Úrskurður
Ár 2012, miðvikudaginn 16. maí, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-37/2011:
Kæruefni
Með kæru dagsettri 25. nóvember 2011 sem barst málskotsnefnd 30. nóvember s.á. kærðu kærendur úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 25. ágúst 2011, þar sem kærendum var synjað um uppgreiðsluafslátt vegna námslána sem kærendur greiddu upp vorið 2008. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 6. desember 2011 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kærendum var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 20. desember 2011. Með bréfi dagsettu 28. desember 2011 var kærendum gefinn kostur á að gera athugasemdir við svör stjórnar LÍN. Engar athugasemdir bárust frá kærendum. Með bréfi dagsettu 10. apríl 2012 óskaði málskotsnefnd eftir frekari skýringum vegna málsins frá LÍN. Bárust skýringar LÍN þann 18. apríl 2012. Var kærendum veittur kostur á að tjá sig um svör LÍN og bárust athugasemdir þeirra með bréfi dagsettu 6. maí 2012.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærendur greiddu upp námslán sín vorið 2008. Greiddi annað
þeirra upp lán sitt 31. mars 2008 og hitt þann 7. apríl 2008. Af báðum lánum var
svo greiddur eftirstandandi lítilsháttar mismunur með reiðufé í afgreiðslu LÍN
þann 11. apríl 2008. Í júní 2008 hafði annar kærenda samband við LÍN til að fá
upplýsingar um greidda vexti og verðbætur og svo aftur ári síðar. Í október 2010
óskar svo annar kærenda með tölvupósti eftir upplýsingum frá LÍN um
uppgreiðsluafslátt. Í svari starfsmanns sjóðsins segir að samkvæmt vinnureglum
sjóðsins sé hægt að sækja um uppgreiðsluafslátt í eitt ár eftir að lán er
greitt. Kærendur sóttu um uppgreiðsluafslátt hjá LÍN með bréfi dagsettu 27.
desember 2010 sem barst LÍN í byrjun janúar 2011. Synjaði LÍN beiðni þeirra þann
12. janúar 2011. Kærendur báru mál sitt undir stjórn LÍN sem úrskurðaði í máli
þeirra þann 25. ágúst 2011. Kom fram hjá stjórn LÍN að samkvæmt vinnureglu
þeirraværi hægt að sækja um uppgreiðsluafslátt í eitt á eftir að lán er greitt
upp. Það gæfi greiðendum rúman tíma til að sækja um. Vísaði stjórnin til þess að
frestir í stjórnsýslunni væru almennt mun styttri en eitt ár. Kærendur hefðu
sótt um löngu eftir að uppgreiðslan átti sér stað. Þegar lánin hafi verið greidd
hafi verið í gildi ákvæði um uppgreiðsluafslátt í grein 7.2.3 í úthlutunarreglum
LÍN. Síðan kærendur greiddu upp lán sín hefðu þrennar nýjar úthlutunarreglur
tekið gildi. Með vísan til þessara röksemda synjaði stjórn LÍN erindi kærenda.
Sjónarmið kærenda
Í kærunni og andmælabréfi kærenda kemur
fram að kærendur sem séu búsett erlendis hafi ákveðið vorið 2008 að greiða upp
námslán sín og sökum óstöðugleika krónunnar hafi þau millifært fjármuni sína í
nokkrum áföngum. Taka kærendur fram að þau hafi verið í símasambandi við
starfsmenn LÍN til að tryggja að rétt yrði staðið að uppgreiðslu. Enginn
starfsmanna hafi minnst einu orði á uppgreiðsluafslátt við þau og ekki heldur
við foreldra annars kærenda sem hefðu greitt síðustu greiðslur hjá gjaldkera á
skrifstofu sjóðsins. Kærendur vísa til þess að tímatakmarkanir á umsóknum um
uppgreiðsluafslátt þurfi að vera í reglum sjóðsins. Ekki nægi að kveða á um
slíkar takmarkanir í vinnureglum eingöngu. Þar fyrir utan hefðu starfsmenn
sjóðsins þurft að gera kærendum grein fyrir þeim þegar lánin voru greidd upp ef
þær hafi átt að gilda. Hvorki í reglum sjóðsins né á heimasíðu LÍN þar sem
fjallað sé um uppgreiðsluafslátt sé bent á tímatakmarkanir. Með vísan til þessa
telja kærendur sig eiga rétt á uppgreiðsluafslætti eins og kveðið sé á um í
reglum sjóðsins.
