Úrskurður
Ár 2012, mánudaginn 29. febrúar, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-31/2011.
Kæruefni
Með kæru, sem móttekin var hjá málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna þann 6. september 2011, kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 27. júní 2011, þar sem beiðni kæranda um undanþágu vegna veikinda á vormisseri 2010 var hafnað. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi sama dag og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 21. september 2011 og var afrit þess sent kæranda og honum jafnframt gefinn frestur til að koma að athugasemdum sínum. Kærandi sendi athugasemdir sínar með bréfi dagsettu 19. október 2011.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi stundar nám við Háskólann á Akureyri. Hann sótti um
undanþágu vegna veikinda með vísan til greinar 2.4.3 í úthlutunarreglum LÍN
vegna náms á vorönn 2011. Í erindi kæranda til stjórnar LÍN kemur fram að hann
hefur stundað nám frá árinu 2009. Í umsókn kæranda kemur fram að hann er haldinn
langvinnum sjúkdómi sem hafi gert honum erfitt fyrir að stunda nám sitt. Til
hafi staðið að kærandi lyki vorönn með sjúkraprófum í lok maí en sökum sjúkdóms
kæranda hafi slíkt reynst ómögulegt. Hafi kærandi engum áfanga lokið á vorönn.
Umsókn kæranda um aukið svigrúm vegna veikinda var hafnað með úrskurði stjórnar
LÍN þann 23. júní 2011 á þeirri forsendu að skilyrði greinar 2.4.3 í
úthlutunarreglum LÍN fyrir skólaárið 2010-2011 væru ekki uppfyllt. Kemur fram í
úrskurðinum að ekki sé hægt að verða við beiðni kæranda á grundvelli þeirra
gagna er lágu fyrir.
Sjónarmið kæranda.
Kærandi byggir
mál sitt á því að hann hafi lagt fram þau gögn sem vísað er til í grein 1.4.3 í
úthlutnarreglum LÍN. Hafi hann innt fulltrúa LÍN eftir því hvort gögnin væru
fullnægjandi. LÍN hafi engar athugasemdir gert við gögnin og hafi ekki óskað
eftir frekari gögnum og skýringum. Í ljósi sinnuleysis fulltrúa og stjórnar LÍN
verði slíkt ekki skýrt öðruvísi en brot á rannsóknarreglu stjórnsýslulaga nr.
37/1993. Niðurstaða LÍN er hafi án rökstuðnings hafnað beiðni kæranda sé
ennfremur brot á reglunni um málefnalega stjórnsýslu. Telur kærandi að stjórn
LÍN hafi túlkað lagaheimild 2. mgr. 12. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð
íslenskra námsmanna of þröngt og þar með brotið meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.
Fer kærandi fram á að úrskurði stjórnar LÍN verði snúið við. Í
viðbótarathugasemdum kæranda kemur fram að hann hafi lagt fram vottorð frá HA
þess efnis að kærandi væri skráður í 30 ECTS eininga nám á umræddri önn. Erfitt
sé að leggja mat á ástundun nemenda í námi þar sem ekki sé mætingaskylda. T.d.
séu fjölmargir skráðir í námið sem fjarnemar og stundi námið frá heimili sínu.
Óhugsandi sé að stofnun sem HA geti gefið vottorð um ástundun með öðrum hætti en
gert var í máli kæranda. Þá telur kærandi að LÍN hafi dregið rangar ályktanir af
framlögðu læknisvottorði en í því hafi staðið að kærandi væri með öllu
óvinnufær. Hafi LÍN dregið þá ályktun að þar með væri kærandi einnig með öllu
ófær um að stunda nám sitt. Bendir kærandi á að veikindi sín geti leitt til þess
þegar svo ber undir að hann verði óvinnufær, sem hafi í þessu tilviki leitt til
þess að hann hafi ekki getað tekið próf. Hins vegar væri ekki hægt að skýra
vottorðið þannig að kærandi hafi ekki getað stundað nám sitt á umræddri önn,
enda hrjái hann langvinnur sjúkdómur sem hingað til hafi ekki orðið til þess að
honum hafi ekki tekist að ljúka námi sín með fullnægjandi hætti. Að mati kæranda
sé aðalatriðið við skýringu 2. mgr. 12. gr. laga nr. 21/1992 að veikindi séu
staðfest. Telur kærandi að með grein 2.4.3 í úthlutunarreglunum setji LÍN
lagaheimildinni í 2. mgr. 12. gr. þrengri skorður er löggjafinn hafi ætlað. Þá
bendir kærandi á að LÍN hafi ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni með því að
svara ekki skýrri fyrirspurn kæranda um hvort skýra þyrfti erindi hans frekar.
Sjónarmið LÍN.
