Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-37/2012 - Útreikningur námslána - umsókn um af fá viðbótarlífeyrissparnað dreginn frá tekjum

Úrskurður

 

Ár 2012, miðvikudaginn 9. janúar, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-37/2012.

 

Kæruefni

 

Með kæru sem barst málskotsnefnd þann 28. ágúst 2012 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 30. maí 2012 þar sem synjað var beiðni kæranda um að viðbótarlífeyrissparnaður, sem hún fékk greiddan út á árinu 2011, yrði undanþeginn við útreikning á námsláni skólaárið 2011-2012. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 30. ágúst 2012 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 12. september 2012 og var afrit þess sent kæranda og henni jafnframt gefinn frestur til að koma að athugasemdum sínum. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærandi kveðst hafa verið í námi frá árinu 2010 og sé með barn á framfæri. Vegna bágrar fjárhagsstöðu og til þess að eiga möguleika á áframhaldandi námi hafi hún þurft að taka út viðbótarlífeyrissparnað sinn á árinu 2011. Hún hafi ekki áttað sig á því að í grein 3.4.5 í úthlutunarreglum LÍN komi fram að umsóknarfrestur til að fá útgreiddan viðbótarlífeyrissparnað undanþeginn við útreikning á námsláni hafi verið til 1. maí 2012. Þetta hafi kæranda ekki verið ljóst fyrr en henni hafi verið bent á það af starfsmanni LÍN fáum dögum eftir að umsóknarfrestur rann út. 

Sjónamið kæranda 

Kærandi bendir á að LÍN veki ekki athygli námsmanna á fyrrgreindum umsóknarfresti líkt og gert sé með jöfnunarstyrkjaumsóknir, sem auglýstar séu tryggilega á netföngum námsmanna. Í 1. gr. reglugerðar nr. 478/2011 um LÍN komi fram að auglýsa beri með tryggilegum hætti eftir umsóknum um námslán, umsóknareyðublöð sem og "annað sem máli skiptir". Telur kærandi að frestur til að sækja um undanþágu við útreikning á námsláni vegna úttektar á viðbótarlífeyrissparnaði falli undir "annað sem máli skiptir" líkt og umsóknir um jöfnunarstyrki og beri að auglýsa tryggilegar en eingöngu í úthlutunarreglum sjóðsins. Ekki síst í ljósi þess að heimild til útgreiðslu lífeyrissjóðssparnaðar hafi verið veitt í kjölfar efnahagshrunsins. Þá vekur kærandi athygli á því að útgreiðsla viðbótarlífeyrissparnaðar hafi ekki áhrif á greiðslu bóta í almenna tryggingakerfinu, atvinnuleysisbóta, húsaleigubóta, barnabóta eða vaxtabóta. Kærandi byggir á því að þar sem aðeins fjórir virkir dagar hafi liðið frá því að umsóknarfrestur rann út og þar til hún setti inn umsókn hafi borið að verða við beiðni hennar vegna meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar komi fram að gæta skuli þess að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til þegar tekin sé íþyngjandi ákvörðun. Ljóst sé að synjun LÍN verði henni verulega íþyngjandi þar sem hún muni þurfa að hætta námi verði námslán hennar skert í samræmi við áðurgreinda ákvörðun. 

Sjónarmið LÍN 

Í athugasemdum stjórnar LÍN kemur fram að kærandi óskað eftir því við LÍN þann 4. maí 2012 að viðbótarlífeyrissparnaður sem hún fékk greiddan út á árinu 2011 kæmi til frádráttar tekjum við útreikning námsláns fyrir skólaárið 2011-2012. Í grein 3.4.5 í úthlutunarreglum LÍN komi fram að umsóknarfrestur til þess að fá viðbótarlífeyrissparnað á árinu 2011 undanþeginn við útreikning á námsláni 2011-2012 sé 1. maí 2012. Þær reglur séu kynntar á heimasíðu sjóðsins og aðgengilegar öllum námsmönnum. Hafi stjórn LÍN því ekki getað fallist á að gera undantekningu frá framangreindri reglu og synjaði því erindinu.

