Úrskurður
Ár 2012, miðvikudaginn 2. maí, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-6/2012:
Kæruefni
Með kæru sem barst málskotsnefnd 21. febrúar 2012 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 12. janúar 2012, þar sem kæranda var synjað um undanþágu frá fastri afborgun námsláns á árinu 2011. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 27. febrúar 2012 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 19. mars 2012. Með bréfi dagsettu 20. mars 2012 var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við svör stjórnar LÍN. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi tók á árinu 2007 markaðskjaralán hjá LÍN. Samkvæmt
skuldabréfinu átti fyrsti gjalddagi lánsins að vera 1. janúar 2012. Kærandi
sendi beiðni til stjórnar LÍN þann 31. desember 2011 um frestun greiðslna
lánsins. Fram kom í erindi hennar að hún væri barnshafandi og á leið í
fæðingaorlof. Hafði kærandi hug á að lengja fæðingarorlofið úr sex mánuðum í
a.m.k. níu mánuði og væri áætlað að það stæði yfir frá febrúar 2012 til ársloka
2012. Af þeim sökum sæi hún fram á töluverða tekjuskerðingu. Kærandi kvaðst ekki
vera í vanskilum með skuldbindingar sínar, hvorki við viðskiptabanka sinn né
LÍN. Hún óskaði eftir því að fá frystingu lánsins í eitt ár til að koma í veg
fyrir að það færi í vanskil. Stjórn LÍN synjaði beiðni kæranda með úrskurði þann
12. janúar 2012. Í úrskurðinum kemur fram að frysting markaðskjaraláns sé háð
því skilyrði að lántaki sé þegar með frystingu á öðrum lánum sínum og
staðfestingu frá viðskiptabanka og/eða umboðsmanni skuldara að um verulega
fjárhagsörðugleika sé að ræða. Taldi stjórnin eftir að hafa metið innsend gögn
frá kæranda að synja bæri erindi hennar.
Sjónarmið kæranda.
Í kærunni kemur fram að fimm ár eru liðin frá því kærandi tók lánið.
Fyrsti gjalddagi var 1. janúar 2012. Að sögn kæranda hefur lánið safnað vöxtum,
kr. 801.000,- og kveður kærandi fyrstu afborgun vera kr. 820.000,- að meðtöldum
fyrrgreindum vöxtumKærandi sótti um skilmálabreytingu og var orðið við beiðni
hennar og var vöxtunum bætt við höfuðstól. Kveður kærandi að eftir
skilmálabreytinguna sé greiðslubyrði lánsins tæplega 40.000 kr. á mánuði. Telur
kærandi sig ekki geta staðið undir þessari greiðslubyrði meðan á fæðingarorlofi
stendur og þar af leiðandi muni lánið lenda í vanskilum. Að mati kæranda eru
torskilin þau rök stjórnar LÍN um að önnur lán þurfi að vera í frystingu. Bendir
kærandi á að hún hafi ekki frystingu þar sem hún sé ábyrgur greiðandi sem ávallt
hafi lagt sig fram um að standa undir skuldbindingum sínum. Þá telur kærandi
einnig erfitt að skilja rök stjórnar LÍN um að hún þurfi að leggja fram
staðfestingu á verulegum fjárhagsörðugleikum. Kærandi bendir á að hún hafi
aldrei átt í verulegum fjárhagsörðugleikum. Samkvæmt rökstuðningi stjórnar LÍN
væri betra fyrir hana að láta umrætt lán fara í vanskil en að standa í skilum
eins og hún hafi ávallt gert. Þannig sé verið að refsa henni fyrir að standa
ávallt við skuldbindingar sínar. Kærandi bendir á að um leið og fæðingarorlofi
ljúki muni hún geta staðið við mánaðarlegar skuldbindingar sínar samkvæmt
skuldabréfinu. Fer kærandi þess á leit að málskotsnefndin endurskoði úrskurð
stjórnar LÍN og veiti henni umbeðna frystingu þ.e. í 12 mánuði frá upphafi
fæðingarorlofs.
Sjónarmið stjórnar LÍN.
Í athugasemdum
stjórnar LÍN er vísað til greinar 7.6 í úthlutunarreglum LÍN þar sem fram kemur
að skilyrði þess að lánþegi geti fengið frystingu námslána sé að hann sé þegar
með frystingu á öðrum lánum sínum, svo sem fasteignalánum, hafi hafið sérstaka
skuldaaðlögun hjá viðskiptabanka sínum eða hafi fengið tillögu frá Umboðsmanni
skuldara um að þörf sé á frystingu námslána hans. Þar sem kærandi hafi ekki
getað sýnt fram á að hún uppfyllti þessi skilyrði hefði erindi hennar verið
synjað. Þá kemur einnig fram af hálfu LÍN að frá því að stjórnin hafi á árinu
2010 heimilað frystingu námslána hafi beiðnum frá þeim sem ekki uppfylltu
framangreind skilyrði verið synjað. Hvað markaðskjaralánin varði sé hægt að
skuldbreyta þeim tvisvar sinnum og hafi kæranda boðist skuldbreyting með því að
bæta vöxtum við höfuðstól. Heimild til frystingar slíkra lána sé hins vegar
bundin þeim skilyrðum er fram komi í grein 7.6.
