Úrskurður
Ár 2012, miðvikudaginn 18. janúar, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-35/2011:
Kæruefni
Með kæru dagsettri 4. nóvember 2011 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 20. október 2011, þar sem kæranda var synjað um undanþágu frá ákvæðum greinar 2.2 í úthlutunarreglum LÍN um lágmarks framvindu í námi. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 7. nóvember 2011 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 25. nóvember 2011 og var afrit þess sent kæranda og honum jafnframt veittur frestur til að koma að athugasemdum sínum. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi stundar starfsnám í rafvirkjun við Tækniskólann.
Kærandi sótti um námslán í ágúst 2011 en var synjað sökum þess að hann uppfyllti
ekki kröfur úthlutunarreglna LÍN 2011-2012 um námsframvindu. Fram kemur í kæru
hans að hann er í námi á rafiðnaðarbraut. Hefur hann áður lokið prófi í almennum
fögum, s.s. ensku og stærðfræði sem hann fær metin, en á eftir fagreinar. Var
umsókn hans synjað þar sem hann uppfyllti ekki kröfur LÍN um 18 ECTS eininga
lágmarksframvindu í námi. Kærandi bar mál sitt undir stjórn LÍN og vísaði til
þess að hlutverk sjóðsins væri að veita framfærslu til námsmanna. Kerfið væri
gallað þar sem ekki væri hægt að fá lán þegar aðstæður væru þannig að námsmenn
væru búnir með hluta námsgreina. Stjórn LÍN synjaði erindi kæranda með úrskurði
þann 20. október 2011 með vísan til þess að hann uppfyllti ekki kröfur um
lágmarksnámsframvindu. Kom einnig fram af hálfu stjórnarinnar að ekki væri
heimild til að veita undanþágu í tilviki kæranda.
Sjónarmið
kæranda.
Í kæru sinni til málskotsnefndarinnar bendir kærandi á að
kerfið sé ekki að styðja eða hjálpa námsfólki. Kærandi kveðst fá það í bakið að
hafa lokið almennum fögum. Honum sé ekki heimilað að fara á hraðbraut innan
skólans þar sem hann uppfylli ekki kröfur um slíkt. Þá hafi honum verið bent á
að bæta við sig einingum en slíkt væri viðbótarkostnaður fyrir hann. Bendir
kærandi jafnframt á að útreikningar LÍN á framfærslu uppfylli ekki kröfur
Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar um lágmarksframfærslu.
Sjónarmið
stjórnar LÍN.
Í athugasemdum stjórnar LÍN segir að kærandi hafi sótt
um samtals 60 ECTS einingar á skólaárinu en að námsárangur hans lægi ekki fyrir.
Í erindi frá kæranda hafi komið fram að hann myndi ekki ná fullum námsárangri
þar sem hann fengi metnar ýmsar einingar sem hann hefði þegar tekið. Hafi
kærandi farið fram á að fá fullt lán óháð námsárangri en samkvæmt grein 3.1.1 í
úthlutunarreglum LÍN miðaðist framfærsla við loknar ECTS einingar. Ennfremur
komi fram í grein 2.2 að námsmaður þurfi að ljúka í það minnsta 18 ECTS einingum
eða ígildi þeirra á hverju misseri til að eiga rétt á námsláni. Á þeim forsendum
hafi stjórn LÍN synjað erindi kæranda.
Niðurstaða
Samkvæmt 1. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna er hlutverk sjóðsins að tryggja þeim er falla undir lögin jöfn tækifæri til náms. Í 1. mgr. 3. gr. laganna kemur fram að miða skuli við að námslán samkvæmt lögunum nægi hverjum námsmanni til að standa straum af náms- og framfærslukostnaði meðan á námi stendur að teknu tilliti til fjölskyldustærðar námsmannsins. Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. setur stjórn sjóðsins nánari ákvæði um úthlutun námslána. Hefur stjórn LÍN sett úthlutunarreglur sem miða að því að skilgreina hvaða skilyrði námsmaður þurfi að uppfylla til að eiga rétt á námsláni samkvæmt lögunum meðan á námi hans stendur. Í þessu skyni hefur stjórnin kveðið á um að námsmaður þurfi að öðru jöfnu að vera í fullu lánshæfu námi til þess yfirleitt að eiga rétt m.a. á framfærsluláni. Nánari útfærsla á þessu skilyrði kemur fram í grein 1.1 í úthlutunarreglunum en samkvæmt henni telst nám lánshæft þegar það er 60 ETCS einingar á skólaári eða a.m.k. 30 ECTS einingar á hverju misseri í þeim tilvikum sem námsskipulagið nær ekki yfir heilt skólaár. Námsmaður þarf þó ekki að ljúka fullum 30 einingum á önn heldur er gerð krafa um lágmarksnámsframvindu í grein 2.2. Þar segir að námsmaður þurfi að ljúka að lágmarki 18 ECTS einingum eða ígildi þeirra á hverju misseri í einum eða fleiri námsferlum til að eiga rétt á námsláni, leiði þeir til sameiginlegrar gráðu, t.d. bachelor-gráðu. Fjárhæð láns miðast síðan við hve mörgum einingum námsmaður lýkur að því tilskildu að hann nái lágmarkinu um 18 einingar. Að mati málskotsnefndar eru kröfur um 18 ECTS eininga námsframvindu að lágmarki réttmætar í ljósi þess markmiðs 1. mgr. 3. gr. laganna um að námslán skuli veita meðan á námi stendur og að fullt nám er öðru jöfnu talið vera 30 ECTS einingar á misseri. Aðstæður kæranda eru með þeim hætti að rof hefur orðið á námsferli hans og hefur hann hafið nám að nýju og fengið metnar einingar sem hann hefur áður lokið. Uppfyllir hann því ekki kröfur LÍN um 18 ECTS eininga lámarksframvindu. Undanþágur frá námsframvindu eru gerðar í greinum 2.4.1 - 2.4.5 en ekki verður séð að þær eigi við í tilviki kæranda. Málskotsnefnd bendir þó á að ekkert er því til fyrirstöðu að námsmenn bæti við sig einingum í námi innan þess námsferils sem þeir stunda til þess að ná lágmarksfjölda eininga. Með vísan til framangreindra röksemda er hin kærða niðurstaða í úrskurði stjórnar LÍN frá 20. október 2011 í máli kæranda staðfest.
Úrskurðarorð
Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 20. október 2011 er staðfestur.