Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-45/2011 - Lánshæfi - lánshæfi náms í leiðsögn við EHÍ

Úrskurður

 

Ár 2012, miðvikudaginn 1. febrúar, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-45/2011.

Kæruefni

 

Með úrskurði málskotsnefndar í máli nr. L-21/2010 komst nefndin að þeirri niðurstöðu að hinn kærði úrskurður stjórnar Lánasjós íslenskra námsmanna (LÍN) frá 16. apríl 2010 væri í samræmi við úthlutunarreglur LÍN og var hann staðfestur af málskotsnefnd. Um var að ræða kæru á úrskurði stjórnar LÍN þar sem hafnað var beiðni kæranda um að leiðsögunám hennar við Endurmenntun Háskóla Íslands (EHÍ) yrði metið lánshæft hjá LÍN. Kærandi kvartaði til Umboðsmanns Alþingis vegna niðurstöðunnar í máli nr. L-21/2010. Með bréfi, dagsettu 27. desember 2010, óskaði Umboðsmaður Alþingis eftir tilteknum upplýsingum og skýringum vegna málsins. Í framhaldi af því ákvað málskotsnefnd að endurupptaka málið með vísan til 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og var það tilkynnt umboðsmanni í bréfi dagsettu 22. febrúar 2011. Með bréfi, dagsettu 8. ágúst 2011, óskaði málskotsnefnd eftir því við LÍN að upplýst yrði með hvaða hætti lagt væri sjálfstætt mat á lánshæfi náms kæranda og hvaða gagna var aflað við þá rannsókn. Svar LÍN barst með bréfi dagsettu 9. september 2011. Þá var einnig óskað eftir umsögn mennta- og menningarmálaráðuneytisins (ráðuneytið) vegna endurupptöku málsins. Var sérstaklega óskað eftir afstöðu ráðuneytisins til þess hvar ákvörðun um lánshæfi grunnháskólanáms lægi og hvaða skilyrði skóli þurfi að uppfylla til þess að geta boðið upp á lánshæft grunnháskólanám. Svar ráðuneytisins barst með bréfi dagsettu 15. september 2011. Þá voru kæranda send bréf LÍN og ráðuneytisins og gefið tækifæri á að koma að athugasemdum vegna þeirra. Kærandi sendi málskotsnefnd athugasemdir sínar í bréfi dagsettu 13. október 2011.

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærandi óskaði eftir því að leiðsögunám það sem hún stundar við EHÍ undir heitinu "Leiðsögunám á háskólastigi" yrði metið lánshæft hjá LÍN sem tveggja anna 60 ECTS eininga nám á grunnstigi háskóla. Erindinu var synjað af stjórn LÍN í úrskurði, dagsettum 16. apríl 2010, þar sem EHÍ hefði ekki tilskilin leyfi til að bjóða upp á grunnháskólanám. Kærandi gerir kröfu um að úrskurður stjórnar LÍN verði felldur úr gildi og að úrskurðað verði að leiðsögunám það sem kennt er við EHÍ sé lánshæft hjá LÍN. Stjórn LÍN fer fram á að úrskurður stjórnarinnar frá 16. apríl 2010 verði staðfestur. 

