Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-03/2013 - Undanþágur frá afborgun - beiðni um undanþágu frá fastri afborgun

Úrskurður

Ár 2013, miðvikudaginn 17. apríl, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-3/2013:

Kæruefni

Með kæru dagsettri 12. janúar 2012 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 13. nóvember 2012 þar sem hafnað var beiðni kæranda um undanþágu frá fastri afborgun 2012 með gjalddaga 1. mars 2012. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 16. janúar 2013 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN komu fram í bréfi dagsettu 4. febrúar 2013 og var afrit þess sent kæranda með bréfi 11. sama mánaðar, en þar var kæranda jafnframt gefinn 4 vikna frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi sótti um undanþágu frá fastri afborgun námsláns fyrir árið 2010 þann 21. júní 2010. Stjórn LÍN kvað upp úrskurð í máli kæranda á fundi 12. ágúst 2010 þar sem vísað var til þess að frestur til að sækja um undanþágu hafi verið 60 dagar frá gjalddaga skv. grein 7.4.3 í úthlutunareglum LÍN, en undanþágubeiðni kæranda hafi ekki borist fyrr eftir að fresturinn rann út. Af þeim sökum synjaði stjórn LÍN beiðni kæranda. Kærandi kærði ákvörðun stjórnar LÍN til málskotsnefndar tæpum tveimur árum síðar, eða þann 18. júlí 2012. Málskotsnefnd óskaði athugasemda stjórnar LÍN um kæruna. Í bréfi málskotsnefndar til stjórnar LÍN var sú villa að vísað var til þess að um væri að ræða kæru vegna ábyrgðar á námsláni. Í meðfylgjandi gögnum kom þó fram að um var að ræða kæru vegna undanþágu frá afborgun. Stjórn LÍN fór fram á frávísun í málinu sökum þess að álitamálið vegna ábyrgðarinnar hafi ekki verið borið undir stjórn LÍN. Var kærunni síðan vísað frá málskotsnefnd þann 22. ágúst 2012. Kærandi sendi stjórn LÍN þá beiðni um undanþágu vegna afborgunar vorsins 2010 með umsókn þess efnis sem dagsett var 3. október 2013. Meðfylgjandi umsókn kæranda var vottorð félagsráðgjafa sem ber að kærandi hafi verið öryrki frá árinu 2008. Hafi hún átt við veruleg andleg veikindi að stríða á árinu 2010 og jafnframt hafi hún misst föður sinn í október 2009. Þá var einnig meðfylgjandi læknisvottorð dagsett 17. október 2010 þar sem fram kom að kærandi hafi átt við langvarandi geðræn vandamál að stríða og sé öryrki af þeim sökum. Vegna veikinda sinna hafi hún ekki alltaf yfirsýn yfir öll sín mál og væru fjármál þar engin undantekning. Sem öryrki hafi kærandi lágmarksframfærslu og sé engan veginn í stakk búin til að greiða háar fjárhæðir af lánum frá námstíma sínum. Stjórn LÍN úrskurðaði í máli kæranda þann 15. nóvember 2012 og synjaði henni um undanþágu afborgunar. Vísaði stjórn LÍN til þess að beiðni kæranda væri of seint fram komin þar sem ekki hafi verið sótt um innan 60 daga frestsins auk þess sem kærufrestur til stjórnar væri liðinn.

Sjónarmið kæranda

Ástæðu beiðni sinnar kveður kærandi vera þá að hún sé öryrki og hafi átt við andleg veikindi að stríða. Hafi hún verið of sein að sækja um niðurfellingu afborgunar á árinu 2010. Kærandi upplýsir að faðir hennar hafi látist á árinu 2009 eftir erfið veikindi sem hafi verið afar erfitt fyrir hana. Vísaði hún til læknisvottorðs vegna þessa er hún hafði lagt fram í máli sínu hjá LÍN. Kærandi upplýsir einnig í kærunni að hún hafi ekki haft annað en örorkubætur til að framfleyta sér og 9 ára dóttur sinni í mörg ár. Hafi hún enga peninga til að standa skil á afborgun og ábyrgðarmaður sé móðir hennar sem einnig sé öryrki og langt frá því að vera aflögufær.

Sjónarmið LÍN

Stjórn LÍN fer fram á að úrskurður hennar frá 20. maí 2012 verði staðfestur. Bendir LÍN á að frestur til að sækja um endurútreikning sé 60 dagar frá gjalddaga samkvæmt grein 7.4 í úthlutunarreglum LÍN, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN. Umsókn kæranda um undanþágu hafi ekki borist sjóðnum fyrr en 21. júní 2010, þ.e. eftir að framangreindur frestur rann út. Stjórn LÍN bendir á að þegar síðara erindi kæranda hafi síðan borist í október 2012 hafi frestur til að óska eftir endurupptöku verið löngu liðinn og því hafi ekki verið tekin efnisleg afstaða í málinu. Bendir stjórn LÍN á að hvað varðar fyrri kæru kæranda er hafi borist málskotsnefnd hefði stjórn LÍN átt að vísa til þess að kærufrestur hafi verið löngu liðinn.

