Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-36/2011 - Námslok - beiðni um frestun á lokun skuldabréfs

Úrskurður

Ár 2012, miðvikudaginn 28. mars, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. L-36/2011:

Kæruefni

Með kæru sem barst málskotsnefnd 29. nóvember 2011 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 29. ágúst 2011 þar sem hafnað var beiðni kæranda um frestun á lokun skuldabréfs. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 28. desember 2011 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 23. janúar 2012 og var afrit þess sent kæranda og henni jafnframt veittur frestur til að koma að athugasemdum sínum. Kærandi nýtti sér það og sendi athugasemdir sínar ásamt fylgiskjölum til málskotsnefndar um miðjan febrúar. Þá bárust viðbótarathugasemdir frá kæranda í bréfi dagsettu 23. mars 2012.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi hefur stundað nám í verkfræði í Danmörku frá haustinu 2001. Hún lauk fyrri hluta námsins og fór að því loknu í meistaranám. Meistaranáminu lauk vorið 2007 og hóf hún í framhaldinu doktorsnám við sama skóla. Hún áætlar að leggja doktorsritgerð sína fram í vor 2012 og verja ritgerðina síðar á árinu. Kærandi hefur notið styrkja í doktorsnáminu og hefur ekki sótt um námslán frá LÍN eftir að doktorsnámið hófst. Kærandi sótti um frest á lokun skuldabréfs vegna skólaáranna 2007-2008 og 2008-2009 sem var samþykkt af hálfu LÍN. Í október 2010 fékk kærandi bréf frá LÍN þess efnis að loka ætti skuldabréfum hennar og að hún ætti að hefja greiðslur af námslánum sínum árið 2011. Var henni veittur frestur til 1. desember 2010 til að skila inn upplýsingum um námsárangur og fresta þannig lokun skuldabréfanna. Kærandi skilaði inn beiðninni ásamt gögnum 13. desember 2010. LÍN hafnaði erindi hennar um frestun á lokun skuldabréfanna þann 15. desember 2010. Í framhaldi sendi kærandi bréf til stjórnar LÍN og óskaði eftir því að ákvörðunin yrði endurskoðuð en þeirri beiðni var hafnaði af stjórn LÍN í úrskurði dagsettum 24. mars 2011. Kærandi óskaði 24. júní 2010 eftir endurskoðun á fyrri ákvörðun LÍN um synjunina. Erindið var tekið fyrir á ný af stjórn LÍN og var synjað í úrskurði dagsettum 29. ágúst 2011.

