Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-28/2011 - Námslengd - synjun um lán á vorönn 2011 - hámarksannafjöldi

Úrskurður

Ár 2012, miðvikudaginn 16. maí, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. L-28/2011:

Kæruefni

Með kæru, dagsettri 31. ágúst 2011, kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 23. júní 2011 þar sem hafnað var beiðni kæranda um námslán vegna vormisseris 2011. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 6. september 2011 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 19. september 2011 og var afrit þess sent kæranda og honum jafnframt veittur frestur til að koma að athugasemdum sínum. Kærandi nýtti sér ekki þann rétt. Málskotsnefndin óskaði eftir frekari upplýsingum frá Isavia og LÍN og bárust þær 13. og 18. apríl 2012. Þá var kæranda gefið tækifæri á að koma að sínu athugasemdum vegna þessara upplýsinga og bárust þær í bréfi dagsettu 30. apríl 2012.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi var í ólaunuðu starfsnámi í flugumferðarstjórn hjá Isavia (áður Flugstoðir). Námið hófst þann 3. maí 2010 og stóð óslitið til 4. febrúar 2011 og var ekki rofið með jóla- eða sumarfríum. Um fullt nám var að ræða og krafist var fullnægjandi námsárangurs allan námstímann. Kærandi fékk námslán fyrir sumar- og haustmisseri 2010. Stjórn LÍN féllst ekki á að fleiri misseri á námstímabilinu væru lánshæf á og synjaði kæranda um námslán á vormisseri 2011.

Sjónarmið kæranda

Kærandi bendir á að þar sem nám hans falli ekki í sérstakan „annar“ ramma, þ.e. ekki hafi verið kennt í önnum í náminu, þá setji LÍN kæranda og samnemendur hans niður á þær annir sem námið spannar. Í hans tilfelli hafi það verið sumar- og haustönn. Nám kæranda hafi byrjað áður en sumarönn hófst og hafi lokið eftir að haustönn lauk og því hafi námið ekki fallið inn í hefðbundið annarskipulag hjá LÍN. Hafi kærandi því ekki fengið það framfærslulán sem hann eigi rétt á og vanti eina önn uppá.

Kærandi bendir á að venjulega taki námsmenn haust- og vorönn á tímabilinu 22. ágúst - til 10. maí. Þetta séu 38 vikur en nám kæranda telji 40 vikur (3. maí 2010 til 4. febrúar 2011). Í þessum 38 vikum sé ekki tekið tillit neinna fría, eins og páska- og jólafría, og þar af leiðandi séu þetta í raun færri vikur en 38. Í námi kæranda, sem sé 100% vaktavinna, sé hvorki frí á helgidögum né séu önnur frí gefin á tímabilinu. Kærandi telur að sér sé mismunað einungis vegna þess að nám hans sé ekki staðlað eins og flest annað lánshæft nám. Hafi LÍN talið kæranda eiga rétt á 50 einingum (sumar og haustönn) en kærandi telur sig eiga a.m.k rétt á 60 einingum (vor og haustönn). Kærandi bendir á að skv. túlkun LÍN á rétti hans til námsláns þá hafi hann átt rétt á 60 einingum (vor og haustönn) ef nám hans hefði byrjað í september 2010 og verið jafnlengi og það raunverulega var og klárast í júní 2011. Kærandi telur að það standist ekki að réttur hans til námsláns skerðist þar sem nám hans hafi byrjað og endað á „óhentugum tíma“ fyrir lánakerfi LÍN og að á honum sé brotið með þessari túlkun LÍN.