Sjónarmið kæranda 

Kærandi byggir kröfu sína á því að í 3. gr. laga um háskóla nr. 63/2006 sé fjallað um viðurkenningu háskóla. Þar segi að menntamálaráðherra veiti háskólum viðurkenningu og að viðurkenning hvers háskóla sé bundið við ákveðin fræðasvið en háskólar megi aðeins starfa á þeim fræðasviðum sem viðurkenning þeirra nái til. Kærandi bendir einnig á að í 10. gr. fyrrgreindra laga segi að viðurkenndir háskólar megi meta nám við aðra menntastofnanir ef þeir ábyrgjast námið. Kærandi telur að af þessu ákvæði leiði að ef viðurkenndur háskóli ábyrgist nám við aðrar stofnanir falli það nám undir viðurkenningu viðkomandi háskóla. Kærandi bendir einnig á að í ákvæðinu segi ekkert til um á hvaða stigi nám þurfi að vera til að vera viðurkennt af öðrum háskóla. Kærandi telur að leiðsögunámið í EHÍ sé á faglegri ábyrgð HÍ og vísar um það m.a. til verklagsreglna um greiðslur vegna aukastarfa innan HÍ. Þá sé leiðsögunám EHÍ fullt nám þar sem 60 ECTS einingar séu kenndar á heilu skólaári. Það sé því bæði hæft til skólagjalda- og framfærsluláns óháð því hvort það sé kennt á grunnstigi eða framhaldsstigi háskóla. Þá telur kærandi að LÍN veiti nú þegar námslán vegna grunnháskólanáms sem ekki sé kennt við þá háskóla sem nefndir séu í grein 1.2.1 í úthlutunarreglum LÍN. Kærandi byggir einnig á því að listinn yfir háskóla skv. grein 1.2.1 í úthlutunarreglum LÍN sé ekki tæmandi um þá sem bjóða upp á lánshæft nám á háskólastigi eða sambærilegt nám þar sem listinn nái einungis yfir þá háskóla á Íslandi sem hlotið hafi viðurkenningu menntamálaráðherra en innihaldi ekki skóla og stofnanir sem bjóði upp á sambærilegt nám við háskólanám eða háskólanám sem njóti faglegrar ábyrgðar viðurkennds háskóla. Enn fremur segi bæði í grein 1.2.1 í úthlutunarreglum LÍN og í 1. gr. laga um LÍN nr. 21/1992 að nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi sé lánshæft. Inntökuskilyrði í leiðsögunám EHÍ séu sambærileg við undirbúningskröfur til náms við aðra háskóla á Íslandi og því ætti námið að vera lánshæft hjá LÍN burtséð frá faglegri ábyrgð HÍ á náminu. Kærandi telur rangt það mat ráðuneytisins að 10. gr. laga nr. 63/2006 eigi aðallega við um einstök námskeið sem metin séu inn í námsbrautir við hérlenda háskóla. Ekki sé hægt að sjá að mat ráðuneytisins eigi sér stoð í lagagreininni eða athugasemdum með frumvarpinu. Þar sé hvorki tekið fram að um einstök námskeið sé að ræða né að aðallega sé átt við erlenda skóla og stofnanir. Vísar kærandi til þess að hún hafi lagt fram yfirlýsingu frá hugvísindasviði HÍ, dagsett 7. júlí 2010, þar sem tekið sé fram að „Leiðsögunám á háskólastigi“ við EHÍ sé metið sem aukagrein til BA-prófs við sviðið. Hugvísindasvið HÍ viðurkenni þannig námið í samræmi við 2. mgr. 7. gr. og 10. gr. laga nr. 63/2006 en með yfirlýsingunni njóti leiðsögunám EHÍ viðurkenningar HÍ sem grunnháskólanám. Kærandi bendir á að í umsögn ráðuneytisins sé rætt um leyfi EHÍ til að bjóða upp á viðurkennt grunnháskólanám með vísan í lög um opinbera háskóla nr. 85/2008 með áorðnum breytingum samkvæmt lögum nr. 50/2010, sem samþykkt voru þann 1. júní 2010, eða um þremur mánuðum eftir kærandi hafi óskað eftir því að fá leiðsögunámið metið lánshæft. Telur kærandi að í ljósi þess að almennt séu lög ekki talin taka gildi fyrr en við birtingu þeirra og að þau séu ekki afturvirk sé óeðlilegt að ráðuneytið vísi í þessi breytingalög í umfjöllun um málið. Kærandi bendir á að lög nr. 85/2008, fyrir breytingarnar sem gerðar voru 2010, og sem voru í gildi þegar hún óskaði eftir láni, séu óskýr varðandi mörg atriði sem ráðuneytið fjalli um og falli því þessi hluti af umsögn ráðuneytisins um sjálft sig. Kærandi vísar til þess að í grein 1.2.1 í úthlutunarreglum LÍN segi: “Nám á háskólastigi er lánshæft og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi.” Í fyrri hluta greinar 1.2.1 sé ekki tekið fram að um sé að ræða viðurkennt nám á háskólastigi. Þó svo væri þá sé einnig tekið fram að annað nám en nám á háskólastigi sé einnig lánshæft. Telur kærandi ljóst að þótt leiðsögunámið við EHÍ væri ekki viðurkennt sem háskólanám, þá séu samt gerðar sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og í öðru viðurkenndu háskólanámi hér á landi, og því sé leiðsögunámið lánshæft með vísan 1. mgr. greinar 1.2.1 í úthlutunarreglum LÍN. Kærandi bendir á að í þessu samhengi sé því ekki nóg að benda á að EHÍ sé ekki á lista yfir skóla sem bjóði upp á háskólanám, enda séu þar aðeins taldir upp viðurkenndir háskólar en ekki aðrir skólar sem bjóði upp á nám með sambærilegum kröfum til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Kærandi vísar til þess að hvorki LÍN né ráðuneytið svari þeirri grundvallarspurningu kæranda í umsögnum sínum hvers vegna grunnháskólanám við Keili í Reykjanesbæ sé metið lánshæft á meðan lánshæfi leiðsögunámsins við EHÍ sé hafnað. Þetta hafi aldrei verið tekið til efnislegrar athugunar, hvorki af stjórn LÍN, málskotsnefnd né ráðuneytinu. Kærandi bendir á að Keilir sé hvorki viðurkennd háskólastofnun af ráðuneytinu né sé hans getið í upptalningu skóla í grein 1.2.1 í úthlutunarreglum LÍN. Þessu misræmi þurfi að gera grein fyrir því kærandi telji þetta setja skýrt fordæmi fyrir veitingu námslána við menntastofnanir á háskólastigi, sem ekki séu viðurkenndar af ráðherra. 

