Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-25/2011 - Undanþágur frá afborgun - synjun um undanþágu frá fastri afborgun

Úrskurður

Ár 2012, miðvikudaginn 18. janúar, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-25/2011:

 

Kæruefni

Með kæru dagsettri 6. júlí 2011 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 23. júní 2011, þar sem kæranda var synjað um undanþágu frá fastri afborgun námsláns á árinu 2011. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 26. júlí 2011 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 30. ágúst 2011. Með bréfi dagsettu 6. september 2011 var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við svör stjórnar LÍN. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi sendi tölvupóst til LÍN þann 3. mars 2011 og spurðist fyrir um hvernig útreikningi á fastri afborgun væri háttað. Fram kom í tölvupósti hennar að hún væri atvinnulaus og sagðist hún jafnframt hafa skilað inn atvinnuleysisvottorði. Í svarpósti þann 9. mars 2011 upplýsti LÍN kæranda um fjárhæð afborgunar vegna 1. mars gjalddaga og að sérstakt gjald væri tekið vegna greiðsludreifingar. Henni var jafnframt ráðlagt að kynna sér möguleika á undanþágu frá afborgun og var bent á að nánari upplýsingar væri að finna á heimasíðu LÍN á vefslóð þar sem upplýsingar um undanþágu frá afborgunum var að finna. Kærandi svaraði LÍN næsta dag og kemur fram í tölvupósti hennar að hún taldi sig hafa sótt um undanþágu. Í svarpósti LÍN kemur fram að engin umsókn frá kæranda fyrirfinnist hjá LÍN og er kæranda bent á að sækja þurfi sérstaklega um vegna hvers gjalddaga um sig og bent á að gögn um atvinnuleysi og tekjur þurfi að senda með slíkri umsókn. Kærandi sótti síðan um undanþágu frá fastri endurgreiðslu námslána fyrir árið 2011 og samkvæmt upplýsingum frá LÍN bárust gögn vegna kæranda frá Vinnumálastofnun 6. maí 2011 en umsókn kæranda um undanþágu var skráð 12. maí 2011. Umsókn kæranda var synjað sem of seint fram kominni. Kærandi bar mál sitt undir stjórn LÍN sem á fundi sínum 23. júní 2011 synjaði beiðni hennar um undanþágu frá fastri afborgun sökum þess að umsóknin hefði borist degi of seint eða þann 6. maí 2011. Í úrskurðinum kemur fram að kærandi taldi sig hafa fengið ófullnægjandi upplýsingar frá LÍN þar sem henni hefði ekki verið tjáð að frestur til að leggja fram umsókn um undanþágu væri 60 dagar frá gjalddaga. Í röksemdum stjórnar LÍN segir að vissulega hefði verið gott ef kæranda hefði verið greint sérstaklega frá frestinum. Það breytti því þó ekki að umsækjendur um undanþágur bæru ábyrgð á að fylgjast með því hvenær umsóknarfrestur rynni út. Eðli málsins samkvæmt væru settir frestir þegar leitað væri eftir að breyta skyldu. Kæmi umsóknarfresturinn skýrt fram í 7. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna. 


Sjónarmið kæranda. 

Í kærunni kemur fram að kærandi hafi verið atvinnulaus síðan í október 2010 og hafi reynt eftir því sem kostur sé að standa í skilum. Hafi kærandi haft samband við LÍN með það fyrir augum að fá undanþágu frá afborgunum. LÍN hafi látið í té allar upplýsingar en láðst að segja kæranda frá því að ákveðinn skilafrestur væri á umsókninni. Taldi kærandi þetta vera stóra handvömm viðkomandi starfsmanns LÍN sem með þessu hafii brotið upplýsingaskyldu gagnvart kæranda. Telur kærandi að í ljósi þess að honum hafi ekki verið veittar réttar upplýsingar eigi hann að njóta vafans í málinu. 

Sjónarmið stjórnar LÍN. 

Í athugasemdum stjórnar LÍN kemur fram að þegar kærandi hafði samband við LÍN í byrjun mars hafi hún verið með virka umsókn um greiðsludreifingu og þá hafi henni verið bent á þann möguleika að sækja um undanþágu frá afborgun sökum atvinnuleysis. Hafi henni verið bent á að nánari upplýsingar um slíka undanþágu væri að finna á vefslóð þar sem umsókn um undanþágu og skilyrði hennar væru útskýrð. Gögn frá Vinnumálastofnun um atvinnuleysi kæranda hafi borist 6. maí 2011 en kærandi hafi þó ekki sótt um undanþágu fyrr en 12. maí 2011. Þó svo að starfsmaður hafi ekki upplýst berum orðum að umsóknarfrestur væri 2 mánuðir frá gjalddaga taldi stjórn LÍN að leiðbeiningaskyldu hafi verið fullnægt með því að kæranda hafi verið vísað á hlekk á viðeigandi síðu þar sem allar upplýsingar komu fram um undanþágu. Tók stjórn LÍN einnig fram að umsækjendur bæru ábyrgð á því að fylgjast með umsóknarfresti. Þá væri umræddur frestur skýrlega tilgreindur í lögum nr. 21/1992.

