Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-18/2011 - Endurgreiðsla námslána - synjun um endurútreikning tekjutengdrar afborgunar

Úrskurður

Ár 2012, miðvikudaginn 18. janúar, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-18/2011:

Kæruefni

Með kæru dagsettri 9. maí 2011 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 15. apríl 2011, þar sem kæranda var synjað um endurútreikning tekjutengdrar afborgunar 2010. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 24. maí 2011 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 7. júní 2011. Með bréfi málskotsnefndar dagsettu 16. júní 2011 var kæranda gefinn kostur á að koma frekari sjónarmiðum á framfæri. Engar athugasemdir bárust frá kæranda. Með bréfi dagsettu 19. október 2011 óskaði málskotsnefnd eftir upplýsingum frá embætti ríkisskattstjóra (RSK) um skattalega stöðu kæranda hér á landi. Svar embættisins barst með bréfi 25. október s.á. og var stjórn LÍN í framhaldinu veittur kostur á að leggja fram frekari gögn um meðferð málsins. Kæranda var sent afrit af svarbréfi RSK og beiðni málskotsnefndar um frekari gögn í máli hennar. Þann 21. nóvember 2011 sendi stjórn LÍN málskotsnefnd afrit af úrskurði stjórnar LÍN þar sem beiðni kæranda um endurupptöku málsins var synjað. Var kæranda með bréfi þann 9. desember s.l. gefinn kostur á að tjá sig um meðferð málsins hjá LÍN. Engin svör bárust frá kæranda. Málskotsnefnd óskaði frekari gagna frá LÍN um framkvæmd áætlunar á tekjum kæranda með bréfi dagsettu 22. desember 2011 og sendi LÍN umbeðnar upplýsingar með bréfi dagsettu 23. sama mánaðar. Kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um fram komnar upplýsingar með bréfi dagsettu 28. desember 2011. Engin svör bárust frá kæranda vegna þessa.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi var búsett í Svíþjóð fram í október 2010 og við vinnu þar í landi. Með bréfi LÍN dagsettu 16. júní 2010 sem sent var á uppgefið heimilisfang kæranda í Svíþjóð var athygli hennar vakin á því að hún þyrfti að skila inn upplýsingum um tekjur sínar sem að öðrum kosti yrðu áætlaðar við útreikning á tekjutengdri afborgun námsláns. Í bréfinu kom einnig fram að kærandi ætti rétt á endurútreikningi ef tekjur hefðu verið áætlaðar og að sækja þyrfti um slíkan endurútreikning innan 60 daga frá gjalddaga. Kærandi skilaði ekki upplýsingum um tekjur sínar og voru þær áætlaðar til útreiknings tekjutengdu afborguninni 1. september 2010. Kærandi fór þess á leit við LÍN í mars 2011 að tekjutengda afborgunin yrði endurútreiknuð þegar hún hafði fengið niðurstöðu skattyfirvalda vegna framtals síns. Beiðni hennar var synjað sem of seint fram kominni þar sem hún hefði samkvæmt reglum LÍN 60 daga frest frá gjalddaga til að óska endurútreiknings. Kærandi bar máls sitt undir stjórn LÍN sem synjaði beiðni hennar með úrskurði dagsettum 15. apríl 2011 með vísan til greinar 7.3 í úthlutunarreglum LÍN 2010- 2011. Kærandi skaut máli sínu til málskotsnefndar með bréfi dagsettu 9. maí 2011. Kærandi fór fram á endurupptöku máls síns hjá stjórn LÍN eftir að hún sendi kæru sína til málskotsnefndar. Synjaði stjórn LÍN beiðni kæranda með úrskurði sínum þann 17. nóvember 2011 með vísan til þess að umsókn hennar um endurútreikning hefði borist eftir hinn lögmælta frest í 1. mgr. 11. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna.

Sjónarmið kæranda.

