Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-32/2011 - Endurgreiðsla námslána - beiðni um niðurfellingu kostaðar vegna innheimtu

Úrskurður

Ár 2012, miðvikudaginn 15. febrúar, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-32/2011:

Kæruefni

Með kæru sem barst málskotsnefnd þann 22. september 2011 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 24. júní 2011 þar sem hafnað var kröfu kæranda um niðurfellingu á kostnaði vegna innheimtu á tekjutengdri afborgun 2010. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 22. september 2011 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 3. október 2011. Afrit þess var sent kæranda og henni jafnframt veittur frestur til að koma að athugasemdum sínum, sem hún gerði með bréfi dagsettu 17. október 2011.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi kveðst hafa búið erlendis frá janúar 2006, en í maí 2008 hafi hún formlega flutt búsetu sína til Sviss. Þann 31. mars 2011 hafi kæranda borist innheimtubréf frá Intrum Justia um greiðslu á áætlaðri tekjutengdri afborgun námsláns ársins 2010. Erindið hafi borið með sér að um ítrekun á innheimtu væri að ræða og var kærandi auk afborgunarinnar krafin um greiðslu á vöxtum að fjárhæð 194,45 svissneskra franka og innheimtukostnaði að fjárhæð 616 svissneskra franka, sem svari til 101.314,35 króna á gengi þess tíma. Áður en þetta erindi hafi borist hafi kærandi hvorki fengið sendan greiðsluseðil né innheimtuaðvörun frá LÍN. Af þeim sökum hafi kærandi farið fram á við LÍN að innheimtukostnaður yrði felldur niður, en verið hafnað með þeim rökum að hún yrði að bera hallan af innheimtunni þar sem hún hafi ekki tilkynnt sjóðnum um breytingar á heimilisfangi sínu. Kærandi byggir á því að samkvæmt íslensku lögum hafi LÍN borið að senda henni greiðsluseðil og innheimtuaðvörun áður en Intrum Justica var falin innheimta kröfunnar. Þau rök LÍN að henni hafi borið að tilkynna sjóðnum breytt heimilisfang séu haldlaus þar sem sjóðnum heafi verið í lófa lagið að senda greiðsluseðil og innheimtuviðvörun á hennar fyrra heimilisfang, eins og hann hafi ítrekað gert áður. Þá hafi LÍN með einfaldri uppflettingu í símaskrá eða á ja.is mátt hafa upp á síðasta heimilisfangi kæranda hér á landi og beina tilkynningum þangað. Í 1. mgr., sbr. 3. mgr. 7. gr. innheimtulaga nr. 95/2008 komi fram sú lagaskylda innheimtuaðila að senda eina viðvörun og gefa skuldara færi á að greiða kröfuna innan ákveðins frests, áður en milliinnheimtu- eða löginnheimtuaðgerðir hefjast. LÍN hafi brotið gegn þessari lagaskyldu sinni. Í athugasemdum með 7. gr. frumvarps til innheimtulaga komi fram að viðvörunina þurfi einnig að senda ábyrgðarmönnum. Þótt ábyrgðarmaður kæranda hafi látist á árinu 2007 hafi skyldur hans færst yfir á eftirlifandi eiginkonu. Engin innheimtuviðvörun hafi borist henni frekar en kæranda. Þar sem LÍN hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt 7. gr. innheimtulaga hafi sjóðnum brostið heimild til þess að senda kröfuna í milliinnheimtu- eða löginnheimtu samkvæmt 2. mgr. 1. gr. innheimtulaga. LÍN byggir á því að greiðendur sem búa í útlöndum beri sjálfir ábyrgð á því að LÍN hafi réttar upplýsingar um heimilisfang, ef það sé ekki rétt skráð, og að afborganir lána berist sjóðnum á réttum tíma. Kærandi hafi samkvæmt þjóðskrá flutt af landi brott 1. maí 2008, en ekki tilkynnt nýtt heimilisfang fyrr en á árinu 2011. Þegar horft væri til þess að kærandi hafi greitt af námsláni í 11 ár hlyti henni að hafa verið kunnugt um afborgunina á gjalddaga 1. september 2010. LÍN hafi einungis búið yfir þeim upplýsingum að kærandi væri búsett í Sviss og ekki hafi tekist að koma tölvupósti til hennar á þau netföng sem skráð hafi verið hjá sjóðnum. Þá hafi ekki verið mögulegt að senda ítrekanir á ábyrgðarmann lánsins þar sem hann hafi verið látinn. Af framangreindum ástæðum telur LÍN að heimilt hafi verið að krefja kæranda um greiðslu innheimtukostnaðar og með því hafi ekki verið brotið gegn ákvæðum laga um innheimtu nr. 95/2008.