Sjónarmið LÍN 

Stjórn LÍN hafnaði beiðni kæranda um að nám hennar við EHÍ teldist lánshæft með vísan til greinar 1.2.1 í úthlutunarreglum LÍN. Þar sé talið upp í hvaða skólum nám á háskólastigi á Íslandi sé lánshæft. Að EHÍ sé ekki meðal þeirra skóla sem þar séu taldir upp enda hafi skólinn ekki tilskilin leyfi til að bjóða upp á grunnháskólanám og því hafi erindi kæranda verið hafnað. Stjórn LÍN bendir á að EHÍ hafi óskað eftir því í mars 2009 að þrjár brautir hjá skólanum, þ.m.t. leiðsögunám, yrði samþykkt af stjórn LÍN sem lánshæft nám. Nokkuð ítarlegar upplýsingar um námsbrautirnar fylgdu með eins og venja sé í sambærilegum málum. Í úrskurði stjórnarinnar frá 9. júlí 2009 hafi erindinu verið synjað á þeim grundvelli að tilskilin leyfi til að bjóða upp á grunnháskólanám væru ekki til staðar. Jafnframt óskaði LÍN eftir rökstuðningi frá EHÍ um heimildir skólans til að kenna grunnnám og innheimta skólagjöld vegna umrædds náms. Það væri skilningur sjóðsins að slíkar heimildir væru ekki til staðar enda um endurmenntun að ræða í kjölfar háskólanáms en ekki undanfari frekara háskólanáms. Í framhaldi af synjun LÍN hafi EHÍ óskað eftir endurupptöku málsins og hafi LÍN í nóvember 2009 sent beiðni um umsögn til ráðuneytisins varðandi heimild EHÍ til að bjóða upp á grunnháskólanám í m.a. leiðsögn. Ekkert formlegt svar hafi borist frá ráðuneytinu en LÍN átti í óformlegum samskiptum við ráðuneytið og fleiri aðila vegna málsins á þessum tíma. Á þessum tíma hafi legið fyrir frumvarp að lögum sem síðar hafi verið samþykkt sem breytingarlög nr. 50/2010 á lögum nr. 85/2008 um opinbera háskóla. Þar sé sérstaklega fjallað um skilgreiningu á endurmenntun og hvaða heimildir EHÍ hafi til að bjóða upp á grunnháskólanám. Það sé mat stjórnar LÍN að með þeim breytingum sem gerðar voru á lögum nr. 85/2008 hafi löggjafinn svarað því hvort EHÍ hafi heimild til að bjóða upp á grunnháskólanám eða ekki. 