Stjórn LÍN fer fram á að úrskurður hennar
frá 23. júní 2011 verði staðfestur. LÍN kveður kæranda hafa sótt um aukið
svigrúm í námi vegna veikinda á vormisseri 2011 í erindi sínu til stjórnar þann
7. júní 2011. Sama dag hafi borist vottorð frá HA er staðfesti að kærandi væri
skráður i nám á vormisseri 2011 og hefði greitt skólagjöld. Í bréfi LÍN til
kæranda 3. júní 2011 hefði verið staðfest móttaka á læknisvottorði en kæranda
bent á að hann þyrfti að senda erindi til stjórnar og staðfestingu frá skólanum
um að hann hefði stundað nám á vorönn 2011. Í tilfelli kæranda hafi einungis
legið fyrir að hann væri skráður í nám en ekki að hann hafi stundað námið. Þar
sem ekki hafi legið fyrir staðfesting á ástundun hafi ekki verið hægt að veita
honum hlutfallslegt lán í samræmi við ástundum og hafi erindi kæranda því verið
synjað. Telur stjórnin sig hafa sinnt rannsóknarskyldu sinni í málinu með því að
meta þau gögn sem lágu fyrir áður en ákvörðun hafi verið tekin, en það sé ekki
hlutverk sjóðsins að afla gagna fyrir námsmenn. LÍN telur að leiðbeiningaskyldu
hafi verið sinnt í máli kæranda með bréfi þann 1. júní 2011. Þar hafi verið bent
á hvaða gögn þyrftu að fylgja til viðbótar læknisvottorði.
Niðurstaða
Í málinu liggur fyrir að kærandi skilaði ekki námsárangri á vorönn 2011. Kæranda tókst ekki að ljúka prófum sökum langvinnra veikinda sem hafa hrjáð hann um árabil. Sótti hann um undanþágu vegna veikinda á grundvelli greinar 2.4.3 í úthlutunarreglum LÍN. Þar kemur m.a. fram að í þeim tilfellum þar sem námsmaður verður að hverfa frá námi vegna veikinda er heimilt að veita hlutfallslegt lán fyrir þann tíma sem námsmaður stundar nám og staðfestur er af skólayfirvöldum. Í bréfi LÍN til kæranda þann 3. júní er honum leiðbeint með að leggja fram erindi til stjórnar ásamt staðfestingu frá skóla "á því að þú hafir stundað nám á vorönn 2011". Í framhaldinu leggur kærandi fram staðfestingu frá skóla um að hann sé skráður í 30 einingar á misserinu og hafi greitt innritunargjöld. Í meðfylgjandi bréfi kæranda innir hann LÍN eftir því hvort skýra þurfi umsóknina um undanþágu nánar. Engar frekari leiðbeiningar bárust frá LÍN. Erindi kæranda var síðan synjað á grundvelli þess að hann hefði ekki lagt fram fullnægjandi gögn. Í úrskurði stjórnar er vísað til greinar 2.4.3 í úthlutunarreglunum en ekki skýrt nánar hvaða gögn væru ófullnægjandi eða á hvern hátt. Í 7. gr. stjórsýslulaga kemur fram að stjórnvald skuli veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þess. Í 10. gr. laganna kemur síðan fram að stjórnvald skuli tryggja að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Í þessu sambandi skal stjórnvald leiðbeina aðilum nægjanlega til þess að þeir geti lagt fram viðeigandi gögn til þess að tryggt sé að ákvörðun í máli þeirra sé byggð á bestu fáanlegu upplýsingum. Hafi stjórnvald ekki rökstutt niðurstöðu sína skal, sbr. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga koma fram í ákvörðun að aðila sé heimilt að óska rökstuðnings. Samkvæmt 22. gr. stjórnsýslulaga skal í rökstuðningi "vísa til þeirra réttarreglna sem ákvörðun stjórnvalds er byggð á. Að því marki, sem ákvörðun byggist á mati, skal í rökstuðningnum greina frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við matið." Í þeim leiðbeiningum sem kærandi fékk frá LÍN kemur fram að hann skuli leggja fram vottorð um að hann hafi "stundað nám" á önninni. Í ljósi þess að kærandi hafi lagt fram vottorð sem LÍN virðist ekki hafa talið fullnægjandi, verður að telja að LÍN hafi borið að svara spurningu kæranda þegar hann innti eftir því hvort að umsókn sín væri fullnægjandi. Slíkt var ekki gert og telur málskotnefnd að skort hafi á að LÍN uppfyllti leiðbeingarskyldu stjórnvalds gagnvart kæranda skv. 7. gr. stjórnsýslulaga. Slíkt leiddi jafnframt til þess að mál kæranda var ekki að fullu upplýst, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, þar sem ekki reyndi á hvort að kærandi gæti aflað gleggri vottorða frá skóla um ástundun sína eða a.m.k. yfirlýsingu frá skóla um hvort hægt væri að leggja fram slíkt vottorð yfirleitt. Erindi kæranda var synjað með vísan til þess að fyrirliggjandi gögn væru ekki fullnægjandi. Ekki kom fram af hálfu LÍN að hvaða leyti gögnum væri áfátt, en telja verður að stjórninni hafi borið að leggja mat á fyrirliggjandi gögn og tilgreina hvað það var sem á skorti af hálfu kæranda. Skorti því fullnægjandi rökstuðning skv. 22. gr. stjórnsýslulaga í hinum kærða úrskurði. Með vísan til þess að meðferð máls kæranda var ekki í samræmi við 7., 10. og 22. gr. stjórnsýslulaga telur málskotsnefndin rétt að beiðni kæranda verði tekin til meðferðar á ný hjá stjórn LÍN. Er hin kærða niðurstaða í úrskurði stjórnar LÍN frá 23. júní 2011 í máli kæranda felld úr gildi.
Úrskurðarorð
Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 23. júní 2011 er felldur úr gildi.