Niðurstaða

Samkvæmt 1. gr. laga um innheimtu nr. 95/2008 gilda þau um frum- og milliinnheimtu gjaldfallinna peningakrafna. Í athugasemdum í frumvarpi til laganna kemur fram að með þeim sé ætlað að setja ákveðnar meginreglur til hagsbóta fyrir neytendur, m.a. ákvæði um góða innheimtuhætti og innheimtuviðvörun, og draga úr óeðlilegum kostnaði skuldara vegna innheimtuaðgerða á frumstigi. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laganna skal kröfuhafi eða innheimtuaðili eftir gjalddaga kröfu senda skuldara eina skriflega viðvörun þess efnis að vænta megi frekari innheimtuaðgerða verði krafan eigi greidd innan 10 daga. Í athugasemdum í frumvarpi til laganna kemur fram að hugtakið skuldari sé hér notað í víðri merkingu þannig að ábyrgðarmönnum þurfi einnig að senda viðvörunina ef ætlunin er að beina innheimtuaðgerðum einnig gegn þeim. Í 2. mgr. 7. gr. laganna kemur fram hvaða upplýsingar skuli vera í innheimtuaðvörun, þ.á m. að greiðslufall skuldara geti leitt til málshöfðunar eða annarra innheimtuaðgerða sem haft geti í för með sér aukinn kostnað fyrir hann. Það er óumdeilt að kæranda var ekki send greiðsluaðvörun samkvæmt 7. gr. innheimtulaga áður en Intrum Justica var falin innheimta kröfunnar. LÍN telur að það hafi verið heimilt eins og á stóð þar sem afborgun láns kæranda hafi verið fallin í gjalddaga og sjóðurinn hafi ekki búið yfir upplýsingum um heimilisfang kæranda. Á það verður ekki fallist. Innheimtuaðvörun samkvæmt 7. gr. er skylduaðvörun, sem ekki er heimilt að víkja frá nema í þeim sérstöku tilvikum sem greinir í 5. og 6. mgr. lagaákvæðisins, en þær eiga ekki við hér. Í athugasemdum með 7. gr. í frumvarpi til innheimtulaga kemur fram að ef kröfuhafi eða innheimtuaðili hefur ekki ástæðu til að ætla að hafa megi upp á skuldara á öðru heimilisfangi sé nægilegt að senda innheimtuviðvörun á það heimilisfang sem skuldarinn gaf kröfuhafanum upp. LÍN bjó yfir upplýsingum um síðasta heimilisfang kæranda hér á landi enda hafði hún greitt af námslánum í 11 ár. Þá var kærandi einnig með sama heimilisfang skráð í símaskrá samkvæmt því sem upplýst er í málinu. Verður að telja að LÍN hafi borið að senda innheimtuviðvörun á það heimilisfang kæranda sem sjóðurinn bjó yfir og eftir atvikum á heimilisfang ábyrgðarmanns eða þess sem í hans stað kom, áður en hafist var handa um milliinnheimtu- og löginnheimtu kröfunnar. Þar sem það var ekki gert var LÍN óheimilt að krefja kæranda um greiðslu kostnaðar vegna innheimtu Intrum Justica. Úrskurður stjórnar LÍN frá 24. júní 2011 í máli kæranda er því felldur úr gildi.

Úrskurðarorð

Hinn kærði úrskurður frá 24. júní 2011 í máli kæranda er felldur úr gildi.

Til baka