Umsögn ráðuneytis 

Ráðuneytið bendir á að í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1992 komi fram að LÍN veiti lán til framhaldsnáms við skóla sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og gerðar séu til háskólanáms hérlendis. Í grein 1.1 í úthlutunarreglum LÍN fyrir skólaárið 2011-2012 sé kveðið almennt á um lánshæfi náms og í grein 1.2.1 sé gerð grein fyrir því hvaða nám á háskólastigi hér á landi teljist lánshæft. Í greininni sé svo rakið að um sé að ræða nám við tilgreinda háskóla. Ráðuneytið telur að þótt það sé ekki tilgreint í grein 1.2.1 að lánshæfi náms á háskólastigi hér á landi sé ekki bundið við að um sé að ræða nám á tilteknu fræðasviði háskóla sem hlotið hafi viðurkenningu ráðherra samkvæmt 3. gr. laga nr. 63/2006, sbr. reglur nr. 1067/2006, hnígi ýmis rök að því að líta svo á það skilyrði eigi engu að síður við. Vísar ráðuneytið til 1. gr. reglna nr. 1067/2006 þar sem m.a. komi fram að í viðurkenningu ráðherra á háskóla felist staðfesting á því að starfsemi hans sé í samræmi við lög um háskóla nr. 63/2006 og reglur settar á grundvelli þeirra. Viðurkenningin sé byggð á alþjóðlegum viðmiðum um háskólastarfsemi og ætlað að stuðla að því að íslenskir háskólar uppfylli gæðakröfur og standist alþjóðlegan samanburð. Fram komi að viðurkenning ráðherra á háskóla sé bundin við tiltekin fræðasvið og tiltekna undirflokka viðkomandi fræðasviðs og að háskólar geti eingöngu starfað á fræðasviðum sem viðurkenning þeirra nái til. Ráðuneytið bendir á að það komi fram í 2. mgr. 7. gr. laga nr. 63/2006 að viðurkenndir háskólar ákveði hvaða nám þeir bjóði innan síns fræðasviðs. Meðal viðurkenndra prófgráða skv. a-lið sömu málsgreinar sé diplómapróf sem jafngildi 30-120 stöðluðum námseiningum. Í 2. málsl. 9. gr. sömu laga segi að háskólum sé heimilt að veita prófgráður í samstarfi við aðra háskóla, innlenda sem erlenda. Þess sé hins vegar ekki getið að heimilt sé að veita prófgráður í samstarfi við aðra fræðsluaðila sem ekki hafi hlotið viðurkenningu að hætti 3. gr. laga nr. 63/2006. Ráðuneytið telur að við mat á því hvaða námsgreinar og námskeið teljist lánshæf við ofangreinda háskóla beri að horfa til 24. gr. laga nr. 63/2006 en þar sé kveðið á um að ráðuneyti skuli halda skrá um þær prófgráður sem í boði séu við háskóla sem ráðuneytið hafi viðurkennt. Þá gefi ráðuneytið út viðmiðun fyrir æðri menntun og prófgráður, sbr. auglýsingu nr. 30/2011. Þá komi fram í 24. gr. sömu laga að háskóli skuli gefa út kennsluskrá fyrir hvert kennsluár þar sem birt sé yfirlit og upplýsingar um öll einingabær námskeið og prófgráður sem skólinn veiti. Þá segi í 2. málsl. 22. gr. laga nr. 85/2008 að háskólaráði opinbers háskóla sé heimilt að setja nánari reglur um prófgráður á grundvelli laga nr. 63/2006. Í athugasemdum við greinina í því frumvarpi sem varð að lögum nr. 85/2008 segir að þessi heimild háskólaráðs geti t.d. komið til álita vegna prófgráðna sem veittar séu í tengslum við endurmenntun. Háskólaráð HÍ hafi þó ekki sett slíkar reglur og því komi ekki til álita að mati ráðuneytisins að beita þeim um nám sem stundað sé við EHÍ. Ráðuneytið telur að heimildarákvæði 2. málsl. 10. gr. laga nr. 63/2006 geti átt við þegar um er að ræða einstök námskeið sem metin séu inn í námsbrautir við hérlenda háskóla eða hluta af námi sem ólokið sé í öðrum skólum. Að mati ráðuneytisins gangi það gegn tilgangi laga nr. 63/2006 að líta svo á að ákvæðið veiti hérlendum háskólum heimild til að útvista kennslu á heilum námsbrautum sem miði að skilgreindum námslokum eða prófgráðu til fræðsluaðila sem ekki hafi hlotið viðurkenningu skv. 3. gr. laga nr. 63/2006. Ráðuneytið bendir á að heimild EHÍ til að bjóða upp á grunnháskólanám til skilgreindra námsloka byggi á 23. gr. a. í lögum nr. 85/2008. Ráðuneytið telur ljóst, með vísan til laga nr. 85/2008 og lögskýringargagna með þeim, að leiðsögunám við EHÍ uppfylli ekki skilyrði 23. gr. a, sbr. e-lið 2. mgr. 24. gr. fyrrgreindra laga. Ráðuneytið vísar til þess að EHÍ hafi ekki hlotið viðurkenningu á tilteknu fræðasviði háskóla samkvæmt 3. gr. laga nr. 63/2006. Í 1. mgr. 1. gr. reglna um EHÍ, nr. 844/2001, komi fram að stofnunin lúti yfirstjórn háskólaráðs HÍ. Í 2. mgr. 1. gr. reglnanna segi að stofnunin veiti prófskírteini sem staðfesti að viðkomandi hafi lokið námi á vegum stofnunarinnar sem og skírteini fyrir þátttöku í námskeiðum. Stofnunin hafi hins vegar ekki heimild til þess að veita lærdómstitla sbr. 54. gr. sameiginlegra reglna fyrir HÍ. Markmið EHÍ sé skv. 1. málsl. 2. gr. reglnanna að veita háskólamenntuðu fólki og almenningi fjölbreytt tækifæri til sí- og endurmenntunar. Þótt EHÍ hafi ekki heimild til að veita lærdómstitla geti stofnunin þó verið samstarfsvettvangur tveggja eða fleiri fræðasviða innan skólans í þverfaglegu námi undir formerkjum endurmenntunar, sbr. 23. gr. a laga nr. 85/2008. Í því felist að um sé að ræða viðbótarnám á háskólastigi sem stundað sé eftir fyrstu lærdómsgráðu í háskóla. Að mati ráðuneytisins uppfyllir „leiðsögunám á grunnháskólastigi“ hjá EHÍ ekki með ótvíræðum hætti kröfur laga þannig að það geti talist lánshæft á grundvelli úthlutunarreglna LÍN.

