Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-09/2012 - Skólagjöld - synjun um skólagjaldalán vegna námsskeiða í öðrum skóla

Úrskurður

 

Ár 2012, miðvikudaginn 2. maí, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-9/2012:

 

Kæruefni

 

Með kæru sem barst málskotsnefnd 28. febrúar 2012 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 16. febrúar 2012, þar sem kæranda var synjað um skólagjaldalán vegna námskeiða sem hann tekur samhliða reglulegu námi í viðskiptafræði við HÍ. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 2. mars 2012 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 21. mars 2012. Með bréfi dagsettu 23. mars 2011 var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við svör stjórnar LÍN. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærandi stundar nám í viðskiptafræði við Háskóla Íslands (HÍ). Kærandi fékk heimild frá Viðskiptafræðideild til að taka tvö námskeið í kvöldnámi við HÍ og eitt námskeið hjá Háskólanum í Reykjavík (HR) með það fyrir augum að geta útskrifast í júní 2012. Samkvæmt umsókn um námslán lýkur kærandi 30 ECTS einingum á haustönn 2011 og 30 ECTS einingum á vorönn 2012. Kærandi greiðir kr. 45.000,- í skólagjöld vegna námsins í Viðskiptafræðideild og greiðir auk þess fyrir viðbótarnámskeiðin samtals kr. 201.000, þ.e. 60.000,- fyrir hvort námskeið um sig hjá HÍ og kr. 81.000,- fyrir námskeiðið hjá HR. LÍN synjaði umsókn kæranda um skólagjaldalán þar sem þau væru vegna námskeiða sem tekin eru utan þeirrar námsbrautar sem kærandi er skráður í. 

Sjónarmið kæranda. 

Í kærunni kemur fram að kærandi var í námi í hagfræði og skipti yfir í viðskiptafræði. Við það hafi skipan námskeiða raskast hjá honum. Til að ná því að útskrifast sumarið 2012 hafi hann fengið heimild hjá Viðskiptafræðideild til þess að taka námskeið utan þess náms sem hann er skráður í. Í kærunni kemur fram að námskeiðin eru metin inn í BS námsferil kæranda í HÍ. Námskeiðin sem hann taki í kvöldskóla Viðskiptafræðideildar HÍ séu sömu og þau sem séu í boði í dagnámi í viðskiptafræði. Námskeiðið sem hann taki í HR sé það sama og nemendur þar taki sem hluta af sambærulegu námi og kærandi stundar í HÍ. Kærandi vísar til jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og bendir m.a. á að nemendur sem skráðir eru í sambærilegt nám í HR fái lán fyrir skólagjöldum sem sé töluvert hærra en það lán sem hann hafi sótt um. 

Sjónarmið stjórnar LÍN. 

Í athugasemdum stjórnar LÍN kemur fram að samkvæmt grein 4.8 í úthlutunarreglum LÍN sé heimilt að veita skólagjaldalán umfram fenginn óskattskyldan styrk vegna árlegra skólagjalda umfram kr. 45.000,-. Kærandi sé skráður í nám í HÍ og hafi sótt um námslán vegna þess náms. Honum hafi verið gert að greiða kr. 45.000,- í innritunargjald vegna þess, eins og öðrum nemendum HÍ. Hafi stjórn LÍN synjað erindi kæranda vegna þess að ekki væri hægt að fallast á að veita honum sérstakt skólagjaldalán vegna námskeiða er hann tæki utan námsbrautar HÍ þar sem slíkt væri umfram það sem aðrir nemendur í sambærilegu námi í HÍ væru að fá.

 

Niðurstaða

 

Kærandi stundar skipulegt nám við Viðskiptafræðideild HÍ samkvæmt samþykktri námskrá skólans. Fyrir liggur að námsframvinda kæranda er með eðlilegum hætti þrátt fyrir að hann hafi skipt um námsgrein. Umrædd námskeið er kærandi tekur utan námsbrautarinnar verða hluti af BS námsgráðu hans hjá Viðskiptafræðideildinni. Kærandi hefur innt af hendi skólagjöld til HÍ vegna sömu námskeiða og þeirra sem eru hluti af skipulegu námi er hann stundar við HÍ. Hann þarf að greiða skólagjöld þar sem hann stundar þessi námskeið í kvöldnámi við HÍ. Nemendur í sambærilegu námi í HR fá skólagjaldalán vegna sama námskeiðs og stjórn LÍN hefur hefur synjað kæranda um skólagjaldalán vegna. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 21/1992 um lánasjóð íslenskra námsmanna skal miða við að námslán samkvæmt lögunum nægi námsmanni til að standa straum af náms- og framfærslukostnaði meðan á námi stendur að teknu tilliti til fjölskyldustærðar. Af lögum nr. 21/1992 verður því ráðið að lán vegna skólagjalda skuli taka mið af námskostnaði. Samkvæmt grein 4.8 í úthlutunarreglum LÍN eru veitt viðbótarlán vegna skólagjalda umfram fenginn óskattskyldan styrk vegna árlegra skólagjalda umfram kr. 45.000,-. Ekki verður af lögum nr. 21/1992, grein 4.8 eða öðrum ákvæðum úthlutunarreglna LÍN ráðið að nein frekari skilyrði séu sett varðandi skólagjaldalán er kærandi þarf að uppfylla til að eiga rétt á láni. Stjórn LÍN hefur ekki vísað til neinna skilyrða laga eða úthlutunarreglna sem girði fyrir slíkan rétt kæranda, utan þess að gæta þurfi jafnræðis milli kæranda og þeirra sem eru í sama námi, þrátt fyrir að þeir síðarnefndu greiði ekki skólagjöld. Í ljósi þess markmiðs laga nr. 21/1992 að lán til skólagjalda skuli taka mið að kostnaði vegna náms, telur málskotsnefnd rétt að beita jafnræðisreglu stjórnsýslulaga þannig að gæta verði jafnræðis milli umsækjenda á þann hátt að sömu reglur gildi um alla þá er inna af hendi skólagjöld vegna námskeiða er þeir sækja sem hluta af skipulögðu námi samkvæmt námskrá skóla eða fást metin af skóla sem hluti af slíku skipulögðu námi. Með vísan til þessa telur málskotsnefnd að kærandi eigi rétt á skólagjaldaláni á grundvelli greinar 4.8 í úthlutunarreglum LÍN vegna umræddra námskeiða. Með vísan til framangreindra röksemda er hin kærða niðurstaða í úrskurði stjórnar LÍN frá 16. febrúar 2012 í máli kæranda felld úr gildi.

 

Úrskurðarorð

 

Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 16. febrúar 2012 er felldur úr gildi.

Til baka