Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-30/2012 - Búsetuskilyrði - búseta umsækjanda erlendis

Úrskurður

Ár 2012, miðvikudaginn 13. mars, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-30/2012.

Kæruefni

Með kæru sem barst málskotsnefnd þann 16. júlí 2012 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 30. apríl 2012 þar sem umsókn kæranda um námslán vegna skólaársins 2011-2012 var synjað. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 20. júlí 2012 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 15. ágúst 2012 og var afrit þess sent kæranda og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi dagsettu 15. september 2012. Með bréfi dagsettu 7. janúar 2013 óskaði málskotsnefndin eftir nánari skýringum frá LÍN vegna málsins. Svör LÍN bárust með bréfi dagsettu 14. janúar 2013. Afrit þess var sent kæranda og honum jafnframt gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum, sem bárust með tölvupósti hans þann 28. janúar 2013.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi, sem er íslenskur ríkisborgari, hefur samkvæmt gögnum málsins verið búsettur í öðru EES ríki frá 2006. Haustið 2011 hóf kærandi diplómanám í viðburðastjórnun í fjarnámi við Hólaskóla og sótti af því tilefni um námslán fyrir skólaárið 2011-2012. Kærandi er búsettur í Danmörku ásamt fjölskyldu sinni en kemur reglulega til Íslands til að stunda staðbundnar lotur vegna námsins. Í bréfi LÍN til kæranda sem dagsett er þann 19. september 2011 en barst honum með tölvupósti þann 10. nóvember 2011 vísaði LÍN til greinar 1.1 í úthlutunarreglum LÍN um þau skilyrði sem kærandi þyrfti að uppfylla til að eiga rétt á láni. Var kærandi beðinn um að leggja fram staðfestar upplýsingar um stöðu sína, t.a.m. skattframtöl eða önnur sambærileg gögn. Einnig kallaði LÍN eftir læknisvottorði og innti kæranda eftir því hvort hann ætti fasteign á Íslandi og foreldra eða börn þar. Beiðni kæranda um námslán var hafnað með úrskurði LÍN þann 30. apríl 2012 og var honum tilkynnt um úrskurðinn með bréfi dagsettu 2. maí 2012. Byggðist synjunin á þeirri forsendu að kærandi ætti ekki rétt á láni þar sem hann uppfyllti ekki skilyrði 6. mgr. greinar 1.1 í úthlutunarreglum LÍN, en þar segir að

Niðurstaða

Í 1. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN kemur fram að hlutverk lánasjóðsins sé að tryggja þeim sem falla undir lögin tækifæri til náms án tillits til efnahags. Í 1. mgr. 13. gr. laganna er mælt fyrir um að námsmenn sem séu íslenskir ríkisborgarar eigi rétt á námsláni enda uppfylli þeir skilyrði laganna og reglna sem settar eru með stoð í þeim. Í 6. mgr. 13. gr. segir að ráðherra geti sett reglur um "rétt íslenskra og erlendra ríkisborgara til námslána á Íslandi og erlendis, þar á meðal vegna þjóðréttarlegra skuldbindinga". Í ákvæðinu kemur ennfremur fram að ákveða megi að "réttur til námslána, sem leiddur er af 1. og 2. mgr., taki mið af tengslum við íslenskt samfélag eða vinnumarkað." Um LÍN gildir reglugerð nr. 478/2011 og er í 1. mgr. 3. gr. hennar tilgreind þau tengsl við íslenskt samfélag eða vinnumarkað sem íslenskir ríkisborgarar þurfa að uppfylla til þess að eiga rétt til láns. Er m.a. gert að skilyrði að íslenskir ríkisborgarar hafi verið við launuð störf hér á landi í tiltekinn tíma, sjálfstætt starfandi eða við umönnun barns. Með reglugerð nr. 821/2011 um breytingu á reglugerð um LÍN bættist ný málsgrein við 3. gr. reglugerðarinnar, svohljóðandi:

Stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna er heimilt í sérstökum tilvikum að leggja sterk tengsl umsækjanda við Ísland að jöfnu við að uppfyllt séu skilyrði lánveitingar samkvæmt 1. mgr. Framangreint ákvæði heimilar stjórn LÍN að veita lán þó að umsækjandi hafi ekki uppfyllt þær kröfur um tengsl við íslenskt samfélag og vinnumarkað sem tilgreindar eru í 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar. Málskotsnefnd tekur fram að réttur til námsláns er ívilnandi og lögum samkvæmt heimilt að binda hann tilteknum skilyrðum. Ákvæði 13. gr. laga nr. 21/1992 var breytt með lögum nr. 78/2009 þegar afnumið var fortakslaust skilyrði laganna um að réttur til láns væri bundinn skilyrði um búsetu á Íslandi. Í 1. mgr. 13. gr. laganna eins og henni var breytt kemur fram að íslenskir ríkisborgarar eigi rétt til láns að því tilskyldu að þeir uppfylli skilyrði laganna og reglna sem settar eru með stoð í þeim. Í 6. mgr. 13. gr. kemur skýrt fram sú afstaða löggjafans að binda megi slíkan rétt við tengsl umsækjanda við íslenskt samfélag eða vinnumarkað. Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi því sem varð að fyrrgreindum breytingum á lögum 21/1992 segir að með tengslum við íslenskt samfélag sé m.a. átt við búsetu hér á landi. Koma slík skilyrði fram í reglugerð nr. 478/2011 um LÍN en með reglugerðarbreytingunni nr. 821/2011 var stjórn LÍN síðan heimilað að veita undanþágu frá þeim fortakslausu kröfum sem kveðið er á um í reglugerðinni. Í því felst að LÍN ber að kanna og meta hvort kærandi eigi rétt til námsláns vegna sterkra tengsla við Ísland, sbr. 3. mgr. 3. gr. reglugerðar um LÍN. Í úrskurði málskotsnefndar í máli L-34/2011 kemur fram að í nóvember 2011 hafi LÍN sett fram leiðbeiningarreglur sem litið sé til við mat á tengslum umsækjanda við Ísland. Reglur þessar voru ekki birtar með opinberum hætti en þær er þó að finna á heimsíðu sjóðsins. Þar kemur fram að meðal þeirra þátta sem stjórn sjóðsins lítur til er hvort umsækjandi hyggist flytja til landsins til að stunda það nám sem sótt er um námslán vegna og hvort aðstæður umsækjanda bendi til þess að umsækjandi muni hafa búsetu hér á landi að námi loknu. Þá sé litið til ástæðna þess að umsækjandi uppfylli ekki skilyrði greinar 1.1 í úthlutunarreglum LÍN, til að mynda af hvaða ástæðum hann hafi flutt lögheimili sitt, að hve miklu leyti tengsl hans við Ísland hafi rofnað á meðan á dvöl hans erlendis hefur staðið og þá sé sérstaklega litið til þess hvernig skattskilum umsækjanda, búsetu maka og þeirra sem eru á framfæri umsækjanda hefur verið háttað. Litið sé til ýmissa skuldbindinga umsækjanda og maka umsækjanda, til að mynda ráðningarsamninga, húsnæðislána, leigusamninga um íbúðarhúsnæði og fleiri atriða sem geta gefið vísbendingu um tengsl umsækjanda við Ísland og eftir atvikum tengsl við annað land. Þá sé mælst til þess að umsækjandi skili sjóðnum greinargerð um þau atriði sem talin eru skipta máli og láti eftirtalin gögn fylgja eftir því sem við á:

1. Staðfestar upplýsingar um nám sem umsækjandi og maki umsækjanda hafa stundað erlendis.

2. Staðfestar upplýsingar um atvinnu umsækjanda og maka umsækjanda.

3. Leigusamning eða staðfestingu á eignarhaldi á núverandi íbúðarhúsnæði.

4. Leigusamning eða staðfestingu á eignarhaldi á íbúðarhúsnæði á íslandi.

5. Skattframtöl á meðan á dvöl erlendis stóð.

6. Staðfestingu á búsetu maka, einstaklinga sem eru á framfæri umsækjanda og/eða einstaklinga sem umsækjandi er á framfæri hjá.

7. Þá getur það stutt umsókn ef fyrir liggur staðfesting þar til bærra stjórnvalda á því að umsækjandi eigi ekki rétt til töku námslána eða rétt til að þiggja styrki vegna náms í þeim löndum sem umsækjandi hefur helst dvalið síðustu ár.


Eru framangreind viðmið birt á heimasíðu LÍN. Ekki kemur þó fram í gögnum málsins að LÍN hafi leiðbeint kæranda um þessi viðmið, þó svo að þau hafi að sögn LÍN verið lögð til grundvallar framkvæmd hjá LÍN frá því í nóvember 2011. Stjórn LÍN hafnaði lánsumsókn kæranda þar sem hún taldi að kærandi hefði ekki sýnt fram á nægjanlega sterk tengsl við Ísland til þess að eiga lánsrétt. Í úrskurði stjórnar LÍN var vísað til þess að kærandi gæti ekki sýnt fram á sterk tengsl meðan lögheimili hans væri ekki skráð á Íslandi. Þá taldi stjórn LÍN ennfremur að ástundun fjarnáms við íslenskan háskóla samsvaraði ekki sterkum tengslum. Þau gögn sem LÍN kallaði eftir voru „skattframtöl eða önnur sambærileg gögn“. Samkvæmt gögnum málsins kemur einnig fram að LÍN hafi kallað eftir læknisvottorði og innt kæranda eftir því hvort hann ætti fasteign á Íslandi og foreldra eða börn þar. Samkvæmt rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ber LÍN að sjá til þess að mál kæranda væri nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Af gögnum málsins verður ráðið að í úrskurði sínum í apríl 2012 byggði LÍN einungis á hluta þeirra eigin viðmiða sem þó höfðu verið sett í nóvember 2011, en kallaði ekki eftir frekari gögnum um stöðu kæranda, s.s. ástæður þess að hann hafði lögheimili í Danmörku, nám maka og mögulegan flutning til Íslands, en þetta eru allt atriði sem talin eru upp í viðmiðunarreglum LÍN. Þannig veitti LÍN kæranda ekki tæmandi upplýsingar um á hvaða sjónarmiðum væri mögulegt að byggja á við mat á „tengslum“ kæranda við Ísland. Þar sem ákvörðun um lánveitingu á grundvelli 3. mgr. 3. gr. reglugerðar um LÍN byggist á mati var nauðsynlegt að fyrir lægju allar þær upplýsingar um tengsl kæranda við Ísland sem LÍN hefur sjálft tilgreint að séu nauðsynlegar í því skyni að hægt sé að leggja mat á slík tengsl. Þar sem stjórn LÍN hefur að þessu leyti hvorki sinnt rannsóknarskyldu sinni samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga né leiðbeiningarskyldu sinni samkvæmt 7. gr. laganna og með því ekki lagt fullnægjandi grundvöll að málinu er óhjákvæmilegt að fella úrskurð hennar úr gildi.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 30. apríl 2012 er felldur úr gildi.

Til baka