Sjónarmið kæranda

Kærandi óskar eftir því að LÍN verði gert að leiðrétta þau námslok sem sjóðurinn miðar afborganir kæranda við, þannig að þau verði skráð eftir 30. júní 2009 í stað 29. júní 2009 eins og gert hefur verið. Þá óskar kærandi eftir því að afborganir hennar af námslánum á árinu 2011 verði endurgreiddar og að hún hefji afborgun af láni sínu í samræmi við rétt námslok. Kærandi bendir á að erindið til LÍN í desember 2010 hafi mislagst m.a. vegna erfiðra heimilisaðstæðna en eiginmaður hennar hafi á þessu tíma unnið dag og nótt við verkefni tengd doktorsnámi sínu og sonur hennar átt við þrálát veikindi að stríða þetta haust. Kærandi byggir einnig á því að þetta mál eigi sér langan aðdraganda. Á árinu 2009 hafi LÍN sent kæranda bréf um lokun skuldabréfa hennar, sambærilegt bréfinu sem sent var árið 2010. Kærandi svaraði því bréfi í nóvember 2009 og sendi LÍN þá jafnframt gögn um fullnægjandi námsframvindu. Í framhaldinu sendi LÍN kæranda bréf, dagsett 25. nóvember 2009, um að lokun skuldabréfa hennar hafi verið frestað. Í þeim gögnum, sem kærandi skilaði til LÍN í nóvember 2009, hafi komið fram að doktorsnámið væri stundað allt árið og jafnframt hafi verið sýnt fram á fullnægjandi námsárangur fram að þeim tíma sem skólinn gaf út vottorðin í nóvember 2009. Kærandi vísar til reglna LÍN en þar komi fram að það skipti máli hvort námslok séu fyrir eða eftir 30. júní upp á hvenær greiðslur skuli hefjast. Þegar LÍN hafi fallist á að fresta námslokum árið 2009 hafi ekkert verið tekið fram um viðmiðunardag námsloka í svari sjóðsins. Það hafi ekki verið fyrr en í bréfum LÍN í október 2010 sem komi fram að LÍN miði við að námslok hafi verið þann 29. júní 2009. Kærandi bendir á að þessi dagsetning sé ekki í samræmi við þau gögn sem skilað hafi verið til LÍN og að ekki hafi verið unnið rétt úr innsendum gögnum. Kærandi telur að námslok hafi ranglega verið skráð á hana fyrir 30. júní 2009. Kærandi bendir á að þetta skipti miklu máli þar sem reglur LÍN gera ráð fyrir að afborganir hefjist árið 2011 ef námslok séu þann 29. júní 2009 en árið 2012 ef námslok séu á bilinu frá 1. júlí 2009 til 31. desember 2009. Kærandi telur að LÍN hafi afgreitt umsókn hennar árið 2009 með röngum hætti og miðað við röng námslok. Kærandi byggir á því að LÍN hafi haft undir höndum réttar upplýsingar um námsfyrirkomulag hennar, þegar bréfið hafi verið sent í nóvember 2009 þess efnis að lokun skuldabréfs hennar hafi verið frestað. Í bréfinu hafi hvorki verið tekið fram að fresturinn gilti bara í eitt ár né að hann miðist við að námslok séu þann 29. júní 2009. Þá bendir kærandi á að miðað við áætluð námslok hennar á árinu 2012 hafi hún átt að hefja afborganir af námslánum sínum þann 30. júní 2014. Í þess stað hafi henni og eiginmanni hennar verið gert að hefja afborganir af námslánum sínum á árinu 2011 og í stað þess að hefja afborganir 2 árum eftir námslok hafi þau hafið greiðslu af námslánum sínum hálfum mánuði eftir námslok eiginmanns hennar og um það bil einu ári áður en kærandi lýkur námi.

Sjónarmið LÍN

LÍN bendir á að skuldabréfi sé lokað þegar námsmaður hætti að þiggja lán og sé þá miðað við lok síðasta aðstoðartímabils, sbr. grein 2.5.1 í úthlutunarreglum LÍN. Heimilt sé að fresta lokun skuldabréfs ljúki námsmaður lánshæfum námsárangri á næsta námsári eftir að hann þáði síðast aðstoð. Námsmaður skuli þá sækja sérstaklega um frestunina fyrir 1. desember 2010 og eftir því sem við eigi gilda sömu reglur um frestun á lokun skuldabréfs eins og gilda um lánsumsókn og námsframvindu, sbr. II. kafli reglnanna. LÍN bendir á að í bréfi, dagsettu 26. október 2010 og svo í tölvupósti dagsettum 4. nóvember 2010 hafi kæranda verið tilkynnt um þá ákvörðun sjóðsins að loka skuldabréfi hennar og hafi kæranda þá jafnframt verið veittur frestur til 1. desember 2010 til að sækja um breytingu á því. Fyrir liggi að kærandi hafði ekki samband við sjóðinn fyrr en 13. desember 2010 eða eftir að framangreindur frestur var útrunninn. LÍN vísar til þess að enga heimild sé að finna í reglum LÍN til að taka tillit til þeirra atriða sem kærandi ber fyrir sig og að skýrt sé kveðið á um umsóknarfrest í grein 2.5.1 í úthlutunarreglum LÍN og því hafi sjóðurinn synjað erindi kæranda. Varðandi það að LÍN hafi ranglega afgreitt umsókn kæranda um frestun námsloka vegna skólaársins 2008-2009 bendir LÍN á að í október 2009 hafi borist innritunarvottorð frá háskólanum dagsett 15. október 2009. Þar sem verið var að sækja um frest á námslokum hafi kærandi fengið að njóta vafans og hafi þau gögn verið tekin sem staðfesting á því að öll skilyrði námsins væru uppfyllt fyrir skólaárið 2008-2009 sem umsóknin náði til, þótt strangt til tekið komi það ekki fram í vottorðinu frá skólanum. Miðað við þær forsendur hafi námslok verið skráð 29. júní 2009, þ.e. við lok vorannar 2009. Þá bendir LÍN á að umsóknir um frest á námslokum nái bara yfir eitt skólaár í einu sbr. grein 2.5. í úthlutunarreglum sjóðsins.