Niðurstaða
Í máli þessu greinir aðila á um lögmæti ákvörðunar stjórnar LÍN
á grundvelli greinar 7.6 í úthlutunarreglum LÍN um að synja kæranda um frystingu
námsláns. Grein 7.6 er svohljóðandi:
Lánþegi getur sótt um frystingu
námslána ef hann er þegar með frystingu á öðrum lánum sínum, svo sem
fasteignalánum, hefur hafið sértæka skuldaaðlögun hjá viðskiptabanka sínum eða
hefur fengið tillögu frá Umboðsmanni skuldara um að þörf sé á frystingu námslána
hans. Ekki er hægt að frysta námslán ef greiðandi er í vanskilum við sjóðinn frá
því fyrir árið 2009. Frysting námslána miðar við tímalengd þess úrræðis sem er
forsenda frystingarinnar, þó að hámarki í þrjú ár.
Samkvæmt lögum
nr. 21/1992 um lánasjóð íslenskra námsmanna er gert ráð fyrir því að
endurgreiðsla námslána verði að hluta til miðuð við fjárhag lántaka. Er þetta
endurspeglað í 8. gr. laganna þar sem kveðið er á um að önnur af árlegum
afborgunum skuli miðast við tekjur næstliðins árs. Þá eru einnig í 8. gr.
heimildir fyrir stjórn LÍN til að undanþiggja látaka einstökum afborgunum þegar
þannig breytingar verða á högum skuldara að ráðstöfunarfé hans eða möguleikar
til að afla tekna er skert til muna eða að nánar tilgreindar ástæður valda því
að lántaki eða fjölskylda hans eiga í verulegum fjárhagsörðugleikum. Hefur
stjórnin með heimild í 8. gr. útfært í úthlutunarreglunum ákvæði sem ætlað er að
koma til móts við lántaka með skertar tekjur eða tekjumöguleika og lántakendur
sem eiga í verulegum fjárhagsörðugleikum. Eru þar sett frekari skilyrði sem
lántaka ber að uppfylla til að eiga rétt á undanþágu frá greiðslu afborgana,
m.a. um að viðkomandi hafi verið óvinnufær eða leggi fram upplýsingar um
verulega og skyndilega tekjuskerðingu. Þá getur lánþegi einnig sótt um
greiðsludreifingu. Reglur um tímabundna frystingu námslána í fyrrgreindri grein
7.6. voru settar af stjórn LÍN á árinu 2010 sem sértækt úrræði ætlað að koma til
viðbótar við fyrrgreind ákvæði. Hefur stjórn LÍN ákveðið að binda þetta úrræði
því skilyrði að viðkomandi sé þegar í það verulegum vandræðum að hann þurfi að
fá önnur lán sín fryst eða sé í sértækri skuldaaðlögun. Þessum úrræðum er það
sammerkt að farið hefur fram mat á greiðsluvanda lántaka og möguleikum hans á
því að standa skil á skuldbindingum sínum eða skuldari hefur fengið tímabundna
aðstoð vegna greiðsluerfiðleika á öðrum lánum en hjá LÍN. Samkvæmt 8. gr. laga
nr. 21/1992 er stjórn LÍN heimilt að koma til móts við lántaka sem á í verulegum
fjárhagserfiðleikum og lántaka hvers hagir hafa breytst skyndilega og verulega
til hins verra þannig að ráðstöfunarfé hans er skert til muna og möguleikar til
að afla tekna. Í ljósi þessa markmiðs verður ekki séð að umrædd skilyrði
úthlutunarreglna LÍN séu ólögmæt eða ómálefnaleg. Af hálfu kæranda hefur komið
fram að hún sé ekki í verulegum fjárhagsörðugleikum. Málskotsnefnd telur meðferð
stjórnar LÍN á beiðni kæranda vera í samræmi við 8. gr. laga nr. 21/1992 og
úthlutunarreglur LÍN. Var því stjórn LÍN rétt að synja erindi kæranda. Með vísan
til framangreindra röksemda er hin kærða niðurstaða í úrskurði stjórnar LÍN frá
12. janúar 2012 í máli kæranda staðfest.
Úrskurðarorð
Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 12. janúar 2012 er staðfestur.