Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-38/2011 - Undanþágur frá afborgun - synjun um undanþágu frá fastri afborgun

Úrskurður

Ár 2012, miðvikudaginn 14. mars, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-38/2011:

Kæruefni

Með kæru dagsettri 29. nóvember 2011 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 30. ágúst 2011, þar sem kæranda var synjað um undanþágu frá fastri afborgun námsláns á árinu 2010. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 6. desember 2011 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN eru settar fram í bréfi dagsettu 20. desember 2011. Athugasemdir kæranda bárust málskotsnefnd með bréfi dagsettu 18. janúar 2012.

Málsatvik og ágreiningsefni

Mál þetta á sér þá forsögu að kærandi sótti upphaflega um undanþágu frá fastri endurgreiðslu námsláns fyrir árið 2010 með tölvupósti þann 30. apríl 2010. Ástæðu umsóknar kvað kærandi vera fjárhagsörðugleika og fylgdu beiðninni staðgreiðsluyfirlit vegna launa hans frá apríl til og með desember 2009. Með bréfi LÍN til kæranda dagsettu 11. maí 2010 var athygli hans vakin á því að gögn vegna umsóknar hafi ekki borist sjóðnum og af þeirri ástæðu væri umsókn hans synjað, en hann gæti óskað úrskurðar stjórnar LÍN um synjunina. Kærandi andmælti því í bréfi til LÍN dagsettu 19. júlí 2010 að hafa ekki skilað umbeðnum gögnum og krafðist þess að umsóknin yrði tekin fyrir að nýju og honum veitt umbeðin undanþága vegna lágra tekna. Því hafnaði stjórn LÍN með úrskurði þann 17. ágúst 2010. Kærandi kærði úrskurð stjórnar LÍN til málskotsnefndar Lánasjóðs íslenskra námsmanna sem komst að þeirri niðurstöðu í úrskurði sínum 15. júní 2011, að stjórn LÍN hafi ekki veitt kæranda viðeigandi leiðbeiningar vegna umsóknar hans og með því brotið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem fjallar um rannsóknarskyldu stjórnvalda. Var úrskurður stjórn LÍN frá 17. ágúst 2010 því felldur úr gildi. Í niðurstöðu málskostnefndar komu fram ábendingar til LÍN um það hvernig bæri að standa að leiðbeiningum vegna umsókna um undanþágu frá afborgun námsláns. Í framhaldi af úrskurði málskotsnefndar tók stjórn LÍN erindi kæranda fyrir að nýju og sendi honum bréf dagsett 1. júlí 2011 þar sem honum voru gefnar ítarlegar leiðbeiningar um hvaða gögnum hann þyrfti að skila til LÍN vegna umsóknar sinnar. Kærandi svaraði því með bréfi 14. sama mánaðar þar sem hann lýsti þeirri skoðun sinn að það væri hæpið að einhver frekari gögn vörpuðu ljósi á umsókn hans og ítrekaði að fyrirliggjandi gögn hjá LÍN ættu að duga við afgreiðslu á beiðni hans. Stjórn LÍN tók erindi kæranda fyrir á fundi sínum 30. ágúst 2011 og kvað upp þann úrskurð sem hér er til endurskoðunar, að hafna umsókn kæranda um undanþágu frá fastri afborgun námsláns á árinu 2010 Kröfu sína um að málskotsnefnd felli úr gildi úrskurð LÍN byggir kærandi á því að hann eigi erfitt með að skilgreina hvaða gögn það séu sem stjórn LÍN telur að fylgja þurfi umsókn hans. Í fórum LÍN séu nægileg gögn sem sýni fram á tekjusamdrátt hans og sérstaklega á því tímabili sem notað er til viðmiðunar af hálfu LÍN og því beri að fella úr gildi hinn kærða úrskurð og fresta afborgun námsláns hans. Af hálfu stjórnar LÍN kemur fram að í kjölfar úrskurðar málskotsnefndar 15. júní 2011 hafi kæranda verið sendar leiðbeiningar um hvaða gögn hann gæti lagt fram til að sýna fram á fyrir hendi væru einhverjar þær ástæður sem veitt gætu heimild til undanþágu samkvæmt reglum sjóðsins. Þar sem engin gögn hafi borist frá kæranda innan þess frests sem honum var gefinn, utan staðgreiðsluyfirlita sem hann hafði áður sent, hafi stjórnin synjað erindi hans. Telur stjórn LÍN sig að fullu hafa sinnt leiðbeiningarskyldu sinni gagnvart kæranda og bendir á að sönnunarbyrðin hvíli á kæranda um að hann uppfylli skilyrði og reglur sjóðsins til undanþágu. Þá áréttar stjórn LÍN að ekki sé lagaheimild til þess að veita undanþágu eingöngu vegna lágra tekna, sbr. 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN og ákvæði 7.4.1 í úthlutunarreglum LÍN.