Niðurstaða

Í 4. mgr. 7. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN segir: "Endurgreiðsla hefst tveimur árum eftir námslok. Sjóðstjórn skilgreinir hvað telja beri námslok samkvæmt lögum þessum og úrskurðar um vafatilfelli." Í 8. gr. reglugerðar nr. 602/1997 um LÍN sem á við í þessu máli kemur fram að ef námslok eru á fyrri hluta árs, þ.e. 1. janúar til 30. júní, er gjalddagi fyrstu föstu greiðslunnar 30. júní tveimur árum eftir námslok. En ef námslok eru á síðari hluta árs, þ.e. 1. júlí til 31. desember, er gjalddagi fyrstu föstu greiðslunnar 1. mars á þriðja ári frá námslokum. Í úthlutunarreglum LÍN fyrir skólaárið 2010-2011 segir í grein 2.5.1, sem fjallar almennt um lokun skuldabréfs, að skuldabréfi er lokað þegar námsmaður hættir að þiggja lán og er þá miðað við lok síðasta aðstoðartímabils. Þá segir í greininni að sá tímapunktur teljist námslok í skilningi laga nr. 21/1992 og reglugerðar nr. 602/1997. Í grein 2.5.2 er síðan fjallað um frestun á lokun skuldabréfs. Þar segir: "Heimilt er að fresta lokun skuldabréfs ljúki námsmaður lánshæfum námsárangri á næsta námsári eftir að hann þáði síðast aðstoð. Námsmaður skal þá sækja sérstaklega um frestunina fyrir 1. desember 2010 og eftir því sem við á gilda sömu reglur um frestun á lokun skuldabréfs eins og gilda um lánsumsókn og námsframvindu, sbr. II. kafli – Námsframvinda." Á heimasíða LÍN kemur fram að afborgun námslána hefjist tveimur árum eftir námslok. Þá segir þar um lokun skuldabréfs að ef námsmaður sækir ekki um námslán í eitt skólaár gerir lánasjóðurinn ráð fyrir að hann sé hættur námi og hefst þá undirbúningur að lokun skuldabréfs hans. Þá fái námsmaðurinn senda tilkynningu frá sjóðnum um að námslokin eða lokunardagurinn miðist við lok þess námsárs þegar hann fékk síðast námslán og að afborganir á láninu hefjast síðan tveimur árum eftir þennan lokadag. Þá koma fram á heimasíðunni upplýsingar um frestun á lokun skuldabréfs. Þar segir að ef námsmaðurinn er ennþá í fullu lánshæfu námi en er hættur að sækja um námslán getur hann sótt um frestun á lokun skuldabréfsins. Hann þarf þá að leggja fram gögn sem sanna að hann sé ennþá í námi og sé með lánshæfan árangur. Ljóst er af síðari málslið 4. mgr. 7. gr. laga nr. 21/1992 að stjórn LÍN ber að skilgreina hvað telja beri námslok samkvæmt lögunum. Í grein 2.5 í úthlutunarreglum LÍN er þetta skilgreint af hálfu LÍN og í úthlutunarreglunum fyrir skólaárið 2010-2011 er tekið fram með skýrum hætti að sækja skuli um frest á lokun skuldabréfs fyrir 1. desember 2010. Þessu til viðbótar er á heimasíðu LÍN leiðbeiningar um námslok og lokun skuldabréfa. Þessar reglur og leiðbeiningar eru aðgengilegar öllum lántakendum og verður að leggja þá ábyrgð á þá að kynna sér reglur sjóðsins og fylgja þeim eftir. Það liggur fyrir í málinu að kærandi