Sjónarmið LÍN

LÍN bendir á að kærandi hafi sótt um námslán fyrir sumarönn 2010 í flugumferðarstjórn hjá Isavia og síðan áframhaldandi námslán fyrir haustönn 2010 og vorönn 2011. Samkvæmt upplýsingum frá Isavia hafi sumarönnin byrjað 3. maí 2010 en náminu hafi lokið í febrúar 2011. LÍN bendir á að kærandi hafi fengið fullt námslán sumarið 2010 í samræmi við grein 2.1.1 í úthlutunarreglum LÍN og fullt námslán haustið 2010 í samræmi við grein 2.2 í úthlutunarreglum LÍN. LÍN telur að umrætt nám uppfylli ekki kröfur LÍN samkvæmt grein 2.2 í úthlutunarreglunum um fullnægjandi námsárangur á vorönn. Á þeim forsendum synjaði LÍN erindi kæranda um að fleiri misseri væru lánshæf. LÍN hefur upplýst að upphaflega hafi flugumferðarstjórnarnámið verið samþykkt sem lánshæft nám hjá stjórn sjóðsins, en í tímanna rás hafi námið tekið nokkrum breytingum, heiti skólans hafi tekið breytingum og svo hafi úthlutunarreglunar einnig breyst. Þá hafi námið nánast frá upphafi og fram til haustsins 2008 farið fram að öllu leyti hjá Flugmálastjórn Íslands, bæði bóklega grunnnámið og starfsþjálfun. Veitt hafi verið lán í 16 mánuði til þessa náms, þ.e. fjögur misseri sem hvert stóð í 4 mánuði. Í febrúar 2002 hafi stjórn LÍN fallist á að veita lán í allt að 19 mánuði til þessa náms eða til þeirra sem sannanlega þurftu að stunda nám svo lengi, en það gat verið breytilegt og fór eftir verknáminu. Á þessum árum voru reglur sjóðsins þannig að veitt voru lán fyrir þann tíma sem námið stóð yfir, að jafnaði fengu allir 9 mánaða framfærslu fyrir fullt skólaár, en heimilt hafi verið að bæta við allt að 2 mánuðum við skólaárið í þeim tilfellum þar sem það hafi sannarlega verið lengra en 9 mánuðir. LÍN kveður breytingar hafa orðið á reglum sjóðsins námsárið 2008-2009. Veitt hafi verið lán fyrir hverja lokna ECTS-einingu og fullt skólaár hafi verið skilgreint sem 60 ECTS-einingar eða framfærsla fyrir 9 mánuði. Mátti þannig skv. þeim reglum veita lán fyrir allt að 80 ECTS-einingum eða ígildi þeirra á einu námsári (sem svarar til 12 mánaða framfærslu) lyki námsmaður þeim árangri, án tillits til námstímans innan námsársins. LÍN reiknaði áfram með því að nemendur í flugumferðastjórnarnámi gætu fengið námslán í allt að 2 námsár (120 ECTS-einingar) til þessa náms. Fjögur fjögurra mánaða misseri og viðbót upp á 3 mánuði þar sem við átti hafi orðið að lánsrétti fyrir stöðluðum 120 ECTS-einingum, sem jafngilti 18 mánaða framfærslu. Haustið 2008 varð sú breyting á náminu að bóklegi hluti námsins færðist frá Flugstoðum yfir til Flugskóla Íslands. Skipulag námsins var skipt í þrjá hluta, bóklegt nám, verkleg kennsla og starfsþjálfun: 1. hluti 400 kennslust 10 vikur bóklegt nám Flugskólinn 2. hluti 120 kennslust 4-6 vikur verkl kennsla Flugskólinn 3. hluti einn vetur starfsþjálfun Flugstoðir Stjórn LÍN hafi samþykkt að sá hluti námsins, sem færðist