Úrskurður
Ár 2012, miðvikudaginn 29. febrúar, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-20/2011:
Kæruefni
Með kæru dagsettri 23. júní 2011 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 23. mars 2011, þar sem kæranda var synjað um námslán vegna vorannar 2011. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 26. júlí 2011 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 15. júlí 2011. Með bréfi dagsettu 26. júlí 2011 var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við svör stjórnar LÍN. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi dagsettu 26. ágúst 2011. Með bréf dagsettu 6. febrúar 2012 sendi kærandi síðan viðbótarathugasemdir sínar í málinu.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi hóf kandídatsnám í lyfjafræði við Háskóla Íslands
haustið 2004, svonefnt Cand. Pharm. nám. Í janúar 2007 sendi lyfjafræðideildin
kæranda bréf þar sem honum var tilkynnt um að hann þyrfti að endurinnrita sig í
deildina sökum tvífalls. Missti kærandi við það 46 einingar sem voru undir
tiltekinni lágmarkseinkunn en 94 einingar fluttust yfir á nýja ferilinn. Að auki
missti kærandi 10 einingar vegna spænskunámskeiðs sem ekki fluttist yfir í nýjan
námsferil hans. Í framhaldi af því að reglum um námið var breytt skipti kærandi
yfir í B.S. nám í lyfjafræði, sbr. umsókn hans dagsett 26. febrúar 2007, og
hófst B.S. námferill hans haustið 2007. Eftir að kærandi fluttist yfir í B.S.
ferlið lauk hann 58 einingum til viðbótar. Útskrifaðist hann með B.S. gráðu í
lyfjafræði haustið 2009. Kærandi hóf síðan M.S. nám í lyfjafræði haustið 2009.
Þrátt fyrir að hafa óskað eftir því að flytjast úr kandídatsnámi yfir í B.S. nám
breytti kærandi ekki skráningu sinni hjá LÍN og fékk áfram námslán á þeim
grundvelli að hann stundaði kandídatsnám í lyfjafræði. Kærandi sótti um námslán
vegna kandídatsnámsins vegna haustannar 2010. LÍN synjaði umsókn kæranda þann
15. september 2010 um námslán á þeim grundvelli að hann hefði þegar fengið lán
fyrir hámarkseiningafjölda vegna kandídatsnáms í lyfjafræði, en samfellt Cand.
Pharm. nám er 300 ECTS einingar. Þann 10. janúar 2011 sótti kærandi síðan um
námslán vegna vorannar 2011 til LÍN en tilgreindi þá að hann væri við M.S. nám í
lyfjafræði. Tveimur dögum síðar sendi hann inn breytingu á umsókn sinni þar sem
hann tilgreindi sérstaklega að hann hefði hafið M.S. í lyfjafræði í júlí 2009.
LÍN synjaði enn umsókn hans á þeim grundvelli að hann hefði þegar fengið lán
vegna þess einingafjölda sem tilskilinn væri til að ljúka M.S. náminu. Kærandi
bar mál sitt undir stjórn LÍN 17. janúar 2011 sem úrskurðaði í máli hans þann
16. febrúar 2011. Var beiðni hans um lán synjað með vísan til þess að hann hefði
þegar fengið námslán vegna 306 eininga vegna náms í lyfjafræði við Háskóla
Íslands, en fullt nám er 180 einingar á B.S. stigi og 126 einingar á M.S. stigi
skv. skipulagi skólans, samanlagt 306 einingar. Kærandi fór fram á endurupptöku
máls síns við stjórn LÍN. Stjórn LÍN synjaði málaleitan kæranda með úrskurði
þann 23. mars 2011.
Sjónarmið kæranda.
Í kærunni kemur
fram að kærandi telji sig hafa verið ranglega synjað um lán fyrir vorönn 2011.
