Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-29/2012 - Útreikningur námslána - umsókn um að fá viðbótarlífeyrissparnað dreginn frá tekjum

Úrskurður

 

Ár 2012, miðvikudaginn 9. janúar, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-29/2012.

 

Kæruefni

 

Með kæru sem barst málskotsnefnd þann 9. júlí 2012 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 20. júní 2012 þar sem synjað var beiðni kæranda um að viðbótarlífeyrissparnaður, sem hún fékk greiddan út á árinu 2011, yrði undanþeginn við útreikning á námsláni skólaárið 2011-2012. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 16. júlí 2012 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 20. ágúst 2012 og var afrit þess sent kæranda og henni jafnframt gefinn frestur til að koma að athugasemdum sínum. Málskotsnefnd óskaði eftir frekari upplýsingum frá LÍN um mál kæranda í bréfi dagsettu 7. nóvember 2012 og barst svar LÍN með bréfi dagsettu 15. sama mánaðar. Viðbrögð kæranda við athugasemdum LÍN bárust með bréfi hennar dagsettu 6. desember 2012.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærandi hóf nám við frumgreinadeild Keilis í janúar 2012 og stefndi að sögn að því námi loknu á laganám við Háskólann í Reykjavík. Hún kveðst hafa sent LÍN umsókn um námslán við Keili og í tengslum við það kynnt sér reglur LÍN um heimild til þess að undanþiggja útgreiddan viðbótarlífeyrissparnað við útreikning á námsláni. Þar sem henni hafi ekki þótt upplýsingar á heimasíðu LÍN nægilega skýrar hafi hún símleiðis haft samband við ráðgjafa LÍN. Hún kveður hann hafa gefið sér þær upplýsingar að við umsókn námslánsins skyldi hún við tilgreiningu tekna ársins 2011 undanskilja þann viðbótarlífeyrissparnað sem hún fékk greiddan á árinu. Annað þyrfti hún ekki að gera til að njóta undanþágunnar utan þess að heimila LÍN aðgang að skattframtali, sem hún hafi gert. Við útgreiðslu námsláns í maí 2012 hafi hún séð að ekki hafi allt verið með felldu og þegar hún hafi leitað skýringa hjá LÍN hafi henni verið tjáð að námslán hennar hafi verið skert þar sem inn í tekjur ársins 2011 hafi verið tekinn viðbótarlífeyrissparnaður sem hún fékk greiddan á því ári, samtals 2.666.668 krónur. 

Sjónamið kæranda 

Kærandi krefst þess að námslán hennar vorið 2012 verði reiknað út miðað við árstekjur 2011 án hins fyrirframgreidda viðbótarlífeyrissparnaðar. Hún sé einstæð móðir og öll hennar fjárhagsáætlun í tengslum við námið hafi miðast við að lánið til hennar myndi ekki skerðast vegna tekna ársins 2011. Kærandi bendir á að viðbótarlífeyrinn hafi hún tekið út til að halda húsnæði og hafi hann því ekki verið inni í fjárhagsáætlun hennar vegna námsins. Þótt umsókn hennar hafi borist eftir 1. maí 2012 beri að líta til þess að undanþágan í úthlutunarreglum LÍN sé valkvæð og því illskiljanlegt að ekki skuli orðið við beiðni hennar og einnig þegar horft sé til þess að um lán sé að ræða en ekki gjöf. Það að LÍN hafi ekki orðið við beiðni hennar skerði námslán hennar um 400.000 krónur og komi í veg fyrir áframhaldandi nám, sem hljóti að fara gegn hlutverki LÍN, sem sé að tryggja þeim sem falla undir lögin tækifæri til náms án tillits til efnahags. Þá geti LÍN ekki afsalað sér ábyrgð á röngum upplýsingum sem veittar voru af hálfu sjóðsins áður en hún skilaði inn umsókn um lánið. 