Niðurstaða

 

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 2/1992 um LÍN er hlutverk hans að tryggja þeim er falla undir lögin tækifæri til náms án tillits til efnahags. Í 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að LÍN veitir lán til framhaldsnáms við skóla sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og gerðar eru til háskólanáms hérlendis. Í úthlutunarreglum LÍN fyrir skólaárið 2009-2010, sem sett er af stjórn LÍN með heimild í 2. mgr. 16. gr. laga nr. 21/1992, er í I. kafla fjallað um hvaða nám telst lánshæft. Í grein 1.1 er kveðið almennt á um lánshæfi náms þar sem fram kemur að sjóðurinn veitir námslán til framhaldsnáms við viðurkennda skóla eða menntastofnanir sem veita æðri menntun sem leiðir til prófgráðu á háskólastigi. Þá er í ákvæðinu sett náÍ grein 1.2. í úthlutunarreglunum er fjallað um lánshæft nám á Íslandi. Grein 1.2.1 fjallar um lánshæfi náms á Íslandi á háskólastigi. Í greininni segir: Nám á háskólastigi er lánshæft og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Nám á háskólastigi í eftirtöldum skólum er lánshæft: 

Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Háskólinn á Bifröst, Háskólinn á Hólum, Háskólinn í Reykjavík, Landbúnaðarháskólinn, Listaháskóla Íslands.

