Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-30/2011 - Námslengd - beiðni um undanþágu frá fimm ára reglu

Úrskurður

Ár 2011, föstudaginn 23. desember, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-30/2011.

Kæruefni

Með kæru sem barst málskotsnefnd þann 5. september 2011 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 25. ágúst 2011 þar sem beiðni kæranda um námslán vegna skólaársins 2011-2012 var synjað vegna þess að hún hafði þegar fengið lán í 6 ár til grunnnáms. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 6. september 2011 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 20. september 2011 og var afrit þess sent kæranda og henni jafnframt veittur frestur til að koma að athugasemdum sínum. Kærandi sendi athugasemdir með bréfi dagsettu 5. október 2011. Með bréfi dagsettu 20. október 2011 fór málskotsnefnd þess á leit við stjórn LÍN og kæranda að veittar yrðu nánari upplýsingar um námslán og námsárangur kæranda. Svar stjórnar LÍN barst með bréfi dagsettu. 30. október 2011 og svar kæranda með bréfi dagsettu 22. nóvember 2011.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi hóf BA-nám í markaðsfræðum (e. marketing) við Háskólann í Liverpool í Englandi haustið 2009. Námið er 3 ár og svarar til 180 ECTS eininga. Vegna fyrra náms fékk kærandi fyrsta námsárið metið og voru námslok hennar því áætluð vorið 2011. Kærandi sótti um námslán til LÍN vegna skólaársins 2011-2012 en var synjað með þeim rökum að hún ætti ekki rétt á frekara láni, þar sem hún hafi fullnýtt lánsrétt sinn. Kærandi bar mál sitt undir stjórn LÍN sem synjaði erindi hennar með úrskurði þann 30. ágúst 2011. Fram kemur í úrskurðinum að samkvæmt grein 2.3.2 í úthlutunarreglum LÍN fyrir námsárið 2010-2011 geti námsmaður að hámarki fengið lán í allt að fimm ár samanlagt. Samkvæmt ákvæðinu sé þó heimilt að veita undanþágu frá því hámarki að þeim skilyrðum uppfylltum sem þar eru tilgreind og veita lán í allt að eitt námsár til viðbótar. Kærandi hafi fengið slíka undanþágu á skólaárinu 2010-2011 og þar með fengið afgreidd lán í samtals sex aðstoðarár. Engin heimild sé í reglum LÍN til að verðar við beiðni kæranda um frekari lán. Kærandi fer fram á undanþágu til námsláns í eitt ár til viðbótar þar sem hún eigi eitt ár eftir af námi sínu til þess að ljúka þeirri BA-gráðu í markaðsfræðum, sem hún stefni að með náminu. Hún hafi ætlað að ljúka náminu um sumarið 2011, en alvarleg veikindi og sjúkrahúsinnlögn haustið 2010 hafi komið í veg fyrir þá fyrirætlan. Vegna veikindanna hafi henni ekki tekist að ljúka einu prófi í janúar 2011, en hafi átt tækifæri til þess að taka það í ágúst 2011. Vorið 2011 hafi henni ekki tekist að ljúka tveimur prófum, en hafi átt tækifæri til þess að taka þau próf í ágúst 2011, eins og janúarprófið. Hún hafi hins vegar ekki þreytt prófin í ágúst 2011 þar sem háskólinn hafi sett hana á "finance hold" vegna húsaleiguskuldar. Kærandi telur að vegna erfiðra félagslegra og fjárhagslegra aðstæðna sinna sé mikilvægt að viðurkenna henni svigrúm hvað varðar úthlutunarreglur LÍN, því fái hún ekki lánsloforð muni hún ekki gera lokið náminu. Þá kveðst kærandi ekki minnast þess að hafa sótt um undanþágu frá fimm ára hámarksreglunni skólaárið 2010-2011. Í athugasemdum stjórnar LÍN vegna kærunnar kemur fram að þegar kærandi sótti um námslán vegna skólaársins 2011-2012 hafi hún þegar fengið lán í sex ár til grunnnáms. Vegna lánsumsóknar fyrir skólaárið á undan (2010-2011) hafi kæranda verið sendur tölvupóstur í ágúst 2010 um að hún ætti ekki rétt á frekara láni, en þar sem hún væri að ljúka BA-gráðu gæti hún fengið undanþágu og þar með lánað fyrir sjötta árinu. Sama daga hafi undanþágan verið afgreidd enda þá legið fyrir gögn háskólans um að hún ætti að ljúka náminu 3. júní 2011. Þá kemur fram í athugasemdum stjórnar LÍN að kærandi hafi skilað yfirlitum um fullan námsárangur þessi tvö ár sem hún hafi stundað nám við Háskólann í Liverpool og ætti samkvæmt því að hafa lokið námi vorið 2011. Á grundvelli þessa hefði fullt námslán vegna lokaársins 2010-2011 verið afgreitt til kæranda í júní 2011.

Niðurstaða

Í 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 478/2011 um Lánasjóð íslenskra námsmanna segir:"Stjórn sjóðsins er heimilt að setja reglur um hámark lána, t.d. vegna skólagjalda og að miða upphæð lána við námsárangur lánþega á hverri önn, misseri eða skólaári". Í grein 2.3.2 í úthlutunarreglum LÍN skólaárið 2010-2011, sem sett er af stjórn LÍN, er fjallað um svokallaða fimm ára reglu þar sem fram kemur að uppfylltum skilyrðum um námsframvindu geti námsmaður að hámarki fengið lán í allt að fimm aðstoðarár samanlagt, nema til komi undanþágur sem er að finna í grein 2.4.2 úthlutunarreglnanna um LÍN. Að uppfylltum einhverjum skilyrðum þeirra undanþága má veita námsmanni lán í allt að eitt ár til viðbótar. Fyrir liggur að kærandi naut slíkrar undanþága skólaárið 2010-2011 og hefur því fengið lán í sex ár til grunnnáms. Kærandi telst því hafa fullnýtt rétt sinn til námsláns samkvæmt grein 2.3.2 í úthlutunarreglum LÍN og þegar af þeirri ástæðu er sjóðnum ekki heimilt að veita kæranda undanþágu til námsláns í eitt ár til viðbótar. Hinn kærði úrskurður er því staðfestur.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 25. ágúst 2011 er staðfestur. 

Til baka