til Flugskólans yrði lánshæfur. Eftir stóð starfsþjálfun hjá Flugstoðum sem var talin lánshæf í einn vetur. Úthlutunarreglurnar hafi breyst á ný námsárið 2010 og 2011 og þar komi fram að aldrei sé veitt hærra lán en 60 ECTS-einingar fyrir heilt skólaár (30 ECTS á hvort misseri) og til viðbótar megi veita lán fyrir allt að 20 ECTS-einingum á sumarönn. Með breytingunum sé nú heimilt að veita lán fyrir allt að þrjú misseri til flugumferðarstjórnarnáms skv. úthlutunarreglum sjóðsins. LÍN bendir á að starfsþjálfun í flugumferðarstjórn sé ekki gefið upp í einingum af hálfu skólans, einungis í kennslustundum. Skólinn sendi lista á hverju ári yfir nemendur í náminu þar sem fram komi hvenær nemar hófu/hefja nám og hvenær áætluð námslok séu. Við hefðbundin annaskipti þegar sjóðurinn greiði út námslán til umsækjenda hafi skólinn sent lista með nöfnum þeirra nemanda sem staðist hafa kröfu skólans fram að þeim tíma. Engar einingar séu uppgefnar og þeir nemendur sem séu á listanum hafa fengið afgreitt fullt lán miðað við sinn námstíma. LÍN bendir á að úthlutunarreglur sjóðsins miði við að nemendur stundi nám skv. annaskipulagi (misseri eða fjórðungar) og að námsárangur sem námsmaður ljúki á hverri önn komi til álita þegar námsframvinda sé metin. Í þeim tilfellum þar sem skóli starfi ekki eftir annaskipulagi og nám byrji aðeins fyrr eða ljúki síðar en nám skv. hefðbundnu annaskipulagi, þá sé reynt að taka tillit til þess, en þó innan þeirra marka sem úthlutunarreglurnar kveði á um. Hér sé átt við leyfilegt hámarkslán eins og að framan greini. Ef nám viðkomandi teygi sig svo langt fram á næstu önn að hægt sé að meta það sem 60% af fullu námi annarinnar, þá sé hægt að afgreiða þá viðbót á nýrri önn þ.e. sem samsvari 18 ECTS-einingum. LÍN bendir á að nemendur í umræddu námi séu að byrja í starfsþjálfun á mismunandi tímum ársins og því hafi námið og þar með lánveitingar sjóðsins dreifst með mismunandi hætti til námsmanna. Sumir byrji á haustin og ljúki því námi ári síðar og fái öll sín lán afgreidd á einu námsári, aðrir byrji á öðrum tímum og lánveitingar dreifist því á tvö námsár hjá sjóðnum. Samkvæmt yfirliti yfir heildarlánveitingar til námsmanna í þessu námi sem sóttu um lán árið 2010-2011 var; 1 lánþegi með lán í 1 lánamisseri, 3 lánþegar með lán í 2 lánamisseri, 5 lánþegar með lán í 3 lánamisseri. LÍN telur að meginreglan varðandi veitingu námslána til þessa hóps sé sá námstími sem skólinn staðfesti við sjóðinn að nemendur séu skráðir í. Flestir nemendur séu skráðir í starfsþjálfun í eitt ár og þeir fái úthlutað láni í eitt ár, aðrir séu skemur og séu lánveitingar til þeirra í samræmi við þær heimildir sem reglur LÍN kveði á um. Í tilfelli kæranda þá hafi hann verið skráður í starfsþjálfun í skólanum frá maí fram í febrúar eða á bilinu 9-10 mánuði en hann hafi fengið námslán afgreidd með þessum hætti:

Ferill 1; 2006-08 1,25 lánaár 100% árangur.

Ferill 2; 2009-10 0,5 lánaár 100% árangur (30 ECTS).

Ferill 3; 2009-11 1 lánaár 100% árangur (50 ECTS).

LÍN bendir á að í úthlutunarreglunum komi skýrt fram að ekki sé hægt að fá greitt umfram 30 ECTS-einingar fyrir hvert misseri og 20 ECTS á sumarönn. Í tilfelli kæranda hafi ekki verið heimilt að veita hærra lán en 20 ECTS á sumarönn, þó svo námið hafi byrjað í maí og sumarnámið hafi í raun verið 4 mánaða nám. Á haustmisseri hafi verið afgreitt 30 ECTS-eininga lán til hans og þær einingar sem komu eftir það í janúar og febrúar hafi ekki breytt því hámarksláni sem heimilt var að afgreiða til hans fyrir haustmisserið og það hafi heldur ekki dugað sem lágmarksnámsárangur á vormisseri, sem sé 60% af fullri önn.

Upplýsingar frá Isavia

Isavia hefur upplýst að skipulag náms til flugumferðarstjóra sé byggt upp á bóklegri þekkingu í upphafi og síðan fari fram verkleg þjálfun á vinnustað. Það hafi ekki verið skilgreindur einingafjöldi fyrir nám í flugumferðarstjórn heldur sé námsárangur metinn í bóklegum prófum þar sem lágmarkseinkunn á þeim sé 75%. Í verklegu námi á vinnustað sé nemandi metinn af starfsþjálfara hvern dag í vinnu. Þegar nemi sé í hermaumhverfi sé hver æfing metin og lágmarkseinkunn sé þar 75%, en auk þess þurfi nemi að standast áfangapróf í lok hvers áfanga. Þá hafi námstími í námi til réttinda flugumferðarstjóra verið skilgreindur fyrir hverja tegund af réttindum fyrir sig. Tímalengd náms í flugumferðarstjórn sé því nokkuð misjöfn og fari eftir því til hvaða réttinda nemi sé í þjálfun. Námið taki frá 30 til 47 vikur en geti þó orðið lengra vegna utanaðkomandi þátta t.d. verðurfars. Ákvörðun um lengingu náms er tekin af Þjálfun og ATS verklagi í samráði við starfsþjálfara og viðkomandi nema á einstaklings grunni. Isavia segir að erfitt sé að gefa ýtarlegri upplýsingar um lengd náms í flugumferðarstjórn þar sem ákvörðun um lengingu á námi sé tekin á einstaklingsgrunni.