Hafi hann aðeins fengið lágmarkslán, þ.e. vegna 18 eininga, haustið 2010. Hafi
synjunin byggst á áralöngum misskilningi sjóðsins á aðstöðu nemenda, þ.e. að
hann hafi einungis verið í einum námsferli. Samkvæmt skilgreiningu laga væru
námsferlar þó þrír, kandídatsnám, B.S.- og M.S.-nám í lyfjafræði. Bendir kærandi
á að vorið 2008 hafi hann endurinnritast í H.Í. en þá samkvæmt nýju skipulagi, í
B.S. í lyfjafræði. Telur kærandi að vandamálið sé að í raun hafi hann alltaf
verið skráður í kandídatsnám hjá sjóðnum. Ef sjóðurinn telji að kærandi hafi
fengið oflánað til grunnnáms geti hann ekki látið það bitna á alls óskyldu námi
í allt öðrum námsferli. Ef LÍN telji að oflánað hafi verið til B.S. gráðunnar
hafi sjóðurinn átt að endurkrefja kæranda, þ.e. leiðrétta ofgreiðslu. Lýsir
kærandi því einnig að LÍN hafi ekki talið ástæðu til að breyta skráningu hans og
vísað til þess að það breytti engu og kæmi í sama stað niður fyrir kæranda.
Bendir kærandi á að hann eigi rétt á að fá að endurgreiða ofgreidd námslán vegna
B.S. námsins með því að setja andvirði þeirra á skuldabréf. Hafi hann nú lokið
námi með skuldsetningu á mun lakari kjörum en hjá LÍN. Krefst hann þess
jafnframt að fá full lán afgreidd hjá LÍN vegna þess hluta M.S. námsins sem hann
stundaði skólaárið 2010-2011. Kærandi telur að samkvæmt grein 5.9. í
úthlutunarreglum LÍN beri að leiðrétta mistök sem séu námsmanni í óhag. Þá beri
einnig skv. grein 5.7.1 að gefa námsmanni sem fær ofgreitt lán kost á að
endurgreiða það með sérstöku skuldabréfi. Í viðbótarathugasemdum sínum vísar
kærandi til þess að hann hafi skráð sig í nýtt nám í viðskiptafræði og sótt um
lán vegna þess. Við skráningu hans hjá LÍN hafi komið fram að hann ætti rétt á
svigrúmi 120 einingum til viðbótarláns, en hefði notað 42 einingar af því. Telur
kærandi þetta til marks um að LÍN hafi borið að veita honum námslán vegna
meistaranámsins í lyfjafræði í samræmi við umsókn hans.
Sjónarmið
stjórnar LÍN.
Í athugasemdum stjórnar LÍN kemur fram kærandi hafi
upphaflega verið skráður í kandídatsnám í lyfjafræði við HÍ haustið 2004. Hafi
hann verið endurinnritaður í lyfjafræðina í byrjun árs 2007 sökum tvífalls. Þá
hafi fyrirkomulagi námsins verið breytt úr kandídatsnámi í B.S. og M.S. nám og
hafi því kærandi verið skráður í B.S. nám við HÍ frá hausti 2007 og hafi hann
útskrifast með B.S. gráðu haustið 2009. LÍN hafi ekki borist upplýsingar um
breytingu á skráningu kæranda og hafi hann því áfram verið skráður í
kandídatsnám. Við endurinnritun hafi fallið niður 46 ECTS einingar sem hann hafi
þegar fengið lánað vegna. Kærandi hafi því útskrifast með B.S. gráðu í
lyfjafræði með 236 ECTS einingar í stað 180 eininga. LÍN tekur fram að við
úrvinnslu umsóknar kæranda haustið 2010 hafi komið fram að kærandi hafi verið
búinn að fá lánað fyrir hámarkseiningafjölda, en hann hafi þá enn verið skráður
í kandídatsnám í lyfjafræði eins og komi fram á upprunalegri umsókn hans. Hafi
LÍN sent kæranda bréf þessa efnis 15. september 2010. Í janúar 2011 hafi kærandi
lagt inn nýja umsókn um námslán þar sem hann sæki um lán vegna M.S. náms í
lyfjafræði. Tveimur dögum síðar hafi kærandi svo sent inn leiðréttingu þar sem
fram komi að hann hafi verið í M.S. í lyfjafræði frá því í júlí 2009. Hafi
kærandi síðan sent erindi til LÍN þar sem hann hafi óskað eftir því að gengið
yrði frá þessari breytingu. Hafi LÍN svarað því til að lánsréttur kæranda væri
fullnýttur. Með vísan til þess að kærandi sé búinn að fá lánað fyrir
hámarkseiningafjölda skv. grein 2.1 í úthlutunarreglunum telur stjórn LÍN að
beiðni hans um námslán hafi réttilega verið synjað. LÍN vísar til þess að skv.