Sjónarmið LÍN 

Í athugasemdum stjórnar LÍN kemur fram að kærandi hóf nám í frumgreinum á Keili á vormisseri 2012. Hún hafi fyrst með erindi til LÍN þann 29. maí 2012 óskað eftir að viðbótarlífeyrissparnaður sem kærandi fékk greiddan út á árinu 2011 kæmi til frádráttar tekjum við útreikning láns fyrir vormisseri 2012. Í grein 3.4.5 í úthlutunarreglum LÍN komi fram að umsóknarfrestur til þess að fá viðbótarlífeyrissparnað á árinu 2011 undanþeginn við útreikning á námsláni 2011-2012 sé 1. maí 2012 og geti stjórn LÍN ekki fallist á að gera undantekningu frá þeirri reglu og synjaði því erindinu. Hvað varði þá málsástæðu kæranda að hún hafi fengið rangar upplýsingar frá starfsmanni LÍN þá séu engin gögn sem styðji þá fullyrðingu. Á heimasíðu LÍN komi skýrt fram sú regla að það þurfi að sækja um undanþágu ef námsmenn hafa fengið greiddan viðbótarlífeyrissparnað og hafi hún verið í úthlutunarreglum sjóðsins síðan 2010-2011. Því sé mjög ólíklegt að starfsmaður hafi svarað kæranda með þeim hætti sem hún haldi fram.

 

Niðurstaða

 

Í 6. mgr. 6. gr. laga um LÍN nr. 21/1992 kemur fram að stjórn sjóðsins sé heimilt að veita námslán að hámarksfjárhæð samkvæmt úthlutunarreglum. Í III. kafla úthlutunarreglna 2011-2012 eru ákvæði um viðmið framfærslu á námstíma, sem ákvarðar upphæð námsláns, og áhrif tekna námsmanns og eftir atvikum maka, sem geta haft áhrif á veitta aðstoð. Í grein 3.4.1 í úthlutunarreglunum segir að allar tekjur sem mynda skattstofn á árinu 2011 teljist til tekna við útreikning á námsláni. Sá viðbótarlífeyrissparnaður sem kærandi fékk sér greiddan út á árinu 2011 myndaði því hluta af tekjum hennar og gat eftir atvikum haft áhrif á námsaðstoð hennar á árinu 2012. Í grein 3.4.5 í úthlutunarreglum LÍN 2011-2012 segir: 

Þeir umsækjendur sem fengu greiddan út viðbótarlífeyrissparnað á árinu 2011 geta óskað eftir því að hann verði undanþeginn við útreikning á námsláni skólaárið 2011-2012. Sækja verður um leiðréttingu vegna skólaársins fyrir 1. maí 2012. 

Óumdeilt er að umsókn kæranda barst ekki fyrr en eftir að umræddur frestur rann út. Í lögum um LÍN og úthlutunarreglum sjóðsins er ekki að finna heimild til þess að verða við beiðni um undanþágu við útreikning á námsláni vegna greiðslu viðbótarlífeyrissjóðsparnaðar eftir að frestur til að sækja um er liðinn. Málskotsnefnd hefur áður úrskurðað um mikilvægi þess að festa ríki um þá fresti sem námsmönnum eru settir og að almennt beri að vísa frá erindum sem berast að liðnum fresti nema í undantekningartilvikum, s.s. þegar tekst að sanna að um sé að ræða óviðráðanleg atvik eða mistök hjá LÍN. Kærandi hefur gefið þær skýringar að umsókn hennar um undanþágu hafi borist of seint til sjóðsins þar sem hún hafi fengið rangar upplýsingar frá ráðgjafa LÍN við umsókn námslánsins, eins og að framan er rakið. Ekki liggur fyrir nein staðfesting þess í málinu að LÍN hafi leiðbeint kæranda með þeim hætti sem hún lýsir, þvert á móti telur LÍN mjög ólíklegt að kærandi hafi fengið þau svör sem hún heldur fram. Verður niðurstaða því hvorki byggð á því að mistök hafi orðið hjá LÍN við leiðbeiningar gagnvart kæranda né að óviðráðleg atvik hafi valdið því að kærandi sótti ekki um í tíma. Það er því niðurstaða málskotsnefndar að afgreiðsla LÍN á beiðni kæranda hafi verið í samræmi við lög og reglur sem um sjóðinn gilda. Niðurstaða hins kærða úrskurðar stjórnar LÍN er því staðfest.

 

Úrskurðarorð

 

Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 20. júní 2012 er staðfestur.

Til baka