Niðurstaða

Kærandi sótti um undanþágu frá fastri afborgun 2010, sem var á gjalddaga 1. mars 2010 vegna atvinnuleysis og veikinda. Umsókn kæranda barst LÍN 21. júní 2010 og var synjað með úrskurði stjórnar LÍN þann 12. ágúst 2010. Þegar kærandi bar mál sitt undir málskotsnefnd þann 18. júlí 2012 í fyrra máli sínu L-32/2012 hefði málskotsnefnd með réttu átt að vísa kærunni frá sem of seint fram kominni, en kæran hefði þurft að berast í síðasta lagi í kringum 20. nóvember á árinu 2010. Í stað þess var kærunni vísað frá sökum þess að málið hafi ekki verið borið undir stjórn LÍN. Varð það kæranda tilefni til að bera mál sitt undir stjórn LÍN 3. október 2012. Synjaði stjórn LÍN beiðni kæranda þar sem hún hafi verið of seint fram komin. Hin kærða ákvörðun er frá 12. ágúst 2010 og kemur fram í bréfi LÍN þann 17. ágúst 2010 þar sem kæranda var tilkynnt niðurstaða í málinu að kærufrestur sé þrír mánuðir. Kærandi sendir þó ekki kæru til málskotsnefndar fyrr en 18. júlí 2012 eða tæpum tveimur árum síðar. Af þeim sökum bar málskotsnefnd að vísa málinu frá sökum þess að kæra kæranda var of seint fram komin. Sökum misskilnings vísaði málskotsnefndin málinu frá með vísan til þess að málið hafi ekki verið borið undir stjórn LÍN og varð það kæranda tilefni til að bera mál sitt undir stjórn LÍN í október 2012. Stjórnin synjaði erindi hennar sökum þess að það hafi verið of seint fram komið, sbr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/2993 þar sem fram kemur að lögbundinn kærufrestur í stjórnsýslumálum séu þrír mánuðir. Í athugasemdum stjórnar LÍN segir að átt hafi verið við ákvæði stjórnsýslulaga um frest til endurupptöku og að frestur til að kæra til málskotsnefndar hafi einnig verið liðinn. Um er að ræða kæru til málskotsnefndar vegna úrskurðar stjórnar LÍN sem kveðinn var upp þann 13. nóvember 2012. Að efni til er um að ræða beiðni kæranda til málskotsnefndar um að "fella niður afborgun af námlánum" hennar " frá árinu 2010", en um þá beiðni fjallaði stjórn LÍN í úrskurði sínum þann 12. ágúst 2010. Um frest til að kæra mál til málskotsnefndar fer samkvæmt 27. gr. stjórnsýslulaga. Þegar kærandi sendi kæru til málskotsnefndar í fyrra máli sínu þann 18. júlí 2012 var kærufrestur löngu liðinn og bar málskotsnefnd að vísa málinu frá með vísan til 24. gr. stjórnsýslulaga. Kærandi hefur nú öðru sinni borið mál sitt undir málskotsnefnd og varðar sú kæra synjun stjórnar LÍN á því að taka til greina beiðni hennar um undanþágu frá afborgun vegna afborgunar á árinu 2010.

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga er heimil endurupptaka máls með eftirfarandi skilyrðum:

Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef: 1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða 2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tölul. 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun skv. 2. tölul. 1. mgr. var byggð á, verður beiðni um endurupptöku máls þó ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verður þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.


Þegar beiðni kæranda barst stjórn LÍN í október 2012 voru liðin meira en tvö ár frá því að stjórnin hafði úrskurðað í máli hennar vegna afborgunar ársins 2010. Var því sá árs frestur sem tilgreindur er í 24. gr. stjórnsýslulaga löngu liðinn. Undanþágu frá umræddum fresti má veita ef veigamiklar ástæður mæla með slíku. Ljóst er að kærandi átti við veikindi að stríða á því tímabili sem um ræðir. Hins vegar verður ekki séð að þau hafi verið þess eðlis að kæranda hafi verið allsendis ómögulegt að gæta hagsmuna sinna í svo langan tíma sem liðinn var frá því úrskurðað var í máli hennar þann 12. ágúst 2010 og þar til kærandi vekur aftur máls á beiðni sinni um undanþágu um mitt ár 2012. Var því stjórn LÍN rétt að synja erindi hennar. Með sömu rökum hefði málskotsnefnd borið að vísa máli kæranda frá þegar hún sendi fyrri kæru sína þann 18. júlí 2012. Málskotsnefnd fellst á það með stjórn LÍN að frestir kæranda til að leita endurskoðunar á úrskurði stjórnar LÍN frá 12. ágúst 2010 voru löngu liðnir þegar kærandi leitaði eftir slíku við stjórn LÍN. Kærufrestur til málskotsnefndar var einnig löngu liðinn. Þau gögn sem kærandi hefur lagt fram um veikindi sín eru ekki þess eðlis að þau staðfesti að kæranda hafi verið alls ómögulegt í næstum tvö ár að leita úrlausnar í máli sínu. Er niðurstaða hins kærða úrskurðar stjórnar LÍN frá 13. nóvember sl. í máli kæranda því staðfest.

Úrskurðarorð

Hinn kærði úrskurður frá 13. nóvember 2012 í máli kæranda er staðfestur. 

Til baka