Úrskurður
Ár 2012, miðvikudaginn 1. febrúar, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-24/2011.
Kæruefni
Með kæru sem barst málskotsnefnd þann 6. júlí 2011 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 23. júní 2011 þar sem hafnað var beiðni kæranda um námslán vegna vormisseris 2011 og ennfremur að það verði niðurfellt eftir afgreiðslu þess. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 26. júlí 2011 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Kærandi sendi viðbótarathugasemdir með tölvupósti, sem barst nefndinni þann 23.ágúst 2011. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 30. ágúst 2011 og var afrit þess sent kæranda og henni jafnframt veittur frestur til að koma að athugasemdum sínum. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi hóf flugþjónustunám við flugakademíu Keilis haustið
2010. Námið er ætlað þeim sem hyggjast starfa sem flugfreyjur/þjónar. Mennta- og
menningamálaráðneytið hefur veitt Keili viðurkenningu sem einkaskóla á
framhaldsskólastigi, en í því felst að námsskrá skólans og starfsemi hans
uppfyllir almenn skilyrði laga um framhaldsskóla nr. 80/1996. Fullt nám á
flugþjónustubraut er tvær annir og er námið lánshæft hjá LÍN að uppfylltum öðrum
skilyrðum. Kærandi sótti um og fékk afgreitt fullt námslán hjá LÍN vegna
haustsins 2010, ásamt fyrirframgreiddum skólagjöldum fyrir vorið 2011. Kærandi
sendi stjórn LÍN erindi 17. maí 2011 og gerði alvarlegar athugasemdir við námið
á flugþjónustubraut. Kærandi kveður námið hafa verið auglýst í samstarfi við
Icelandair og hún hafi litið svo á að það væri undirbúningur að starfi hjá
félaginu. Í febrúar 2011 hafi borið svo við að Icelandair hafi auglýst eftir
flugfreyjum/þjónum til starfa en sett það skilyrði að umsækjendur mættu ekki
vera eldri en 30 ára. Þar sem kærandi hafi þá verið 38 ára hefðu forsendur fyrir
áframhaldandi námi hennar brostið og hún hætt náminu í kjölfarið. Í erindi sínu
til stjórnar LÍN sem hér er til umfjöllunar fer kærandi fram á að hún fái
afgreitt fullt lán frá LÍN fyrir vormisseri 2011 og að því fengnu verði lán
hennar hjá LÍN vegna flugþjónustunámsins í heild fellt niður. Kærandi bendir á
að þegar hún innritaði sig í námið hafi engin skilyrði verið sett um aldur.
Námið sé skipulagt í samstarfi við Icelandair og því hafi hún verið svikin þegar
í ljós kom að hún væri of gömul til þess að fá flugfreyjustarf hjá fyrirtækinu.
Í athugasemdum stjórnar LÍN vegna kærunnar kemur fram að samkvæmt grein
4.8 í úthlutunarreglum LÍN þurfi lágmarksnámsframvindu (18 ECTS-einingar) á
misseri til að eiga rétt á skólagjaldaláni. Það hafi því verið niðurstaða
stjórnar LÍN að kæranda bæri í samræmi við ákvæði 5.7.1 í úthlutunarreglum LÍN
að endurgreiða fyrirframgreitt skólagjaldalán þar sem hún skilaði ekki
námsframvindu á misserinu. Þá væri hvorki heimild í reglum sjóðsins til þess að
verða við beiðni hennar um framfærslulán án námsframvindu á misserinu né að
fella niður námslán. Því beri að synja erindi kæranda.
Niðurstaða
Í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra
námsmanna segir:"Námslán skal aldrei veitt fyrr en námsmaður hefur skilað
vottorði um tilskilda skólasókn og námsárangur" og í 4. mgr. sama
lagaákvæðis segir:"Námslán skal ekki veitt nema námsframvinda sé með
eðlilegum hætti". Fyrir liggur að kærandi hætti námi á vormisseri 2011 og er
LÍN ekki heimilt að veita henni framfærslulán án námsframvindu. Og þar sem
kærandi skilaði ekki neinni námsframvindu á vormisseri 2011 ber henni að
endurgreiða fyrirframgreitt skólagjaldalán, sbr. grein 5.7.1 í úthlutunarreglum
LÍN. Af framangreindu leiðir að ekki getur komið til þess að kærandi fái
niðurfellingu námsláns hjá sjóðnum.
Eins og áður er rakið liggur fyrir
viðurkenning mennta- og menningarmálaráðuneytisins á námsskrá Keilis og á því
byggði samþykki LÍN fyrir lánshæfni flugþjónustunámsins. Það heyrir ekki undir
málskotsnefnd að fjalla um athugasemdir kæranda við framsetningu, innihald og
framkvæmd námsins. Ráðuneytið er eftirlitsaðili með innihaldi og gæðum námsins
og er sá aðili sem leggur mat á það hvort fella eigi niður viðurkenningu náms
vegna breyttra forsendna eða ekki. Það hefur ekki verið gert af hálfu
ráðuneytisins og hefur engin breyting orðið á lánshæfi námsins samkvæmt lögum og
reglum LÍN. Með vísan til framanritaðs er hinn kærði úrskurður því
staðfestur.
Úrskurðarorð
Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 23. júní 2011 er staðfestur.