Sjónarmið stjórnar LÍN
Í athugasemdum
stjórnar LÍN kemur fram að beiðni kærenda hafi verið synjað þar sem meira en ár
hafi verið liðið frá því að þau greiddu upp lán sín og þar til þau sóttu um
uppgreiðsluafslátt. Hafi stjórn LÍN haft það sem vinnureglu til margra ára að
óska þurfi eftir uppgreiðsluafslætti innan árs frá því að lokagreiðsla fór fram,
enda sé það talinn rúmur tími fyrir einstaklinga til að senda inn beiðni sína
til sjóðsins. Til samanburðar megi nefna að frestir í stjórnsýslunni séu almennt
styttri. Tekur stjórn LÍN fram að heimildin til uppgreiðsluafsláttar hafi verið
í úthlutunarreglum LÍN frá námsárinu 2006-2007 og því hafi kærendum átt að vera
ljóst að það hafi staðið þeim til boða að óska eftir slíkum afslætti þegar þau
greiddu upp lán sín. Ekkert hafi breyst í framkvæmd sjóðsins sem þeim hafi ekki
mátt vera ljóst á þeim tíma er þau greiddu upp lán sín. Á þeim forsendum hafi
stjórn LÍN synjað erindi kærenda.
Niðurstaða
Í grein 7.2.3 í úthlutunarreglum LÍN 2007-2008 sem í gildi voru
þegar kærendur greiddu upp lán sín var eftirfarandi ákvæði um uppgreiðsluafslátt
að finna:
"Lánþega er heimilt að greiða upp námslán fyrr en ákvæði
skuldabréfs kveða á um. Lánþegi sem hefur greitt ógjaldfallið lán sitt getur
óskað eftir að fá endurgreiðslu sem nemur kostnaðarlækkun sjóðsins vegna
uppgreiðslunnar. Skilyrði er að lánþeginn hafi greitt af námsláninu í a.m.k.
fimm ár fyrir uppgjörið. Við mat á endurgreiðslutíma og framtíðarafborgunum af
námsláni án uppgreiðslu skal tekið mið af áætluðum framtíðartekjum lánþegans og
þær núvirtar með þeim vöxtum sem sjóðurinn greiðir af teknum lánum.
Framtíðartekjurnar skulu þó aldrei áætlaðar það lágar að endurgreiðslutími án
uppgreiðslu verði umfram 15 ár. Áður en kostnaðarlækkun er metin skal lánþegi
láta stjórn sjóðsins í té allar þær upplýsingar sem hún telur nauðsynlegar til
að áætla framtíðartekjur hans."
Samkvæmt þessu var gert ráð fyrir að
greiðendur greiddu fyrst upp lán sín og sæktu síðan um uppgreiðsluafslátt á
grundvelli tiltekinna gagna sem þeim bar að leggja fram. Samskonar ákvæði var
síðan í úthlutunarreglum áranna 2008-2009, 2009-2010 og 2010-2011. Engin ákvæði
er að finna í úthlutunarreglunum hvorki 2007-2008 né síðar um tímafresti vegna
umsóknar um uppgreiðsluafslátt. Á heimasíðu LÍN mátti einnig finna upplýsingar
um uppgreiðsluafslátt en þar er ekki heldur kveðið á um tímafrest til að sækja
um slíkan afslátt. Í 1. mgr. 16. gr. laga nr. 21/1992 um lánasjóð íslenskra
námsmanna er kveðið á um að ráðherra sé heimilt að setja með reglugerð frekari
ákvæði um framkvæmd laganna. Þá segir í 2. mgr. 16. gr. laganna að sjóðstjórn
setji reglur um önnur atriði en greinir í lögum og reglugerð skv. 1. mgr. og að
reglurnar skuli samþykktar af ráðherra og birtar í Stjórnartíðindum. Í 1.