Niðurstaða

Samkvæmt 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 og grein 7.4.1 í úthlutunarreglum LÍN er sjóðsstjórn heimilt að veita undanþágu frá afborgun námsláns að hluta eða að öllu leyti, ef skyndilegar og verulegar breytingar verða á högum skuldara, t.d. ef alvarleg veikindi eða slys skerða til muna ráðstöfunarfé hans eða tekjuöflunarmöguleika. Ennfremur er heimilt að veita undanþágu ef lánshæft nám, atvinnuleysi, óvinnufærni vegna veikinda, þungunar eða umönnunar barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega. Af lagaákvæðinu er ljóst að undanþága verður ekki eingöngu veitt vegna lágra tekna, heldur þurfa einnig að vera fyrir hendi einhver af þeim atriðum sem þar eru talin upp. Umsókn kæranda byggir á því að aðstæður hans flokkist undir „sambærilegar ástæður“ þar sem hann eigi í verulegum fjárhagserfiðleikum vegna lágra tekna. Í 7. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 kemur fram að skuldari, sem sækir um undanþágu samkvæmt 6. mgr., skuli leggja fram þær upplýsingar sem stjórn LÍN telur skipta máli. Í bréfi stjórnar LÍN dagsettu 1. júlí 2011 er kæranda bent á að hann geti auk staðgreiðsluyfirlits, lagt fram ýmiss gögn því til stuðnings að hann eigi við verulega fjárhagsörðugleika að stríða, og ef að umsókn hans sé af ástæðum sem sambærilegar eru við þær sem tilgreindar eru í 6. mgr. sé nauðsynlegt að hann leggi fram einhver gögn því til staðfestingar. Kærandi hefur valið að verða ekki við þeim tilmælum og ber því við að fyrirliggjandi gögn hjá LÍN, þ.e. staðgreiðsluyfirlit, eigi að duga til að fallast á beiðni hans. Málskotsnefnd bendir á að það sé ótvíræð skylda LÍN að hlutast til um að nauðsynlegar upplýsingar liggi fyrir frá skuldara þegar afgreidd er umsókn hans um undanþágu frá greiðslu afborgunar af láni. Ber LÍN að skora á skuldara með skýrum hætti að leggja fram nauðsynlegar upplýsingar og leiðbeina honum um það hvernig hann geti gert það. Það hefur stjórn LÍN gert. Kærandi hefur hins vegar valið að verða ekki við tilmælum LÍN og hefur engar skýringar gefið á því að hvaða leyti aðstæður hans séu sambærilegar við þær sem taldar eru upp í 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992. Málskotsnefnd bendir á að komið er til móts við tekjulága einstaklinga við endurgreiðslu námlána þar sem önnur af árlegum endurgreiðslum námsláns er miðuð við tekjur viðkomandi á undanliðnu ári, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992. Umrætt ákvæði 6. mgr. 8. gr. laganna sem kærandi vísar til er sérákvæði sem á við þegar skyndilegar og verulegar breytingar verða á högum skuldara í þeim tilvikum sem tilgreind eru þar. Þar sem slík undanþága verður samkvæmt orðanna hljóðan ekki veitt frá afborgun eingöngu vegna lágra tekna og þar sem kærandi hefur ekki þrátt fyrir áskoranir gert tilraun til þess að sýna fram á að fyrir hendi séu aðrar ástæður sambærilegar þeim sem greinir í 6. mgr., sem veitt geta heimild til undanþágu frá afborgun námsláns, ber að fallast á úrskurð stjórnar LÍN um að synja erindinu.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 30. ágúst 2011 er staðfestur.

Til baka