grein 2.1 í úthlutunarreglunum sé hámarksfjöldi eininga sem lánað sé vegna
miðaðar við skipulag skóla. Samkvæmt upplýsingum Lyfjafræðideildar H.Í. hafi
ekki verið litið svo á af hálfu skólans að nemendur væru að hefja nýtt nám þegar
skipulagi námsins hafi verið breytt heldur hafi verið skipulagsbreytingar að
ræða. Þeir nemendur sem hafi óskað eftir slíkri breytingu hafi ekki misst neinar
einingar við þá aðgerð. Hafi kærandi verið í þeim hópi. Hafi Lyfjafræðideild
H.Í. staðfest að kærandi hafi ekki misst niður neinar einingar vegna þessa
heldur hafi hann misst niður einingar vegna endurinnritunar í kjölfar tvífalls.
Þar sem kærandi hafi þegar fengið námslán sem svaraði til B.S. og M.S. náms ætti
hann ekki frekari rétt til láns. Engar upplýsingar liggja fyrir hjá sjóðnum um
að kærandi hafi gert sjóðnum grein fyrir breyttri stöðu sinni í náminu þegar
hann hafi verið endurinnritaður á árinu 2007.
Niðurstaða
Kemur fyrst til athugunar sú röksemd kæranda að námsferlar hans
hafi verið þrír. Í II. kafla úthlutunarreglna LÍN sem hefur verið óbreyttur á
meðan að kærandi hefur verið í námi kemur fram að nýr námsferill hefjist þegar
námsmaður skiptir um skóla, námsgrein eða námsgráðu. Málskotsnefnd telur rétt að
leggja til grundvallar að skipulagsbreytingar hafi verið gerðar á námi kæranda
eins og fram kemur í umsögn lyfjafræðideildar við meðferð máls hans hjá LÍN. Í
þessu sambandi vísar málskotsnefndin til þess að með reglum nr. 532/2005
samþykkti háskólaráð breytingar á reglum nr. 458/2000 fyrir Háskóla Íslands sem
fólu í sér að kennsla við B.S. og M.S. nám var hafin í lyfjafræði. Kemur fram í
14. gr. breytingarreglnanna að um er að ræða breytingar á skipan lyfjafræðináms.
Verður því ekki talið að kærandi hafi byrjað nýjan námsferil í skilningi
úthlutunarreglna LÍN þegar hann var skráður við B.S. nám í lyfjafræði á árinu
2007. Í grein 2.1 í úthlutunarreglum LÍN fyrir námsárið 2010 2011 kemur fram
að hámarksfjöldi eininga sem lánað er fyrir á einstökum námsbrautum taki mið af
skipulagi skóla samþykktu af stjórn LÍN. Samkvæmt skipulagi náms í lyfjafræði
sem kærandi stundaði voru ECTS einingar til B.S. prófs 180 og einingar til M.S.
náms 126, eða samtals 306 einingar. Kærandi hefur fengið lán vegna samtals 306
eininga, þar af 236 vegna B.S. hluta námsins, en af þeim féllu, 46 einingar og
10 einingar vegna spænsku niður við endurinnritun. Ágreiningslaust er að skv.
grein 2.1 í úthlutunarreglum LÍN miðast hámarkslán við skipulag skóla og miðast
því samanlagt við 306 ECTS einingar þegar M.S. námi lýkur. Kærandi hefur hins
vegar vísað til þess að sökum þess að hann hafi verið ranglega skráður í
bakkalárs nám hafi hann fengið oflánað til B.S. hluta náms síns. Eigi hann rétt
á fá að endurgreiða ofgreitt lán vegna B.S. náms með skuldabréfi til eins árs og
fá síðan lán vegna lokinna eininga í M.S. hluta náms síns á námsárinu 2010-2011.