Í málinu liggur fyrir umsögn ráðuneytisins og var í henni m.a. upplýst að í viðurkenningu ráðherra á háskóla felist staðfesting á því að starfsemi hans sé í samræmi við lög um háskóla nr. 63/2006 og reglur settar á grundvelli þeirra. Að viðurkenningin sé byggð á alþjóðlegum viðmiðum um háskólastarfsemi og ætlað að stuðla að því að íslenskir háskólar uppfylli gæðakröfur og standist alþjóðlegan samanburð. Þá er viðurkenning ráðherra á háskóla bundin við tiltekin fræðasvið og tiltekna undirflokka viðkomandi fræðasviðs og að háskólar geti eingöngu starfað á þeim fræðasviðum sem viðurkenning þeirra nái til. Ráðuneytið fór í umsögn sinni vel yfir þann lagaramma sem gildir um háskóla á Íslandi og starfsemi þeirra. Fjallað var m.a. um heimild háskóla til veitingu prófgráða í samstarfi við aðra háskóla, innlenda sem erlenda, og bent á að ekki sé veitt heimild í lögunum til að veita prófgráður í samstarfi við aðra fræðsluaðila sem ekki hafa hlotið viðurkenningu að hætti 3. gr. laga nr. 63/2006 um háskóla. Niðurstaða ráðuneytisins er m.a. sú að útvistun námsbrautar í heilu lagi frá viðurkenndu fræðasviði háskóla til fræðsluaðila sem ekki hefur hlotið viðurkenningu skv. 3. gr. laga nr. 63/2006, samræmist ekki tilgangi 2. málsl. 10. gr. þeirra laga. Í grein 1.2.1 í úthlutunarreglum LÍN kemur fram að nám á háskólastigi í þeim skólum sem þar eru taldir upp sé lánshæft. Er þá LÍN búið að ganga úr skugga um að hver einstakur þessara skóla njóti viðurkenningar ráðherra, hafi tilskilin leyfi og uppfylli þau lagaskilyrði að öðru leyti sem gerð eru til háskólanáms. Hefur LÍN við mat sitt notast við viðurkenningar og heimildir ráðherra sem unnið er í ráðuneytinu hverju sinni. Samkvæmt athugun LÍN þá uppfyllti EHÍ ekki framangreind skilyrði þegar umsókn kæranda lá fyrir. Stofnunin hafði ekki hlotið viðurkenningu ráðherra skv. 3. gr. laga nr. 63/2006 og hefur enn ekki hlotið þá viðurkenningu. EHÍ var ekki einn af þeim skólum sem talin er upp í upp í grein 1.2.1 í úthlutunarreglum LÍN fyrir skólaárið 2009-2010 sem giltu þegar umsókn kæranda barst sjóðnum. LÍN fylgir þeirri reglu að birta árlega í grein 1.2.1 í úthlutunarreglum sínum lista yfir þá skóla þar sem nám á háskólastigi telst lánshæft og hefur LÍN miðað við að um tæmandi talningu sé að ræða. Miðað við gögn málsins er ljóst að LÍN kannaði á árinu 2009 hvort rétt væri að fallast á að umrætt leiðsögunám sem kennt er við EHÍ ásamt tveimur öðrum námsleiðum yrði samþykkt lánshæft. Að lokinni þeirri skoðun var erindi EHÍ hafnað á þeim grundvelli að tilskilin leyfi skólans til að bjóða upp á grunnháskólanám voru ekki talin vera til staðar. Það er að mati málskotsnefndar málefnalegt af hálfu LÍN að miða mat sitt á lánshæfi náms á því hvort að skóli sem býður uppá námið, uppfylli skilyrði fagráðuneytis um tilskilin leyfi. Hefur LÍN lagt til grundvallar að veita lán eingöngu vegna náms í skólum sem hlotið hafa tilskilin leyfi stjórnvalda og eru þeir taldir upp í grein 1.2.1 í úthlutunarreglunum sem gefnar eru út árlega. Telur málskotsnefndin að LÍN sé heimilt að fylgja framangreindri reglu við mat sitt þrátt fyrir opið orðalag í 1. gr. laga nr. 21/1992 sbr. grein 1.3.1 í úthlutunarreglunum þar sem viðmiðið er fyrirsjáanlegt, opið og gagnsætt. Þá eru reglurnar öllum lánþegum ljósar og jafnræðis gætt við afgreiðslu mála. Málskotsnefndin telur því bæði forsvaranlegt og lögmætt af hálfu LÍN að styðjast við mat ráðuneytisins um hvort að skóli hafi tilskilin leyfi til háskólakennslu og viðurkenningu ráðherra þar um. Með því fæst samræmt og faglegt mat á skólum sem eðlilegt er að LÍN styðji mat sitt við um lánshæfi náms. 