lauk meistaranámi sínu vorið 2007 og þáði þá síðast lán hjá LÍN. Hún hóf doktorsnám við sama skóla þann 1. desember 2007 og lýkur því á árinu 2012. Óumdeilt er að kærandi stundaði lánshæft nám haustið 2010 án þess að sækja um lán frá sjóðnum og að hún uppfyllir þau skilyrði sem heimila frestun á lokun skuldabréfs. Kærandi sótti um frest á lokun skuldabréfs og fékk vegna áranna 2007-2008 og 2008-2009. Kærandi telur að LÍN miði námslok sín ekki við rétta dagsetningu. Þau hafi verið skráð 29. júní 2009 í stað þess að það beri að skrá þau eftir 30. júní 2009 miðað við upplýsingar um núverandi nám hennar. Eins og fyrr segir ber samkvæmt úthlutunarreglum LÍN að loka skuldabréfi þegar námsmaður hættir að þiggja lán og skal þá miðað við lok síðasta aðstoðartímabils námsmanns. Lok síðasta aðstoðartímabils kærandi var á vorönn 2007 og í 8. gr. reglugerðar nr. 602/1997 um LÍN segir að ef námslok eru á fyrri hluta árs, þ.e. 1. janúar til 30. júní, er gjalddagi fyrstu föstu greiðslunnar 30. júní tveimur árum eftir námslok. Með vísan til þess telur málskotsnefnd að LÍN miði réttilega við að námslok kæranda hafi orðið á fyrri hluta árs og skipti þá ekki máli í þessu sambandi hvort námslokin séu af hálfu LÍN miðuð við 29. eða 30. júní og að frestun á lokun skuldabréfs hafi verið samþykkt tvisvar sinnum frá árinu 2007. Þá er ekki fallist á það með kæranda að LÍN hafi ranglega afgreitt umsókn hennar um frestun námsloka vegna skólaársins 2008-2009 en þá barst umsókn hennar innan frests og var afgreidd í samræmi við heimild í reglum LÍN. Óumdeilt er að LÍN sendi kæranda bréf dagsett 26. október 2010 og tölvupóst 4. nóvember 2010 þar sem henni var tilkynnt um þá ákvörðun LÍN að loka skuldabréfi hennar og að hún hefði frest til 1. desember 2010 til að sækja um breytingu á því. Fyrir liggur í málinu að kærandi sótti ekki um frest til LÍN fyrr en 13. desember 2010. Það er viðurkennd meginregla að stjórnvöld hafi ekki skyldu að taka til efnismeðferðar mál sem borist hafa eftir lögskipaðan frest. Að baki reglum LÍN búa málefnalegar ástæður er lúta að stjórn á fjárreiðum sjóðsins sem gera það mikilvægt að festa ríki um þá fresti sem námsmönnum eru settir. Almennt beri því að vísa frá erindum sem berast að liðnum fresti nema í undantekningartilvikum, s.s. þegar tekst að sanna að óviðráðanleg atvik hafi komið í veg fyrir að sótt væri um innan frests eða mistök hafi verið gerð af hálfu LÍN. Hvorugt á við í þessu máli. Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða málskotsnefndar að lögmæt sjónarmið hafi legið til grundvallar synjun stjórnar LÍN á beiðni kæranda. Að þessu virtu er hinn kærða niðurstaða í úrskurður stjórnar LÍN frá 29. ágúst í máli kæranda staðfest.

Úrskurðarorð

Hinn kærði úrskurður frá 29. ágúst 2011 í máli kæranda er staðfestur.

Til baka