hafi sótt um námslán
þar sem hann gerði grein fyrir því að hann hygðist ljúka 21 ECTS einingu á
haustönn 2010 og 25 ECTS einingum á vorönn 2011. Hafi LÍN látið honum í té
lánsáætlun vegna umsóknarinnar um haustlán en ekki vegna umsóknar um lán á
vorönn þar sem ljóst hafi verið að kærandi hafi aðeins átt eftir 21 einingu
eftir af BA námi sínu. Hefði hann lokið 6 einingum á haustönn 2010 og 15
einingum á vorönn 2011. Í athugasemdum sínum tekur stjórn LÍN einnig afstöðu til
þess hvort kærandi geti byggt á undaþágu a-liðar greinar 2.4.1 í
úthlutunarreglum LÍN frá kröfum greinar 2.2 um lágmarksnámsframvindu og telur
ekki heimilt að leggja saman námsárangur tveggja anna til að uppfylla kröfur um
lágmarksnámsárangur eins og kærandi fer fram á. Á þeim forsendum hefði stjórn
LÍN synjað erindi kæranda.
Niðurstaða
Samkvæmt 1. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna er hlutverk sjóðsins að tryggja þeim er falla undir lögin jöfn tækifæri til náms. Í 1. mgr. 3. gr. laganna kemur fram að miða skuli við að námslán samkvæmt lögunum nægi hverjum námsmanni til að standa straum af náms og framfærslukostnaði meðan á námi stendur að teknu tilliti til fjölskyldustærðar námsmannsins. Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. setur stjórn sjóðsins nánari ákvæði um úthlutun námslána. Hefur stjórn LÍN sett úthlutunarreglur sem miða að því að skilgreina hvaða skilyrði námsmaður þurfi að uppfylla til að hafa rétt til námsláns samkvæmt lögunum meðan á námi hans stendur. Í þessu skyni hefur stjórnin kveðið á um að námsmaður þurfi að öðru jöfnu að vera í fullu lánshæfu námi, til þess yfirleitt að eiga rétt m.a. á framfærsluláni. Nánari útfærsla á þessu skilyrði kemur fram í grein 1.1 í úthlutunarreglunum en samkvæmt þeim telst nám lánshæft þegar það er 60 ETCS einingar á skólaári eða a.m.k. 30 ECTS einingar á hverju misseri í þeim tilvikum sem námsskipulagið nær ekki yfir heilt skólaár. Sérregla gildir um sumarnám og er lánað að hámarki vegna 20 ECTS eininga, sbr. grein 2.1.1 í úthlutunarreglunum. Námsmaður þarf þó ekki að ljúka fullum 30 einingum á önn heldur er gerð krafa um lágmarksnámsframvindu í grein 2.2 en þar segir að námsmaður þurfi að ljúka að lágmarki 18 ECTS einingum eða ígildi þeirra á hverju misseri í einum eða fleiri námsferlum til að eiga rétt á námsláni, leiði þeir til sameiginlegrar gráðu, t.d. bachelor-gráðu. Fjárhæð láns miðast síðan við hve mörgum einingum námsmaður lýkur að því tilskildu að hann nái lágmarkinu um 18 einingar. Þegar svo háttar til að námsmaður lýkur fleiri en tilskildum 30 einingum á önn heimilar grein 2.4.1 í úthlutunarreglum LÍN námsmanni að flytja einingarnar yfir á aðra önn eða annað námsár. Að mati málskotsnefndar verður að skýra þetta ákvæði úthlutunarreglnanna í ljósi þess markmiðs er fram kemur í 1. mgr. 3. gr. laga nr. 21/1992 um að námslán skuli veita meðan á námi stendur. Kröfur greinar 2.2 í úthlutunarreglunum um 18 ECTS eininga námsframvindu að lágmarki verður að líta á sem viðmið vegna fyrrgreinds markmiðs 1. mgr. 3. gr. lagana. Verður grein 2.4.1 því ekki skýrð þannig að námsmaður hafi öðlast sjálfstæðan rétt til að fá námslán vegna eininga sem hann hefur lokið á fyrri önnum óháð því hvort hann sýni fram á lágmarks framvindu á því námsári sem hann óskar tilflutning eininga yfir á. Málskotsnefnd bendir einnig á að þegar einingar sem námsmaður á ólokið á lokaönn eru undir framangreindu framvindulágmarki, hvort sem um er að kenna skipulagi skóla, því hvernig námsmaður hefur skipulagt nám sitt eða af öðrum orsökum, er komið til móts við námsmenn með því að gera þeim kleift að ná 18 eininga lágmarkinu með því að bæta við sig í námi þannig að þeir geti öðlast lágmarksframvindu. Málskotsnefnd telur að með þessu ákvæði sé ekki markmiðið að veita undanþágu frá kröfum greinar 2.2 um 18 eininga lágmarksframvindu, enda sé gert ráð fyrir að námsmaður uppfylli ætíð þær kröfur, heldur muni markmiðið að gera námsmanni kleift að fá undanþágu frá kröfu greinar 2.2 um að einingarnar sem aflað er þurfi að leiða til sameiginlegrar námsgráðu, t.d. bachelor-gráðu. Með vísan til framangreindra röksemda er hin kærða niðurstaða í úrskurði stjórnar LÍN frá 23. júní 2011 í máli kæranda staðfest.
Úrskurðarorð
Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 23. júní 2011 er staðfestur.