Fram kemur í kærunni að kærandi hafi fengið leiðréttingu á tekjuáætlunum skattyfirvalda á Íslandi í janúar 2011. Hafi skattyfirvöld áætlað tekjur hennar sem leitt hafi til þess að tekjutengd afborgun LÍN hafi orðið verulega há fjárhæð, þ.e. kr. 545.802 sem kærandi segir vera margfalda meðalafborgun af umræddu námsláni m.v. afborganir undanfarinna ára. Tók kærandi fram að hún hafi verið búsett erlendis vegna sérnáms og hafi staðið í framtali til RSK um leið og henni hefði verið kunnugt um að henni bæri einnig að skila framtali á Íslandi. Kveðst kærandi hafa ítrekað haft samband við lánasjóðinn og gert grein fyrir því að henni væri ekki unnt að greiða svona háa afborgun. Hafi hún einnig gert LÍN grein fyrir slæmri fjárhagsstöðu sinni og þeim þáttum sem hún taldi eiga að hafa áhrif á meðferð málsins, m.a. búferlaflutningur og skipti á starfi, fjárhagslegar breytingar, skilnaður og því að hún væri nú einstæð móður með tvö börn á framfæri.

Sjónarmið LÍN.

Stjórn LÍN byggir niðurstöðu sína á því að kærandi hafi ekki sótt um endurreikning á tekjum fyrr en næstum 5 mánuðum eftir að umsóknarfrestur um endurútreikning gjalddaga hafi runnið út, sbr. grein 7.3. í úthlutunarreglum sjóðsins. Þá kemur einnig fram af hálfu LÍN að í þeim samskiptum sem liggi fyrir í skjalavistunarkerfi sjóðsins komi hvergi fram að kærandi hafi ekki talið upphæðina rétta og muni því óska eftir endurútreikningi. Hafi kærandi tekið fram að hún væri að leita leiða til að greiða umræddan gjalddaga. Stjórn LÍN hafi synjað kæranda þar sem umsóknarfresturinn hafi verið löngu liðinn. Þá kemur fram af hálfu LÍN að tekjutengda afborgunin hafi ekki verið miðuð út frá áætlun heldur fyrirliggjandi álagningarskrá frá RSK og innsendum gögnum kæranda um erlendar tekjur hennar.