 

Niðurstaða

 

Í 6. mgr. 6. gr. laga um LÍN nr. 21/1992 kemur fram að stjórn sjóðsins sé heimilt að veita námslán að hámarksfjárhæð samkvæmt úthlutunarreglum. Í III. kafla úthlutunarreglna LÍN 2011-2012 eru ákvæði um viðmið framfærslu á námstíma, sem ákvarðar upphæð námsláns, og áhrif tekna námsmanns og eftir atvikum maka, sem geta haft áhrif á veitta aðstoð. Í grein 3.4.1 í úthlutunarreglunum segir að allar tekjur sem mynda skattstofn á árinu 2011 teljist til tekna við útreikning á námsláni. Sá viðbótarlífeyrissparnaður sem kærandi fékk sér greiddan út á árinu 2011 myndaði því hluta af tekjum hennar og gat eftir atvikum haft áhrif á námsaðstoð hennar á árinu 2012. Í grein 3.4.5 í úthlutunarreglum LÍN 2011-2012 segir: 

Þeir umsækjendur sem fengu greiddan út viðbótarlífeyrissparnað á árinu 2011 geta óskað eftir því að hann verði undanþeginn við útreikning á námsláni skólaárið 2011-2012. Sækja verður um leiðréttingu vegna skólaársins fyrir 1. maí 2012. 

Óumdeilt er að umsókn kæranda barst ekki fyrr en eftir að umræddur frestur rann út. Í lögum um LÍN og úthlutunarreglum sjóðsins er ekki að finna heimild til þess að verða við beiðni um undanþágu við útreikning á námsláni vegna greiðslu viðbótarlífeyrissjóðsparnaðar eftir að frestur til að sækja um er liðinn. Málskotsnefnd hefur áður úrskurðað um mikilvægi þess að festa ríki um þá fresti sem námsmönnum eru settir og að almennt beri að vísa frá erindum sem berast að liðnum fresti nema í undantekningartilvikum, s.s. þegar tekst að sanna að um sé að ræða óviðráðanleg atvik eða mistök hjá LÍN. Með þeirri almennu reglu er ekki gengið lengra en efni standa til. Kærandi byggir á því að LÍN hafi borið vegna fyrirmæla 1. gr. reglugerðar um LÍN að auglýsa með tryggilegri hætti umræddan umsóknarfrest en gert var. Á það getur málskotsnefnd ekki fallist. Í reglugerðarákvæðinu sem kærandi vísar til segir: 

Lánasjóður íslenskra námsmanna skal auglýsa með tryggilegum hætti eftir umsóknum um námslán. Í auglýsingu skal taka fram um hvaða lán sé að ræða, hvar umsóknareyðublöð og önnur umsóknargögn séu fáanleg, hvenær umsóknarfrestur renni út, sem og annað sem máli skiptir. 

Af þessu ákvæði sem fjallar um með hvaða hætti beri að auglýsa eftir umsóknum um námslán verður ekki leidd sú víðtæka skylda til að auglýsa eftir undanþágubeiðnum vegna viðbótarlífeyrisgreiðslna sem kærandi heldur fram. Úthlutunarreglur LÍN, sem eru settar með heimild í lögum um LÍN, eru bæði gefnar út í prentriti og birtar á heimasíðu LÍN og eru því öllum námsmönnum jafnaðgengilegar. Það er því niðurstaða málskotsnefndar að afgreiðsla LÍN á beiðni kæranda hafi verið í samræmi við lög og reglur sem um sjóðinn gilda. Niðurstaða hins kærða úrskurðar stjórnar LÍN er því staðfest.

 

Úrskurðarorð

 

Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 30. maí 2012 er staðfestur.

Til baka