Í úthlutunarreglum LÍN grein 5.5.2 segir að leiðrétta beri við fyrstu
hentugleika þegar námsaðstoð hefur verið veitt eða reiknuð út á röngum
forsendum. Við slíka leiðréttingu skuli taka tillit til þess hvort námsmaður
hafi vísvitandi gefið villandi eða rangar upplýsingar, hvort um hafi verið að
ræða vanrækslu hans eða um mistök af hálfu LÍN. Þá kemur einnig fram í grein 5.9
að LÍN beri að leiðrétta mistök sín sem eru námsmanni í óhag. Ákvörðun LÍN um að
samþykkja eða synja umsókn um námslán hverju sinni er stjórnvaldsákvörðun og um
rétt lánþega til að óska leiðréttingar á slíkri ákvörðun gildir því einnig 24.
gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um endurupptöku en þar segir:
Eftir
að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því
að mál sé tekið til meðferðar á ný ef: 1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi
eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða 2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann
hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.
Eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv.
1. tölul. 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum
þeim sem ákvörðun skv. 2. tölul. 1. mgr. var byggð á, verður beiðni um
endurupptöku máls þó ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum
aðilum málsins. Mál verður þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá
fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.
Samkvæmt grein 5.5.1 í úthlutunarreglum LÍN er það á ábyrgð námsmanns að
tilkynna til LÍN allar breytingar á högum sínum er haft geta áhrif á veitingu
námsaðstoðar. Engar upplýsingar liggja fyrir í málinu um að kærandi hafi
tilkynnt breytingar á námsferli sínum til LÍN eins og honum er skylt samkvæmt
framansögðu ákvæði. Var sjóðurinn því ekki í aðstöðu til þess að stöðva
lánveitingar til kæranda eins og kærandi heldur fram að átt hafi að gera. Auk
þess verður ekki séð að áframhaldandi veiting námsláns til kæranda á þeim tíma
er hann hafði lokið 180 einingum af B.S. námi sínu geti talist hafa verið honum
óhag, heldur þvert á móti naut kærandi góðs af þessu fyrirkomulagi, þar sem ella
hefðu lánveitingar til hans verið stöðvaðar til loka B.S. námsins. Verður því
ekki séð að kærandi fái byggt á því að LÍN hafi gert mistök í máli hans eða að
meðferð málsins á þessum tíma hafi verið honum í óhag. Á kærandi því ekki rétt á
leiðréttingu á grundvelli greinar 5.9 í úthlutunarreglum LÍN. Þá tekur
málskotsnefnd fram að samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga sem vísað er til hér að
framan á kærandi ekki rétt á endurupptöku á ákvörðun LÍN um að veita honum
námslán í B.S. náminu þegar meira en ár er liðið frá því að umrædd ákvörðun var
tekin eða honum sjálfum var kunnugt um þau atvik er umrædd ákvörðun var byggð á,
þ.e. kunnugt um breytingu á námsferli, nema að veigamiklar ástæður mæli með
slíku. Kæranda var sjálfum kunnugt um breytingar á námsferli sínum þegar á árinu
2007 og bar hann eftir þann tíma ábyrgð á að gera grein fyrir þeim breytingum í
umsóknum sínum um námslán. Ekki verður séð að veigamiklar ástæður séu fyrir
hendi í máli þessu er mæli með endurupptöku máls kæranda. Verður beiðni kæranda
um endurupptöku málsins því ekki byggð á 24. gr. stjórnsýslulaga. Bendir
málskotsnefnd jafnframt á að reglur um endurgreiðslu ofgreiddra námslána gera
ráð fyrir því að námsaðstoð verði stöðvuð þar til námsmaður hefur gert upp
ofgreitt lán. Af þeim sökum hefði kærandi ekki átt rétt til námsaðstoðar á
vorönn 2011 meðan á endurgreiðslu skuldabréfsins hefði staðið. Þegar kærandi
sótti um námslán vorið 2011 hafði hann samanlagt í B.S. og M.S. námi sínu fengið
lán vegna 306 ECTS eininga. Átti hann því ekki rétt á frekara láni skv.
lokamálslið greinar 1.1, sbr. grein 2.1 í úthlutunarreglum LÍN. Með vísan til
ofangreindra sjónarmiða og forsendna hins kærða úrskurðar er niðurstaða stjórnar
LÍN frá 23. mars 2011 í máli kæranda staðfest.
Úrskurðarorð
Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 23. mars 2011 er staðfestur.