Niðurstaða

Í 8. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN er mælt fyrir um endurgreiðslu námslána. Samkvæmt 1. mgr. ákvarðast árleg endurgreiðsla lánþega í tvennu lagi. Skýrlega er mælt fyrir um það að önnur greiðslan skuli vera föst greiðsla, sem innheimt er á fyrri hluta ársins og sé hún óháð tekjum en hins vegar sé tekjutengd greiðsla innheimt á seinni hluta ársins og sé hún háð tekjum fyrra árs. Í 3. mgr. 8. gr. kemur fram að viðbótargreiðslan miðast við ákveðinn hundraðshluta af útsvarsstofni ársins á undan endurgreiðsluári og er útreikningum greiðslunnar nánar lýst í næstu málsgreinum. Um endurgreiðslu lánþega, sem er á endurgreiðslutímanum ekki skattskyldur á Íslandi af öllum tekjum sínum og eignum, er sérákvæði að finna í 3. mgr. 10. gr. laganna. Þar segir: "Sé lánþegi á endurgreiðslutímanum ekki skattskyldur á Íslandi af öllum tekjum sínum og eignum skal honum gefinn kostur á að senda sjóðnum staðfestar upplýsingar um tekjur sínar og yrði hámark árlegrar endurgreiðslu ákveðið í samræmi við það. Geri hann það ekki eða telja verður upplýsingar hans ósennilegar og ekki unnt að sannreyna útsvarsstofn samkvæmt því, skal stjórn sjóðsins áætla honum útsvarsstofn til útreiknings árlegrar viðbótargreiðslu. Komi í ljós að áætlun þessi sé röng eiga ákvæði 2. mgr. við." Fram er komið að LÍN óskaði eftir því við kæranda að hún sendi sjóðnum upplýsingar um tekjur sínar á árinu 2009 með heimild í framangreindri lagagrein. Í bréfi LÍN kom einnig fram að sækja yrði um leiðréttingu á áætluðum tekjustofni eigi síðar en 60 dögum eftir gjalddaga. Kærandi sendi ekki umbeðnar upplýsingar og þegar hún fór fram á leiðréttingu á útreikningi var tilgreindur frestur löngu liðinn. Það er almennt viðurkennd meginregla að stjórnvöld hafi ekki skyldu til að taka mál til efnismeðferðar, sem borist hafa eftir lögskipaðan frest, nema sérstakar undanþágur þar að lútandi eigi við. Málskotsnefnd hefur í fjölmörgum úrskurðum sínum lagt áherslu á mikilvægi þess að festa ríki um þá fresti sem námsmönnum eru settir og að almennt beri að vísa frá erindum sem berast að liðnum fresti nema í undantekningartilvikum, s.s. þegar tekst að sanna að um sé að ræða óviðráðanleg atvik eða mistök hjá LÍN. Slíkt er ekki í tilviki kæranda. Eins og lýst er hér að framan er árleg viðbótargreiðsla háð tekjum fyrra árs, sbr. ákvæði 3. mgr. 8. gr. laga um LÍN, og er í 3. mgr. 10. gr. laganna mælt fyrir um að hámark árlegrar endurgreiðslu lánþega, sem ekki er skattskyldur hér á landi af öllum tekjum sínum og eignum, skuli ákvarðað í samræmi við upplýsingar um tekjur. Fyrir liggur í málinu að LÍN lagði til grundvallar upplýsingar sænskra yfirvalda um erlendar tekjur kæranda og eru tölur þær sem fram koma í gögnum frá LÍN nánast þær sömu og kærandi hefur gefið upp gagnvart íslenskum skattyfirvöldum. Tekjur kæranda voru að mestu leyti erlendar. Við ákvörðun hérlendra tekna lagði LÍN til grundvallar álagningarskrá RSK í upphafi ágústmánaðar 2010. Eins og fram kom í kærunni voru mótbárur kæranda tengdar því að hún hafði lagt fram kæru vegna hérlendra tekna sinna og að þær hafi verið endurákvarðaðar. Vildi kærandi að endurgreiðsla tæki mið af þessari leiðréttingu og vísaði hún í kærunni til þess að hvorki sé réttlátt né sanngjarnt af LÍN að innheimta ranga fjárhæð. Af þessu tilefni bendir málskotnsnefnd á að í máli kæranda var byggt á gögnum er gerðu sjóðnum kleift að komast afar nærri raunverulegum tekjum kæranda þar sem tekjur kæranda var að stórum hluta aflað erlendis og gögn lágu fyrir frá þarlendum skattyfirvöldum um þær. Íslenskar tekjur kæranda á árinu 2009 voru lítið hlutfall heildartekna. Við ákvörðun þeirra tók LÍN mið af upplýsingum skattyfirvalda eins og ráð er fyrir gert í 3. mgr. 10. gr. laga nr. 21/1992 þar sem fram kemur að ef lánþega er áætlaður skattstofn skuli miða við hann. Í ljósi þessa er það niðurstaða málskotsnefndar að LÍN hafi verið heimilt að ákvarða tekjur kæranda eins og sjóðurinn gerði og miða endurgreiðslu kæranda við þá fjárhæð. Kærandi hefur einnig vísað til erfiðrar fjárhagsstöðu sinnar. Sérstök úrræði eru í lögum og reglum LÍN þegar svo stendur á. Í gögnum málsins kemur fram að kæranda var leiðbeint um að sækja um greiðsludreifingu og undanþágu vegna bágrar fjárhagsstöðu og sent viðeigandi eyðublöð. Kæran lýtur hins vegar eingöngu að beiðni kæranda um endurútreikning á afborgun og ekki kemur fram af hennar hálfu að LÍN hafi synjað beiðni hennar um greiðsludreifingu eða undanþágu frá afborgun. Getur málskotsnefnd þar af leiðandi ekki tekið afstöðu til þessa atriðis kærunnar. Með vísan til framangreindra sjónarmiða er úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda staðfestur.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN frá 15. apríl 2011 í máli kæranda er staðfestur.

Til baka