 

Niðurstaða

Samkvæmt 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 og grein 7.4.1 í úthlutunarreglum LÍN er sjóðsstjórn heimilt að veita undanþágu frá afborgun námslána ef lánshæft nám, atvinnuleysi, óvinnufærni vegna veikinda, þungunar eða umönnunar barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega. Í 7. mgr. 8. gr. laganna kemur fram að umsókn skuli berast sjóðnum eigi síðar en 60 dögum eftir gjalddaga afborgunar sem var 1. mars 2011. Samkvæmt 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 telst sá dagur, sem lögbundinn frestur er talinn frá, ekki með í frestinum. Ef lokadagur frests er almennur frídagur eins og í máli kæranda lengist fresturinn til næsta opnunardags þar á eftir. Að öðru leyti ber að telja frídaga með sem eru innan frestsins þegar fresturinn er reiknaður. Í tilviki kæranda hefði umsókn því átt að berast eigi síðar en 2. maí 2011. Óumdeilt er að umsókn kæranda barst ekki fyrr en eftir að umræddur frestur rann út. Fyrrgreint ákvæði 7. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 er fortakslaust hvað varðar umsóknarfrest og er því ekki á færi LÍN að veita undanþágu frá því nema að óviðráðanleg atvik eða handvömm starfsmanna þess hafi orðið til þess að kærandi sótti ekki um undanþáguna innan frestsins. Eins og fyrr segir byggir kærandi á því að hún hafi ekki fengið réttar upplýsingar frá LÍN þar sem viðkomandi starfsmanni hefði láðst að tilgreina sérstaklega að ákveðinn skilafrestur væri á umsókninni. Kemur því til athugunar hvort LÍN hafi brotið ákvæði 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga um leiðbeiningarskyldu stjórnvalda. Í umræddu ákvæði segir að stjórnvald skuli veita þeim sem til þess leita "nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þess." Slíkar upplýsingar geta bæði verið skriflegar og munnlegar. Eins og fram kemur í athugasemdum með frumvarpi til stjórnsýslulaga geta upplýsingarnar verið almennar, t.d. í formi auglýsinga eða sérstakra bæklinga sem aðilar þurfa að kynna sér. Ávallt þarf þó að gefa aðilum einstaklingsbundnar leiðbeiningar sé eftir þeim leitað. Veita ber leiðbeiningar um það hvaða réttarreglur gilda á viðkomandi sviði, hvernig meðferð mála er venjulega hagað, hvaða gögn aðila ber að leggja fram, hversu langan tíma það tekur venjulega að afgreiða mál o.s.frv. Í reglunni felst m.a. að stjórnvöldum ber að leiðbeina og aðstoða menn við að fylla út eyðublöð sé um þau að ræða. Í tölvupósti sínum til LÍN þann 3. mars 2011 upplýsir kærandi um atvinnuleysi sitt og að hún hafi staðið í þeirri meiningu að greiðslur myndu dreifast. Í athugasemdum LÍN til málskotsnefndar kemur fram að kærandi hafi á þessum tíma verið með virka umsókn um greiðsludreifingu. Í svarpósti LÍN frá 9. mars 2011 er kæranda bent á að athuga með undanþágu og er kæranda jafnframt leiðbeint um að nánari upplýsingar séu á nánar greindu svæði á heimasíðu LÍN. Á viðkomandi svæði á heimasíðunni eru nákvæmar leiðbeiningar um skilyrði undanþágu, gögn, umsóknarfrest og umsóknarferlið. Þar segir m.a að umsókn um undanþágu þurfi að berast sjóðum "eigi síðar en 60 dögum eftir gjalddaga afborgunar". Kærandi sótti hins vegar ekki um fyrr en rúmum tveimur mánuðum síðar og hafði því ekki enn kynnt sér þær upplýsingar sem henni var bent á vegna umsóknar um undanþágu. Málskotsnefnd telur að með umræddum tölvupósti LÍN hafi kærandi fengið einstaklingsbundnar leiðbeiningar um hvernig haga bæri umsókn um undanþágu. Hafi hún því fengið fullnægjandi leiðbeiningar um rétt sinn, þ.m.t. um umsóknarfrest, og LÍN hafi mátt gera ráð fyrir því að hún kynnti sér upplýsingar á þeirri vefslóð sem henni var sérstaklega bent á að skoða. Að auki verður ekki séð að LÍN hafi borið að árétta umsóknarfrest sérstaklega gagnvart kæranda þar sem rúmur tími var fyrir hana að til bregðast við. Verður því að mati málskotsnefndar ekki talið að LÍN hafi brotið ákvæði stjórnsýslulaga um leiðbeiningarskyldu stjórnvalds. Með vísan til framangreindra röksemda er hin kærða niðurstaða í úrskurði stjórnar LÍN frá 23. júní 2011 í máli kæranda staðfest.

 

Úrskurðarorð

 

Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 23. júní 2011 er staðfestur.

Til baka