Þegar umsókn kæranda barst LÍN um námslán hafði LÍN þegar hafnað beiðni EHÍ um að umrætt nám yrði samþykkt sem lánshæft. Í grein 1.2.1 í úthlutunarreglunum kemur fram með skýrum hætti að EHÍ er ekki meðal þeirra skóla sem bjóða uppá lánshæft nám á háskólastigi. Verður að telja að kærandi hafi ekki getað haft réttmætar væntingar til þess að það nám sem hún skráði sig í hjá EHÍ væri lánshæft. Það var ekkert sem gaf það til kynna í reglum og framkvæmd LÍN og telur málskotsnefndin að kæranda hafi mátt vera það ljóst að nám hennar væri ekki lánshæft samkvæmt reglum LÍN. Miðað við framangreinda afstöðu málskotsnefndar þá hefur yfirlýsing frá hugvísindasviði Háskóla Íslands, dagsett 7. júlí 2010, ekki gildi í máli þessu. Vegna ábendingar kæranda um að breytingalög nr. 50/2010 sbr. lög nr. 85/2008 um opinbera háskóla eigi ekki við í málinu þar sem lögin tóku ekki gildi fyrr en þremur mánuðum eftir að kærandi óskaði eftir námsláni þá bendir málskotsnefnd á að ekki verður annað séð en að breytingalögin hafi fest í sessi skilgreiningu á endurmenntun og heimild EHÍ til að bjóða uppá grunnháskólanáms sem fylgt hafi verið í framkvæmd fyrir lagabreytinguna. Að mati málskotsnefndar hafa breytingalögin gildi fyrir þetta mál sem vísun um skýran vilja löggjafans en með breytingalögunum var gerður skýrari greinarmunur á menntun sem fólgin er í endurmenntun og fræðslu til almennings annars vegar og hinni eiginlegu starfsemi háskóla að veita æðri menntun er leiðir til prófgráðu á háskólastigi hins vegar. Hvað varðar þá athugasemd kæranda að nám við háskólabrú við Keili sé metið lánshæft en ekki lánshæfi leiðsögunámsins við EHÍ bendir málskotsnefnd á að lánshæfi náms við háskólabrú Keilis byggir á grein 1.2.2 um sérnám á Íslandi sbr. 2. gr. laga nr. 21/1992. Í 2. gr. laga nr. 21/1992 segir að lánasjóðnum er heimilt að veita öðrum námsmönnum námslán en þeim sem falla undir skilgreiningu 2. mgr. 1. gr. laganna enda stundi þeir sérnám. Skal stjórn LÍN setja nánari reglur um til hvaða sérnáms skuli lánað. Það er gert í grein 1.2.2 í úthlutunarreglum LÍN. Þar er ákvarðað við hvaða sérskóla lánshæft nám verði stundað og er þar tekið fram að nám í fjölbrautaskólum og öðrum skólum, sem að meginstofni er liður í undirbúningi til stúdentsprófs eða sambærilegs prófs, sé að jafnaði ekki lánshæft. Þá eru taldir upp þeir skólar þar sem lánshæft nám verður stundað samkvæmt þessari grein, þar á meðal háskólabrú Keilis, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum þar um. Háskólabrú Keilis er undirbúningsnám að háskólanámi og telst vera á framhaldsskólastigi og próf úr skólanum er sambærilegt stúdentsprófi. Að mati málskotsnefndar er hér ekki um sambærilega hluti að ræða og sitthvort lagaskilyrði fyrir hendi varðandi mat á því hvort nám við háskólabrú Keilis eða leiðsögunám EHÍ telst lánshæft. Með vísan til framangreindra atriða og gagna málsins að öðru leyti er það mat málskotsnefndar að úrskurður stjórnar LÍN frá 16. apríl 2010 sé í samræmi við lög og reglur LÍN og er hann því staðfestur.

Úrskurðarorð

 

Hinn kærði úrskurður frá 16. apríl 2010 í máli kæranda er staðfestur.

Til baka