áðurgildandi grein reglugerðar um LÍN nr. 602/1997 sem í gildi var þegar
kærendur sóttu um uppgreiðsluafsláttinn og í samskonar ákvæði núgildandi
reglugerðar um LÍN nr. 478/2011 segir að LÍN skuli auglýsa með tryggilegum hætti
eftir umsóknum um námslán. Í auglýsingu skuli taka fram um hvaða lán sé að ræða,
hvar umsóknareyðublöð og önnur umsóknargögn séu fáanleg, hvenær umsóknarfrestur
renni út, sem og annað er máli skiptir. Málskotsnefnd bendir á að stjórn LÍN
hefur í úthlutunarreglum LÍN sett ákvæði um umsóknarfresti. Er þar kveðið á um
styttri fresti en sú vinnuregla sem stjórn LÍN hefur notað til viðmiðunar í máli
þessu. Frestirnir í úthlutunarreglum LÍN eru almennt fortakslausir þannig að
verði námsmanni eða lánþega á að sækja um of seint er erindi hans synjað nema að
óviðráðanlegar ástæður eða mistök LÍN séu fyrir hendi. Hefur málskotsnefnd
ítrekað staðfest slíka synjun stjórnar LÍN í úrskurðum sínum, sbr. úrskurði í
málum L-22/2011 og L-25/2011 enda ber að viðurkenna LÍN nauðsyn á festu vegna
stjórnar á fjárreiðum sjóðsins. Forsendur slíkra staðfestinga af hálfu
málskotsnefndar hafa hins vegar verið að um sé að ræða fresti sem kveðið er á um
í settum lögum, reglugerðum eða öðrum stjórnvaldsfyrirmælum sem hafa verið
auglýstir á tryggilegan hátt þannig að þeir sem byggja á þeim geti kynnt sér þá.
Slíku er ekki fyrir að fara í þessu máli. Þó svo að LÍN geti í störfum sínum
byggt á vinnureglum, t.a.m. til að tryggja jafnræði í meðferð mála, eru reglur
um umsóknarfresti jafnan fortakslausar og því þess eðlis að um þær má ekki ríkja
óvissa. Bendir málskotsnefnd ennfremur á að eins og fram kemur í 2. mgr. 16. gr.
laga nr. 21/1992 skal birta úthlutunarreglur LÍN í Stjórnartíðindum. Þessi krafa
er endurspegluð í 1. gr. reglugerðar um LÍN en þar er kveðið á að reglur er lúta
að umsóknarferli vegna lána til námsmanna séu skýrar og birtar á tryggilegan
hátt. Verður ekki séð að vægari kröfu megi gera til annarra ívilnana er lúta að
námsmönnum, t.d. varðandi endurgreiðslur, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 21/1992.
Sú vinnuregla LÍN að heimila ekki uppgreiðsluafslátt eftir að eitt ár var liðið
frá lokagreiðslu námsláns var ekki birt á neinn hátt gagnvart þeim sem ætlað var
að byggja rétt á henni. Telur málskotsnefnd þar af leiðandi að stjórn LÍN hafi
ekki verið heimilt að vísa til slíkrar óbirtrar vinnureglu þegar hún synjaði
kærendum um uppgreiðsluafslátt. Málskotsnefnd tekur undir það sjónarmið LÍN að
vissulega var langur tími liðinn frá því að kærendur greiddu upp lán sín og þar
til þeir sóttu um uppgreiðsluafslátt. Málskotsnefnd bendir hins vegar á á að
sjóðinum sem stjórnvaldi bar að sjá til þess að frestir væru tryggilega
auglýstir. Geti hann ekki borið fyrir sig athafnaleysi kærenda þegar slík óvissa
ríkti um umsóknarfrest sökum aðgerðaleysis sjóðsins sjálfs. Á meðan LÍN setur
ekki nein ákvæði um fresti til að koma að ósk um endurgreiðslu vegna uppgreiðslu
námsláns í úthlutunarreglur sínar eða frestir eru ekki ákveðnir með öðrum
tryggilegum hætti í lögum eða reglugerð, verður réttur til uppgreiðsluafsláttar
aðeins takmarkaður samkvæmt almennum reglum um lok kröfuréttinda. Hefur LÍN ekki
sýnt fram á að slíkar reglur hafi takmarkað rétt kærenda til
uppgreiðsluafsláttar. Með vísan til framangreindra röksemda er hin kærða
niðurstaða í úrskurði stjórnar LÍN frá 25. ágúst 2011 í máli kærenda felld úr
gildi.
Úrskurðarorð
Úrskurður stjórnar LÍN í máli kærenda frá 25. ágúst 2011 er felldur úr gildi.