Niðurstaða

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 2/1992 um LÍN er hlutverk hans að tryggja þeim er falla undir lögin tækifæri til náms án tillits til efnahags. Í 2. gr. laganna segir að lánasjóðnum er heimilt að veita öðrum námsmönnum námslán en þeim sem falla undir skilgreiningu 2. mgr. 1. gr. laganna enda stundi þeir sérnám. Skal stjórn LÍN setja nánari reglur um til hvaða sérnáms skuli lánað. Samkvæmt 3. gr. laganna skal miða við að námslán nægi hverjum námsmanni til að standa straum af náms- og framfærslukostnaði meðan á námi stendur og skal stjórn sjóðsins setja nánari ákvæði um úthlutun námslána. Þá segir í lögunum að námslán skal aldrei veitt fyrr en námsmaður hefur skilað vottorði um tilskilda skólasókn og námsárangur. Einnig segir að námsmaður skuli að jafnaði hafa heimild til að taka lán á hverju misseri meðan hann er við nám, þó ekki lengur en hæfilegur námstími er talinn í þeirri grein og í þeim skóla þar sem nám er stundað og þá skal námslán ekki veitt nema námsframvinda sé með eðlilegum hætti. Í úthlutunarreglum LÍN fyrir skólaárið 2010-2011, sem sett er af stjórn LÍN með heimild í 2. mgr. 16. gr. laga nr. 21/1992, er í I. kafla fjallað um hvaða nám telst lánshæft. Í grein 1.2.2 er fjallað um lánshæft sérnám og þar er ákvarðað við hvaða sérskóla lánshæft nám verði stundað og í 5. mgr. greinarinnar er vísað til þess að nánar sé gerð grein fyrir lánshæfu sérnámi á Íslandi í fylgiskjali nr. III og er flugumferðarstjóranám þar á meðal. Samkvæmt grein 2.1 í úthlutunarreglum LÍN telst námsmaður vera í fullu námi ljúki hann 60 ECTS-einingum eða ígildi þeirra á skólaári í einum námsferli. Þar kemur fram að námsframvinda er metin á þeim námsárum sem námsmaður nýtur aðstoðar og að hámarksfjöldi eininga sem lánað er fyrir á einstökum námsbrautum tekur mið af skipulagi skóla samþykktu af stjórn sjóðsins. Samkvæmt grein 2.1.1 sem fjallar um nám á sumarönn kemur fram að námsmaður getur aldrei fengið lán fyrir meira en 20 ECTS-einingum á sumarönn. Í grein 2.2 sem fjallar um lánshæfar einingar kemur fram að námsmaður þarf að ljúka að lágmarki 18 ECTS-einingum eða ígildi þeirra á hverju misseri í einum eða fleiri námsferlum til að eiga rétt á námsláni. Óumdeilt er að nám það sem kærandi stundaði er lánshæft sérnám. Eins og skipulag námsins var sett upp og samþykkt af stjórn LÍN á árinu 2008 var kærandi ekki búinn að tæma rétt sinn til námslána hjá LÍN þegar hann hóf starfsþjálfun sína hjá Isavia í maí 2010. Samkvæmt því skipulagi átti hann inni rétt til námslána í einn vetur vegna starfsþjálfunar. Þá er óumdeilt í málinu að kærandi skilaði tilskildum og fullnægjandi námsárangri á þeim tíma sem honum var gert að skila því samkvæmt skipulagi skólans. LÍN byggir höfnun sína á frekari námslánum á því að kærandi hafi sótt um námslán fyrir sumarönn 2010, síðan áframhaldandi námslán fyrir haustönn 2010 og svo fyrir vorönn 2011. Hann hafi fengið fullt námslán sumarið 2010 og haustið 2010 eða samanlagt 50 ECTS-einingar. LÍN hafnaði svo með vísan til greinar 2.2 í úthlutunarreglunum umsókn hans um námslán á vorönn þar sem námið uppfyllti ekki kröfur LÍN skv. greininni um fullnægjandi námsárangur á vorönninni. Ljóst er af þeim upplýsingum sem aflað hefur verið í málinu að umrætt nám hefur tekið allmiklum breytingum á undanförnum árum. Síðast gerðist það á árinu 2008 og var það skipulag námsins samþykkt af LÍN. Þá er einnig ljóst að starfsþjálfunin er skipulögð eftir því sem aðstæður leyfa hjá Isavia og að sá tími sem starfsþjálfun stendur yfir getur fallið á tímabil sem ekki fellur að annarskipulagi LÍN samkvæmt úthlutunarreglum sjóðsins eins og í tilviki kæranda. Þannig virðast nemendur í náminu fá úthlutað mismunandi tímabilum hjá Isavia allt árið um kring til að taka starfsnámið. Málskotsnefnd telur að hér fari ekki saman annars vegar að umrætt sérnám hafi verið samþykkt sem lánshæft og að skipulag námsins hafi verið samþykkt af stjórn LÍN og hins vegar skilyrði úthlutunarreglna LÍN um námsárangur á önn sem tekur mið af hefðbundnu skipulagi náms. Málskotsnefnd tekur fram að ekki hafa verið sett skilyrði í úthlutunarreglur LÍN um hve mikið svigrúm námsmenn í flugumferðarstjórnarnámi hafi varðandi hvenær þeir þurfi að hefja og ljúka námi sínu til að eiga rétt á námsláni sem námsmenn geta kynnt sér áður en þeir hefja nám sitt. Á meðan svo er ber LÍN að líta til sérstöðu þessa náms og afgreiða umsókn kæranda í ljósi skipulags námsins en ekki eingöngu á grundvelli úthlutunarreglna sjóðsins sem miðast við hefðbundið annarskipulag. Þar sem kærandi hefur lokið lánshæfu námi samkvæmt samþykktu skipulagi skólans hefur hann að mati málskotsnefndar rétt til fulls námsláns eða 60 ECTS-einingar eins og aðrir þeir námsmenn sem stunda sama nám fá falli skipulag námsins að úthlutunarreglum LÍN. Þá telur málskotsnefndin að sá munur sem getur orðið í afgreiðslu LÍN gagnvart nemendum í sama námi eftir því hvenær árs starfsnámið fer fram sé ekki í samræmi við markmið laga nr. 2/1992 um LÍN og styðjist ekki við málefnaleg sjónarmið. Telur nefndin að þessi málsmeðferð feli í sér brot á jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem mælir fyrir um að stjórnvöld skuli gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti við úrlausn mála. Með vísan til framangreindra sjónarmiða og þess að meðferð máls kæranda var ekki í samræmi við 11. gr. stjórnsýslulaga er hin kærða niðurstaða í úrskurði stjórnar LÍN frá 23. júní 2011 í máli kæranda felld úr gildi.

Úrskurðarorð

Hinn kærði úrskurður frá 23. júní 2011 í máli kæranda er felldur úr gildi.

Til baka